Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Upplýsingar um auglýsingu

Deild

B deild

Stofnun

Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra

Málaflokkur

Sjóðir og stofnanir, Skipulagsskrár

Undirritunardagur

14. janúar 2015

Útgáfudagur

27. janúar 2015

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.

Nr. 56/2015

14. janúar 2015

SKIPULAGSSKRÁ

fyrir Starfsendurhæfingu Vesturlands.

1. gr.

Starfsendurhæfing Vesturlands er sjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn. Heimili og varnarþing hennar er á Akranesi. Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum. Hún er ekki háð neinum öðrum lögaðilum. Stofnunin starfar skv. lögum nr. 19/1988.

2. gr.

Stofnendur Starfsendurhæfingar Vesturlands eru: Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, kt. 610673-0239, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, kt. 630909-0740, Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi, kt. 540199-3539, Vinnumálastofnun á Vesturlandi, kt. 550698-2189, Stéttarfélag Vesturlands, kt. 621074-0249 og Verkalýðsfélag Akraness, kt. 680269-6889, sem því til staðfestu undirrita skipulagsskrá þessa. Fjárhagslegar skuldbindingar Starfsendurhæfingar Vesturlands eru stofnendum óviðkomandi umfram stofnframlag.

Stofnfé Starfsendurhæfingar Vesturlands er kr. 1.400.000 óskerðanlegt stofnfé að raungildi sem lagt hefur verið fram af stofnaðilum.

3. gr.

Markmið Starfsendurhæfingar Vesturlands er eftirfarandi:

  • Að endurhæfa þátttakendur til atvinnuþátttöku eða til frekara náms.
  • Að vinna að auknum lífsgæðum þátttakenda og eftir atvikum fjölskyldna þeirra.
  • Að þátttakendur fái þjónustu í heimabyggð ef þess er nokkur kostur.

Boðið verður upp á einstaklingsbunda úrlausn á vanda hvers þátttakanda eins og kostur er á. Samvinna verði við aðrar stofnanir samfélagsins s.s. félagsþjónustu, atvinnulíf, atvinnumiðlun, menntastofnanir og heilbrigðisþjónustu.

Meginforsenda fyrir endurhæfingunni er að þátttakandinn verði sjálfur virkur í sinni endurhæfingu frá upphafi þar sem hann kemur, með virkum hætti, að gerð eigin endurhæfingaráætlunar.

4. gr.

Stjórn Starfsendurhæfingar Vesturlands er skipuð sex fulltrúum til tveggja ára í senn og sex til vara. SSV tilnefnir þrjá fulltrúa, Heilbrigðisstofnun Vesturlands einn fulltrúa, Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi einn fulltrúa og Vinnumálastofnun einn fulltrúa.

Stjórn kýs sér formann og ritara, sem jafnframt skal vera varaformaður til tveggja ára í senn. Formaður kveður til stjórnarfunda og sér til þess að aðrir stjórnarmenn séu boðaðir til þeirra. Falli atkvæði á jöfnu á stjórnarfundum ræður atkvæði formanns úrslitum. Forstöðumaður situr að jafnaði stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt.

5. gr.

Stjórn Starfsendurhæfingar Vesturlands ber að vinna að markmiðum stofnunarinnar og kemur fram fyrir hennar hönd gagnvart þeim sem veita henni fjárhagslegan stuðning. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum stofnunarinnar. Stjórnin ákveður meginþætti í stefnu og starfstilhögun stofnunarinnar og setur sér og stofnuninni starfsreglur. Boða skal stjórnarfundi með tryggilegum hætti. Stjórnarmaður má ekki taka þátt í meðferð einstaks máls ef málefnið varðar hann persónulega.

6. gr.

Stjórnin skal kalla stofnendur saman til ársfundar eigi síðar en í apríllok ár hvert. Þar skal stjórn Starfsendurhæfingar Vesturlands gera grein fyrir starfi hennar og leggja fram endurskoðaða ársreikninga til samþykktar. Þar skal einnig kosning löggilts endurskoðanda og stjórnarfulltrúa fara fram. Á ársfundi gildir einfaldur meirihluti og hver fulltrúi stofnenda hefur eitt atkvæði nema varðandi breytingar á skipulagsskrá samanber 11. gr.

Ársfund skal boða skriflega með viku fyrirvara. Tillögu um breytingar á skipulagsskrá Starfsendurhæfingar Vesturlands skal getið sérstaklega í fundarboði.

7. gr.

Stjórn Starfsendurhæfingar Vesturlands ræður forstöðumann og setur honum erindisbréf. Forstöðumaðurinn ber ábyrgð gagnvart stjórn stofnunarinnar. Hann annast daglegan rekstur, ræður starfsfólk stofnunarinnar, vinnur að fjáröflun og annast reikningsskil. Forstöðumaður undirbýr fjárhagsáætlun næsta starfsárs, sem skal lögð fyrir stjórnina í nóvember ár hvert.

8. gr.

Tekjur Starfsendurhæfingar Vesturlands, auk vaxta af stofnframlagi, eru frjáls framlög frá ríki, sveitarfélögum, samtökum, fyrirtækjum og einstaklingum og tekjur af þjónustu.

9. gr.

Til þess að Starfsendurhæfing Vesturlands geti náð megintilgangi sínum er stjórninni heimilt, fyrir hönd miðstöðvarinnar, að eiga samstarf við aðra og gerast í því skyni aðili að samstarfssamningi um lengri eða skemmri tíma.

10. gr.

Reikningsár Starfsendurhæfingar Vesturlands er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.

Forstöðumaður skal eigi síðar en í lok marsmánaðar leggja fram eftirtalin gögn fyrir stjórn miðstöðvarinnar til afgreiðslu. Fyrsta reikningstímabil er frá stofnun sjálfseignarstofnunar til næstu áramóta:

  • Skýrslu um starfsemi síðasta starfsárs.
  • Endurskoðaðan ársreikning liðins starfsárs.

Reikningar Starfsendurhæfingar Vesturlands skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Endurskoðaðir reikningar skulu sendir Ríkisendurskoðun eigi síðar en 30. júní ár hvert fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé stofnunarinnar hefur verið ráðstafað á því ári.

11. gr.

Skipulagsskrá þessari verður aðeins breytt ef 2/3 hlutar fulltrúa á ársfundi samþykkja slíkar breytingar enda sé fundur lögmætur og tillaga um slíkt hafi verið kynnt sérstaklega í fundarboði. Jafnfamt þarf að liggja fyrir samþykki allra stjórnarmanna fyrir breytingunum. Slíkt skal svo borið skriflega undir embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra.

12. gr.

Starfsemi Starfsendurhæfingar Vesturlands verður slitið með ákvörðun 2/3 hluta fulltrúa á ársfundi. Jafnframt þarf að liggja fyrir samþykki allra stjórnarmanna fyrir slitunum. Slíkt skal svo borið skriflega undir embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Verði starfsemi Starfsendurhæfingar Vesturlands hætt og hún lögð niður skal eignum hennar ráðstafað í samræmi við markmið stofnunarinnar.

13. gr.

Um reikningshald fer að lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

14. gr.

Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Norðurlandi vestra á skipulagsskrá þessari, sem og breytingum sem kunna að verða gerðar á henni.

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra, 14. janúar 2015.

Bjarni Stefánsson.

Auður Steingrímsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 27. janúar 2015

Tengd mál