Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Upplýsingar um auglýsingu

Deild

B deild

Stofnun

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Málaflokkur

Skattar - gjöld - tollar

Undirritunardagur

23. desember 2025

Útgáfudagur

30. desember 2025

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.

Nr. 1520/2025

23. desember 2025

REGLUGERÐ

um upplýsingaöflun og upplýsingaskipti vegna sýndareigna.

I. KAFLI Skyldur þjónustuveitenda sýndareigna sem veita skýrslugjöf.

1. gr.

Þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf fellur undir kröfurnar um skýrslugjöf og áreiðanleikakönnun í II. og III. kafla hér á landi, ef hann er:

  1. eining eða einstaklingur sem er með búsetu í skattalegu tilliti hér á landi,
  2. eining sem a) er stofnuð eða skipulögð samkvæmt íslenskum lögum og b) er annaðhvort með réttarstöðu lögaðila hér á landi eða ber skylda til að skila skattframtölum eða skatt­upplýsingum til skattyfirvalda hér á landi að því er varðar tekjur einingarinnar,
  3. eining sem er stjórnað frá Íslandi, eða
  4. eining eða einstaklingur sem er með reglulega starfsstöð hér á landi.

Þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf fellur undir kröfurnar um skýrslugjöf og áreiðanleikakönnun í II. og III. kafla hér á landi að því er tekur til viðkomandi viðskipta sem framkvæmd eru í gegnum útibú hér á landi.

Ekki er gerð krafa um að þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf og er eining uppfylli kröfurnar um skýrslugjöf og áreiðanleikakönnun í II. og III. kafla sem hún fellur undir hér á landi skv. 2., 3. eða 4. tölul. 1. mgr., ef slíkur þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf uppfyllir slíkar kröfur í lögsögu samstarfsaðila vegna þess að hann er með búsetu í skattalegu tilliti í slíkri lögsögu samstarfsaðila.

Ekki er gerð krafa um að þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf og er eining uppfylli kröfurnar um skýrslugjöf og áreiðanleikakönnun í II. og III. kafla sem hann fellur undir hér á landi skv. 3. eða 4. tölul. 1. mgr., ef slíkur þjónustuveitandi sýndareigna uppfyllir slíkar kröfur í lögsögu samstarfsaðila vegna þess að hann er eining sem a) er stofnuð eða skipulögð samkvæmt lögum slíkrar lögsögu samstarfsaðila og b) hefur annaðhvort réttarstöðu lögaðila í lögsögu samstarfsaðila eða er skylt að skila skattframtölum eða skattupplýsingum til skattyfirvalda í lögsögu samstarfsaðila að því er varðar tekjur einingarinnar.

Ekki er gerð krafa um að þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf og er eining uppfylli kröfurnar um skýrslugjöf og áreiðanleikakönnun í II. og III. kafla sem hann fellur undir hér á landi skv. 4. tölul. 1. mgr. ef slíkur þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf uppfyllir slíkar kröfur í lögsögu samstarfsaðila vegna þess að honum er stjórnað frá slíkri lögsögu samstarfsaðila.

Ekki er gerð krafa um að þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf og er einstaklingur uppfylli kröfurnar um skýrslugjöf og áreiðanleikakönnun í II. og III. kafla sem hann fellur undir hér á landi skv. 4. tölul. 1. mgr. ef slíkur þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf uppfyllir slíkar kröfur í lögsögu samstarfsaðila vegna þess að hann er með búsetu í skattalegu tilliti í slíkri lögsögu samstarfsaðila.

Ekki er gerð krafa um að þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf uppfylli kröfurnar um skýrslugjöf og áreiðanleikakönnun í II. og III. kafla hér á landi að því er varðar viðkomandi viðskipti sem hann framkvæmir í gegnum útibú í lögsögu samstarfsaðila ef slíkt útibú uppfyllir slíkar kröfur í slíkri lögsögu samstarfsaðila.

Ekki er gerð krafa um að þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf uppfylli kröfurnar um skýrslugjöf og áreiðanleikakönnun í II. og III. kafla sem hann fellur undir hér á landi skv. 1., 2., 3. eða 4. tölul. 1. mgr. ef hann hefur lagt fram tilkynningu hér á landi á því formi sem yfirvöld hafa tilgreint, þar sem staðfest er að slíkur þjónustuveitandi sýndareigna hafi uppfyllt slíkar kröfur samkvæmt reglum lögsögu samstarfsaðila í samræmi við, í meginatriðum, svipuð tengsl sem hann fellur undir hér á landi.

