Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Mosfellsbær
Málaflokkur
Félagsmál, Mosfellsbær
Undirritunardagur
26. febrúar 2024
Útgáfudagur
26. apríl 2024
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 511/2024
26. febrúar 2024
AUGLÝSING
um breytingu á reglum Mosfellsbæjar um fjárhagsaðstoð nr. 1722/2021.
1. gr.
1. mgr. 7. gr. reglnanna verður svohljóðandi:
Umsókn skal skilað inn rafrænt í gegnum island.is eða á þjónustugátt Mosfellsbæjar. Ef skila þarf inn skriflegri umsókn skal hún vera á þar til gerðu eyðublaði, undirrituð af umsækjanda og maka, ef við á, og skilað inn til þjónustuvers Mosfellsbæjar. Umsækjandi getur veitt öðrum skriflegt umboð til að sækja um fjárhagsaðstoð fyrir sína hönd.
2. gr.
9. gr. reglnanna verður svohljóðandi:
Framfærslugrunnur tekur mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og miðast við grunnfjárhæð 238.818 kr. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar er ákvörðuð af bæjarstjórn hverju sinni að fengnum tillögum velferðarnefndar. Upphæðir fjárhagsaðstoðar eru eftirfarandi:
Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem sannanlega reka eigið heimili er 1,0 eða 238.818 kr. Með rekstri eigin heimilis er átt við þær aðstæður þegar viðkomandi býr í eigin húsnæði eða leigir húsnæði og leggur fram húsaleigusamning skráðan í leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar því til staðfestingar.
- Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem búa sjálfstætt og leigja húsnæði án húsaleigusamnings sem skráður hefur verið í leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, hafa ekki aðgang að húsnæði eða dvelja á áfangaheimili er 0,75 eða 179.114 kr.
- Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem búa hjá foreldrum, ættingjum eða með öðrum, og njóta þar með hagræðis af sameiginlegu heimilishaldi er 0,5 eða 119.409 kr.
- Framfærslugrunnur einstaklinga sem eru skráðir á sjúkrastofnun eða í áfengis- eða vímuefnameðferð er 0,35 eða 83.587 kr. Þá er heimilt að greiða dvalargjald á meðferðarstofnun enda sé slíkt ekki niðurgreitt af Sjúkratryggingum Íslands. Hámarksaðstoð dvalargjalds og framfærslustyrks fer þó aldrei yfir grunnfjárhæð. Það sama gildir hvort sem umsækjandi sækir meðferð hérlendis eða erlendis.
-
Framfærslugrunnur hjóna og fólks í skráðri sambúð er 1,6 eða 382.109 kr. samanlagt. Framfærslugrunnur hjóna greiðist jafnt til beggja umsækjenda.
- Upphæð fjárhagsaðstoðar er óháð því hvort barn eða börn búi á heimilinu sbr. 10. gr.
Veita skal þeim sem fengið hafa fjárhagsaðstoð undangengna þrjá mánuði samfellt sérstaka desemberuppbót sem nemur 25% af framfærslugrunni einstaklings. Desemberuppbót er eingöngu greidd út í desember ár hvert.
3. gr.
Í stað orðanna „fulla grunnfjárhæð“ í 4. málsl. 4. mgr. 10. gr. reglnanna kemur: tvöfalda fulla grunnfjárhæð.
4. gr.
14. gr. reglnanna ásamt fyrirsögn verður svohljóðandi:
Heimildargreiðslur.
Aðstoð skv. undirliðum H, I, J og K er alfarið bundin við þá sem hafa fengið eða átt rétt á fjárhagsaðstoð a.m.k. síðustu þrjá mánuði. Sækja þarf sérstaklega um aðstoð skv. 14. gr.
