Fara beint í efnið

Almenn leiga

Leigusamningar segja til um rétt og skyldur leigjenda og leigusala. Án samnings er staða þeirra gagnvart lögum ótrygg.

Húsaleigusamningar

Húsaleigusamningar skulu vera skriflegir. 

Húsaleigusamningar geta verið ótímabundnir eða til ákveðins tíma.

Sé gerður munnlegur leigusamningur gilda um hann sömu ákvæði og um ótímabundna samninga.

Leigusala og leigutaka er frjálst að semja um leiguupphæð en samkvæmt lögum á hún að vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja.

Uppsögn leigusamnings

Uppsagnarfrestur ótímabundinna húsaleigusamninga er mislangur eftir tegund húsnæðis og lengd leigutímans.

Undir venjulegum kringumstæðum er ekki hægt að segja upp tímabundnum leigusamningi áður en hann rennur út.

Við uppsögn leigusamnings er tryggara að gera það skriflega og með sannanlegum hætti, til dæmis með því að senda ábyrgðarbréf.

Húsaleigumál

Finna má leiguhúsnæði á skrá hjá leigumiðlunum og í auglýsingum fjölmiðla.

Sum sveitarfélög hafa almennar leiguíbúðir til útleigu auk félagslegra leiguíbúða. Úthlutun þeirra er ekki háð tekju- og eignamörkum leigjenda og húsaleiga almennt hærri.

Íbúar í leiguhúsnæði geta átt rétt á húsnæðisbótum hvort sem þeir leigja félagslegt húsnæði eða á almennum markaði.

Húsaleigusamningi þarf að þinglýsa sé ætlunin að sækja um húsnæðisbætur. 

Nauðsynlegt er að skila inn til þinglýsingar frumriti húsaleigusamnings og afriti sem er prentað eða ljósritað á löggiltan skjalapappír.

Þinglýst er hjá sýslumannsembættum.

Leigutekjur eru skattskyldar. Ef leigusali er einstaklingur skattleggjast þær sem fjármagnstekjur, annars eins og aðrar atvinnutekjur.

Komi upp ágreiningur á milli leigjenda og leigusala við gerð eða framkvæmd leigusamnings er hægt að vísa málinu til kærunefndar húsamála. Málsmeðferð er aðilum málsins að kostnaðarlausu.

Til minnis

  • Leiguhúsnæði er á skrá hjá leigumiðlunum og auglýst í fjölmiðlum.

  • Frjálst að semja um upphæð á leiguhúsnæði. Leigutekjur eru skattskyldar.

  • Mikilvægt er að gera skriflegan húsaleigusamning og þinglýsa hjá sýslumanni ef sækja á um húsnæðisbætur.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir