Samkvæmt 3. gr. laga nr. 49/2009 um Bjargráðasjóð, tekur stjórn sjóðsins afstöðu til styrkumsókna sem berast. Styrkveitingar koma aðeins til greina ef umsókn uppfyllir skilyrði 8. gr. sömu laga. Sjóðurinn hefur heimild til að styrkja meiriháttar tjón sem verður vegna kals, skriðufalla á ræktað land, tún og akra og á heyi sem notað er við landbúnaðarframleiðslu. Styrkir eru ekki veittir vegna tjóns á gripum eða afurðum, né heldur mannvirkjum, öðrum en girðingum og rafmagnslínum sem tengjast landbúnaði. Umsókn þarf að berast svo fljótt sem verða má, en eigi síðar en innan 3ja mánaða frá því að tjónið á sér stað til þess að teljast gild. Berist umsókn eftir að viðgerðum er lokið hefur umsækjandi fyrirgert rétti sínum til styrkveitingar.
Umsókn er ekki tekin til meðferðar af stjórn sjóðsins nema umsækjandi leggi fram gögn sem staðfesta að um sé að ræða meirháttar beint tjón, sem nemi að lágmarki kr. 1.500.000 af völdum náttúruhamfara eða óvenjulegra kulda, þurrka, óþurrka og kals. Þegar um er að ræða fóðurvöntun þarf tjónið einnig að nema a.m.k. 25% af fóðurþörf umsækjanda. Umsækjandi ber ávallt sjálfur kostnað sem nemur að lágmarki kr. 1.500.000,- í hverju tjóni.
Ef umsókn kemur til álita, er umsækjandi upplýstur um þau skilyrði sem stjórn setur við veitingu styrksins, m.a. um tímalengd frests til viðgerðar og hvort og þá hvenær matsmaður muni koma til að leggja mat á aðstæður. Þegar umsækjandi hefur lokið viðgerðum leggur hann fram reikninga fyrir útlögðum kostnaði vegna verksins og fullnægjandi staðfestingu á að umræddir reikningar tilheyri því tjóni sem tilkynnt hefur verið. Uppgjör fer fram þegar skilyrði fyrir styrkveitingu hafa verið uppfyllt og er styrkhlutfall ákveðið af stjórn hverju sinni með hliðsjón af umfangi tjóns, eigin framlagi til viðgerða og annarra þátta sem kunna að skipta máli. Í umfangsmiklum tjónum getur stjórn tekið ákvörðun um að áfangaskipta viðgerðum þannig að unnt sé að greiða inn á styrkinn í samræmi við framvindu verkefnis. Ákvörðun stjórnar er endanleg á stjórnsýslustigi og um afturköllun og endurupptöku ákvörðunar fer samkvæmt stjórnsýslulögum.
Styrkumsóknir skulu berast í gegnum heimasíðu Bjargráðasjóðs, www.bjargradasjodur.is í gegnum þar til gert umsóknarform. Ekki er tekið við umsóknum á öðru formi. Í umsókninni skal eftirfarandi koma fram að lágmarki:
Nafn, kennitala, símanúmer, netfang og bankareikningur umsækjanda.
Staðsetning tjóns, heimilisfang og landnúmer.
Orsök tjóns og dagsetning atburðar.
Greinargóð lýsing á skemmdum. Ef tjón verður á girðingum, þarf að koma fram tegund og samsetning girðingar (gaddavír / net / rafmagn / tréstaurar / stálstaurar), aldur, ástand fyrir atburð, lengd á skemmdu svæði og fjöldi brotinna staura. Ef tjón eða uppskerubrestur verður á heyi vegna kulda, þurrka, óþurrka eða kals, þarf að leggja fram upplýsingar um heyforða úr haustskýrslum síðustu þriggja ára á undan, auk skýrslu fyrir það ár sem tjónið varð á.
Ljósmyndir, loftmyndir með skýringum, eða önnur gögn sem sýna umfang tjóns.
Umsýsluaðili fer yfir innsend gögn fyrir hönd stjórnar og metur hvort þau séu fullnægjandi. Leggi umsækjandi ekki fram fullnægjandi gögn til að hægt sé að taka afstöðu til umsóknarinnar, kallar umsýsluaðili eftir þeim og veitir hæfilegan frest til viðbragða af hálfu umsækjanda. Verði umsækjandi ekki við þeirri beiðni er upplýst um lokafrest til innsendingar gagna og málinu lokað af hálfu umsýsluaðila að þeim tíma liðnum, hafi upplýsingar ekki borist.
Telji umsýsluaðili þörf á, er aflað mats á umfangi tjóns frá sérfróðum aðila. Við ákvörðun um styrkveitingu, skal miðað við að hið skemmda verði eins, eða því sem næst eins og það var fyrir tjónsatburð. Þannig skal taka mið af ástandi og raunverulegu verðmæti þess skemmda, þegar tjónið varð. Ef um er að ræða tjón vegna uppskerubrests, skal taka mið af meðal uppskeru, a.m.k. síðustu þriggja ára til samanburðar við það ár sem tjónið átti sér stað.
Ef styrkir skv. reglum þessum eru ofgreiddir miðað við endanlegar forsendur styrkveitingar, ber styrkhafa að endurgreiða sjóðnum hið ofgreidda fé.
Staðfest af stjórn, 9. maí 2025
Einnig er hægt að nálgast almennar reglur um meðferð styrkumsókna (pdf).
Þjónustuaðili
Náttúruhamfaratrygging Íslands