- Heimilt er að veita sérstaka fjárhagsaðstoð til foreldra vegna barna á þeirra framfæri og eiga lögheimili hjá viðkomandi foreldri. Um er að ræða aðstoð til að greiða áfallandi greiðslur fyrir daggæslu barns í heimahúsum, leikskóla, skólamáltíðir, frístundaheimili og íþrótta- og tómstundaiðkun. Ætíð skal vera um tímabundna aðstoð að ræða. Viðmiðunarmörk aðstoðar með hverju barni eru að hámarki 18.000 kr. Skilyrði fyrir aðstoð samkvæmt þessum lið er að umsækjandi nýti sér fyrst rétt sinn samkvæmt frístundakorti og niðurgreiðslu leikskólagjalda. Ef umsækjandi er í skuld við sveitarfélagið, þarf viðkomandi að semja um skuldina eða gera hana upp áður en unnt er að taka afstöðu til umsóknarinnar. Ekki er unnt að greiða lengra en einn mánuð aftur í tímann hafi umsækjandi átt rétt á fjárhagsaðstoð. Greitt er gegn greiðslukvittunum í umsóknarmánuði.
- Heimilt er að gefa út ábyrgðaryfirlýsingu til tryggingar húsaleigu að hámarki 600.000 kr. til þeirra sem fengið hafa fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum í mánuðinum sem sótt er um og í mánuðinum á undan. Það sama gildir í þeim tilfellum sem umsækjandi hefur ekki fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum í mánuðinum sem sótt er um og í mánuðinum á undan, en hefur til langs tíma glímt við umfangsmikinn húsnæðisvanda, mikla félagslegra erfiðleika og verið í þjónustu velferðarsviðs Mosfellsbæjar. Umsækjandi skal leggja fram staðfestingu á því að eiga ekki möguleika á fyrirgreiðslu í banka, hjá Leiguvernd eða sambærilegum aðilum. Staðfesting þess efnis skal liggja fyrir. Húsaleigusamningur til að minnsta kosti sex mánaða þarf að liggja fyrir og hann skráður í leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Verði gengið að ábyrgðaryfirlýsingu samkvæmt reglum þessum skal greiða þá fjárhæð sem um ræðir samkvæmt umsókn beint til leigusala og krefja umsækjanda um greiðslu ábyrgðar. Heimilt er að breyta kröfu um endurgreiðslu umsækjanda í lán. Aðstoð samkvæmt þessu ákvæði skal að hámarki veitt einu sinni á 12 mánaða tímabili.
- Heimilt er að veita einstaklingum sem hafa tekjur á eða undir viðmiðunarmörkum fjárhagsaðstoðar styrk til greiðslu nauðsynlegra viðtala hjá sérfræðingum, svo sem sálfræðingum, geðlæknum og félagsráðgjöfum. Aðstoð þessi er liður í umfangsmeiri aðstoð þegar fyrirsjáanlegt er að eigi sé hægt að veita þjónustuna innan velferðarsviðs eða á vegum heilbrigðisstofnunar. Styrkur er veittur til einstaklinga sem hafa átt við mikla félagslega og/eða geðræna erfiðleika að stríða sem og til einstaklinga eða fjölskyldna sem hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum, svo sem vegna dauðsfalla, ofbeldis, slysa eða skilnaðar. Hámark aðstoðar er fimm viðtöl eða að hámarki 120.000 kr. á ári.
- Heimilt er að veita aðstoð til greiðslu útfararkostnaðar þegar sýnt hefur verið fram á að dánarbúið geti ekki staðið undir útför hins látna. Hámark styrks nemur 250.000 kr. Gögn sem þurfa að fylgja umsókn eru staðfest afrit af skattframtali hins látna, staðgreiðsluyfirlit, launaseðlar, greiðsluyfirlit frá tryggingum og lífeyrissjóðum og staðfesting frá stéttarfélagi um rétt til útfararstyrks.
- Heimilt er að veita einstaklingum á fjárhagsaðstoð sem eiga við mikla félagslega erfiðleika að stríða samkvæmt faglegu mati félagsráðgjafa, styrk til greiðslu námskeiða sem lið í endurhæfingu umsækjanda. Með endurhæfingu er átt við þegar félagsráðgjafi umsækjanda er jafnframt endurhæfingaraðili og unnið er að endurhæfingaráætlun í samvinnu við Tryggingastofnun. Aðstoðin er liður í umfangsmeiri aðstoð af hálfu velferðarsviðs Mosfellsbæjar. Upphæð styrks getur að hámarki verið 100.000 kr. á ári.
- Fæðingarstyrkur sem nemur 50% af grunnfjárhæð til umsækjanda. Sótt skal um fæðingarstyrk innan þriggja mánaða frá fæðingu barns. Fæðingarstyrkur er eingöngu greiddur í eitt skipti fyrir hvert barn.
- Fermingarstyrkur sem nemur 50% af grunnfjárhæð til umsækjanda. Sótt skal um fermingarstyrk innan þriggja mánaða frá fermingardegi barns. Fermingarstyrkur er eingöngu greiddur í eitt skipti fyrir hvert barn.
- Styrkur/lán til heimilisstofnunar til þeirra sem eru að hefja sjálfstætt heimilishald, eftir virka endurhæfingu og/eða dvöl á stofnunum. Hámark er 85.280 kr. og greiðist einu sinni til hvers umsækjanda.
- Heimilt er veita fjárhagsaðstoð í formi meðlagsgreiðslna með barni eða börnum sem umsækjandi hefur greitt með reglulega. Hækkar fjárhagsaðstoðin sem nemur einu meðlagi eins og það er á hverjum tíma með hverju barni. Umsækjandi skal sýna fram á að hann hafi staðið í skilum með meðlag a.m.k. undanfarna fjóra mánuði. Átt er við meðlagsgreiðslur hverju sinni, en ekki uppsafnaðar meðlagsskuldir.
- Heimilt er að veita foreldrum, sem hafa átt við langvarandi félagslega erfiðleika að etja, fjárstyrk vegna náms 16 og 17 ára barna þeirra vegna skólagjalda í framhaldsskóla og kaupa á námsgögnum. Hámarksfjárhæð vegna kaupa á námsgögnum og/eða skólagjöldum er 47.970 kr. fyrir hverja skólaönn. Greitt er gegn framvísun greiðslukvittana. Ákvarðanir um námskostnað skulu teknar fyrir hverja önn. Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi.
- Heimilt er í sérstökum tilvikum að greiða húsaleigu í að hámarki tvo mánuði meðan umsækjandi er í áfengis- eða vímuefnameðferð. Hámarksaðstoð þessa liðs fyrir hvern mánuð fer þó aldrei yfir grunnfjárhæð. Húsaleigusamningur skal skráður í leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Skila þarf inn staðfestingu á greiðslu húsaleigu.
- Heimilt er, hafi umsækjandi þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur, að veita styrk til greiðslu nauðsynlegra tannlækninga. Hámark aðstoðar er 80.000 kr. á ári. Greiðsluáætlun frá tannlækni skal liggja fyrir.
- Heimilt er að veita einstaklingi sem þegið hefur fjárhagsaðstoð undanfarna sex mánuði og á við mikla félagslega erfiðleika að stríða samkvæmt faglegu mati félagsráðgjafa, fjárhagsaðstoð til framfærslu í námi. Heimilt er að víkja frá ákvæði um sex mánuði þegar sýnt er að mál einstaklings hefur verið til meðferðar skv. barnaverndarlögum og þörf sé á stuðningi til að tryggja áframhaldandi skólagöngu. Forsenda þess að ákvæði þetta sé nýtt er að umsækjandi og félagsráðgjafi geri með sér samkomulag um félagslega ráðgjöf þar sem fram kemur m.a. skólasókn, sem skal vera að lágmarki 80%, námsframvinda og/eða einkunnir. Miðað er við að námið leiði til þess að nemandi geti síðar hafið lánshæft nám. Til viðbótar við fjárhagsaðstoð er heimilt að veita styrk á hverri önn vegna kaupa á námsgögnum og/eða skólagjöldum að hámarki 47.970 kr. Leggja skal inn umsókn um framfærslu í námi fjórum vikum áður en nám hefst og er umsókn afgreidd fyrir eina önn í senn. Aðstoðin er liður í umfangsmeiri aðstoð af hálfu velferðarsviðs Mosfellsbæjar. Ákvarðanir samkvæmt þessu ákvæði skulu teknar fyrir hverja önn.
5. gr.
Breytingar þessar, sem samþykktar voru á fundi velferðarnefndar 19. desember 2023 og á fundi bæjarstjórnar 10. janúar 2024, eru byggðar á 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum.
Mosfellsbæ, 26. febrúar 2024.
Sigurbjörg Fjölnisdóttir framkvæmdastjóri velferðarsviðs.
B deild - Útgáfud.: 26. apríl 2024