Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Styrkumsókn til Bjargráðasjóðs

Til að sækja um styrk til Bjargráðasjóðs þarf að fylla út umsóknarformið sem er að finna neðst á þessari síðu, allar upplýsingar um hvað þarf að fylgja með umsókn er að finna rétt ofan við umsóknarformið.

_______________________________________________________________________________________________________________________

Frétt 13. janúar 2025

Bjargráðasjóður afgreiðir umsóknir vegna kaltjóna

Stjórn Bjargráðasjóðs hefur samþykkt að veita styrki sem nema tæplega 300 milljónum króna vegna kaltjóna á Norðurlandi veturinn 2023-2024. Þar af kemur sérstakt 230 milljón króna framlag úr varasjóði fjárlaga og 70 milljónir koma af almennum fjárheimildum Bjargráðasjóðs í fjárlögum.

Samtals bárust 121 gild umsókn um styrki til Bjargráðasjóðs vegna atburðarins og styrkgreiðslur nú eru rúmlega 230 milljónir króna til 89 umsækjenda. Frá þeirri fjárhæð dragast innborganir sem greiddar voru 17 umsækjendum í september 2024 upp á tæplega 46 milljónir króna. Í 32 umsóknum var tjón metið undir lágmarksviðmiði fyrir styrkveitingu. Þar var kal á búinu minna en 25% og/eða tjón vegna kals metið undir 500.000 krónum.

Við mat á umsóknum er einkum byggt á haustskýrslum úr tölvukerfinu Bústofni þar sem bændur skrá árlega fjölda búfjár og fóðuröflun. Við vinnslu komu í ljós villur í skráningum sem hafa tafið útreikninga á styrkjum verulega og enn er unnið að leiðréttingum vegna þess

Það er mat sjóðsins að upphæð útdeildra styrkja dugi fyrir tæplega 70% af metnum heildarkostnaði vegna kaltjónanna að frádreginni eigin þátttöku umsækjenda að fjárhæð kr. 500.000.

Í þessari viku verður u.þ.b. 80% af áætluðum styrkjum greiddir til umsækjenda, en lokagreiðsla fer fram þegar öllum leiðréttingum er lokið.

Tjónamatið byggir á tveimur þáttum:

Kostnaður við endurræktun

Jarðvinnsla og ræktun sumarið 2024 er lögð til grundvallar, þ.e. samanlögð sáning grass og grænfóðurs. Frá ræktun ársins 2024 er dregið meðaltal samsvarandi ræktunar árin 2022 og 2023. Grundvöllur að útreikningi á styrk fyrir endurræktun er kr. 223 þús. á hektara.

Kostnaður við öflun fóðurs vegna uppskerubrests

Reiknaður uppskerubrestur reiknast þannig að meðaluppskera (þ.e. heyfengur af slegnum túnum) áranna 2022 og 2023 er dregin frá uppskeru ársins 2024 til að finna mismuninn. Í sumum tilvikum er ljóst af gögnum að bændur hafa leigt viðbótartún vegna ástands á eigin túnum og er reynt að leiðrétta mismun á uppskeru með tilliti til þess. Grundvöllur að útreikningi á styrk fyrir þeim hluta sem snýr að heyöflun er kr. 50 á fóðureiningu.

_______________________________________________________________________________________________________________________

Um Bjargráðasjóð

Bjargráðasjóður er sjóður í eigu ríkisins með sjálfstæðri stjórn sem heyrir undir matvælaráðuneytið. Sjóðurinn starfar eftir lögum nr. 49/2009 og reglugerð nr. 1111/2023. Hann veitir styrki til að mæta stærri áföllum í landbúnaði, sem takmarkast þó alltaf við fjárheimildir hverju sinni.

Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) er umsýsluaðili sjóðsins.

Bjargráðasjóður veitir styrki til að bæta tjón á:

  • á girðingum, túnum og heyi

Af völdum óvenjulegs:

  • kulda, þurrka, óþurrka eða kals

Ekki eru veittir styrkir vegna tjóna sem:

  • njóta almennrar tryggingaverndar eða hægt er að fá bætt með öðrum hætti.

  • valdið er af ásetningi eða gáleysi.

  • verða á stærri mannvirkjum, svo sem orku- og hafnarmannvirkjum, sjóvarnargörðum, fiskeldismannvirkjum og skipasmíðastöðvum.

Fram þarf að koma góð lýsing á skemmdum og tjóni.

  • Ef tjón verður á girðingum, þarf að koma fram tegund og samsetning girðingar (gaddavír / net / rafmagn / tréstaurar / stálstaurar), aldur, ástand fyrir atburð, lengd á skemmdu svæði og fjöldi brotinna staura.

  • Ef tjón eða uppskerubrestur verður á heyi vegna kulda, þurrka, óþurrka eða kals, þarf
    að leggja fram upplýsingar um heyforða úr haustbók síðustu þriggja ára á undan.

  • Ljósmyndir, loftmyndir með skýringum, eða önnur gögn sem sýna umfang tjóns.

Umsókn um styrk úr Bjargráðasjóði

Viðhengi

Ef tjón eða uppskerubrestur verður á heyi vegna kulda, þurrka, óþurrka eða kals, þarf að leggja fram forðagæsluskýrslur síðustu þriggja ára á undan. Ljósmyndir, loftmyndir með skýringum, eða önnur gögn sem sýna umfang tjóns.

Hægt er að lesa sér til um lög um Bjargráðasjóð og reglugerðir fyrir Bjargráðasjóð.

Hafðu samband

Sími: 575 3300

Netfang: nti@nti.is

Opnunartími

Mánudaga - fimmtudaga:
9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Heimilisfang

Hlíðarsmári 14

201 Kópavogur