Fara beint í efnið

Landsskipulag

Framfylgd landsskipulagsstefnu

Landsskipulagsstefnu er framfylgt í gegnum skipulagsgerð sveitarfélaga, en stefnan getur einnig haft áhrif á aðra áætlanagerð stjórnvalda á landsvísu sem varðar landnotkun, svo sem um samgöngur eða orkumál. Þá getur landsskipulagsstefna og aðgerðaáætlun hennar einnig falið í sér tiltekin verkefni, svo sem leiðbeiningar- eða þróunarverkefni, til að hrinda markmiðum stefnunnar í framkvæmd.

Framfylgd með skipulagsgerð

Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt með skipulagsgerð sveitarfélaga, sem skulu samkvæmt skipulagslögum byggja á stefnunni við gerð skipulagsáætlana. Þeim áherslum sem settar eru fram í landsskipulagsstefnu fylgja framfylgdarákvæði sem taka ýmist til miðhálendis (M), þéttbýlis (Þ), dreifbýlis (D) eða haf- og strandsvæða (H). Skipulagsstofnun vinnur nú að útgáfu stefnunnar á aðgengilegu formi sem ætlað er að nýtast sveitarfélögum, ráðgjöfum og öðrum þeim sem koma að skipulagsgerð.

Aðgerðaáætlun

Landsskipulagsstefna 2024-2038 ásamt aðgerðaáætlun tilgreinir ýmis verkefni sem stjórnvöldum er falið að vinna að. Aðgerðir aðgerðaáætlunar eru 20 talsins og miða einkum að því að gera skipulagsgerð sveitarfélaga skilvirkari með bættu aðgengi að grunngögnum og leiðbeiningum, tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og stuðla að sjálfbærri þróun þar sem tekið er mið af mögulegum áhrifum loftslagsbreytinga á samfélög og innviði. Af þeim verkefnum sem tilgreind eru í stefnunni er áætlað að vinna við eftirfarandi verkefni hefjist árið 2024. Nánari upplýsingar um aðgerðir má nálgast í aðgerðaáætlun.

Mótun verkferla og leiðbeininga fyrir aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga

Byggðastofnun, Skipulagsstofnun og Veðurstofu Íslands er falið að hafa forgöngu um mótun heildrænnar nálgunar á aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga með það að markmiði að varpa ljósi á aðferðafræði, verkefni og hlutverk sveitarfélaga, fagstofnana, ráðuneyta og annarra hagaðila þegar kemur að aðlögun. Verkefnið er aðgerð í stefnumótandi byggðaáætlun. Tímabil: 2023-2025

Skipulagsgerð sem styðji við markmið um kolefnishlutleysi

Skipulagsstofnun er falið að hafa forgöngu um gerð leiðbeininga um hvernig hægt er að nýta skipulagsgerð til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Samhliða verði staðið að vitundarvakningu um loftslagsáhrif byggðar, samgangna og landnotkunar og loftslagsvæns lífs auk þess sem komið verði á markvissri söfnun og miðlun upplýsinga fyrir loftslagsmiðað skipulag og aðgengi að þeim upplýsingum tryggt. Tímabil: 2024-2025

Skipulag mæti húsnæðisþörf

Verkefni um bætt aðgengi að upplýsingum um möguleika á uppbyggingu húsnæðis í skipulagsáætlunum með það fyrir augum að stefna sveitarfélaga í húsnæðismálum og húsnæðisáætlanir byggi á greinargóðum gögnum. Þar er Skipulagsstofnun falið að hafa forgöngu um að koma á fót gagnagrunni þar sem gefið er yfirlit yfir heimildir til íbúðauppbyggingar á þegar skipulögðum íbúðarreitum og á þeim reitum sem eru í skipulagsferli.Tímabil: 2024-2038

Uppbygging og viðhald þjóðhagslega mikilvægra innviða

Innviðaráðuneyti hafi forgöngu um að leggja mat á hvaða innviðir flutningskerfa hafi þjóðhagslegt mikilvægi og skoða leiðir til að einfalda ákvarðanatöku um uppbyggingu þeirra og viðhald í samstarfi við tilteknar stofnanir og samvinnu við hagsmunaaðila. Tímabil: 2024-2026

Kortlagning á ræktunarlandi sem hentar til matvælaframleiðslu

Verkefni um kortlagningu á gæðum lands til ræktunar og umsjón gagnagrunns með uppfærðum upplýsingum. Skipulagsstofnun og Landi og skógi er falin forsjá verkefnisins. Tímabil: 2024

Samspil skipulagsáætlana og orkuskipta

Verkefni sem snýr að skipulagsáætlunum, stefnumótun um orkuskipti og aðgengi að uppfærðum upplýsingum, með það að markmiði að stuðla að hröðun orkuskipta. Tímabil: 2024-2026

Stjórnsýsla á hafsvæðum utan strandsvæða

Verkefni á forsjá innviðaráðuneytis sem snýr annars vegar að greiningu ábyrgðar á ákvörðunum og uppbyggingu ákvarðanatökuferlis um nýtingu eða vernd hafsvæða utan strandsvæða og hins vegar að gerð tillögu að ferli við töku ákvarðana, byggðri á grunni þeirrar greiningar. Tímabil: 2024-2026

Kortlagning víðerna

Lokið verði við kortlagningu víðerna út frá viðmiðum í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2023. Kortlagningin verði uppfærð reglulega og gerð aðgengileg fyrir skipulagsvinnu sveitarfélaga og annarra aðila. Ákveðið verður í reglugerð hver mun sinna kortlagningunni. Tímabil: 2024-2025

Skipulag í dreifbýli

Skipulagsstofnun er falið að hafa forgöngu um gerð leiðbeininga um skipulag í dreifbýli, hvernig nýta megi skipulagsgerð til að draga fram megináhrifaþætti í dreifbýli til að stuðla að sjálfbærri þróun byggðar og landnotkunar. Leiðbeiningarnar taki á ráðstöfun lands í dreifbýli, m.a. varðveislu góðs ræktarlands ásamt aukinni þörf á landrými, svo sem fyrir skógrækt, ferðaþjónustu, frístundabyggð, íbúðauppbyggingu sem og hefðbundin landbúnaðarnot. Leiðbeiningar munu einnig lúta að loftslagsmiðuðu skipulagi, landslagsvernd, neti verndarsvæða, líffræðilegri fjölbreytni og sjálfbærri byggð. Tímabil: 2024-2026

Einn ferill húsnæðisuppbyggingar

Verkefni sem snýr að einföldun og samræmingu lögbundinna ferla og verklags á sviði skipulags og byggingamála er varða uppbyggingu íbúðahúsnæðis. Annars vegar verði samþættir ferlar við gerð deiliskipulags og byggingaleyfis og hins vegar ferlar við gerð aðalskipulags og húsnæðisáætlana. Einnig felur verkefnið í sér fræðslu og leiðbeiningar til sveitarfélaga um einföldun ferla og aukna skilvirkni við skipulag og mannvirkjagerð. Innviðaráðuneytið ásamt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Skipulagsstofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga vinna að verkefninu.Tímabil: 2024-2026

Landsskipulag

Skipu­lags­stofnun

Sími 595 4100
landsskipulag@skipulag.is

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga: 9 til 16
Föstudaga: 9 til 13

Borg­ar­túni 7b

105 Reykjavík
Kennitala: 590269 - 5149