Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Vegagerðin
Málaflokkur
Umferðarmál, Samgöngumál, Vegamál
Undirritunardagur
15. júní 2015
Útgáfudagur
15. júní 2015
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 525/2015
15. júní 2015
REGLUR
Vegagerðarinnar fyrir umferð.
1. gr. Gildissvið.
Reglur þessar gilda um umferð á þjóðvegum, þ.e. opnanir og lokanir þeirra og aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að girða fyrir skemmdir á vegum eða til þess að greiða fyrir umferð, svo sem um hámarksþunga bifreiða er fara mega um ákveðna vegarkafla.
2. gr. Almennt.
Þjóðvegir eru þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar, haldið er við af fé ríkisins og upp eru taldir í vegaskrá. Þeir eru almennt öllum opnir.
3. gr. Kort yfir þjóðvegi og opnun þeirra.
Vegagerðin birtir yfirlitsmynd af þjóðvegum landsins á heimasíðu sinni og greiðfærni þeirra á hverjum tímapunkti. Á kortinu skal skýrlega aðgreint hvort vegur er lokaður eða ekki með viðeigandi litum og umferðarmerkjum.
4. gr. Bann við akstri um þjóðvegi.
Vegagerðinni er heimilt að mæla fyrir um lokun þjóðvega ef nauðsynlegt er að girða fyrir skemmdir á vegum eða til að greiða fyrir umferð. Heimilt er Vegagerðinni að banna umferð ökutækja um þjóðvegi þann tíma árs sem hættast er við skemmdum á vegum. Vegagerðin getur enn fremur bannað alla umferð öktækja um vegi sem hættulegir eru vegna skemmda eða af öðrum slíkum orsökum þar til viðgerð er lokið.
5. gr. Undanþága frá banni.
Heimilt er Vegagerðinni að veita undanþágu frá almennu banni við akstri um þjóðvegi á grundvelli eftirfarandi skilyrða:
- Skilyrða um þyngd ökutækja, öxulþunga, dekkjastærð, loftþrýsting í dekkjum og önnur sambærileg atriði sem máli kunna að skipta vegna hugsanlegra skemmda af völdum ökutækja.
- Leyfishafi skal hafa rekstrarleyfi samkvæmt lögum nr. 73/2001, um fólksflutninga og farmflutninga á landi.
- Leyfishafi skal hafa viðeigandi leyfi frá Ferðamálastofu sem ferðaskrifstofa eða ferðaskipuleggjandi.
- Ferðir séu farnar í fylgd leiðsögumanns með leiðsögupróf frá skóla sem viðurkenndur er af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
6. gr. Afturköllun undanþágu.
Vegagerðinni er hvenær sem er heimilt að afturkalla undanþágu sem veitt hefur verið ef brotið er gegn skilyrðum hennar.
7. gr. Gildistaka.
Reglur þessar sem settar eru samkvæmt 48. gr., sbr. 1. mgr. 13. gr. vegalaga nr. 80/2007, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Vegagerðinni, 15. júní 2015.
Hreinn
Haraldsson
forstjóri.
B deild - Útgáfud.: 15. júní 2015