Félagslegt húsnæði
Þeir sem hafa lítil fjárráð eða eiga í húsnæðisvanda geta sótt um félagslegt húsnæði eða aðra aðstoð hjá sínu sveitarfélagi.
Þeir sem eiga í húsnæðisvanda geta fengið ráðgjöf um réttindi sín og úrræði hjá þjónustumiðstöðvum Reykjavíkur og velferðar-/félagsþjónustu sveitarfélaganna, til að mynda aðstoð við að leita að húsnæði.
Þeir sem eiga við bráðan húsnæðisvanda að etja og geta ekki sjálfir séð sér fyrir húsnæði af félagslegum eða fjárhagslegum orsökum geta átt möguleika á úthlutun félagslegrar leiguíbúðar, kaupleigu- eða eignaríbúðar.
Íbúar í félagslegu leiguhúsnæði geta átt rétt á húsnæðisbótum.
Umsókn og úthlutun
Sótt er um félagslegt húsnæði hjá þjónustumiðstöðvum Reykjavíkur og velferðar-/félagsþjónustum sveitarfélaga.
Félagslegt leiguhúsnæði hjá nokkrum sveitarfélögum
Úthlutun félagslegra íbúða ræðst í aðalatriðum af fjölskylduhögum, félagslegum aðstæðum og því að tekjur umsækjanda og eignir séu innan ákveðinna marka.
Hvert sveitarfélag setur sér nánari reglur um skilyrði fyrir úthlutun félagslegra íbúða og rekstur þeirra. Upplýsingar, úthlutunarreglur og eyðublöð má víða finna á vefjum sveitarfélaganna.
Ákvarðanir velferðar-/félagsmálanefnda sem afgreiða mál er tengjast félagslegu húsnæði má kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Til minnis
Umsækjandi um félagslegt leiguhúsnæði þarf að vera orðinn 18 ára og skráður með lögheimili í sveitarfélaginu.
Úthlutun ræðst af fjölskylduhögum, félagslegum aðstæðum, tekjum og eignum.
Kynna sér mismunandi reglur sveitarfélaga um félagslegt leiguhúsnæði.