Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Upplýsingar um auglýsingu

Deild

B deild

Stofnun

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Málaflokkur

Evrópska efnahagssvæðið, Heilbrigðiseftirlit, Umhverfismál, Umbúðir

Undirritunardagur

24. júlí 2025

Útgáfudagur

8. ágúst 2025

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.

Nr. 880/2025

24. júlí 2025

REGLUGERÐ

um (6.) breytingu á reglugerð nr. 609/1996 um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs.

1. gr.

Í stað „Umhverfisstofnun“ hvarvetna í reglugerðinni (í viðeigandi beygingarfalli) og í stað „Umhverfisstofnun ríkisins“ í 12. gr. reglugerðarinnar kemur: Umhverfis- og orkustofnun.

2. gr.

Í stað 1. gr. reglugerðinnar kemur ný grein svohljóðandi:

Markmið þessarar reglugerðar er að tryggja að umbúðir og umbúðaúrgangur hafi sem minnst skaðleg áhrif á umhverfið. Jafnframt er það markmið reglugerðarinnar að koma í veg fyrir myndun umbúðaúrgangs, minnka heildarrúmmál umbúða, stuðla að endurnotkun umbúða, auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu umbúðaúrgangs og draga úr magni umbúðaúrgangs sem er fargað, til að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis.

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. reglugerðarinnar:

  1. við greinina bætast nýjar skilgreiningar, í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
    1. Endurnotanlegar umbúðir: umbúðir sem eru ætlaðar, hannaðar og settar á markað til að vera notaðar margsinnis á vistferli sínum og vera í hringrás með því að vera áfylltar eða endurnotaðar í sama tilgangi og þær voru upphaflega ætlaðar til.
    2. Sérstök söfnun: söfnun þar sem úrgangsflokkum er haldið aðskildum eftir tegund og eðli til að auðvelda tiltekna meðhöndlun, svo sem undirbúning fyrir endurnotkun eða endurvinnslu.
    3. Söfnun: það að safna úrgangi saman, þ.m.t. forflokkun og bráðabirgðageymsla úrgangs fyrir flutning á móttökustöð.
    4. Úrgangur: hvers kyns efni eða hlutir sem handhafi úrgangs ákveður að losa sig við, ætlar að losa sig við eða er gert að losa sig við.
    5. Úrgangsforvarnir: ráðstafanir sem gerðar eru áður en efni, efniviður eða vara er orðin að úrgangi og draga úr:
      1. magni úrgangs, þ.m.t. með endurnotkun vara eða framlengingu á notkunartíma vara,
      2. neikvæðum áhrifum á umhverfið og heilbrigði manna vegna úrgangs semhefur myndast, eða
      3. innihaldi skaðlegra efna.
    6. Meðhöndlun úrgangs: söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunar­stöðum eftir að þeim hefur verið lokað.
  2. skilgreining á endurnotkun orðast svo: Endurnotkun: hvers kyns aðgerð þar sem vörur eða íhlutir, sem ekki eru úrgangur, eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð til í upphafi.
  3. skilgreining á endurnýtingu orðast svo: Endurnýting: aðgerð þar sem aðalútkoman er sú að úrgangur verður til gagns þar eð hann kemur í stað annars efniviðar sem hefði annars verið notaður í tilteknum tilgangi, eða hann er útbúinn til þeirrar notkunar, í stöðinni eða úti í hagkerfinu. Endurnýting skiptist annars vegar í efnisendurnýtingu, þar á meðal undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og fyllingu, og hins vegar í orkuendurnýtingu, þar á meðal uppvinnslu sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti.
  4. skilgreining á endurvinnslu orðast svo: Endurvinnsla: hvers kyns endurnýtingaraðgerð sem felst í því að endurvinna úrgangsefni í vörur, efnivið eða efni, hvort sem er til notkunar í upphaflegum tilgangi eða í öðrum tilgangi. Undir þetta fellur uppvinnsla á lífrænum efni­viði, en ekki orkuvinnsla og uppvinnsla sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti eða til fyllingar.
  5. skilgreining á förgun orðast svo: Förgun: hvers kyns aðgerð sem er ekki endurnýting, jafnvel þótt aðgerðin hafi að auki í för með sér endurheimt efna eða orku.
  6. skilgreining á umbúðaúrgangi orðast svo: Umbúðaúrgangur: hvers kyns umbúðir eða umbúðaefni sem handhafi ákveður að losa sig við, ætlar að losa sig við eða er gert að losa sig við.
  7. skilgreining á samsettum umbúðum orðast svo: Samsettar umbúðir: umbúðir sem gerðar eru úr tveim eða fleiri lögum af mismunandi efnum, sem ekki er hægt að aðskilja með handafli og mynda eina samfellda heild sem samanstendur af innra íláti og ytra byrði, sem eru fylltar, geymdar, fluttar og tæmdar sem slíkar.
  8. Skilgreiningarnar „að koma í veg fyrir“, „lífræn endurvinnsla“, „meðhöndlun umbúða­úrgangs“ og „orkuvinnsla“ falla brott.

4. gr.

3. málsl. 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi „Ekki er heimilt að nota önnur auðkenningarkerfi.“ fellur brott.

5. gr.

Á eftir 6. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein, 6. gr. a ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

6. gr. a Gerð og samsetning einnota plastflaskna fyrir drykkjarvörur.

Frá 1. janúar 2026 skulu einnota plastflöskur fyrir drykkjarvörur að rúmmáli allt að þremur lítrum sem eru framleiddar að stærstum hluta úr pólýetýlentereþalati (PET), þ.m.t. tappar þeirra og lok, sem settar eru á markað hér á landi innihalda að lágmarki 25% af endurunnu plasti miðað við þyngd.

Frá 1. janúar 2030 skulu allar einnota plastflöskur fyrir drykkjarvörur að rúmmáli allt að þremur lítrum, þ.m.t. tappar þeirra og lok, sem settar eru á markað hér á landi innihalda að lágmarki 30% af endurunnu plasti miðað við þyngd.

Framleiðanda og innflytjanda er heimilt að uppfylla ákvæði 1. og 2. mgr. annað hvort með því að hver einnota plastflaska innihaldi a.m.k. tilgreint hlutfall af endurunnu plasti eða með því að vegið meðaltal af hlutfalli endurunnins plasts í öllum slíkum flöskum sem framleiðandi eða innflytjandi setti á markað hér á landi á einu almanaksári sé a.m.k. jafnt tilgreindu hlutfalli. Ákvæði 1. og 2. mgr. taka ekki til flaskna úr gleri eða málmi sem eru með tappa eða lok úr plasti eða til einnota flaskna sem eru ætlaðar fyrir og notaðar undir matvæli í vökvaformi í sérstökum læknisfræðilegum tilgangi skv. g-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar (ESB) nr. 609/2013, sbr. reglugerð um matvæli sem eru ætluð ungbörnum og smábörnum, matvæli sem eru notuð í sérstökum læknisfræðilegum tilgangi og þyngdarstjórnunarfæði í stað alls annars fæðis.

Framleiðendur og innflytjendur einnota plastflaskna sem tilgreindar eru í 1. og 2. mgr. skulu skila upplýsingum um að þeir uppfylli ákvæði 1. og 2. mgr. svo sem upplýsingum um þyngd plasts í einnota plastflöskum sem settar eru á markað og þyngd endurunnins plasts í sömu flöskum til Umhverfis- og orkustofnunar fyrir 1. maí ár hvert, fyrir undangengið ár.

6. gr.

Við 8. gr. reglugerðarinnar bætast fimm nýjar málsgreinar svohljóðandi:

Eigi síðar en 31. desember 2025 skulu að lágmarki 65% alls umbúðaúrgangs, miðað við þyngd, endurunnin.

Eigi síðar en 31. desember 2025 skal ná eftirfarandi lágmarksviðmiðum, miðað við þyngd, um endurvinnslu á eftirtöldum efnum í umbúðaúrgangi:

i) 50% af plasti,
ii) 25% af viði,
iii) 70% af járnríkum málmum,
iv) 50% af áli,
v) 70% af gleri,
vi) 75% af pappír og pappa.

Eigi síðar en 31. desember 2030 skulu að lágmarki 70% alls umbúðaúrgangs, miðað við þyngd, endurunnin.

Eigi síðar en 31. desember 2030 skal ná eftirfarandi lágmarksviðmiðum, miðað við þyngd, um endurvinnslu á eftirtöldum efnum í umbúðaúrgangi:

i) 55% af plasti,
ii) 30% af viði,
iii) 80% af járnríkum málmum,
iv) 60% af áli,
v) 75% af gleri,
vi) 85% af pappír og pappa.

7. gr.

Í stað brottfallinnar 9. gr. reglugerðarinnar kemur ný 9. gr ásamt fyrirsögn svohljóðandi:

9. gr. Söfnun á einnota plastflöskum fyrir drykkjarvörur.

Eigi síðar en 31. desember 2025 skal söfnun til endurnýtingar á einnota flöskum úr plasti fyrir drykkjarvörur að rúmmáli allt að þremur lítrum, þ.m.t. tappar þeirra og lok, vera að lágmarki 77%, miðað við þyngd, af slíkum umbúðum sem settar eru á markað hér á landi á hverju ári.

Eigi síðar en 31. desember 2025 skal söfnun til endurnýtingar á einnota flöskum úr plasti fyrir drykkjarvörur að rúmmáli allt að þremur lítrum, þ.m.t. tappar þeirra og lok, sem eru skilagjaldsskyldar skv. lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur vera að lágmarki 90%, miðað við þyngd, af slíkum umbúðum sem settar eru á markað hér á landi á hverju ári.

Eigi síðar en 31. desember 2029 skal söfnun til endurnýtingar á einnota flöskum úr plasti fyrir drykkjarvörur að rúmmáli allt að þremur lítrum, þ.m.t. tappar þeirra og lok, vera að lágmarki 90%, miðað við þyngd, af slíkum umbúðum sem settar eru á markað hér á landi á hverju ári.

Markmið þessi eiga ekki við um einnota flöskur úr plasti sem eru ætlaðar fyrir og notaðar undir matvæli í vökvaformi í sérstökum, læknisfræðilegum tilgangi skv. g-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar (ESB) nr. 609/2013, sbr. reglugerð um matvæli sem eru ætluð ungbörnum og smábörnum, matvæli sem eru notuð í sérstökum læknisfræðilegum tilgangi og þyngdarstjórnunarfæði í stað alls annars fæðis.

8. gr.

Í stað „81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit“ í 13. gr. reglugerðarinnar kemur: 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

9. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á viðauka I við reglugerðina:

  1. Í stað 2. mgr. undir lið 1 kemur ný málsgrein svohljóðandi: Umbúðir skal hanna, framleiða og setja á markað þannig að unnt sé að endurnota þær og endurnýta, þar með talið endur­vinna, í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, og halda áhrifum þeirra á umhverfið í lágmarki þegar umbúðaúrgangi eða leifum frá meðhöndlun umbúðaúrgangs er fargað.
  2. Í stað c-liðar 3. liðar kemur nýr c-liður svohljóðandi með fyrirsögn: Endurnýting umbúða með myltingu. Umbúðaúrgangur sem er unninn í því skyni að mylta hann skal geta brotnað niður lífrænt að því marki að það hindri ekki sérstaka söfnun og myltingu úrgangsins eða niðurbrot hans.
  3. Í stað d-liðar 3. liðar kemur nýr d-liður svohljóðandi með fyrirsögn: Umbúðir sem geta brotnað lífrænt niður. Umbúðaúrgang sem getur brotnað lífrænt niður skal vera unnt að mylta með eðlisfræðilegum, efnafræðilegum, varmafræðilegum eða líffræðilegum aðferðum þannig að stærstur hluti moltunnar brotni að lokum niður í koldíoxíð, lífmassa og vatn. Plastumbúðir sem eru niðurbrjótanlegar með oxun skulu ekki teljast geta brotnað lífrænt niður.

10. gr.

Í stað III. viðauka reglugerðarinnar kemur nýr III. viðauki sem birtur er með reglugerð þessari.

11. gr. Innleiðing.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/852 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang og til innleiðingar á 5. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 9. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið.

12. gr. Gildistaka tiltekinna gerða Evrópusambandsins.

Eftirtaldar gerðir sem vísað er til í XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, skal öðlast gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af II. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins:

  1. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 22. mars 2005 þar sem mælt er fyrir um eyðublöð fyrir gagnagrunnskerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang (2005/270/EB) sem vísað er til í lið 7e í XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska Efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 5/2006 frá 27. janúar 2006. Ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 44/2008, 18. júlí 2008, bls. 35–41.
  2. Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/665 frá 17. apríl 2019 um breytingu á ákvörðun 2005/270/EB þar sem mælt er fyrir um eyðublöð fyrir gagnagrunns­kerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/62/EB um umbúðir og umbúða­úrgang sem vísað er til í lið 7e í XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska Efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 173/2022 frá 10. júní 2022. Framkvæmdarákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnar­tíðindi Evrópusambandsins nr. 11/2024, 1. febrúar 2024, bls. 182–202.

13. gr. Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með stoð í aa-lið 43. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, 7. tölul. 5. gr. og 37. gr. g laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 4. gr. laga nr. 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

14. gr. Gildistaka.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 24. júlí 2025.

Jóhann Páll Jóhannsson.

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

B deild — Útgáfudagur: 8. ágúst 2025

Tengd mál