Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 26. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 4. sept. 2020

659/2014

Reglugerð um vigtun og skráningu meðafla við veiðar á uppsjávarfiski.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til íslenskra skipa sem stunda veiðar á kolmunna, loðnu, makríl, norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld og landa afla sínum á Íslandi. Jafnframt tekur reglugerð þessi til erlendra skipa sem stunda veiðar innan íslenskrar lögsögu og landa afla sínum á Íslandi.

2. gr.

Vigtunarleyfishafi sem tekur á móti uppsjávarfiski sbr. 1. gr. til bræðslu, skal taka sýni úr afla svo sem mælt er fyrir um í þessari grein. Niðurstaða sýnatöku skal lögð til grundvallar við ákvörðun magns og skráningu einstakra tegunda meðafla.

Fyrir löndun skal skipstjóri tilkynna til vigtunarleyfishafa um áætlað aflamagn.

Úr hverjum farmi sem er meira en 100 lestir skulu tekin 5 sýni. Hvert sýni skal vega um það bil 100 kg. Skulu sýni valin þannig að dregnar skulu út slembitölur fyrir hverja heila lest á talnabilinu frá einum til áætlaðs heildarafla. Þegar löndunarvog sýnir útdregna slembitölu skulu sýni tekin.

Sýnin skulu sett í kar og merkt með númeri og þau vegin til að ákvarða heildarþunga hvers sýnis. Starfsmenn vigtunarleyfishafa skulu tegundaflokka meðafla, telja fiska af kvótabundnum meðaflategundum og vigta magn hverrar tegundar í hverju sýni (kari). Magn meðafla í hverri tegund skal síðan uppreiknað með tilliti til heildarafla hverrar löndunar og skal sá meðafli skráður til afla viðkomandi fiskiskips í aflaskráningarkerfi Fiskistofu.

Við framkvæmd sýnatöku skulu aðferðir og búnaður samræmd milli vinnslustöðva í samráði við Fiskistofu.

Allar niðurstöður mælinga skulu skráðar á sérstök eyðublöð sem skulu varðveitt í a.m.k. tvö ár.

3. gr.

Uppsjávarafla sem landað er til vinnslu skal vigta samkvæmt ákvæðum reglugerðar um vigtun sjávarafla og skal hver tegund vegin sérstaklega. Fari afli til bræðslu, þrátt fyrir að honum hafi verið landað til vinnslu, skal með hann fara samkvæmt ákvæðum 2. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er vigtunarleyfishafa sem tekur á móti uppsjávarfiski til vinnslu heimilt að taka sýni úr afla. Sýni skal tekið úr fyrstu 10 tonnum farms sem landað er, þá skal sýni tekið úr hverjum 30 tonnum sem landað er í kjölfarið. Hvert sýni skal vega um það bil 30 kg og skal það valið af handahófi áður en afli er stærðarflokkaður. Hvert sýni skal vegið til að ákvarða heildarþunga hvers sýnis. Starfsmenn vigtunarleyfishafa skulu tegundaflokka meðafla, telja fiska af kvótabundnum meðaflategundum og vigta magn hverrar tegundar í hverju sýni. Magn meðafla í hverri tegund uppsjávarfisks skal síðan uppreiknað með tilliti til heildarafla hverrar löndunar og skal sá meðafli skráður til afla viðkomandi fiskiskips í aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Við vigtun á pökkuðum afurðum skulu enn fremur koma fram á vigtarnótu upplýsingar um afdrif hverrar tegundar til vinnslu eða bræðslu. Aðrar tegundir sem flokkast frá við stærðarflokkun afla skulu teknar frá og flokkaðar og vigtaðar sérstaklega.

4. gr.

Skipstjóri skal taka sýni úr síldarafla sem veiddur er austan 17°00´ V. Sýni skulu tekin úr hverju kasti eða togi og skal sýnatakan fara fram fyrir stærðarflokkun afla og framkvæmd þannig að tekið skal eitt 50 sílda sýni úr hverju kasti eða togi. Hvert sýni skal aðgreint til tegunda í samræmi við kynþroskastig. Skipstjóri skal ávallt tilkynna hlutfall síldartegunda ásamt áætluðu aflamagni til vigtunarleyfishafa, Fiskistofu uthafsv@fiskistofa.is og viðkomandi löndunarhafnar, fyrir löndun.

Magn hverrar síldartegundar skal síðan uppreiknað með tilliti til heildarafla hverrar löndunar og skal hver síldartegund skráð til afla viðkomandi fiskiskips í aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Allar niðurstöður mælinga skulu skráðar á sérstök eyðublöð sem skulu varðveitt í a.m.k. tvö ár.

5. gr.

Vinnsluskipum sem frysta loðnu, síld, makríl og kolmunna um borð er heimilt að blanda saman í lestum fráflokkaðri tegund sem ekki er hæf til vinnslu og afskurði sem fellur til við vinnsluna. Sé það gert skal skipstjóri, áður en löndun hefst, tilkynna vigtunarleyfishafa um í hvaða lestum fráflokkuð tegund og afskurður er. Öllum afskurði og fráflokkaðri tegund skal landað og sýni tekin til að sannreyna magn heillar tegundar í samræmi við ákvæði 2. gr. Ef magn afskurðar og hausa í afla vinnsluskips uppsjávarafla er ekki í samræmi við uppgefna vinnslunýtingu í viðkomandi veiðiferð, er Fiskistofu heimilt að skrá það sem umfram er sem heilan fisk. Slík skráning skal, hvað magn og tegundir varðar, vera í samræmi við hlutfall tegunda í uppsjávarafla í viðkomandi veiðiferð.

6. gr.

Um vigtun uppsjávarafla og meðafla og skráningu hans gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar nr. 224/2006, um vigtun og skráningu sjávarafla, með síðari breytingum.

7. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum. Þá er Fiskistofu heimilt að áminna vigtunarleyfishafa eða afturkalla leyfi hans til vigtunar ef vigtunarleyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum þessarar reglugerðar í samræmi við ákvæði laga nr. 57/1996, með síðari breytingum.

8. gr.

Reglugerð þessi er gefin út samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast gildi 14. júlí 2014. Frá sama tíma er felld úr gildi reglugerð nr. 246/2008, um vigtun og skráningu meðafla við veiðar á uppsjávarfiski, með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.