Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Seðlabanki Íslands
Málaflokkur
Fjármálastarfsemi
Undirritunardagur
3. desember 2025
Útgáfudagur
17. desember 2025
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 1391/2025
3. desember 2025
REGLUR
um yfirsýn með kerfislega mikilvægum innviðum.
1. gr. Markmið.
Markmið reglna þessara er að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd, með því að efla rekstraröryggi og treysta viðnámsþrótt fjármálainnviða, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019.
Yfirsýn Seðlabanka Íslands með kerfislega mikilvægum innviðum er ætlað að stuðla að virkni og öryggi í rekstri þeirra og lágmarka áhættu sem kann að steðja að þeim með mögulegum neikvæðum áhrifum á fjármálastöðugleika.
2. gr. Gildissvið.
Reglur þessar gilda um innviði sem fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að teljist kerfislega mikilvægir á grundvelli d-liðar 13. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, rekstraraðila þeirra og yfirsýn Seðlabankans með þeim.
3. gr. Orðskýringar.
Fjármálakerfi: Með fjármálakerfi er í reglum þessum átt við fjármálakerfi eins og það er skilgreint í lögum um fjármálastöðugleikaráð, nr. 66/2014 .
Fjármálastöðugleiki: Með fjármálastöðugleika er í reglum þessum átt við fjármálastöðugleika eins og hann er skilgreindur í lögum um fjármálastöðugleikaráð, nr. 66/2014 .
Fjármálainnviðir: Innviðir sem gegna hlutverki við miðlun fjármagns milli einstaklinga, lögaðila og stjórnvalda og fela í sér hvers kyns kerfi eða þjónustu vegna greiðslumiðlunar, uppgjörs eða skráningu greiðslna eða verðbréfa, eða aðra fjármálaþjónustu.
Grunninnviðir fjármálakerfisins: Kerfislega mikilvægir innviðir sem fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að teljist grunninnviðir á grundvelli viðmiða samkvæmt 4. gr. þessara reglna.
Kerfislega mikilvægir innviðir: Fjármálainnviðir sem eru þess eðlis að starfsemi þeirra geti haft áhrif á fjármálastöðugleika og sem fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að teljist kerfislega mikilvægir samkvæmt d-lið 13. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Kerfislega mikilvægir innviðir skiptast í grunninnviði fjármálakerfisins og kjarnainnviði fjármálakerfisins.
Kjarnainnviðir fjármálakerfisins: Kerfislega mikilvægir innviðir sem fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að teljist kjarnainnviðir á grundvelli viðmiða samkvæmt 5. gr. þessara reglna.
Kjarnareglur Alþjóðagreiðslubankans og Alþjóðlegu verðbréfaeftirlitsnefndarinnar: Kjarnareglur Alþjóðagreiðslubankans (BIS) og Alþjóðlegu verðbréfaeftirlitsnefndarinnar (IOSCO) um kerfislega mikilvæga fjármálainnviði (e. Principles for Financial Market Infrastructures, PFMI) frá árinu 2012.
Rekstraraðili: Aðili sem ber ábyrgð á rekstri kerfislega mikilvægra innviða.
4. gr. Grunninnviðir fjármálakerfisins.
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands ákveður, einkum á grundvelli eftirtalinna viðmiða, hvaða kerfislega mikilvægu innviðir skuli teljast grunninnviðir fjármálakerfisins:
- Lykilhlutverk við jöfnun og uppgjör greiðslna og skráningu á fjármunum og öðrum fjárhagslegum verðmætum, s.s. verðbréfum.
- Mikilvægi notenda innviða, s.s. fjöldi, stærð eða markaðshlutdeild.
- Mikilvægi með tilliti til miðlunar peningastefnu og varðveislu fjármálastöðugleika.
- Mikilvægi fyrir raunhagkerfið.
- Færslufjöldi og velta.
- Burðir annarra kerfa eða þjónustu til að taka við ef á reynir (staðgengdarmöguleikar).
- Tengsl við aðra fjármálainnviði og möguleika á smitáhrifum.
- Tilgangur innviðanna og notkun þeirra.
- Afleiðingar þjónusturofs og kerfisbilana, t.d. fyrir stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og almenning.
5. gr. Kjarnainnviðir fjármálakerfisins.
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands ákveður, einkum á grundvelli eftirtalinna viðmiða, hvaða kerfislega mikilvægu innviðir skuli teljast kjarnainnviðir fjármálakerfisins:
- Færslufjöldi og velta.
- Burðir annarra kerfa eða þjónustu til að taka við ef á reynir (staðgengdarmöguleikar).
- Tengsl við aðra fjármálainnviði og möguleika á smitáhrifum.
- Tilgangur innviðanna og notkun þeirra.
- Afleiðingar þjónusturofs og kerfisbilana, t.d. fyrir stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og almenning.
6. gr. Yfirsýn Seðlabanka Íslands.
Seðlabanki Íslands hefur yfirsýn með rekstrarumgjörð kerfislega mikilvægra innviða. Yfirsýn Seðlabankans felur í sér reglulegt eftirlit með virkni og rekstraröryggi kerfislega mikilvægra innviða, þ.m.t. á grundvelli áhættumats samkvæmt 2. mgr. 7. gr. þessara reglna. Við yfirsýn með grunninnviðum fjármálakerfisins er m.a. tekið mið af kjarnareglum Alþjóðagreiðslubankans og Alþjóðlegu verðbréfaeftirlitsnefndarinnar eftir því sem við á.
Telji Seðlabankinn virkni eða rekstraröryggi kerfislega mikilvægra innviða ábótavant leggur hann fram tillögur að úrbótum til rekstraraðila viðkomandi innviða.
Telji Seðlabankinn tilefni til leggur hann fram tillögur um breytingar á umgjörð og/eða rekstrarumhverfi kerfislega mikilvægra innviða til rekstraraðila viðkomandi innviða.
7. gr. Gagnaskil.
Skylt er samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, að láta Seðlabankanum í té allar upplýsingar og gögn sem bankinn telur nauðsynlegar til að viðhafa yfirsýn samkvæmt reglum þessum. Upplýsingar skal senda á því formi og með þeirri tíðni sem Seðlabankinn ákveður.
Rekstraraðilar kerfislega mikilvægra innviða skulu árlega framkvæma áhættumat á virkni og öryggi þeirra innviða á grundvelli leiðbeininga frá Seðlabanka Íslands. Niðurstöður matsins skulu sendar Seðlabanka Íslands í formi skýrslu eigi síðar en 30. apríl ár hvert.
8. gr. Gildistaka.
Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 17. gr. a. og 2. mgr. 46. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, og hafa verið samþykktar af fjármálastöðugleikanefnd, taka gildi þegar í stað.
Seðlabanka Íslands, 3. desember 2025.
Ásgeir Jónsson
seðlabankastjóri.
Flóki Halldórsson
framkvæmdastjóri.
B deild — Útgáfudagur: 17. desember 2025