Skógræktarverkefni skapa tækifæri fyrir áframhaldandi búsetu, þróun og viðhaldi byggðar, ræktun skóga og auknum nýtingarmöguleikum á bújörðum. Um leið byggist upp auðlind til framtíðar.
Enginn umsóknarfrestur er fyrir þessi verkefni og tekið við umsóknum allt árið.
Þátttaka í skógrækt á lögbýlum
Landeigendur eða ábúendur lögbýla með að minnsta kosti 10 hektara og viðeigandi skilyrði að mati skógræktarráðgjafa eiga möguleika á stuðningi.
Ef ábúandi er ekki eigandi jarðar, þarf samþykki eigandans.
Skógræktarsamningar koma ekki til greina á löndum í óskiptri sameign.
Ábúendur ríkisjarða þurfa að kynna hugmyndir sínar fjármála- og efnahagsráðuneytinu áður en sótt er um.
Skógræktarráðgjafar veita upplýsingar og aðstoð við umsókn.
Sækja um þátttöku
Umsóknarferli um þátttöku fer fram í skrefum.
Til að taka þátt í skógrækt með opinberum stuðningi þarf að fylla út umsóknareyðublað og senda það til skógræktarráðgjafa í viðkomandi umdæmi.
Umsóknir gilda aðeins fyrir umsækjandann og falla úr gildi ef eigendaskipti verða eða samningur er ekki undirritaður innan árs frá samþykki.
Skógræktarráðgjafi heimsækir jörð umsækjanda, metur væntanlegt skógræktarsvæði (minnst 10 hektarar) og skráir niðurstöður.
Að mati loknu sendir ráðgjafi skýrslu, ásamt korti sem sýnir mörk svæðisins, til sviðstjóra með tillögu um hvort gera skuli samning eða ekki.
Ef tillaga er samþykkt, þarf umsækjandi að sækja um framkvæmdaleyfi hjá því sveitarfélagi sem lögbýlið tilheyrir.
Að fengnu framkvæmdaleyfi er hægt að undirrita skógræktarsamning.
Skógræktarsamning þarf að undirrita innan árs frá samþykki, annars fellur umsókn úr gildi nema skriflega sé sótt um frest.
Ráðgjafar Lands og skógar skulu:
gæta þess að samningsferlið tefjist ekki,
láta umsækjanda vita að minnsta kosti tveimur mánuðum áður en umsókn fellur úr gildi.
Kortlanging og áætlanir hefjast þegar þinglýstur samningur er tilbúinn.
Liggi samningssvæði að jarðamörkum skal senda nágrönnum mynd með tilllögu að útlínum. Ef ekki er samkomulag um jarðamörk, er beðið um athugasemdir innan ákveðins frests.
Sveitarfélagið þarf að svara um framkvæmdaleyfi áður en framkvæmdir hefjast.
Landeigandi eða skógarbóndi þarf að fara á grunnnámskeið í skógrækt áður en framkvæmdir hefjast.
Taxtar 2025
vegna skógræktarverkefna á lögbýlum
Í 14. grein laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019 með síðari breytingum, kemur fram að Land og skógur skuli hafa samstarf við félög skógarbænda á viðkomandi svæðum. Land og skógur skuli leita umsagnar Landssamtaka skógareigenda (LSE) við ákvörðun viðmiða fyrir endurgreiðslu samþykkts kostnaðar skv. 4. mgr. 11. gr. Þá skulu Land og skógur og Landssamtök skógareigenda móta sér sameiginlegar verklagsreglur um hvernig samráði þeirra í milli skuli háttað. Með vísan í þessa lagagrein sem og 8. gr. reglugerðar nr. 286/2015 eru eftirfarandi viðmið (taxtar 2025) send til umsagnar.
Frá árinu 2020 hefur samkomulag verið á milli LSE og Lands og skógar (áður Skógræktarinnar) um að taxtabreytingar skuli reiknaðar sem blanda af vísitölum launa og vísitölu framfærslu- og neysluverðs jan. 20xx – jan. 20xx. Notuð verði hlutföllin 60% launavísitala og 40% vísitala framfærslu- og neysluverðs. Með þeirri reiknireglu liggur fyrir að 7,68% hækkun verði á töxtum árið 2025.
Taxtar | |||
2024 | 2025 | ||
1. | Gróðursetning krónur/planta | ||
67 gata bakki | 22,61 | 24,35 | |
40 gata bakki | 26,72 | 28,77 | |
35 gata bakki | 30,69 | 33,04 | |
24 gata bakki | 32,90 | 35,43 | |
Stiklingar | 19,77 | 21,29 | |
2. | Áburðargjöf | ||
á nýgróðursetningu | 12,44 | 13,40 | |
á eldri plöntur | 16,38 | 17,64 | |
3. | Handflekking | 17,43 | 18,77 |
4. | Erfið handflekking | 22,74 | 24,49 |
5. | Umsjónargjald | 9,10 | 9,80 |
6. | Íbætur/íblöndun | 6,68 | 7,19 |
7. | Plöntuflutningar kr. á plöntu | ||
Innan við 24,9 km frá dreifingarstöð | 2,27 | 2,44 | |
25-74,9 km frá dreifingarstöð | 3,79 | 4,09 | |
Yfir 75 km frá dreifingarstöð | 5,31 | 5,71 | |
8. | Jarðvinnsla á hektara | 54.278 | 58.447 |
9. | Skjólbelti | ||
10. | Millibilsjöfnun í lerkiskógi | ||
A) fyrir tré/stofna grennri en 7 cm DBH eru greiddar kr. | 116,87 | 125,85 | |
B) fyrir tré/stofna sverari en 7 cm DBH eru greiddar kr. | 179,02 | 192,77 | |
11. | Girðingaviðhald kr./samningsbundinn hektara | 897,05 | 965,95 |
Skýringar
Gróðursetning. Mismunandi gjald er greitt fyrir hverja gróðursetta plöntu eftir bakkastærð.
Áburður og áburðargjöf. Mismunandi gjald er greitt fyrir áburðargjöf. Annars vegar á nýgróðursetningar þar sem miðað er við 12,5 gr. á plöntu sem dreift er u.þ.b. 5 cm frá plöntu og ofan við standi hún í halla. Inni í gjaldinu er styrkur til áburðarkaupa en miðað er við að notaður sé áburður með N- og P-innihaldi. Algeng hlutföll af N-P eru 26-13, 25-5, 23-12, 24-9. Hins vegar áburðargjöf á eldri gróðursetningar; þar er átt við ársgamlar gróðursetningar og eldri. Þá miðast magnið við 25 gr. á plöntu sem dreift er eins og á nýgróðursetta plöntu. Samráð skal haft við skógræktarráðgjafa ef talin er þörf á áburðargjöf á eldri gróðursetningar.
Handflekking. Þegar gróðurhula ca 20 x 20 cm er rifin af til að bæta skilyrði fyrir gróðursetta plöntu.
Erfið handflekking. Eins og handflekking en á við um mjög grasgefið land og þéttan hrísmóa.
Umsjónargjald. Til umsjónar telst umhirða og flutningur á plöntum á gróðursetningarsvæði, útfylling og skil á kortum og gróðursetningarskýrslum.
Íbætur/íblöndun. Greitt er fyrir íblöndun þegar gróðursett er inn í eldri gróðursetningar. Á eingöngu við eftir ráðleggingar og samþykki skógræktarráðgjafa. Upphæðin leggst ofan á gróðursetningarkostnað, sbr. 1. lið.
Plöntuflutningar. Greitt er fyrir hverja plöntu, fast gjald.
Jarðvinnsla. Viðmiðunargjald ef bóndi sér sjálfur um jarðvinnslu (plæging, tæting, herfing o.s.frv.)
Um framlag til ræktunar skjóllunda og skjólbelta á jörðum gilda eftirfarandi reglur: Land og skógur annast skipulagningu skjóllunda og skjólbelta í samráði við ábúanda/landeiganda, eftirlit með framvindu þeirra og veitir leiðbeiningar um meðferð þeirra. Ábúandi/landeigandi sér um jarðvinnslu, áburðargjöf, fergingu, plastlagningu og vörslu skjólbeltanna (t.d. girðingar). Af fjárveitingum Lands og skógar til skjólbeltagerðar er fastur vélastyrkur andvirði innskatts af efniskaupum (plöntur og plast); þessi háttur hefur verið hafður á tvö undanfarin ár. Útborgun verði þar með engin, en ábúandi/landeigandi innheimti virðisaukaskatt efnisreikninga. Innihald framlags í skjólbeltasamningi verður því eftirfarandi:
a. Ráðgjöf og skipulag
b. Plöntur og íbætur
c. Gróðursetning skv. taxta
d. Plastdúkur
Ábúandi/landeigandi skal fara eftir ráðleggingum starfsmanns Lands og skógar um skipulag, jarðvinnslu, plastlagningu, gróðursetningu, áburðargjöf, umhirðu og vörslu skjólbeltanna. Fari ábúandi/landeigandi ekki eftir þeim ráðleggingum fær hann ekki áframhaldandi framlög til skjólbeltaræktar. Þau skjólbelti sem verða til á þann hátt sem að framan greinir verða að öllu leyti í eigu ábúanda/landeiganda.Greiðslur fyrir millibilsjöfnun í lerkiskógi og fyrir fyrstu grisjun (svæði minni en þrír ha) í ungskógum eru tvískiptar og er greitt eftir fjölda felldra trjáa. Öll grisjun umfram þrjá hektara verður boðin út. Skógarbónda verður gert kleift að ganga inn í lægsta tilboð á sinni jörð ef hann óskar þess.
Greitt er fyrir girðingaviðhald. Viðmiðið er ákveðin krónutala á hvern samningsbundinn ha sbr. gildandi reglur sem tóku gildi 1. janúar 2022:
Reglur um framlög vegna girðingarviðhalds samningssvæða í skógrækt á lögbýlum
Þessar reglur eru unnar á grundvelli laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019 og reglugerðar um landshlutaverkefni í skógrækt nr. 285/2015.
Aðilar með þinglýstan samning um skógrækt á lögbýlum eiga rétt á að sækja um styrki til girðingaviðhalds meðan á gróðursetningu stendur og ungplöntur þurfa á friðun að halda.
Rétturinn gildir til allt að 10 ára frá síðustu gróðursetningu þar sem minnst 1.000 plöntur voru gróðursettar. Eftir það fellur hann niður, að því gefnu að áframhaldandi friðun sé skóginum ekki nauðsynleg. Hægt er að sækja um framhald styrkja til girðingaviðhalds á grundvelli friðunarþarfar skógarins og metur Land og skógur nauðsyn þess í hverju tilviki miðað við hæð plantna og beitarálag.
Sótt er um stuðning vegna girðingaviðhalds í upphafi hvers árs, um leið og sótt er um stuðning til annarra framkvæmda s.s. gróðursetningar, snemmgrisjunar, slóðagerðar og jarðvinnslu.
Viðhaldsgreiðslur girðinga eru ákveðin krónutala á hvern hektara samningssvæðis, skv. lið 1. Viðmiðunartaxtinn árið 2022 er 750 krónur/ha samningssvæðis.
Taxtinn er gefinn út ár hvert um leið og aðrir taxtar Lands og skógar, í samræmi við 8. gr. í reglugerð Lhv. nr. 285/2015 og er uppfærður árlega miðað við verðlagsbreytingar.
Uppgjör á framlagi fer fram eftir úttekt skógræktarráðgjafa, sem fer fram um leið og úttekt á öðrum framkvæmdum, á viðkomandi skógarjörð ár hvert.
Reglur þessar taka gildi frá og með 1. janúar 2022.

Þjónustuaðili
Land og skógur