Umferðaröryggisáætlun
Umferðaröryggisáætlun er fylgiskjal með samgönguáætlun og er hlutverk hennar fyrst og fremst að auka umferðaröryggi.
Í umferðaröryggisáætlun er mörkuð stefna um umferðaröryggi á Íslandi til 15 ára. Sett markmið og áherslur miða að því að ná árangri og auka umferðaröryggi. Framkvæmd áætlunarinnar er á forræði innviðaráðuneytis en ábyrgð verkefna er hjá Vegagerðinni, Samgöngustofu og Ríkislögreglustjóra, auk ráðuneytisins. Núverandi áætlun er í gildi 2024-2038.
Stefna stjórnvalda í umferðaröryggismálum
Banaslys og alvarleg slys í umferðinni eru óásættanleg. Mannslíf og heilsa skulu vera í öndvegi og öryggi fremst í forgangsröðun aðgerða í umferðarmálum. Við skipulag, hönnun og gerð umferðarmannvirkja skal öryggi vera í forgangi af því að mannleg mistök eru óhjákvæmileg. Stjórnvöld og stofnanir skulu eiga í góðu samstarfi við alla vegfarendahópa til að ná sátt um aðgerðir sem auka öryggi allra vegfarenda.
Markmið
Markmið umferðaráætlunar eru þrenns konar:
Yfirmarkmið eru almenns eðlis og skulu allar aðgerðir umferðaröryggisáætlunar stuðla að því að ná þeim.
Undirmarkmið ná yfir afmarkaða hluta umferðarslysa og styðja öll við yfirmarkmiðin.
Frammistöðumarkmið stuðla að því að bæta ástand umferðarkerfisins og hegðun allra vegfarenda sem svo aftur stuðlar að fækkun slysa og styðja þau þannig við yfirmarkmiðin.
Yfirmarkmið
Yfirmarkmið umferðaröryggisáætlunar til ársins 2038 eru:
Að Ísland verði í hópi fimm bestu Evrópuþjóða hvað varðar fjölda látinna í umferðinni á hverja 100.000 íbúa.
Að látnum og alvarlega slösuðum fækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2038.
Að slysakostnaður á hvern ekinn kílómetra lækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2038.
Undirmarkmið
Undirmarkmið í umferðaröryggisáætlun snúa að afmörkuðum hluta umferðarslysa og nýtast mælikvarðar þeirra þannig til þess að sýna fram á hvers konar slys eru að þróast í ranga átt og þar með hvers konar aðgerðum er mest þörf á til að fækka slysum og auka þar með umferðaröryggi. Undirmarkmiðin eru tólf talsins.
Frammistöðumarkmið
Frammistöðumarkmið og frammistöðumælikvarðar (e. performance indicators) snúa ekki að slysum heldur að viðhorfi og hegðun vegfarenda í umferð, gæðum vega og gæðum ökutækja. Með því að ná settum markmiðum fáum við öruggari vegfarendur, öruggari vegi og öruggari ökutæki, fækkum þar með slysum og við það eykst umferðaröryggi.
Lög og reglur
Gildandi umferðaröryggisáætlun er frá 2024-2038 og hægt er að lesa meira um markmiðin í umferðaröryggisáætluninni. Hér má einnig finna gagnvirka útgáfu af umferðaröryggisáætluninni.

Þjónustuaðili
Samgöngustofa