Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Múlaþing
Málaflokkur
Félagsmál, Múlaþing
Undirritunardagur
2. júlí 2025
Útgáfudagur
16. júlí 2025
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 807/2025
2. júlí 2025
REGLUR
Múlaþings um fjárhagsaðstoð.
I. KAFLI Lagagrundvöllur, markmið, skilgreiningar og ábyrgð - almenn atriði.
1. gr. Inntak fjárhagsaðstoðar.
Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára, sbr. hjúskaparlög nr. 31/1993, barnalög nr. 76/2003 og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Fjárhagsaðstoð er veitt til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna með lögheimili í Múlaþingi, Fljótsdalshreppi og Vopnafjarðarhreppi sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, samkvæmt VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.
Markmið fjárhagsaðstoðar til framfærslu er að tryggja að íbúar Múlaþings, Fljótsdalshrepps og Vopnafjarðarhrepps geti séð fyrir sér og sínum með því að veita þeim fjárhagslegan stuðning, enda sé það ekki í verkahring annarra aðila svo sem almannatrygginga, atvinnuleysistrygginga, lífeyrissjóða eða sjúkrasjóða stéttarfélaga. Heimilt er að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna, sbr. IV. kafla reglna þessara. Gefa skal sérstakan gaum að fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum barnafjölskyldna og meta sérstaklega þarfir barna vegna þátttöku þeirra í þroskavænlegu félagsstarfi.
Fjárhagsaðstoð skal veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsþjónustunnar, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, í samræmi við V. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Fjárhagsaðstoð er eingöngu ætluð til framfærslu en ekki til fjárfestinga eða greiðslu skulda.
Við meðferð og vinnslu umsókna ber að sýna umsækjanda fyllstu virðingu og gæta trúnaðar um málefni hans.
2. gr. Framfærsluskylda.
Kanna skal til þrautar rétt umsækjanda um fjárhagsaðstoð til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga svo og skal kanna rétt til aðstoðar samkvæmt lögum um námsstyrki. Fólk sem er skráð í sambúð í þjóðskrá á sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón. Sambúðin skal hafa verið skráð í þjóðskrá í a.m.k. eitt ár áður en umsókn er lögð fram, sbr. 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þeim er sækja um aðstoð skv. reglum þessum er skylt að vera í atvinnuleit og taka þeirri atvinnu sem býðst nema því aðeins að veikindi, örorka, hár aldur eða aðrar gildar ástæður hamli því.
Í undantekningartilvikum er heimilt að veita fjárhagsaðstoð vikulega vegna sérstakra aðstæðna.
3. gr. Réttur til fjárhagsaðstoðar.
Einstaklingar með lögheimili í Múlaþingi, Fljótsdalshreppi og Vopnafjarðarhreppi geta sótt um fjárhagsaðstoð samkvæmt reglum þessum:
- Þegar viðkomandi hefur tekjur undir framfærslugrunni fjárhagsaðstoðar og getur ekki séð sér og sínum farborða.
- Vegna sérstakra aðstæðna, s.s. áfengis- og vímuefnameðferðar og sérfræðiaðstoðar.
Tekið er tillit til sérstakra aðstæðna eftir því sem við á og fjárhagsaðstoð veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði fjölskyldusviðs, svo sem ráðgjöf, leiðbeiningar og virkni.
Við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skal grunnfjárhæð til framfærslu lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur. Heimilt er að lækka grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar í ákveðnum tilfellum, sbr. 9. gr. reglna þessara.
4. gr. Tímamörk fjárhagsaðstoðar.
Réttur til fjárhagsaðstoðar byggir á nýjustu upplýsingum úr staðgreiðsluskrá og skattframtali umsækjanda fyrir þann mánuð sem sótt er um aðstoð í. Fjárhagsaðstoð er greidd í byrjun mánaðarins á eftir þegar öll gögn liggja fyrir, einn mánuð í senn, og skulu ákvarðanir um aðstoð að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil. Aðstæður þeirra sem hafa fengið fjárhagsaðstoð í þrjá mánuði samfellt skulu kannaðar sérstaklega og félagslegri ráðgjöf beitt ásamt öðrum viðeigandi úrræðum. Í slíkum tilfellum skal gerð áætlun um frekari meðferð máls og, ef við á, viðkomandi m.a. bent á að leita til umboðsmanns skuldara. Þá skal einnig gera samkomulag um félagslega ráðgjöf með samvinnu og samráð að leiðarljósi. Félagslegri ráðgjöf er ætlað að styrkja einstaklinginn til sjálfshjálpar.
