Vigtun og skráning afla
Öllum afla sem er landað á Íslandi verður að vigta í löndunarhöfn við löndun. Við vigtun á hafnarvog skal nota löggilta vog í eigu viðkomandi hafnar og vigtunin framkvæmd af löggiltum vigtarmanni.
Hafnarvigtarmaður á að ljúka vigtun án ísfrádrags ef aflinn er íslaus. Ef ís er í aflanum er hafnarvigtarmanni heimilt að draga allt að 3% frá vegnum afla sem ísfrádrag eða senda aflann til endurvigtunar sé áætlað íshlutfall hærra en 3%.
Við lok vigtunar á hafnarvog skrá viðkomandi hafnaryfirvöld niðurstöður vigtunar í gagnagrunn Fiskistofu, GAFL.
Endurvigtun
Leyfið felur í sér að ísaður afli sem áður hefur verið veginn á hafnarvog er vigtaður íslaus hjá leyfishafa og er afli þá ýmist heilvigtaður eða úrtaksvigtaður.
Skilyrði fyrir leyfisveitingu eru:
Löggilt vog sé notuð.
Löggiltur vigtarmaður annist vigtun.
Húsnæði þar sem vigtun fer fram sé samþykkt af Matvælastofnun.
Aðbúnaður standist kröfur um rými til vigtunar, vigtarbúnað og aðstöðu til þess að aðskilja ís frá aflanum.
Niðurstöður endurvigtunar hjá leyfishafa eru send til löndunarhafnar sem skráir upplýsingar í GAFL.
Heimavigtun
Fiskistofu er heimilt að veita leyfi til heimavigtunar afla og felst í því undanþága frá vigtun á hafnarvog ef veruleg vandkvæði séu á vigtun aflans á hafnarvog.
Heimavigtunarleyfi eru háð ríkari skilyrðum en endurvigtunarleyfi. Slík leyfi eru einungis veitt að fenginni jákvæðri umsögn hafnaryfirvalda í viðkomandi höfn sem hafa eftirlitsskyldur með heimavigtunaleyfishöfum. Við vigtunina þarf að nota sjálfvirka vog sem vigtar allan afla með samfelldum hætti og rík krafa er um innra eftirlit hjá fyrirtækinu.
Að lokinni vigtun eru niðurstöður vigtunar sendar viðkomandi löndunarhöfn sem skráir upplýsingar í GAFL.
Vigtunarleyfi sjálfstæðra aðila
Fiskistofu er heimilt að veita aðilum leyfi til vigtunar á ábyrgð og í umboði hafnaryfirvalda.
Skilyrði fyrir leyfisveitingu aðila eru:
Að eiga ekki beina eignaraðild að útgerðarfyrirtæki eða fiskvinnslu.
Að annast ekki eða hafa milligöngu um sölu afla.
Hafa ekki slíkra hagsmuna að gæta að draga megi óhlutdrægni þeirra í efa.
Þjónustuaðili
Fiskistofa