Fara beint í efnið

Fornmerki

Fornmerki

Fornmerki eru skráningarmerki sem mega fara á ökutæki sem skráð eru fornökutæki og eru með fyrsta skráningardag fyrir árið 1989. Gerð og áletrun fornmerkja skal vera í samræmi við aldur ökutækis.

Sótt um fornmerki

Sækja þarf um rétthafaskráningu á fornmerki til Samgöngustofu. Til að geta sótt um fornmerki þarf umsækjandi að vera eigandi, meðeigandi eða umráðamaður fornökutækis. Fornmerki fylgir kennitölu rétthafa, ekki ökutækinu. Fornmerki mega vera á bílum, mótorhjólum og dráttarvélum sem uppfylla aldursskilyrði. Rétthafaskráning er ótímabundin.

Framleiðsla fornmerkja

Aðeins er sótt um rétthafaskráningu hjá Samgöngustofu. Rétthafi lætur sjálfur framleiða fornmerkin þegar búið er að samþykkja umsókn hjá Samgöngustofu. Áður en merkin eru afhent verður að samþykkja þau hjá Samgöngustofu. Merkin eru alltaf afhent á skoðunarstöð. Bent er á að Fornbílaklúbburinn hefur annast framleiðslu helstu merkja.

Áletrun fornmerkis

Áletrun þarf að vera í samræmi við þær reglur sem voru í gildi þegar ökutækið var fyrst skráð. Heimilt er að taka upp áletrun sem var áður í notkun, sé ökutækið sem merkið var á afskráð. Fornmerki má ekki vera samhljóða öðru merki, hvort sem er fastanúmer, einkamerki eða annað fornmerki.

Afsal fornmerkis

Hægt er að afsala sér réttinum til fornmerkis með því að skila umsókn inn til Samgöngustofu. Hægt er að heimila notkun merkjanna áfram til nýs rétthafa.

Skoðun ökutækja með fornmerki

Skoðunarmánuður fornökutækja er maí og því skal skoða ökutækið fyrir lok júlímánaðar. Fornökutæki á að skoða annað hvert ár og miðast skoðunarárið við árið sem ökutæki var fyrst skráð.

Kostnaður

  • Réttindagjald fornmerkis er 558 krónur

  • Kostnaður við framleiðslu merkjanna er breytilegur eftir framleiðanda.

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa