Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Endurmenntun atvinnubílstjóra

Vegna breytinga á námskrá fyrir endurmenntun atvinnubílstjóra

Breytingar eru ekki afturvirkar á þau skírteini sem eru í gildi.

Þau sem eru með aukin ökuréttindi og tákntölu 95 í gildi þurfa að huga að þessari breytingu fyrir næstu endurnýjun.

Dæmi: Bílstjóri kláraði öll námskeið og endurnýjaði skírteini árið 2023. Sami bílstjóri þarf ekki að huga að endurmenntunarnámskeiðum fyrr en fyrir næstu endurnýjun árið 2028.

Atvinnubílstjórar sem aka bílum í flokkum C, C1, D og D1 þurfa að að ljúka endurmenntunarnámskeiðum á síðustu fimm árum fyrir endurnýjun til að fá tákntöluna 95 í skírteinið sitt. Mikil ábyrgð hvílir á bílstjórum stórra ökutækja en markmið námskeiðanna er að efla atvinnubílstjóra sem fagstétt og auka umferðaröryggi. 95 tákntalan gerir bílstjórum kleift að starfa við akstur innan EES svæðisins.

Hver þurfa endurmenntun?

Allir bílstjórar með réttindi í flokkum C, C1, D og D1 sem vilja viðhalda atvinnuréttindum sínum. Hér geta bílstjórarar skoðað sína stöðu gagnvart námskeiðum. Ef engin námskeið birtast, eru engin námskeið í gildi eða hafa ekki verið skráð af námskeiðshöldurum.

Hverjir þurfa ekki endurmenntun?

  • Þeir sem nýta réttindi sín eingöngu til aksturs í eigin þágu.

  • Leigubílstjórar (þeir sem eingöngu aka bílum í B-flokki).

  • Bílstjórar sem aka sjúkrabílum eða björgunarsveitarbílum.

Námskeiðin

Námskeiðin eru fimm talsins, samtals 35 klukkustundir. Námskeiðin eru kennd hjá námskeiðshöldurum sem Samgöngustofa viðurkennir.

Námskeiðin skiptast í þrjá hluta:

  • Umhverfi

  • Lög og reglur

  • Öryggi

Hver bílstjóri þarf:

  • að taka eitt námskeið úr hverjum hluta

  • tvö námskeið eru valfrjáls úr hvaða hluta sem er

  • eitt af þessum fimm námskeiðum þarf að innihalda verklegan hluta.

Dæmi um námskeið úr hverjum hluta

Umhverfi:

  • vistakstur

Lög og reglur

  • lög og reglur

  • reglur um hvíldartíma

Öryggi

  • Umferðaröryggi og bíltækni

  • Skyndihjálp

  • Vöruflutningar

  • Farþegaflutningar

Vörubílstjórar skulu velja eitt námskeið sem tengist farmhleðslu og bílstjórar í farþegaflutningum skulu taka að minnsta kosti eitt námskeið þar sem fjallað er um þær sérstöku áskoranir sem tengjast farþegaflutningum.

Bílstjórar sem hafa lokið fimm námskeiðum samkvæmt eldra fyrirkomulagi hafa til 1. júní 2025 til að endurnýja ökuskírteinið með 95 hjá sýslumanni. Athugið að þau sem hafa nú þegar lokið skyndihjálp uppfylla þau skilyrði sem eru sett um verklega hlutann.

Nánari upplýsingar má sjá í námskrá endurmenntunar atvinnubílstjóra.

Kostnaður

Kostnaður við hvert námskeið getur verið misjafn milli námskeiðshaldara. Einnig þarf að greiða fyrir læknisvottorð og nýtt skírteini við endurnýjun þess. Bent er á að flest stéttarfélaganna niðurgreiða kostnað vegna námsgjalda.

Endurnýjun skírteinis

Mikilvægt er að fara til sýslumanns og endurnýja skírteinið eftir að námskeiðunum er lokið. Það gerist ekki sjálfkrafa. Við endurnýjun þarf ávallt að skila læknisvottorði.

Séu liðin meira en tvö ár frá því að skírteinið rann út, þarf að fara í próf í aksturshæfni hjá Frumherja.

Nánari upplýsingar má nálgast með því að senda tölvupóst á netfangið okurettindi@samgongustofa.is og hjá námskeiðshöldurum.

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa