Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Utanríkisráðuneytið
Málaflokkur
Evrópska efnahagssvæðið, Utanríkismál, Alþjóðlegar þvingunaraðgerðir
Undirritunardagur
8. júlí 2025
Útgáfudagur
25. ágúst 2025
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 910/2025
8. júlí 2025
REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð um þvingunaraðgerðir varðandi Úkraínu, nr. 281/2014.
1. gr. Þvingunaraðgerðir.
Eftirfarandi töluliðir skulu bætast við 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar, í réttri númeraröð:
3.77 Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2025/904 frá 13. maí 2025 um breytingu á ákvörðun 2014/145/SSUÖ um þvingunaraðgerðir með tilliti til aðgerða sem grafa undan eða ógna landamærahelgi, fullveldi og sjálfstæði Úkraínu, sbr. fylgiskjal 3.77.
4.85 Reglugerð ráðsins (ESB) 2025/903 frá 13. maí 2025 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 269/2014 um þvingunaraðgerðir með tilliti til aðgerða sem grafa undan eða ógna landamærahelgi, fullveldi og sjálfstæði Úkraínu, sbr. fylgiskjal 4.85.
7.40 Leiðrétting á ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2025/394 frá 24. febrúar 2025 um breytingu á ákvörðun 2014/512/SSUÖ um þvingunaraðgerðir í ljósi aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika í Úkraínu, sbr. fylgiskjal 7.40.
2. gr. Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 6. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna, nr. 68/2023, öðlast þegar gildi.
Utanríkisráðuneytinu, 8. júlí 2025.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Martin Eyjólfsson.
B deild — Útgáfudagur: 25. ágúst 2025
ÁKVÖRÐUN RÁÐSINS (SSUÖ) 2025/904
frá 13. maí 2025
um breytingu á ákvörðun 2014/145/SSUÖ um þvingunaraðgerðir
með tilliti til aðgerða sem grafa undan eða ógna landamærahelgi,
fullveldi og sjálfstæði Úkraínu
RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um Evrópusambandið, einkum 29. gr.,
með hliðsjón af tillögu frá æðsta fulltrúa Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Hinn 17. mars 2014 samþykkti ráðið ákvörðun 2014/145/SSUÖ(1).
2) Ráðið metur það svo að samband gagnkvæms ávinnings og stuðnings sé til staðar milli ríkisstjórnar Rússneska sambandsríkisins og leiðandi athafnamanna sem starfa í Rússlandi. Einkum hefur ríkisstjórn Rússneska sambandsríkisins kerfisbundið gert áberandi rússneskum athafnamönnum kleift að safna auði með nýtingu náttúruauðlinda og annarra opinberra auðlinda. Í þessu umhverfi hefur leiðandi athafnamönnum verið veittur pólitískur stuðningur og forgangsaðgangur að ríkisfjármagni í skiptum fyrir hollustu þeirra og að laga starfsemi sína sérstaklega að hagsmunum ríkisins, sem hefur skipt sköpum fyrir efnahagslegan árangur þeirra. Ákvarðanir ráðsins gegn tilteknum leiðandi athafnamönnum voru m.a. byggðar á mati á mikilvægi starfsemi þeirra fyrir rússneska hagkerfið og með hliðsjón af félagslegri og hagrænni stöðu þeirra, eins og hún kom fyrir þegar upphafleg skráning fór fram.
3) Ráðið hefur metið það svo að leiðandi athafnamenn sem starfa í Rússlandi njóti áfram ávinnings af hálfu ríkisstjórnar Rússneska sambandsríkisins og öfugt eftir að Sambandið tók upp þvingunaraðgerðir til að bregðast við árásarstríði Rússlands gegn Úkraínu. Slíkur ávinningur kemur einkum til vegna ákvarðana ríkisstjórnar Rússneska sambandsríkisins sem miða að því að milda áhrif þvingunaraðgerða Sambandsins gegn skráðum einstaklingum og rekstrareiningum. Meðal slíkra ákvarðana er löggjöf sem gerir slíkum einstaklingum og rekstrareiningum kleift að dylja viðkomandi skipulag eignarhalds og þannig verja með skilvirkum hætti eignir sínar og hagsmuni, sem sýnir enn frekar fram á viðvarandi víxltengsl milli leiðandi athafnamanna og ríkisstjórnar Rússneska sambandsríkisins. Að auki hefur aðgangur að fyrirtækjaskrám orðið sífellt takmarkaðri sem takmarkar möguleika á að fá áreiðanlegar upplýsingar um eignarhaldsfélög og starfsemi innan Rússlands. Þegar rannsóknarheimildir eru ekki fyrir hendi í Rússlandi er mat yfirvalda Sambandsins háð heimildum sem eru aðgengilegar öllum. Við þessar sérstöku aðstæður hefur ráðið orðið vart við vaxandi erfiðleika við að afla sértækra sönnunargagna og hlutlægra upplýsinga um efnahagslegt mikilvægi, hlutafjáreign, atvinnustarfsemi eða faglegar, og félagslegar og hagrænar, aðstæður aðila sem ráðið hefur skilgreint sem leiðandi athafnamenn frá febrúar 2022. Í tilvikum þar sem rússnesk löggjöf heimilar að upplýsingar í landsbundnum opinberum skrám eða gagnagrunnum séu fjarlægðar eða þeim leynt eða að rangar eða villandi upplýsingar séu færðar þar inn þykir rétt að líta svo á að síðustu aðgengilegu upplýsingarnar frá því fyrir 24. febrúar 2022 séu réttar nema nýlegri og áreiðanlegri upplýsingar liggi fyrir.
4) Ráðið hefur einnig orðið vart við að tilteknir leiðandi athafnamenn hafa kerfisbundið stundað yfirfærslu á hlutabréfum eða sagt af sér lykilstöðum, oft í því skyni að fela eignir sínar eða til að sniðganga þvingunaraðgerðir Sambandsins og halda á sama tíma yfirráðum yfir þeim auðlindum og fjármunum sem þeim eru tiltæk. Því telur ráðið að einnig skuli tilgreina aðila sem hafa tekið þátt í yfirfærslu á eignarhaldi, yfirráðum eða efnahagslegum ávinningi af viðskiptahagsmunum leiðandi athafnamanna sem starfa í Rússlandi, eða gert slíkt mögulegt, sem skráða aðila, eftir því sem við á, bæði til að komast hjá hættu á að framkvæmd þvingunaraðgerða Sambandsins verði torvelduð og til að auka þrýsting á ríkisstjórn Rússneska sambandsríkisins um að binda enda á árásarstríð sitt gegn Úkraínu.
5) Enn fremur er einnig viðeigandi að gera ráð fyrir að breytingar á skipulagi eignarhalds, sem varðar leiðandi athafnamenn eða breytingar á stöðu þeirra eftir upphaflega færslu þeirra á skrána, hafi ekki áhrif á félagslegar og hagrænar aðstæður þeirra eins og þær voru þegar upphaflega skráningin fór fram. Einnig er viðeigandi að gera ráð fyrir að yfirfærslur sem áttu sér stað 24. febrúar 2022 eða síðar og snertu, með beinum eða óbeinum hætti, leiðandi athafnamenn hafi stuðlað að því að villa um fyrir hvað varðar eignarhald eða yfirráð og þar með torveldað verulega framkvæmd þvingunaraðgerða Sambandsins.
