Landsskipulag
Landsskipulagsstefna
Gildandi stefna
Landsskipulagsstefna 2024-2038
Þingsályktun um landsskipulagsstefnu 2024-2038 var samþykkt á Alþingi í maí 2024. Landsskipulagsstefna felur í sér samræmda stefnu ríkisins í skipulagsmálum fyrir landið í heild og tekur til landsins alls og haf- og strandsvæða.
Stefnan leysir af hólmi Landsskipulagsstefnu 2015-2026 sem tók gildi árið 2016, þá fyrsta heildstæða stefna um skipulagsmál á landsvísu.
Í landsskipulagsstefnu 2024-2038 eru eftirfarandi þrjú markmið lögð til grundvallar, sem öll byggja á sjálfbærri þróun. Framtíðarsýn stefnunnar byggir á leiðarljósum eldri stefnu um að skipulag byggðar og landnotkunar stuðli að sjálfbærri þróun, sé sveigjanlegt og stuðli að viðnámsþrótti gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum og jafnframt að lífsgæðum fólks og styðji samkeppnishæfni landsins alls og einstakra landshluta.
A. Markmið um vernd umhverfis og náttúru
snýr að heilnæmi umhverfis og verndun og varðveislu víðerna, landslags, náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni. Þar kemur fram áhersla á kolefnishlutleysi sem leiðarljós í skipulagi og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá landnotkun.
B. Markmið um velsæld samfélags
snýr að almennri velsæld í samfélagi og gæðum í hinu byggða umhverfi með jafnvægi í nýtingu lands í þéttbýli og dreifbýli þar sem vöxtur samfélaga gengur ekki um of á náttúrulegt umhverfi. Þar kemur fram áhersla á loftslagsaðlögun sem leiðarljós í skipulagi og seiglu samfélaga gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga.
C. Markmið um samkeppnishæft atvinnulíf
snýr að samkeppnishæfni samfélags og eflingu atvinnulífs, hagkvæmri uppbyggingu innviða og sjálfbærri nýtingu auðlinda þar sem vexti er beint á tiltekin svæði. Þar kemur fram áhersla á kolefnishlutleysi sem leiðarljós í skipulagi með aukinni bindingu gróðurhúsalofttegunda.
Undir hverju markmiði eru settar fram áherslur ásamt tilmælum um framfylgd þeirra fyrir skipulagsgerð á miðhálendi (M), í dreifbýli (D), í þéttbýli (Þ) og á haf- og strandsvæðum (H). Aðgerðaáætlun sem fylgir stefnunni, felur jafnframt í sér tiltekin verkefni til að hrinda markmiðum hennar í framkvæmd.