Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Seðlabanki Íslands
Málaflokkur
Fjármálastarfsemi
Undirritunardagur
30. júní 2025
Útgáfudagur
2. júlí 2025
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 748/2025
30. júní 2025
REGLUR
um breytingu á reglum nr. 1200/2019 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands.
1. gr.
2. gr. reglnanna breytist og orðast svo ásamt fyrirsögn:
Gildissvið.
Eftirfarandi fjármálafyrirtæki geta átt viðskipti við Seðlabankann:
- Fjármálafyrirtæki (lánastofnanir) sem fengið hafa starfsleyfi sem viðskiptabanki eða sparisjóður skv. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
- Útibú erlendra fjármálafyrirtækja sem fengið hafa staðfestu og samsvarandi starfsleyfi og greinir í 1. tl. í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, Sviss og Færeyjum og starfa hér á landi, sbr. 31. gr. laga nr. 161/2002.
- Útibú erlendra fjármálafyrirtækja með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem fengið hafa heimild Fjármálaeftirlitsins skv. 33. gr. laga nr. 161/2002, enda hafi fyrirtækið hliðstætt starfsleyfi og greinir í 1. tl. í heimaríkinu, starfsemin sem fyrirtækið hyggst stunda hér á landi sé sambærileg og að starfsemi fyrirtækisins sé háð sambærilegu fjármálaeftirliti og lög nr. 87/1998 kveða á um í heimaríkinu.
Auk fjármálafyrirtækja skv. 1. mgr. geta eftirfarandi fjármálafyrirtæki átt viðskipti við Seðlabankann, sem felast í lausafjárfyrirgreiðslu á því formi sem Seðlabankinn ákveður, enda sé að mati Seðlabankans um að ræða álagstíma þar sem tímabundnar sveiflur á stöðu lausafjáreigna fjármálafyrirtækis kunna að hafa áhrif á lausafjárhlutfall þess:
- Fjármálafyrirtæki (lánastofnanir) sem fengið hafa starfsleyfi sem lánafyrirtæki skv. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
- Útibú erlendra fjármálafyrirtækja sem fengið hafa staðfestu og samsvarandi starfsleyfi og greinir í 1. tl. í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, Sviss og Færeyjum og starfa hér á landi, sbr. 31. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
- Útibú erlendra fjármálafyrirtækja með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem fengið hafa heimild Fjármálaeftirlitsins skv. 33. gr. laga nr. 161/2002, enda hafi fyrirtækið hliðstætt starfsleyfi og greinir í 1. tl. í heimaríkinu, starfsemin sem fyrirtækið hyggst stunda hér á landi sé sambærileg og að starfsemi fyrirtækisins sé háð sambærilegu fjármálaeftirliti sem lög nr. 87/1998 kveða á um í heimaríkinu.
2. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. reglnanna:
- Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, sem verður 2. mgr., og orðast svo: Þrátt fyrir 1. mgr. er fjármálafyrirtæki, sem ekki hefur stofnað viðskiptareikning við Seðlabankann, heimilt að eiga í viðskiptum skv. 2. mgr. 2. gr. hafi það stofnað vaxtalausan reikning við bankann.
- 2. mgr. verður 3. mgr. og orðast svo: Viðskipti fjármálafyrirtækja eru eignfærð eða skuldfærð af Seðlabankanum á viðskiptareikning þeirra, eða eftir atvikum vaxtalausan reikning þeirra, eftir því sem við á samkvæmt reglum þessum og skuldbindur fjármálafyrirtæki sig til þess að ráðstöfunarfjárhæð á reikningi þess sé ávallt nægjanleg.
3. gr.
Eftirfarandi breyting verður á 15. gr. reglnanna:
1. mgr. orðast svo: Verðbréf sem lögð eru fram til tryggingar skulu skráð hjá verðbréfamiðstöð sem hlotið hefur starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/2020 um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga. Heimilt er að leggja fram verðbréf sem eru rafrænt skráð í erlendri verðbréfamiðstöð sem Seðlabankinn viðurkennir.
4. gr.
Eftirfarandi breyting verður á 17. gr. reglnanna:
2. mgr. orðast svo: Þá getur Seðlabankinn útilokað fjármálafyrirtæki frá viðskiptum uppfylli fyrirtækið ekki ákvæði laga nr. 161/2002 og reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, um laust fé og eigið fé, eða ákvæði stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru á grundvelli laga nr. 161/2002.
5. gr.
Gildistaka o.fl.
Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 1. mgr. 19. gr. og 2. mgr. 46. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, öðlast gildi 7. júlí 2025.
Seðlabanka Íslands, 30. júní 2025.
Ásgeir Jónsson
seðlabankastjóri.
Rannveig Júníusdóttir
framkvæmdastjóri.
B deild - Útgáfud.: 2. júlí 2025