6) Því má réttlæta að tilgreiningu leiðandi athafnamanna sem skráðra aðila sé viðhaldið samkvæmt þeim viðmiðum sem settar eru fram í e-lið 1. mgr. 1. gr. og g-lið 1. mgr. 2. gr. ákvörðunar 2014/145/SSUÖ nema fullyrðingar varðandi yfirfærslur hlutabréfa, afsal starfa eða svipaðar aðgerðir séu studdar nýlegum og áreiðanlegum upplýsingum sem má með sanngjörnum hætti líta á sem nægjanlegar til að telja að aðstæður viðkomandi skráðra aðila hafi breyst á viðeigandi hátt, þannig að það sýni fram á að þeir uppfylli ekki lengur viðeigandi viðmið. Slík breyting á aðstæðum gæti t.d. verið að ekki er lengur unnt að líta á viðkomandi aðila sem mikilvæga og áhrifamikla, einkum í ljósi faglegrar stöðu þeirra, mikilvægis atvinnustarfsemi þeirra, umfangs hlutafjár þeirra eða hlutverks þeirra innan eins eða fleiri fyrirtækja eða einna eða fleiri viðskiptasamtaka þar sem þeir stunda starfsemi sína. Ráðið ætti einnig, eftir því sem við á, að taka tillit til þess hvort viðkomandi aðili hafi ótvírætt fordæmt árásarstríð Rússlands gegn Úkraínu, sem er augljóst brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna, og aðgerðir og stefnur sem grafa undan eða ógna landamærahelgi, fullveldi og sjálfstæði Úkraínu.
7) Því ætti að breyta ákvörðun 2014/145/SSUÖ til samræmis við það.
SAMÞYKKT ÁKVÖRÐUN ÞESSA:
1. gr.
Ákvörðun 2014/145/SSUÖ er breytt sem hér segir:
1) Eftirfarandi liður bætist við í 1. mgr. 1. gr.:
„j) einstaklingar sem hafa tekið þátt í yfirfærslu á eignarhaldi, yfirráðum eða efnahagslegum ávinningi af viðskiptahagsmunum leiðandi athafnamanna sem sæta þvingunaraðgerðum Sambandsins, eða hafa gert slíkt mögulegt, samkvæmt viðmiðinu sem sett er fram í e-lið þessarar málsgreinar og skráð er í viðaukann við þessa reglugerð og þannig torveldað verulega framkvæmd þessara þvingunaraðgerða, að undanskildum yfirfærslum sem hafa verið heimilaðar sérstaklega samkvæmt frávikum og undanþágum sem mælt er fyrir um í þessari ákvörðun, ákvörðun 2014/512/SSUÖ eða reglugerð (ESB) nr. 269/2014 eða (ESB) nr. 833/2014,“.
2) Eftirfarandi liður bætist við í 1. mgr. 2. gr.:
„m) einstaklinga, lögaðila, rekstrareininga eða stofnana sem hafa tekið þátt í yfirfærslu á eignarhaldi, yfirráðum eða efnahagslegum ávinningi af viðskiptahagsmunum leiðandi athafnamanna sem sæta þvingunaraðgerðum Sambandsins, eða hafa gert slíkt mögulegt, samkvæmt viðmiðinu sem sett er fram í g-lið þessarar málsgreinar og skráð er í viðaukann við þessa ákvörðun, að undanskildum þeim yfirfærslum sem hafa verið heimilaðar sérstaklega samkvæmt frávikum og undanþágum sem mælt er fyrir um í þessari ákvörðun, ákvörðun 2014/512/SSUÖ eða reglugerð (ESB) nr. 269/2014 eða (ESB) nr. 833/2014,“.
3) Eftirfarandi grein bætist við:
„2. gr. b
Áfram skal telja leiðandi athafnamenn sem starfa í Rússlandi og eru á skrá í viðaukanum samkvæmt e-lið 1. mgr. 1. gr. og g-lið 1. mgr. 2. gr., sem halda því fram að þeir hafi yfirfært eignarhald, yfirráð eða efnahagslegan ávinning af viðskiptahagsmunum sínum 24. febrúar 2022 eða síðar, sem slíka og hafa áfram á skránni sem sett er fram í viðaukanum nema fram komi fullnægjandi, nýlegar og áreiðanlegar upplýsingar sem sýna fram að á þeir uppfylli ekki lengur viðmiðin sem sett eru fram í e-lið 1. mgr. 1. gr. og g-lið 1. mgr. 2 gr.“
2. gr.
Ákvörðun þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Gjört í Brussel 13. maí 2025.
Fyrir hönd ráðsins,
forseti.
A. DOMAŃSKI
(1) Ákvörðun ráðsins 2014/145/SSUÖ frá 17. mars 2014 um þvingunaraðgerðir með tilliti til aðgerða sem grafa undan eða ógna landamærahelgi, fullveldi og sjálfstæði Úkraínu (Stjtíð. ESB L 78, 17.3.2014, bls. 16, ELI: https://data.europa.eu/eli/dec/2014/145(1)/oj).
REGLUGERÐ RÁÐSINS (ESB) 2025/903
frá 13. maí 2025
um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 269/2014 um þvingunaraðgerðir
með tilliti til aðgerða sem grafa undan eða ógna landamærahelgi,
fullveldi og sjálfstæði Úkraínu
RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 215. gr.,
með hliðsjón af ákvörðun ráðsins 2014/145/SSUÖ frá 17. mars 2014 um þvingunaraðgerðir með tilliti til aðgerða sem grafa undan eða ógna landamærahelgi, fullveldi og sjálfstæði Úkraínu(1),
með hliðsjón af sameiginlegri tillögu frá æðsta fulltrúa Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Með reglugerð ráðsins (ESB) nr. 269/2014(2) koma þær þvingunaraðgerðir til framkvæmda sem kveðið er á um í ákvörðun 2014/145/SSUÖ.
2) Hinn 13. maí 2025 samþykkti ráðið ákvörðun (SSUÖ) 2025/904(3), um breytingu á ákvörðun 2014/145/SSUÖ. Með ákvörðun (SSUÖ) 2025/904 er innleitt nýtt viðmið sem nær yfir einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnanir sem hafa tekið þátt í yfirfærslu á eignarhaldi, stjórn eða efnahagslegum ávinningi af viðskiptahagsmunum leiðandi athafnamanna sem starfa í Rússlandi, eða gert slíkt mögulegt.
3) Í ákvörðun (SSUÖ) 2025/904 er einnig mælt fyrir um þá sönnunarbyrði sem hvílir á ráðinu til að viðhalda veru leiðandi athafnamanna á skránni yfir einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnanir sem sæta þvingunaraðgerðum.
4) Þessar ráðstafanir falla undir gildissvið sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins og því er lagasetning á vettvangi Sambandsins nauðsynleg, einkum til að tryggt sé að þeim verði beitt með sama hætti í öllum aðildarríkjunum.
5) Því ætti að breyta reglugerð (ESB) nr. 269/2014 til samræmis við það.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr.
Ákvæðum 3. gr. reglugerðar (ESB) nr. 269/2014 er breytt sem hér segir:
1) Eftirfarandi liður bætist við í 1. mgr.:
„m) einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnanir sem hafa tekið þátt í yfirfærslu á eignarhaldi, stjórn eða efnahagslegum ávinningi af viðskiptahagsmunum leiðandi athafnamanna sem sæta þvingunaraðgerðum Sambandsins, eða hafa gert slíkt mögulegt, samkvæmt viðmiðuninni sem sett er fram í g-lið þessarar málsgreinar og skráð er í I. viðauka við þessa reglugerð og þannig torveldað verulega framkvæmd þessara þvingunaraðgerða, að undanskildum yfirfærslum sem hafa verið heimilaðar sérstaklega samkvæmt frávikum og undanþágum sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð eða reglugerð (ESB) nr. 833/2014,“.
2) Eftirfarandi málsgrein er bætt við:
„1. mgr. b. Áfram skal telja leiðandi athafnamenn, sem starfa í Rússlandi og eru á skrá í I. viðauka samkvæmt g-lið 1. mgr. og sem halda því fram að þeir hafi yfirfært eignarhald, stjórn eða efnahagslegan ávinning af viðskiptahagsmunum sínum 24. febrúar 2022 eða síðar, sem slíka og hafa áfram á skránni sem sett er fram í I. viðauka nema fram komi fullnægjandi, nýlegar og áreiðanlegar upplýsingar sem sýna fram á að þeir uppfylli ekki lengur viðmiðið sem sett er fram í g-lið 1. mgr.“
2. gr.
Reglugerð þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 13. maí 2025.
Fyrir hönd ráðsins,
forseti.
A. DOMAŃSKI
(1) Stjtíð. ESB L 78, 17.3.2014, bls. 16, ELI: https://data.europa.eu/eli/dec/2014/145(1)/oj.
(2) Reglugerð ráðsins (ESB) nr. 269/2014 frá 17. mars 2014 um þvingunaraðgerðir með tilliti til aðgerða sem grafa undan eða ógna landamærahelgi, fullveldi og sjálfstæði Úkraínu (Stjtíð. ESB L 78, 17.3.2014, bls. 6, ELI: https://data.europa.eu/eli/reg/2014/269/oj).
(3) Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2025/904 frá 13. maí 2025 um breytingu á ákvörðun 2014/145/SSUÖ um þvingunaraðgerðir með tilliti til aðgerða sem grafa undan eða ógna landamærahelgi, fullveldi og sjálfstæði Úkraínu (Stjtíð. ESB L, 2025/904, 14.5.2025, ELI: https://data.europa.eu/eli/dec/2025/904/oj).
Leiðrétting á ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2025/394
frá 24. febrúar 2025
um breytingu á ákvörðun 2014/512/SSUÖ um þvingunaraðgerðir
í ljósi aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika í Úkraínu
Á blaðsíðu 15, c-liður 17. liðar 1. gr.:
| í stað: | „c) | Í stað 3. mgr. e kemur eftirfarandi: |
| „3e. Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. þessarar greinar geta lögbær stjórnvöld heimilað kaup, innflutning eða tilflutning vara sem falla undir SN-númer 7007, 7019, 8415, 8479, 8481, 8483, 8487, 8504, 8517, 8518, 8525, 8531, 8536, 8537, 8538, 8539, 8542, 8543 og 8603, sem eru á skrá í XXI. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 833/2014, eða veitingu tengdrar tækni- og fjárhagsaðstoðar, samkvæmt þeim skilyrðum sem þau telja viðeigandi, eftir að hafa ákvarðað að það sé nauðsynlegt vegna reksturs, viðhalds eða viðgerða á lestarvögnum á línu 3 í neðanjarðarlestarkerfi Búdapest sem voru afhentir 2018, til uppfyllingar á ábyrgð sem nær yfir endingartíma sem Metrowagonmash lagði fram fyrir 24. júní 2023.““ | ||
| kemur: | „c) | Í stað 3. mgr. e kemur eftirfarandi: |
| „3e. Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. þessarar greinar geta lögbær stjórnvöld heimilað kaup, innflutning eða tilflutning vara sem falla undir SN-númer 7007, 7019, 8479, 8481, 8483, 8487, 8504, 8517, 8525, 8531, 8536, 8537, 8538, 8539, 8542, 8543 og 8603, sem eru á skrá í XXI. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 833/2014, eða veitingu tengdrar tækni- og fjárhagsaðstoðar, samkvæmt þeim skilyrðum sem þau telja viðeigandi, eftir að hafa ákvarðað að það sé nauðsynlegt vegna reksturs, viðhalds eða viðgerða á lestarvögnum á línu 3 í neðanjarðarlestarkerfi Búdapest sem voru afhentir 2018, til uppfyllingar á ábyrgð sem nær yfir endingartíma sem Metrowagonmash lagði fram fyrir 24. júní 2023.““ |