16. október 2018
16. október 2018
Heilsa og líðan Íslendinga 2017 - Framkvæmdaskýrsla
Út er komin á vef Embættis landlæknis framkvæmdaskýrsla rannsóknarinnar Heilsa og líðan Íslendinga 2017.
Út er komin á vef Embættis landlæknis framkvæmdaskýrsla rannsóknarinnar Heilsa og líðan Íslendinga 2017. Á sama tíma var gefinn út nýr breytulisti fyrir gögn frá árunum 2007, 2009, 2012 og 2017. Útfylltur breytulisti þarf að fylgja umsóknum um aðgang að gögnum.
Í októbermánuði 2017 leitaði Embætti landlæknis í fjórða sinn til tæplega 10 þúsund fullorðinna Íslendinga í því skyni að kanna heilsu, líðan og lífsgæði landsmanna. Í heildina lögðu tæplega 6.800 Íslendingar rannsókninni lið (68,5%), ýmist með því að svara spurningalista á pappír eða á rafrænu formi.
Tilgangur framkvæmdaskýrslu þessarar er að skjalfesta fyrirkomulag og aðferðafræði við gagnaöflun og að halda því til haga hvernig meðhöndlun og hreinsun gagna var háttað. Þá er ritinu ætlað að uppfylla þarfir þeirra sem vinna með gögn úr rannsókninni og tryggja samfellu í framkvæmd og meðferð gagna við næstu fyrirlagnir.
Hildur Björk Sigbjörnsdóttir, verkefnisstjóri heilbrigðisupplýsingasviði
Jón Óskar Guðlaugsson, verkefnisstjóri heilbrigðisupplýsingasviði