Fara beint í efnið

Tækifærisleyfi

Umsókn um tækifærisleyfi

Vinsamlegast athugið að ef sótt er um í nafni fyrirtækis þarf prókúruhafi að sækja um.

Sækja þarf um leyfi til að halda skemmtun eða viðburð þar sem þörf er á eftirliti eða löggæslu. Miðað er við að sækja þurfi um leyfið ef seldur er aðgangur að samkomunni. Leyfið getur verið án áfengisveitinga eða með.

Leyfið er veitt fyrir til dæmis:

  • skóladansleiki

  • tónleikahald

  • almenna dansleiki

  • útihátíðir

Ekki þarf að sækja um leyfi fyrir einkasamkvæmi. Með einkasamkvæmi er átt við lokaðar samkomur fyrir afmarkaðan hóp fólks þar sem eftir atvikum er veitt áfengi án endurgjalds og án þess að það sé í kynningar- eða söluskyni.

Skilyrði fyrir leyfisveitingu

Umsækjandi skal uppfylla eftirfarandi skilyrði, eins og við á, og veita heimild til að viðeigandi gögn séu sótt því til staðfestingar. Þetta á við hvort sem umsækjandi er einstaklingur eða forsvarsmaður fyrirtækis:

  • Hafa búsetu á Íslandi. Ríkisborgarar ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Færeyingar eru undanþegnir búsetuskilyrðinu.   

  • Vera lögráða og hafa náð 18 ára aldri á umsóknardegi. Feli rekstrarleyfi í sér heimild til áfengisveitinga skal umsækjandi vera lögráða og hafa náð a.m.k. 20 ára aldri.

  • Hafa forræði á búi sínu.

  • Hafa tilkynnt atvinnurekstur til skráningar hjá Skattinum.

  • Hafa ekki verið sviptur leyfi til rekstrar gististaðar, veitingastaðar eða áfengisveitinga á síðustu fimm árum frá umsókn.

  • Skulda ekki skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð sem nema samanlagt hærri fjárhæð en 1.000.000 kr. 

  • Hafa ekki á síðustu fimm árum gerst sekur um háttsemi sem varðar við almenn hegningarlög, lög um ávana- og fíkniefni, lög um hlutafélög, lög um einkahlutafélög, lög um bókhald, lög um ársreikninga, lög um tekjuskatt, lög um virðisaukaskatt, lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, lög um tryggingagjald né lög þessi sem og reglur settar samkvæmt tilgreindum lögum. 

Hafi umsækjandi ekki náð fjárræðisaldri getur hann tilnefnt ábyrgðarmann.

Sækja þarf um tækifærisleyfi með áfengisveitingum

  • þegar áfengi skal afhent eða selt við einstök tækifæri í atvinnuskyni - til dæmis í kynningarskyni, á sýningum eða ráðstefnum, hvort sem þær fara fram innan dyra eða utan

  • sem viðbót við gildandi rekstrarleyfi vegna lengri afgreiðslutíma áfengis á stað sem hefur leyfi til áfengisveitinga

Tækifærisleyfi til tímabundinna áfengisveitinga eru eingöngu gefin út þegar atburður fer fram á stað sem ekki hefur rekstrarleyfi. Leyfin eru almennt ekki gefin út oftar en tólf sinnum ár hvert vegna sama staðar.

Gjald

  • Leyfi til skemmtanahalds án áfengis kostar 12.000 krónur

  • Leyfi til skemmtanahalds með áfengisleyfi kostar 36.000kr.

Til viðbótar geta komið gjöld frá öðrum aðilum, til dæmis frá slökkviliði vegna umsagnar um brunavarnir og frá Stef vegna tónlistarflutnings. Einnig getur komið til kostnaður vegna kröfu um dyravörslu eða annað eftir eðli viðburðar.

Það sem þarf að koma fram í umsókn  

Gera skal grein fyrir eftirfarandi:

  • Hvers konar samkomu eða viðburð skal halda

  • Staðsetningu skemmtunar eða viðburðar

  • Áætluðum fjölda gesta

  • Lengd skemmtunar eða viðburðar

  • Aldursdreifingu gesta sem líklegt er að sæki skemmtunina eða viðburðinn

  • Dagskrá skemmtunar eða viðburðar ef hún liggur fyrir

Umsóknarfrestir

Fyrir viðburði sem standa skemur en í sólarhring
- sækja skal um með tveggja vikna fyrirvara

Fyrir viðburði sem standa lengur en í sólarhring
- sækja skal um með minnst 30 daga fyrirvara

Fyrir viðburði sem gera ráð fyrir um það bil 3000 manns og kalla á mikinn undirbúning
- sækja skal um leyfi með minnst 3ja mánaða fyrirvara

Tónlistarflutningur

Vakin skal athygli á því að umsækjendur um tækifærisleyfi skulu sækja um leyfi til flutnings tónlistar áður en hún er flutt á skemmtunum. Slíkt leyfi veitir Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF).

Ef þú ert ekki með rafræn skilríki má nálgast umsókn á PDF formi hér.

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15