Við lífslok
Að leiða hugann að lífslokum sínum er mörgum fjarlægt og jafnvel eitthvað sem vakið getur óþægilegar tilfinningar. Þó svo að lífslokin séu ekki talin vera á næsta leiti getur verið mikilvægt að tekinn sé tími til að íhuga þau. Í því sambandi er að mörgu að hyggja og oft þarf að taka erfiðar ákvarðanir.
Mörg hafa ákveðnar skoðanir um þá meðferð (og inngrip) sem þau myndu vilja nærri lífslokum til dæmis varðandi endurlífgun. Mikilvægt er að ræða slíkt og koma óskum sínum á framfæri við nána aðstandendur og eða heilbrigðisstarfsfólk.
Hjá hjónum og sambúðarfólki getur þurft að taka ákvörðun um setu í óskiptu búi og gerð erfðaskrár.
Ekki er óalgengt að fólk hafi ákveðið fyrirkomulag útfarar, val á tónlist og þess háttar.
Á efri árum standa mörg frammi fyrir því að missa náinn ástvin eða jafnvel ástvini. Einstaklingum gengur misvel að takast á við sorgina sem fylgir slíkum missi þó svo að stundum sé litið á andlátið sem líkn frá þjáningu fyrir hinn látna. Einkenni sorgarinnar eru mörg og gott er að þekkja þau.
Landssamband eldri borgara er með bækling um hagnýtar upplýsingar við andlát maka.
Til að fræðast meira um þennan erfiða tíma er hér bæklingur um lífslokin.