Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
Málaflokkur
Árnessýsla, Orkumál
Undirritunardagur
29. janúar 2026
Útgáfudagur
30. janúar 2026
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 71/2026
29. janúar 2026
GJALDSKRÁ
Hitaveitu Brautarholts.
1. gr.
Hitaveita Brautarholts selur afnot af heitu vatni úr veitukerfum þeim sem gerð hafa verið og verða gerð á veitusvæði hitaveitunnar eftir þeim reglum sem settar eru í gjaldskrá þessari, sbr. samþykkta reglugerð Hitaveitu Brautarholts. Verð í gjaldskrá þessari eru án virðisaukaskatts og skal virðisaukaskattur leggjast á gjöldin samkvæmt gildandi lögum og reglum hverju sinni.
2. gr.
Hitaveita Brautarholts lætur þeim húsum sem tengd eru veitukerfi hennar í té vatnsmagn til neysluvatnsnota og upphitunar enda séu hitakerfi hússins nógu stór.
Hitaveita Brautarholts selur einnig afnot af heitu vatni til annarra nota en hitunar og neysluvatnsnota eftir því sem vatnsmagn leyfir og veitan telur henta.
3. gr.
Hitaveita Brautarholts lætur setja rennslismæla á inntök þeirra húsa sem tengd eru hitaveitunni. Notanda er óheimilt skv. reglugerð um veituna að torvelda á nokkurn hátt aðgengi til eftirlits og viðhalds á dreifikerfinu og má m.a. ekki hylja lagnir innan húss.
Eftirlitsmanni Hitaveitu Brautarholts skal hvenær sem er heimill aðgangur að öllum mælum, hitagjöfum og vatnsæðum sem eru í sambandi við hitaveituna.
Er húseiganda skylt að hlíta tafarlaust fyrirmælum eftirlitsmanns um viðgerðir á bilunum og sérhverjum ráðstöfunum til varnar gegn misnotkun á heita vatninu.
4. gr.
Hitaveita Brautarholts lætur lesa af mælum hitaveitunnar reglulega, að jafnaði tvisvar á ári, í júní og í desember. Ef mælir bilar er vatnsnoktun áætluð með hliðsjón af fyrri notkun þar til viðgerð hefur farið fram.
Óski notandi eftir að lesið sé af mæli hans utan reglubundins álestrartíma greiðist álestrargjald 3.500 kr.
5. gr.
Afnotagjöld af heitu vatni eru sem hér segir:
Gjald skv. mæli:
Almenn notkun, íbúðarhús: lámarksgjald á mánuði er 8.000 kr. og innifalið í því eru 70 m³.
Gjald fyrir almenna notkun, íbúðarhús umfram 70 m³ er 72 kr./m³.
Sund- og baðstaðir: 72 kr./m³.
Verslun, þjónusta, iðnaður og opinberar byggingar 72 kr./m³.
Mælagjöld á mánuði fyrir hvern mæli eru 2.000 kr.
Greiða skal til ríkissjóðs umhverfis- og auðlindaskatt, 2%, af verði á heitu vatni í samræmi við lög um umhverfis- og auðlindaskatt nr. 129/2009. Við afnotagjald af heitu vatni og mælagjaldi bætist einnig við 11% vsk í samræmi við lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
6. gr.
Stærð heimæðar fyrir almenna notkun tekur mið af rúmmáli húsnæðis og miðast verð við hverja heimæð.
Hús allt að 400 m³: 448.000 kr. og 370 kr. á hvern m³ þar fram yfir.
Stofngjald fyrir hvern aðrennslismæli umfram einn á sama inntaki er 53.500 kr.
Heimæðargjald er gjaldkræft þegar tengingu heimæðar er lokið.
Virðisaukaskattur reiknast 11% á heimæðargjald fyrir heimæðar til almennrar notkunar, húshitunar, en 24% virðisaukaskattur reiknast á heimæðargjöld til annarra notenda.
7. gr.
Tengigjöld heimæðar samkvæmt gjaldskrá þessari eru miðuð við byggingarvísitölu. Grunnvísitala (grunnur 2021) októbermánaðar 2025, 125,9 stig.
Hitaveitu Brautarholts er heimilt að breyta tengigjaldi í samræmi við breytingu á nefndri vísitölu sé breytingin staðfest af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu hverju sinni.
8. gr.
Gjöld skv. 5. gr. eru krafin mánaðarlega, í lok hvers mánaðar og skulu þau greidd í gegnum innheimtukerfi banka. Einddagi er 20 dögum eftir útgáfu reiknings. Það eru vanskil ef gjöldin eru ekki að fullu greidd á eindaga.
Gjald fyrir afnot af heitu vatni á milli álestra miðast við áætlaða vatnsnotkun með hliðsjón af fyrri notkun. Eftir hvern álestur fer fram uppgjör af mismuni raunnotkunar af heitu vatni og því sem greitt hefur verið frá síðasta uppgjöri.
9. gr.
Hitaveita Brautarholts hefur rétt til að loka fyrir aðrennsli heita vatnsins að húsi eða íbúð notanda sem vanrækir að greiða hitaveitugjöld.
Fyrirætlun um lokun ber að tlkynna með að minnsta kosti 3ja daga fyrirvara. Allan kostnað af lokun og opnun á ný greiðir sá sem vanskilum veldur, 14.400 kr. í hvert sinn.
10. gr.
Öll gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari má taka lögtaki/fjárnámi á kostnað gjaldanda, sbr. 79. gr. orkulaga nr. 58/1967.
11. gr.
Gjaldskrá þessi, sem samþykkt var af sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps 3. desember 2025, er hér með staðfest samkvæmt orkulögum nr. 58/1967 til að öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi gjaldskrá sama efnis nr. 761/2021.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 29. janúar 2026.
F. h. r.
Magnús Dige Baldursson.
Steinar Örn Jónsson.
B deild — Útgáfudagur: 30. janúar 2026