Salmonella Enteritidis
Í byrjun janúar 2023 greindist Salmonella Enterititis hjá einstaklingi sem var innlagður á sjúkrahús vegna slæmrar iðrasýkingar. Vinnufélagar hans höfðu einnig fengið svipuð einkenni og tengdu þeir sýkinguna við máltíðir sem þeir fengu aðsendar á bökkum á vinnustaðinn. Við nánari skoðun kom í ljós að allstór hópur viðskiptavina framleiðslufyrirækisins, sem fengu aðsendar máltíðir á svipuðum tíma, höfðu fundið fyrir einkennum en ekki tilkynnt um það. Um nokkrar tegundir máltíða var að ræða en allar voru framleiddar hjá sama fyrirtæki. Salmonella Enteritidis sýking var staðfest með ræktun saursýna hjá tíu einstaklingum en mun fleiri höfðu fundið fyrir einkennum og er því líklegt að sýkingin hafi verið útbreiddari. Sýni voru send til heilgenaraðgreiningar sem staðfesti að um sama stofn Salmonella Enteritidis ST11 var að ræða hjá þeim sem tengdust hópsýkingunni. Ekki tókst að rekja uppruna smits til ákveðinna matvæla.
Nóróveira
Í maí barst tilkynning um hópsýkingu sem varð í heimahúsi þar sem hópur fólks kom saman en átta urðu veikir af iðrasýkingu af níu manns. Málið var í fyrstu talið tengjast máltíðum sem neytt var en síðar kom í ljós að smit hefur líklega borist frá barni í hópnum sem hafði daginn fyrir veisluna verið með einkenni iðrasýkingar. Nóróveira reyndist vera orsakavaldurinn.
Í byrjun júlí kom upp iðrasýking í tveimur hópum ferðamanna á Austurlandi. Talið er að smit hafi átt upptök sín á veitingahúsi sem hóparnir heimsóttu en veikindi höfðu verið meðal starfsfólks veitingastaðarins. Annars vegar var hópur franskra ferðamanna og hins vegar hópur eldri borgara frá Norðurlandi. Samtals veiktust tólf einstaklingar og fjórir þeirra þurftu innlögn á sjúkrahús vegna alvarlegra veikinda. Nóróveira reyndist vera orsakavaldurinn.
Í júlí bárust upplýsingar til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og sóttvarnalæknis um veikindi hjá fólki sem hafði borðað mat á vinsælu veitingahúsi sem rekið er á tveimur stöðum í Reykjavík. Flestir höfðu orðið veikir dagana 7.-9. júlí. Rannsókn málsins, sem var umfangsmikil, leiddi í ljós að yfir 190 gestir á þessum veitingastöðum fengu einkenni frá meltingarvegi (uppköst, niðurgang og hita í ca 1-3 sólarhringa) yfir tímabilið. Saursýni fengust frá tíu einstaklingum og greindist nóróveira hjá átta þeirra. Ekki tókst að sýna fram á hvar hópsýkingin átti upptök sín. Sjá frétt sem birtist á vef embættis landlæknis þann 20. júlí 2023.
Nóróveira
Haustið 2022 bárust tilkynningar um tvær stórar hópsýkingar sem tengdust staðfestum nóróveirusmitum. Í fyrri hópsýkingunni veiktust 46 einstaklingar, annaðhvort eftir veislu með heimatilbúnum veitingum eða eftir að hafa neytt matarafganga frá sömu veislu á vinnustað. Í ljós kom að þeir einstaklingar sem útbjuggu veitingarnar höfðu haft einkenni iðrasýkingar og gætu því nóróveirur hafi borist í veitingar frá þeim. Í seinna atvikinu veiktust 47 einstaklingar eftir að hafa neytt aðsendra máltíða á vinnustað (nokkrir aðskildir vinnustaðir) en maturinn kom frá einu framleiðslufyrirtæki. Þar sem rannsóknir á nóróveiru í matvælum eru ekki gerðar á Íslandi voru ekki gerð slík próf við rannsókn þessara tveggja hópsýkinga. Því var uppruni smits ekki rakinn til ákveðinna matvæla. Algengt er að fólk smitist af nóróveirum við neyslu matvæla sem eru menguð af nóróveirum en smit berast einnig á milli manna. Þar sem nóróveirur eru mjög smitandi er mikilvægt að sýna varúð við meðferð matvæla og ekki skyldi elda mat fyrir aðra ef einkenni iðrasýkinga eru til staðar, eða fyrstu dagana eftir.
Enteropathogen E. coli (EPEC)
Tilkynning barst haustið 2022 um veikindi eftir máltíð á veitingahúsi. Frekari rannsóknir leiddu í ljós að um 12 einstaklingar í þremur aðskildum hópum höfðu veikst innan sólarhrings eftir máltíð á veitingahúsinu sama kvöld. Helstu einkenni voru kviðverkir, hiti og niðurgangur sem stóð í allt að viku. Örverurannsóknir á hægðasýnum frá hluta þeirra sem veiktust reyndust jákvæðar fyrir Enteropathogen E. coli (EPEC). Engar sjúkdómsvaldandi örverur greindust í þeim sýnum sem tekin voru frá matvælum en líklegt telst að EPEC smit hafi borist með matvælum sem snædd voru á veitingastaðnum þetta kvöld.
Óþekktur sýkill
Vorið 2022 barst tilkynning um veikindi hjá fimm manna hópi sem hafði snætt saman á veitingastað. Svo virðist sem fleiri hópar hafi veikst eftir máltíð á þessum veitingastað sama kvöld en ekki bárust tilkynningar frá þeim. Veikindin hófust 2-3 dögum eftir máltíðina með hita, ógleði og uppköstum, og vörðu í um viku. Ekki tókst að greina hvaða sýkill olli þessum einkennum. Nokkrir dagar liðu frá máltíð þangað til tilkynning barst. Ekki tókst að rekja smitin til neyslu ákveðinna matvæla.
Salmonella typhimurium
Í septembermánuði varð aukning á tilkynningum til sóttvarnalæknis um salmonellusýkingar. Við nánari skoðun reyndust allir stofnarnir vera af tegundinni Salmonella typhimurium og vera af sömu sermisgerð. Á nokkrum vikum greindust 13 einstaklingar með þessa gerð Salmonella, þar af sjö konur og sex karlar. Meðalaldur var 55 ár en aldursbilið var 21 til 72 ára. Þessir einstaklingar voru búsettir víðs vegar um landið en flestir á suðvesturhorninu eða höfðu nýlega dvalið þar. Til að staðfesta að um hópsýkingu með sama Salmonella stofni væri að ræða voru sýnin send til Danmerkur til raðgreiningar. Sú rannsókn staðfesti að Salmonella smitin þrettán voru af völdum sama S. typhimurium stofns. Ekki hefur tekist að rekja smitin til neyslu ákveðinna matvæla.
Salmonella Chester og Salmonella Napoli
Á þremur mánuðum greindust þrír einstaklingar með iðrasýkingu af völdum sjaldgæf sýkils að nafni Salmonella Chester sem ekki hefur greinst hér á landi í mörg ár og aðrir þrír einstaklingar greindust síðar með iðrasýkingu með Salmonella Napoli. Uppspretta þessara sýkinga er ekki þekkt enda um fá tilvik að ræða og ekki skýr tengsl við ákveðin matvæli. Raðgreining erlendis sýndi þó að S. Chester tilfellin þrjú voru af sama stofni sem bendir til sameiginlegs uppruna. Ekki hefur sést aukning á S. Chester tilfellum annars staðar í Evrópu en sami stofn hefur þó áður greinst erlendis.
Óþekktur sýkill
Þrjár hópsýkingar sem tengdust veitingastöðum voru tilkynntar á árinu 2021. Fjöldi smitaðra var á bilinu fjórir til tólf einstaklingar en ekki tókst að greina uppruna þessara smita eða sýkingavald.
Cryptosporidium
Í desember 2020 kom upp hópsýking á höfuðborgarsvæðinu sem tengdist atvinnuhúsnæði þar sem nokkur fyrirtæki deila sama mötuneyti. Alls töldu um 45 manns sig hafa fundið fyrir einkennum iðrasýkingar en allir höfðu þeir neytt máltíða frá mötuneytinu nokkrum dögum áður. Hluti starfsmanna skiluðu saursýni og greindist Cryptosporidium hjá níu þeirra. Ekki reyndist unnt að rekja uppruna sýkingarinnar til ákveðinna matvæla. Þessi hópsýking þótti athygliverð þar sem Cryptosporidium hefur ekki oft valdið hópsýkingum hérlendis og einnig þar sem strangar sóttvarnaráðstafanir voru í gildi á vinnustaðnum vegna COVID-19. Meðal annars var matarbökkum dreift um húsið í aðskilin tíu manna vinnuhólf en ekki matast í matsalnum sjálfum.
Enteróhemorrhagískur E. coli (STEC)
Á tímabilinu 13.–16. júlí sýktust 24 einstaklingar af völdum völdum Enteróhemorrhagísks E. coli sem framleiðir shiga-toxin (STEC). Aldursbil smitaðra var frá 5 mánaða til 41 árs en meðalaldur var rúm 6 ár. Níu börn komu á bráðamóttöku barnadeildar Landspítala og fjögur voru lögð inn. Sjö barnanna greindust með Hemolitic uremic syndrome (HUS) sem einkennist meðal annars af kviðverkjum og blóðugum niðurgangi. Faraldsfræðileg rannsókn leiddi í ljós að allir (nema 5 mánaða gamalt barn sem smitaðist af systkini) höfðu borðið ís á kúabúi sem rekur ferðamannaþjónustu. Umræddur sýkill fannst í kálfum, jarðvegi og einum starfsmanni búsins en virðist hafa borist í ísinn með einhverjum hætti. Gripið var til ýmissa ráðstafana og tókst að uppræta þessa hópsýkingu.
Clostridium perfringens
Um miðjan desember 2019 sýktust 15 einstaklingar eftir að borða hangikjöt og meðlæti í matsal vinnustaðar. Flestir veiktust um 12 klst. eftir máltíðina með niðurgang og kviðverki en veikindin stóðu í um sólarhring. Gerðar voru sýklarannsóknir á afgangi af hangikjöti sem reyndist innihalda bæði Clostridium perfringens og Bacillus cereus. Mun meira magn ræktaðist þó af Cl. perfingens sem taldist því líklegur orsakavaldur hópsýkingarinnar.
Aeromonas veronii
Níu einstaklingar á aldrinum 50 til 94 ára og búsettir víðs vegar um höfuðborgarsvæðið greindust með iðrasýkingu, sennilega af völdum Aeromonas veronii, á nokkurra vikna tímabili haustið 2019. Ekki voru innbyrðis tengsl á milli þessara einstaklinga og könnun á neyslu matvæla skilaði engum afgerandi niðurstöðum um tengsl við ákveðin matvæli. Uppruni smitanna var því óljós.
Nóróveira
Nóróveira greindist hjá hópi sem borðaði sams konar máltíð á veitingahúsi. Níu manns af ellefu veiktust um 1½ sólarhringum eftir máltíðina með uppköstum, niðurgangi og hita. Rannsókn sýndi að nóróveira var til staðar í saursýnum hjá fjórum einstaklingum. Rannsóknir leiddu ekki í ljós uppruna smits í ákveðnum matvælum en matarleifar frá umræddri máltíð voru ekki til staðar.
Óþekktur sýkill
Um haustið 2019 kom upp stór hópsýking hjá fyrirtæki í Reykjavík með um 200 starfsmenn. Könnun leiddi í ljós að af 145 starfsmönnum sem svöruðu könnuninni höfðu 70 veikst með uppköst, niðurgang og hita á svipuðum tíma. Einkenni gengu þó fljótt yfir og voru yfirstaðin þegar tilkynning barst. Heilbrigðiseftirlitið rannsakaði mötuneyti fyrirtækisins en fann ekkert athugavert.
Í desember 2019 var sóttvarnalækni gert viðvart um hópsýkingu á dvalarstofnun í Reykjavík. Alls veiktust 6 af 18 vistmönnum og 7 af 10 starfsmönnum eftir að hafa borðað aðkeyptan jólamat á staðnum. Veikindin hófust um 1½ sólarhringum eftir máltíðina og lýstu sér sem bráður niðurgangur, uppköst og hiti. Veikasti vistmaðurinn var lagður inn á sjúkrahús og greindist nóróveira í saursýni frá honum. Heilbrigðiseftirlitið rannsakaði matvæli og framleiðslustaði þeirra en engin merki um smitvalda greindust. Ekki tókst að því að greina uppruna sýkingarinnar.
Nóróveira
Nóroveira var staðfest í þremur matarbornum hópsýkingum á árinu 2018. Stærsta hópsýkingin var rakin til ostra sem mengaðar voru af nóróveiru. Um miðjan nóvember 2018 bárust sóttvarnalækni upplýsingar sem bentu til hópsýkingar eftir máltíð á veitingahúsi í Reykjavík. Flestir af 18 manna hópi höfðu fengið niðurgang, uppköst og hita um 1½ sólarhring eftir máltíðina en einkenni stóðu í 2-3 daga. Gerð var tilfella- og viðmiðarannsókn sem leiddi í ljós tengsl við ostrur sem mengaðar voru af nóróveiru. Í ljós kom að á 19 daga tímabili höfðu 54 einstaklingar veikst af völdum nóróveiru í kjölfar neyslu á ostrum.
Tvær aðrar hópsýkingar af völdum nóróveiru voru tilkynntar á árinu 2019. Annar atburðurinn tengdist máltíð sem þrettán manna starfsmannahópur pantaði af veitingastað en sjö þeirra veiktust af niðurgangi, uppköstum og hita. Ekki fundust tengsl við ákveðin matvæli við rannsókn en tveir starfsmannanna greindust með nóróveirusýkingu. Þriðja hópsýkingin varð í kjölfar veislu sem haldin var á veitingastað. Af um 100 gestum veiktust 20 með niðurgangi, uppköstum og hita um 1½ sólarhring síðar. Rannsókn leiddi ekki í ljós uppruna smits en veikindi höfðu verið meðal starfsfólks.
Salmonella typhimurium
Í maímánuði varð hópsýking þegar allir ellefu áhafnarmeðlimir íslensks farskips veiktust af iðrakveisu eftir að skipið lét úr höfn erlendis. Þrír voru lagðir inn á sjúkrahús og ræktaðist Salmonella typhimurium frá sjö áhafnarmeðlimum. Sami sýkill ræktaðist bæði úr sósu (matreidd úr eggjum) og svínakjöti en talið var að kjötið hafi orðið fyrir krossmengun frá sósunni. Ljóst þótti að um matarborna sýkingu hefði verið að ræða. Nánari rannsóknir á salmonellustofninum voru gerðar erlendis en ekki fannst skyldleiki við stofna sem tengdust matarbornum faröldrum erlendis.
Óþekktur sýkill
Tíu úr ellefu manna fjölskyldu sem borðuðu saman máltíð í heimahúsi veiktust af niðurgangi, kviðverkjum og uppköstum einum til þremur dögum síðar. Rannsóknir á saursýnum og matvælum (súpu úr stórmarkaði) voru neikvæðar.
Aeromonas hydrophila
Síðla ágústmánaðar 2017 braust út hópsýking með iðrakveisu meðal 130 starfsmanna tveggja grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Sýkingin var talin af völdum bakteríunnar Aeromonas hydrophilia. Bakterían ræktaðist í miklu magni í innfluttu og innpökkuðu blaðsalati sem skólaeldhúsin báru fram en salatið var merkt „óþvegið”. Þó A. hydrophilia sé ekki tilkynningarskyldur sýkingavaldur var um stóra hópsýkingu að ræða með lýðheilsulegt mikilvægi. Sýkingar af völdum A. hydrophilia geta valdið sjúkdómum í sjávardýrum en einnig í mönnum þótt sjaldgæft sé.
Nóróveira
Þann 10. ágúst braust út hópsýking af völdum nóróveiru á meðal erlendra skáta sem dvöldust í sumarbúðum hér á landi. Alls veiktist 81 einstaklingur en helstu einkenni voru uppköst, magakrampar og niðurgangur. Tveimur dögum áður en hópsýkingin braust út mun einn skáti hafa veikst af iðrasýkingu. Uppruni smitsins fannst ekki en líklegt var talið að sjúkdómurinn hafi smitast manna á milli enda nábýli mikið.
Shigella sonnei
Í lok nóvember 2017 var tilkynnt um shigellusýkingu hjá leikskólabarni á Suðurnesjum. Nokkuð hafði borið á iðrakveisu meðal barna og starfsmanna og voru aðaleinkennin uppköst. Sýklarannsóknir voru neikvæðar hjá öðrum einstaklingum en Shigella taldist líklegur orsakavaldur þessa hópsmits.
Salmonella Typhimurium, monophasic
Átta einstaklingar greindust með iðrasýkingu af völdum Salmonella typhimurium í ágúst 2017 og virtust sýkingarnar vera af innlendum toga. Rannsóknir leiddu í ljós að í sjö tilfellum var um sama stofn að ræða sem einnig hefur fundist á svínabúi hér á landi.
Óþekktur sýkill
Í nóvember 2017 varð hópsýking með magakveisu meðal starfsmanna fyrirtækis í Reykjavík. Af um 200 starfsmönnum veiktust 50 með niðurgangi, kviðverkjum og hita. Einkennin stóðu í um 3 til 6 daga en enginn þurfti á sjúkrahúsavist að halda. Ítarlegar rannsóknir á saursýnum leiddu ekki ljós orsakavald. Sóttvarnalæknir skipulagði tilfella- og viðmiðarannsókn til að kanna möguleg tengsl við matvæli og Heilbrigðiseftirlitið skoðaði aðstæður innan fyrirtækisins, en þessar rannsóknir leiddu ekki til ákveðinnar niðurstöðu um orsök.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis