Bjargráðasjóður tekur aðeins afstöðu til styrkumsókna sem berast sjóðnum. Styrkveitingar koma aðeins til greina ef umsókn sýnir fram á meiri háttar beint tjón af völdum náttúruhamfara:
á gjaldskyldum fasteignum samkvæmt skilgreiningu laga, og girðingum, túnum og rafmagnslínum er tengjast landbúnaði
á heyi sem notað er við landbúnaðarframleiðslu
vegna uppskerubrests af völdum óvenjulegra kulda, þurrka, óþurrka og kals
Umsýsluaðili fer yfir innsend gögn og metur hvort þau séu fullnægjandi.
Leggi umsækjandi ekki fram fullnægjandi gögn til að hægt sé að taka afstöðu til umsóknarinnar, kallar umsýsluaðili eftir þeim og veitir hæfilegan frest til viðbragða af hálfu umsækjanda.
Verði umsækjandi ekki við þeirri beiðni er upplýst um lokafrest til innsendingar gagna og málinu lokað af hálfu umsýsluaðila að þeim tíma liðnum, hafi upplýsingar ekki borist.
Telji umsýsluaðili þörf á, er aflað mats á umfangi tjóns frá sérfróðum aðila, t.d. frá búnaðarsambandi, ráðunauti eða öðrum sérfróðum aðila.
Við mat á tjóni, skal miðað við að hið skemmda verði eins, eða því sem næst eins og það var fyrir tjónsatburð. Þannig skal taka mið af ástandi og raunverulegu verðmæti þess skemmda, þegar tjónið varð.
Ef um er að ræða tjón vegna uppskerubrests, skal taka mið af meðal uppskeru, a.m.k. síðustu þriggja ára. Ekki er gerður munur á eigin vinnuframlagi umsækjanda og aðkeyptu vinnuframlagi.
Ef umsókn er samþykkt að hluta eða öllu leyti, er umsækjandi upplýstur um þau skilyrði sem stjórn setur við veitingu styrksins. Uppgjör fer fram þegar skilyrði fyrir styrkveitingu hafa verið uppfyllt.
Umsækjandi ber ávallt sjálfur kostnað sem nemur kr. 500.000- í hverju tjóni.
Ákvörðun stjórnar er endanleg á stjórnsýslustigi og um afturköllun og endurupptöku ákvörðunar fer samkvæmt stjórnsýslulögum.
Einnig er hægt að nálgast almennar reglur um meðferð styrkumsókna (pdf).
Þjónustuaðili
Náttúruhamfaratrygging Íslands