Fjárhagsaðstoð er aldrei veitt lengra aftur í tímann en þrjá mánuði frá því að umsókn er lögð fram. Rökstuddar ástæður verða að réttlæta aðstoð aftur í tímann og verður skilyrðum fjárhagsaðstoðar að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um.
5. gr. Form fjárhagsaðstoðar
Fjárhagsaðstoð skal að jafnaði veitt sem styrkur. Einungis er veitt lán óski umsækjandi þess eða könnun á aðstæðum leiðir í ljós að eðlilegt sé að gera kröfur um endurgreiðslur með tilliti til eigna og framtíðartekna.
Eftirfarandi skilyrði skulu uppfyllt fyrir lánveitingu:
- Fyrir liggi mat á endurgreiðslugetu umsækjanda. Aðeins skal veita lán þegar ljóst er að umsækjandi geti staðið í skilum með afborganir.
- Umsækjandi veiti skriflegt samþykki fyrir reglulegri skuldfærslu fyrir afborgunum lánsins af reikningi sínum.
- Umsækjandi er ekki með eldra lán.
- Ekki er heimild fyrir aðstoð vegna skuldastöðu umsækjanda eða ítrekaðra vanskila.
Ef veita á fjárhagsaðstoð sem lán og fyrir liggur að umsækjandi er þegar með eldra lán hjá fjölskyldusviði skal gera eldra lánið upp og sameina það nýrri lánveitingu. Framfærslulán skulu endurgreiðast í einni greiðslu þegar lántaki fær þær tekjur sem von er á, t.d. frá Tryggingastofnun ríkisins og öðrum sambærilegum stofnunum.
Framfærslulán er óheimilt að veita lengur en þrjá mánuði samfellt.
II. KAFLI Umsókn um fjárhagsaðstoð.
6. gr. Umsóknir og fylgigögn.
Við mat á umsóknum um fjárhagsaðstoð skulu ætíð liggja fyrir eftirtalin gögn:
- Umsókn um fjárhagsaðstoð. Sækja skal um fjárhagsaðstoð með rafrænum hætti á heimasíðu Múlaþings í gegnum island.is. Umsókn getur einnig verið lögð fram á sérstöku eyðublaði hjá fjölskyldusviði Múlaþings, undirrituðu af umsækjanda eða talsmanni hans, samkvæmt formlegu umboði.
Í umsókn skulu m.a. koma fram upplýsingar um lögheimili, sambúðarfólk, húsnæðisaðstæður, nafn maka, nöfn barna undir 18 ára aldri á framfæri og ástæður umsóknar. Umsækjanda ber að leggja fram dvalarleyfi í þeim tilfellum sem það á við. - Skattframtal síðastliðins árs og staðgreiðsluskrá umsækjanda. Skila skal sömu upplýsingum fyrir sambúðaraðila. Einnig ber að skila skattframtali og eignayfirlýsingu frá ríkisfangslandi hafi viðkomandi eða sambúðaraðili búið erlendis á yfirstandandi ári eða síðasta tekjuári.
Starfsmanni fjölskyldusviðs er einnig heimilt að kalla eftir yfirliti um innstæður í bönkum, sparisjóðum og öðrum fjármálastofnunum innanlands sem og erlendis. Þá skulu eftir atvikum liggja fyrir upplýsingar um lánshæfismat og skuldastöðu frá Creditinfo. Slík upplýsingaöflun skal gerð í samráði við umsækjanda. Neiti umsækjandi að veita upplýsingar um fjárhag sinn eða maka stöðvast afgreiðsla umsóknar hans.
Heimilt er að víkja frá framangreindum kröfum um framlagningu gagna ef um rökstutt neyðartilvik er að ræða.
Í þeim tilvikum sem umsækjandi er atvinnulaus skal hann framvísa staðfestingu á nýskráningu hjá Vinnumálastofnun er staðfestir atvinnuleysi. Jafnframt skal umsækjandi framvísa staðfestingu á umsóknum um störf. Umsækjandi skal vera virkur í atvinnuleit. Hafi umsækjandi, án viðhlítandi skýringa, ekki skráð sig hjá Vinnumálastofnun eða sætir biðtíma, skerðist fjárhagsaðstoð og greiðist þá helmingur grunnfjárhæðar til framfærslu. Á meðan umsókn umsækjanda er í vinnslu hjá Vinnumálastofnun á viðkomandi ekki rétt á fjárhagsaðstoð í formi styrks, þar sem hann hlýtur atvinnuleysisbætur frá dagsetningu umsóknar.
Ef um veikindi er að ræða skal umsækjandi framvísa læknisvottorði. Í læknisvottorði skal koma fram mat læknis á óvinnufærni og áætlun um endurhæfingu ef við á. Almennt gilda læknisvottorð að hámarki þrjá mánuði frá dagsetningu vottorðs.
Erlendum ríkisborgurum innan EES ber að framvísa staðfestingu á lögheimilisskráningu. Réttur til fjárhagsaðstoðar myndast þremur mánuðum eftir skráningu lögheimilis í landinu.
Í sérstökum tilfellum má veita erlendum ríkisborgurum með ríkisfang utan EES fjárhagsaðstoð, sbr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Aðstoðin er veitt í sérstökum tilvikum þegar fyrirsjáanlegt er að einstaklingur hefur ekki möguleika á að fara úr landi eða framfleyta sér hér á landi án aðstoðar íslenskra stjórnvalda.
Beri umsókn og fylgigögn hennar ekki með sér nauðsynlegar upplýsingar um framangreind atriði, skal starfsmaður tilkynna umsækjanda um hvaða gögn skorti og hvaða afleiðingar slíkt geti haft. Jafnframt skal leiðbeina umsækjanda hvert hann skuli leita til að afla viðkomandi gagna eða til að fá nánari upplýsingar um réttarstöðu sína.
Starfsmaður skal gera umsækjanda grein fyrir forsendum og markmiðum fjárhagsaðstoðar vegna hverrar umsóknar. Öflun gagna og upplýsinga skal unnin í samvinnu við umsækjanda. Við meðferð umsóknar og ákvarðanatöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er, að öðrum kosti umboðsmann hans ef við á. Umboðsmaður skal framvísa skriflegu umboði. Ef umbeðin gögn berast ekki innan tveggja vikna frá því að umsókn er lögð fram er henni vísað frá.
7. gr. Félagsleg ráðgjöf og samráð.
Kanna skal sérstaklega aðstæður umsækjanda er fengið hefur fjárhagsaðstoð lengur en þrjá mánuði. Samhliða skal veita félagslega ráðgjöf sbr. V. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Gera skal einstaklingsáætlun þar sem hafa skal samvinnu og samráð að leiðarljósi, sbr. 8. gr. og 58. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
III. KAFLI Réttur til fjárhagsaðstoðar.
8. gr. Upphæðir fjárhagsaðstoðar.
Framfærslugrunnur miðar við einstaklinga 18 ára og eldri sem sannanlega reka eigið heimili. Með rekstri eigin heimilis er átt við þær aðstæður þegar viðkomandi býr í eigin húsnæði eða leigir húsnæði og leggur fram þinglýstan húsaleigusamning því til staðfestingar.
Grunnupphæð fjárhagsaðstoðar tekur mið af framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara vegna einstaklings og skal breytt í samræmi við hana.
Framfærslugrunnur einstaklings sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði er á kvarðanum 0,8. Framfærslugrunnur einstaklings sem býr hjá foreldrum er á kvarðanum 0,5. Hafi hann einnig forsjá barns, skal framfærslugrunnur reiknaður á kvarðanum 0,8.
Framfærslugrunnur einstæðra foreldra er á kvarðanum 1,6.
Framfærslugrunnur hjóna og fólks í sambúð er á kvarðanum 1,6.
Framfærslugrunnur hjóna og fólks í sambúð með börn er á kvarðanum 1,8.
Til viðbótar við grunnfjárhæð skal í hverjum mánuði greidd sérstök fjárhagsaðstoð fyrir hvert barn sem er með lögheimili og á framfæri foreldris sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum. Skal aðstoðin mæta kostnaði vegna dvalar barna í leikskóla í allt að átta tíma og dvalar barns í frístund, fimm daga í viku. Fjárhæð fjárhagsaðstoðarinnar tekur mið af gjaldskrá leik- og grunnskóla Múlaþings, Fljótsdalshrepps og Vopnafjarðarhrepps hverju sinni.
Frá upphæð fjárhagsaðstoðar dragast skattskyldar tekjur, sbr. 10. gr. í reglum þessum. Miða skal við heildartekjur áður en tekjuskattur er dreginn frá.
Aðstoð við námsmenn fer eftir ákvæðum 14. og 20. gr. í reglum þessum.
Einstaklingar 18 ára og yngri eiga ekki rétt á fjárhagsaðstoð.
9. gr. Skerðing fjárhagsaðstoðar.
Hafni einstaklingur vinnu eða vinnumarkaðsúrræði, hefur verið settur á bið hjá Vinnumálastofnun, hefur fyrirgert rétti sínum til atvinnuleysisbóta eða hefur ekki sinnt virkri atvinnuleit með sannanlegum hætti er heimilt að greiða helming grunnfjárhæðar til framfærslu, kvarði 0,5, þann sama mánuð og mánuðinn þar á eftir. Sama gildir um umsækjanda sem hætt hefur þátttöku í átaksverkefni, endurhæfingu eða námi, nema veigamiklar ástæður liggi að baki að mati ráðgjafa.
Þeir einstaklingar sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu á grundvelli læknisvottorðs um óvinnufærni skulu í samvinnu við viðeigandi fagaðila gera einstaklingsáætlun sem miðar að því að umsækjandi nái vinnufærni að öllu leyti eða að hluta. Sinni einstaklingur ekki einstaklingsáætlun er heimilt að greiða helming grunnfjárhæðar til framfærslu þann mánuð og mánuðinn á eftir nema um veigamiklar ástæður sé að ræða að mati ráðgjafa. Læknisvottorð skal að jafnaði ekki vera eldra en fjögurra vikna þegar það er lagt fram.
Hafni viðkomandi þátttöku í einstaklingsáætlun, sbr. 7. gr. reglna þessara og/eða stendur ekki við áætlunina, er heimilt að greiða helming grunnfjárhæðar til framfærslu, kvarði 0,5, eða henni verður hætt, enda liggi fyrir rökstuddar ástæður að mati ráðgjafa.
Taka skal mið af félagslegum aðstæðum barna áður en ákvörðun er tekin um skerðingu fjárhagsaðstoðar til einstaklinga sem eru með börn á framfæri.
10. gr. Tekjur umsækjanda/maka.
Með tekjum er átt við allar innlendar og erlendar skattskyldar tekjur einstaklings og sambúðaraðila s.s. atvinnutekjur og aðrar skattskyldar tekjur: greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands eða sjúkrasjóðum stéttarfélaga, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur, verktakagreiðslur, greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, mæðra- og feðralaun og framlag til menntunar eða starfsþjálfunar, samkvæmt 62. gr. barnalaga nr. 76/2003, sem ungmenni 18-20 ára kunna að fá.
Allar tekjur einstaklings og sambúðaraðila samkvæmt nýjustu upplýsingum úr staðgreiðsluskrá og skattframtali síðastliðna þrjá mánuði koma til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar að undanskildum greiðslum vegna barna, húsnæðis-/vaxtatekna og/eða sérstaks húsnæðisstuðnings. Mæðra- og feðralaun reiknast umsækjanda til tekna.
Heimilt er að veita undanþágu frá tekjum fyrri mánaðar vegna einstaklinga sem eru að ljúka endurhæfingu og hafa fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, fyrsta mánuð eftir að greiðslum lýkur. Miðað skal við heildartekjur áður en skattur hefur verið dreginn frá.
11. gr. Eignir umsækjanda.
Eigi umsækjandi, maki hans eða sambúðaraðili peningalegar eignir eða aðrar eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi býr í og eina fjölskyldubifreið, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skal umsækjanda vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þó að viðkomandi sé undir viðmiðunarmörkum.
12. gr. Kostnaður vegna húsnæðis.
Við afgreiðslu fjárhagsaðstoðar er gert ráð fyrir að kostnaði umsækjanda vegna húsnæðis verði mætt með greiðslum húsnæðis- eða vaxtabóta, sem og hluta af framfærslugrunni.
13. gr. Atvinnurekendur, sjálfstætt starfandi einstaklingar, hlutastörf.
Atvinnurekandi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur á kost á fjárhagsaðstoð hafi hann hætt rekstri og lokað virðisaukaskattsnúmeri, auk þess að hafa leitað réttar síns til atvinnuleysisbóta í samræmi við ákvæði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Sé umsækjandi í hlutastarfi með tekjur undir grunnfjárhæð skal gerð krafa um að viðkomandi skrái sig hjá Vinnumálastofnun og óski eftir fullu starfi.
14. gr. Styrkur vegna skólagjalda og kaupa á námsgögnum.
Heimilt er að veita tekjulágum foreldrum sem hafa átt við langvarandi félagslega erfiðleika að etja fjárstyrk vegna náms barna yngri en 18 ára sem stunda nám í framhaldsskóla. Styrkurinn er veittur vegna innritunargjalda og kaupa á námsgögnum. Hámarksupphæð er ¼ af grunnframfærslu á barn fyrir hverja önn.
15. gr. Aðstoð til foreldra vegna barna á þeirra framfæri.
Heimilt er að veita sérstaka aðstoð til foreldra vegna barna á þeirra framfæri í eftirtöldum tilvikum:
- Heimilt er að veita sérstaka aðstoð til foreldra í þeim mánuði sem þeir fá greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum vegna skólabyrjunar 15. ágúst og sérstaka aðstoð vegna jólahalds 1. desember á ári hverju. Um er að ræða 1/10 af grunnframfærslu fyrir hvert barn í hvort skipti. Heimildin nær til þeirra foreldra sem fá greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum í ágúst og desember ár hvert.
- Í þeim tilvikum þar sem um er að ræða sérstök meðferðar- og eða stuðningssjónarmið, fyrirbyggjandi starf á sviði barnaverndar eða á grundvelli einstaklingsáætlunar, er heimilt að veita foreldrum styrk vegna áfallandi greiðslna sem nema heildarkostnaði eða hluta hans vegna daggæslu barns í heimahúsum, leikskóla, skóladagvistar, frístundaheimilis, sumardvalar, læknis- og lyfjakostnaðar, kostnaði vegna fermingar, skólagjalda og/eða þátttöku barns í þroskandi félags-, íþrótta- og tómstundastarfi. Ætíð skal vera um tímabundna samþykkt að ræða, sem sætir endurskoðun á sex mánaða fresti. Aðstoðin greiðist aðeins til þeirra foreldra sem eru tekjulágir eða eru undir framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara.
Hámarksaðstoð skal miðast við þriðjung grunnfjárhæðar til framfærslu. Félagsþjónusta greiðir úrræði beint til þjónustuveitanda samkvæmt reikningi eða útlagðan kostnað beint til foreldra.
16. gr. Húsbúnaðarstyrkur.
Húsbúnaðarstyrk má veita þeim einstaklingum sem eru eignalausir, eiga í miklum félagslegum erfiðleikum og með tekjur við viðmiðunarmörk fjárhagsaðstoðar og eiga ekki húsbúnað.
Húsbúnaðarstyrkur getur að hámarki orðið því sem nemur hálfri grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, kvarði 0,5, og greiðist aðeins í eitt skipti gegn framvísun kvittana.
17. gr. Greiðsla sérfræðiaðstoðar.
Einungis er sérfræðiaðstoð greidd til þeirra sem eru undir framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara eða lífeyrisþega með greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og eiga ekki rétt á aukinni greiðsluþátttöku ríkisins. Undantekning er gerð vegna aðstoðar við áfengis- og vímuefnameðferð eða sambærilegrar aðstoðar sem ekki er niðurgreidd annars staðar.
Umsækjandi þarf að uppfylla eitt af fjórum skilyrðum:
- Hafa verið atvinnu- eða tekjulaus undanfarna sex mánuði.
- Vera lífeyrisþegi með greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sem megintekjur heimilisins.
- Hafa notið framfærslu til lengri tíma.
- Vera tekjulágur eða sem nemur mánaðarlegum greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.
Greitt er vegna:
- Læknis-og lyfjakostnaðar.
- Nauðsynlegra tannlækninga.
- Kaupa á hjálpartækjum svo sem gleraugum og heyrnartækjum til einstaklinga ef aðrir aðilar gera það ekki.
Hámark aðstoðar er 1/3 af grunnframfærsluviðmiði fjárhagsaðstoðar á ári fyrir hvern af þremur ofantöldum þáttum gegn framlögðum reikningum.
Einnig er heimilt að veita einstaklingi sem hefur búið við mikla félagslega erfiðleika til lengri tíma eða sem hefur orðið fyrir alvarlegum áföllum, svo sem skyndilegum ástvinamissi eða alvarlegu ofbeldi, styrk til greiðslu viðtala hjá viðurkenndum fagaðilum, enda sé fyrirsjáanlegt að ekki sé hægt að veita þjónustuna innan fjölskyldusviðsins eða á vegum opinberra heilbrigðisstofnana. Þá er heimilt að veita einstaklingum á meðferðar- eða sjúkrastofnunum styrk vegna húsnæðiskostnaðar til allt að tveggja mánaða. Styrkurinn er ávallt hluti af einstaklingsáætlun og er hámarksaðstoð ½ grunnframfærsluviðmið fjárhagsaðstoðar á ári.
18. gr. Útfararstyrkir.
Heimilt er að veita styrk vegna útfarar þegar sannreynt hefur verið að dánarbú getur ekki kostað útför hins látna. Viðmiðunarmörk eru grunnframfærsluviðmið á kvarðanum 1,5.
Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja umsókn um útfararstyrk:
- Staðfest eintak af skattframtali hins látna og útprentun úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.
- Launaseðill og greiðsluyfirlit frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum.
- Staðfesting frá stéttarfélagi um rétt til útfararstyrks. Styrkur frá stéttarfélagi kemur til frádráttar frá aðstoð félagsþjónustu.
- Tilkynning sýslumanns um skiptalok á grundvelli eignayfirlýsingar, sbr. 25. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991, eða einkaskiptaleyfi útgefnu af sýslumanni til erfingja skv. 31. gr. og sbr. 28. gr. sömu laga.
Heimilt er að veita eftirlifandi maka lán eða styrk vegna útfarar þegar eignir dánarbús hrökkva ekki til og eignir eftirlifandi maka eru ekki umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi býr í og eina fjölskyldubifreið, sbr. 11. gr. reglna þessara.
Heimilt er að veita tekjulágu foreldri eða foreldrum lán eða styrk vegna úrfararkostnaðar barns þess þegar dánarbúið getur ekki greitt fyrir útför barns og eignir foreldra eru ekki aðrar en íbúðarhúsnæði sem umsækjandi býr í.
19. gr. Áfallaaðstoð.
Heimilt er að veita tekjulágum einstaklingum eða fjölskyldum fjárhagsaðstoð vegna skyndilegs missis búslóðar eða annars eignamissis sem orðið hefur vegna bruna eða náttúruhamfara. Einnig þegar rýma þarf íbúð af heilbrigðisástæðum er heimilt að veita aðstoð til kaupa á búslóð. Aðstoðin kemur einungis til álita þegar tjónþoli hefur ekki haft heimilistryggingu eða aðra tryggingu sem bætir tjónið. Hámarksaðstoð er helmingur af grunnframfærsluviðmiði fjárhagsaðstoðar, kvarði 0,5.
Heimilt er að veita fjárhagsaðstoð vegna alvarlegra veikinda umsækjanda, barns, maka eða foreldris. Miða skal við að fjárhagur sé þröngur og að um mikla röskun á högum sé að ræða. Aðstoðin skal að öðru jöfnu veitt vegna ferðakostnaðar og uppihalds ef aðrir aðilar svo sem Tryggingastofnun ríkisins veita ekki aðstoð. Gert er ráð fyrir að viðkomandi sæki til ríkisskattstjóra um lækkun skatta vegna sömu aðstæðna. Hámarksaðstoð er grunnframfærsluviðmið fjárhagsaðstoðar á kvarðanum 1,2.
20. gr. Námsstyrkir.
Námsstyrki er heimilt að veita einstaklingum og einstæðum foreldrum sem hafa tekjur við eða undir viðmiðunarmörkum og ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla, og hafa átt við félagslega erfiðleika að stríða. Umsækjandi þarf að hafa haft tekjur undanfarna þrjá mánuði sem eru undir grunnfjárhæð, eða tekjur sex mánuði á undan lægri en lágmarksatvinnuleysisbætur.
Aðstoðin miðast við mánaðarlega greiðslu grunnframfærslu fjárhagsaðstoðar ásamt almennum skólagjöldum og bókakostnaði. Skólagjöld og bókakostnaður í upphafi annar geta að hámarki numið helmingi grunnframfærslu fjárhagsaðstoðar, kvarði 0,5, samkvæmt framlögðum reikningum einstaklings.
Miðað skal við að námið leiði til þess að nemandi fái starfsréttindi eða geti síðar hafið nám sem er lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Ákvarðanir um námsstyrk skulu teknar fyrir hverja önn og er heimilt að halda námsaðstoð áfram með hliðsjón af námsframvindu.
Nemandi skal leggja fram yfirlit yfir skólasókn mánaðarlega og einkunnir eða námsmat í annarlok. Auk þess er starfsmanni félagsþjónustunnar heimilt að kalla eftir frekari upplýsingum um ástundun og námsframvindu. Starfsmaður skal meta námsframvindu miðað við aðstæður hvers og eins. Heimilt er að stöðva greiðslur til einstaklinga sýni þeir ekki fram á eðlilega námsframvindu miðað við getu og áætlanir.
Aðstoðin skal vera liður í umfangsmeiri vinnu starfsmanna sem miðar m.a. að því að gera viðkomandi kleift að lifa efnahagslega sjálfstæðu lífi.
Félagsþjónusta Múlaþings og einstaklingur skulu gera með sér samning um félagslega ráðgjöf, þar sem kemur fram hvernig skuli staðið að skilum gagna varðandi skólasókn, námsframvindu, námsmat, eða einkunnir. Einkunnum eða námsmati skal skilað í annarlok.
21. gr. Aðstoð vegna sérstakra fjárhagserfiðleika.
Heimilt er að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika, að uppfylltum öllum neðangreindum skilyrðum:
- Að tekjur einstaklings séu undir framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara eða umsækjandi sé lífeyrisþegi með greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.
- Að umsækjandi hafi ekki fengið fyrirgreiðslu samkvæmt þessari grein undanfarna 24 mánuði.
- Að staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana.
- Fyrir liggi yfirlit starfsmanns félagsþjónustunnar eða umboðsmanns skuldara um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum þegar við á.
- Fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni bæta fjárhagsstöðu umsækjanda þegar til lengri tíma er litið.
- Fyrir liggi samningur um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf.
Þegar um lán er að ræða skal greiðsluáætlun fylgja með umsókn.
Ekki er heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skulda við banka, sparisjóði eða aðrar lánastofnanir, s.s. greiðslukortafyrirtæki. Þá er hvorki heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skattaskulda og sekta, né heldur til greiðslu skulda við einkaaðila.
Styrkurinn eða lánið getur verið veitt til kaupa á nauðsynjum, svo sem gleraugum, heyrnartækjum og öðrum hjálpartækjum. Jafnframt er heimilt að veita fæðingarstyrk séu tekjur undir viðmiðunarmörkum. Þá er heimilt að veita einstaklingum á meðferðar- eða sjúkrastofnunum styrk vegna húsnæðiskostnaðar til allt að tveggja mánaða. Styrkurinn kemur að jafnaði aðeins til álita sýni umsækjandi fram á að styrkur muni breyta stöðu hans til hins betra þegar til lengri tíma er litið.
Aðstoð samkvæmt þessari grein er veitt vegna barna, þ.e. leikskólaskuldar, skuldar vegna skólagæslu og fæðis í skóla og enn fremur vegna húsnæðis, þ.e. húsaleigu, fasteignagjalda, rafmagns og hita. Hámarksaðstoð á heimili er grunnframfærsluviðmið fjárhagsaðstoðar á kvarðanum 1,5.
22. gr. Ábyrgðaryfirlýsing vegna tryggingar húsaleigu félagslegra leiguíbúða hjá Múlaþingi og hjá Brák íbúðafélagi hses.
Heimilt er að gefa út ábyrgðaryfirlýsingu til tryggingar húsaleigu félagslegs húsnæðis hjá Múlaþingi og hjá Brák íbúðafélagi hses, að hámarki 600.000. kr. til þeirra sem eru með skattskyldar tekjur um eða við tekjuviðmið Tryggingastofnunar.
Umsækjandi skal leggja fram staðfestingu á því að eiga ekki kost á láni frá bönkum eða lánastofnunum.
Skilyrði 3. mgr. 5. gr. reglna þessara skulu vera uppfyllt sé veitt aðstoð samkvæmt þessu ákvæði.
Húsaleigusamningur skal liggja fyrir áður en ábyrgðaryfirlýsing er gefin út. Framvísa skal afriti af þinglýstum húsaleigusamningi.
Húsaleigutryggingu skal veita í formi yfirlýsingar um ábyrgð til leigusala.
Aðstoð samkvæmt þessu ákvæði skal að hámarki veita einu sinni á 12 mánaða tímabili.
23. gr. Bráðaaðstoð.
Heimilt er að veita einstaklingi bráðaaðstoð þó svo öll tilskilin gögn fylgi ekki umsókn ef um brýna neyð er að ræða. Bráðaaðstoð getur ekki numið hærri fjárhæð en ¼ af grunnfjárhæð einstaklings á mánuði. Reynist umsækjandi eiga rétt á fjárhagsaðstoð samkvæmt reglum þessum skal tekið tillit til lánsins/styrksins við útborgun fjárhagsaðstoðar.
IV. KAFLI Ýmis ákvæði.
24. gr. Málsmeðferð.
Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæðum XVI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.
25. gr. Könnun á aðstæðum.
Kanna skal aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn hefur borist.
26. gr. Samvinna við umsækjanda.
Öflun gagna og upplýsinga skal unnin í samvinnu við umsækjanda. Við meðferð umsóknar og ákvarðanatöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er, að öðrum kosti umboðsmann hans.
27. gr. Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum.
Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfsmenn kynnst einkahögum umsækjanda eða annarra í starfi sínu er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu samþykki viðkomandi.
Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.
Vinnsla mála í teymum sérfræðinga, með málsaðilum er háð upplýstu samþykki málsaðila.
28. gr. Niðurstaða og rökstuðningur synjunar.
Kynna skal niðurstöðu umsóknar svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan í viðeigandi ákvæði þessara reglna.
29. gr. Áfrýjun
Telji umsækjandi á rétt sinn hallað skv. reglum þessum er honum heimilt að vísa ákvörðun félagsþjónustunnar til fjölskylduráðs innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðunina. Fjölskylduráð skal fjalla um umsókn og taka ákvörðun um afgreiðslu hennar svo fljótt sem unnt er.
30. gr. Málskot.
Umsækjandi getur skotið ákvörðun fjölskylduráðs til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun fjölskylduráðs.
31. gr. Gildistaka.
Reglur þessar taka þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur um fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu Múlaþings nr. 472/2025.
Samþykkt í byggðarráði Múlaþings 1. júlí 2025.
Múlaþingi, 2. júlí 2025.
Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri.
B deild — Útgáfudagur: 16. júlí 2025