II. KAFLI Skýrslugjafarkröfur.

2. gr. Tilkynningar til skattyfirvalda.

Þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf verður að tilkynna eftirfarandi upplýsingar að því er tekur til notenda sýndareigna sem eru tilkynningarskyldir notendur eða sem hafa stjórnandi aðila sem eru tilkynningarskyldir aðilar, fyrir hvert viðkomandi almanaksár eða annað viðeigandi skýrslutímabil, og með fyrirvara um skyldur þjónustuveitenda sýndareigna sem veita skýrslugjöf í I. kafla og aðferðir við áreiðanleikakönnunum í III. kafla:

  1. nafn, heimilisfang, lögsögu aðseturs, skattkennitölu (TIN) og fæðingardag og -stað (ef um einstakling er að ræða) hvers tilkynningarskylds notanda og, ef um er að ræða einingu sem, eftir að aðferðum við áreiðanleikakönnun hefur verið beitt, er auðkennd með einn eða fleiri stjórnandi aðila sem eru tilkynningarskyldir aðilar, nafn, heimilisfang, lögsögu aðseturs og skattkennitölu einingarinnar og nafn, heimilisfang, lögsögu aðseturs, skattkennitölu og fæðingardag og -stað hvers tilkynningarskylds einstaklings, ásamt hlutverki eða hlutverkum sem gera hvern tilkynningarskyldan aðila að stjórnandi aðila einingar,
  2. nafn, heimilisfang og auðkennisnúmer (ef við á) þjónustuveitanda sýndareigna sem veitir skýrslugjöf,
  3. fyrir hverja tegund viðkomandi sýndareignar sem hann hefur framkvæmt viðkomandi viðskipti með á viðkomandi almanaksári eða öðru viðeigandi skýrslutímabili:
    1. fullt tegundarheiti viðkomandi sýndareignar,
    2. samanlagða greidda verga fjárhæð, samanlagðan fjölda eininga og fjölda viðkomandi viðskipta að því er varðar kaup fyrir lögeyri,
    3. samanlagða móttekna verga fjárhæð, samanlagðan fjölda eininga og fjölda viðkomandi viðskipta að því er varðar sölu í lögeyri,
    4. samanlagt sanngjarnt markaðsvirði, samanlagðan fjölda eininga og fjölda viðkomandi viðskipta að því er varðar kaup fyrir aðrar viðkomandi sýndareignir,
    5. samanlagt sanngjarnt markaðsvirði, samanlagðan fjölda eininga og fjölda viðkomandi viðskipta að því er varðar sölu fyrir aðrar viðkomandi sýndareignir,
    6. samanlagt markaðsvirði, samanlagðan fjölda eininga og fjölda tilkynningarskyldra smásölu­greiðslna,
    7. samanlagt sanngjarnt markaðsvirði, samanlagðan fjölda eininga og fjölda viðkomandi viðskipta, skipt niður eftir tegund millifærslu ef þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf veit hana, að því er varðar millifærslur til tilkynningarskylds notanda sem falla ekki undir b- og d-lið þessa töluliðar,
    8. samanlagt sanngjarnt markaðsvirði, samanlagðan fjölda eininga og fjölda viðkomandi viðskipta, skipt niður eftir tegund millifærslu ef þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf veit hana, að því er varðar millifærslur tilkynningarskylds notanda sem falla ekki undir c-, e- og f-lið þessa töluliðar, og
    9. samanlagt sanngjarnt markaðsvirði, sem og samanlagðan fjöldi eininga að því er varðar millifærslur tilkynningarskylds notanda sýndareigna sem þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf framkvæmir á vistföng veskja sem þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf veit ekki til að tengist þjónustuveitanda sýndareigna eða fjármála­stofnun.

Þrátt fyrir 1. tölul. 1. mgr. er ekki gerð krafa um að skattkennitala sé tilgreind ef i) skattkennitala er ekki gefin út í viðkomandi tilkynningarskyldri lögsögu eða ii) landslög viðkomandi tilkynningarskyldrar lögsögu krefjast þess ekki að skattkennitala sem slík tilkynningarskyld lögsaga gefur út sé gefin upp.

Þrátt fyrir 1. tölul. 1. mgr. er ekki gerð krafa um að fæðingarstaður sé tilgreindur, nema þess sé annars krafist að þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf afli upplýsinga um hann og tilkynni samkvæmt innlendum rétti.

Að því er varðar b- og c-lið 3. tölul. 1. mgr. verður að tilkynna greidda eða móttekna fjárhæð í þeim lögeyri sem hún var greidd eða móttekin. Ef fjárhæðir hafa verið greiddar eða mótteknar í fleiri en einum lögeyri verður að tilkynna þær í einum lögeyri sem þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf umreiknar við hver viðkomandi viðskipti með samræmdum hætti.

Að því er varðar d- til i-lið 3. tölul. 1. mgr. verður að ákvarða og tilkynna sanngjarnt markaðsvirði í einum lögeyri sem þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf metur við hver viðkomandi viðskipti með samræmdum hætti.

Tilkynntar upplýsingar verða að auðkenna lögeyri sem hver fjárhæð er tilkynnt í.

Tilkynna verður upplýsingarnar skv. 1. mgr. fyrir 20. janúar á almanaksárinu næst á eftir árinu sem upplýsingarnar eiga við nema annað komi fram í auglýsingu ríkisskattstjóra.

III. KAFLI Aðferðir við áreiðanleikakönnun.

3. gr.

Farið er með notanda sýndareignar sem tilkynningarskyldan notanda frá og með deginum þegar hann er tilgreindur sem slíkur samkvæmt þeim aðferðum við áreiðanleikakönnun sem er lýst í þessum kafla.

4. gr. Aðferðir við áreiðanleikakönnun fyrir notendur sýndareigna
sem eru einstaklingar.

Eftirfarandi aðferðir gilda til að ákvarða hvort notandi sýndareignar sem er einstaklingur sé tilkynningarskyldur notandi:

  1. Þegar komið er á tengslum við notanda sýndareigna sem er einstaklingur, eða að því er varðar fyrirliggjandi notendur sýndareigna sem eru einstaklingar, áður en 12 mánuðir eru liðnir frá gildistökudegi þessara reglna, verður þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslu­gjöf að fá sjálfvottun sem gerir honum kleift að ákvarða heimilisfesti í skattalegu tilliti notanda sýndareigna sem er einstaklingur og staðfesta réttmæti slíkrar sjálfvottunar út frá upplýs­ingunum sem þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf hefur aflað, þ.m.t. öllum skjölum sem safnað hefur verið í tengslum við verklagsreglur vegna aðgerða gegn peninga­þvætti og/eða til að kanna deili á viðskiptavini (e. AML/KYC Procedures).
  2. Ef aðstæður notenda sýndareigna sem eru einstaklingar breytast á einhverjum tímapunkti sem veldur því að þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf veit eða hefur ástæðu til að vita að upphaflega sjálfvottunin er röng eða óáreiðanleg getur þjónustuveitandi sýndar­eigna sem veitir skýrslugjöf ekki reitt sig á upprunalega sjálfvottun og verður að fá gilda sjálfvottun eða eðlilega skýringu og, eftir því sem við á, skjöl sem styðja lögmæti upphaf­legrar sjálf­vottunar.

5. gr. Aðferðir við áreiðanleikakönnun fyrir notendur sýndareigna
sem eru einingar.

Eftirfarandi aðferðir gilda til að ákvarða hvort notandi sýndareigna sem er eining sé tilkynningarskyldur notandi eða eining, önnur en undanþeginn aðili eða virk eining með einn eða fleiri stjórnandi aðila sem eru tilkynningarskyldir aðilar:

  1. Ákvörðun um hvort notandi sýndareigna sem er eining sé tilkynningarskyldur notandi:
    1. Þegar komið er á tengslum við notanda sýndareigna sem er eining, eða að því er varðar fyrirliggjandi notendur sýndareigna sem eru einingar, áður en 12 mánuðir eru liðnir frá gildistökudegi þessara reglna, verður þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf að fá sjálfvottun sem gerir honum kleift að ákvarða heimilisfesti í skattalegu tilliti not­anda sýndareigna sem er eining og staðfesta réttmæti slíkrar sjálfvottunar út frá upp­lýsingunum sem þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf hefur aflað, þ.m.t. öllum skjölum sem safnað hefur verið í tengslum við verklagsreglur vegna aðgerða gegn peningaþvætti og/eða til að kanna deili á viðskiptavini. Ef notandi sýndareigna sem er eining staðfestir að hann sé ekki með skattalegt heimilisfesti getur þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf stuðst við hvar raunveruleg framkvæmdastjórn hans hefur aðsetur eða heimilisfang aðalskrifstofu til að ákvarða heimilisfesti notanda sýndar­eigna sem er eining.
    2. Ef sjálfvottunin gefur til kynna að notandi sýndareigna sem er eining hafi heimilisfesti í tilkynningarskyldri lögsögu verður þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf að meðhöndla notanda sýndareigna sem er eining sem tilkynningarskyldan notanda, nema hann ákvarði með sanngjörnum hætti, samkvæmt sjálfvottun eða upplýsingum sem hann býr yfir eða sem eru aðgengilegar öllum, að notandi sýndareigna sem er eining sé undan­þeginn aðili.
  2. Ákvörðun um hvort eining hafi einn eða fleiri stjórnandi aðila sem eru tilkynningarskyldir aðilar. Að því er varðar notanda sýndareigna sem er eining, önnur en undanþeginn aðili, verður þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf að ákvarða hvort hann hafi einn eða fleiri stjórnandi aðila sem eru tilkynningarskyldir aðilar, nema hann ákvarði að notandi sýndareigna sem er eining sé virk eining, samkvæmt sjálfvottun frá notanda sýndareigna sem er eining:
    1. Ákvörðun á stjórnandi aðilum notanda sýndareigna sem er eining. Til að ákvarða stjórn­andi aðila notanda sýndareigna sem er eining getur þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf reitt sig á upplýsingar sem er safnað og viðhaldið í tengslum við verklags­reglur vegna aðgerða gegn peningaþvætti og/eða til að kanna deili á viðskipta­vini, að því tilskildu að þau séu í samræmi við tilmæli fjármálaaðgerðahópsins (e. FATF) frá 2012 (eins og þau voru uppfærð í júní 2019 varðandi þjónustuveitendur sýndareigna). Ef þjónustuveitanda sýndareigna sem veitir skýrslugjöf er ekki lagalega skylt að beita verklagsreglum vegna aðgerða gegn peningaþvætti og/eða til að kanna deili á viðskiptavini sem eru í samræmi við tilmæli fjármálaaðgerðahópsins frá 2012 (eins og þau voru uppfærð í júní 2019 varðandi þjónustuveitendur sýndareigna), verður hann að beita verklagi sem er í meginatriðum svipað til að ákvarða hverjir eru stjórnandi aðilar.
    2. Ákvörðun um hvort stjórnandi aðili notanda sýndareigna sem er eining sé tilkynningar­skyldur aðili. Til að ákvarða hvort stjórnandi aðili sé tilkynningarskyldur aðili verður þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf að reiða sig á sjálfvottun frá notanda sýndareigna sem er eining eða slíkum stjórnandi aðila sem gerir þjónustuveitanda sýndar­eigna sem veitir skýrslugjöf kleift að ákvarða heimilisfesti stjórnandi aðila í skattalegu tilliti og staðfesta réttmæti slíkrar sjálfvottunar, samkvæmt þeim upplýsingum sem þjón­ustu­veitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf hefur aflað, þ.m.t. öllum skjölum sem safnað hefur verið í tengslum við verklagsreglur vegna aðgerða gegn peninga­þvætti og/eða til að kanna deili á viðskiptavini.
  3. Ef aðstæður notanda sýndareigna sem eru einingar eða stjórnandi aðila þeirra breytast á einhverjum tímapunkti sem veldur því að þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslu­gjöf veit eða hefur ástæðu til að vita að upphaflega sjálfvottunin er röng eða óáreiðanleg, getur þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf ekki reitt sig á upprunalega sjálfvottun og verður að fá gilda sjálfvottun eða eðlilega skýringu og, eftir því sem við á, skjöl sem styðja gildi upphaflegrar sjálfvottunar.

6. gr. Kröfur um lögmæti sjálfvottana.

  1. Sjálfvottun sem notandi sýndareigna sem er einstaklingur eða stjórnandi aðili veitir gildir aðeins ef hún er undirrituð eða staðfest á annan hátt af notanda sýndareigna sem er einstak­lingur eða stjórnandi aðila, hún er dagsett eigi síðar en á viðtökudegi og inniheldur eftirfarandi upplýsingar að því er varðar notanda sýndareigna sem er einstaklingur eða stjórnandi aðila:
    1. eiginnafn og kenninafn,
    2. heimilisfang búsetu,
    3. lögsögu skattalegs heimilisfestis,
    4. að því er varðar hvern tilkynningarskyldan aðila, skattkennitölu fyrir hverja tilkynningar­skylda lögsögu, og
    5. fæðingardag og ár.
  2. Sjálfvottun sem notandi sýndareignar sem er eining veitir gildir aðeins ef hún er undirrituð eða staðfest á annan hátt af notanda sýndareignar, hún er dagsett eigi síðar en á viðtökudegi og inniheldur eftirfarandi upplýsingar að því er varðar notanda sýndareigna sem er eining:
    1. lögheiti,
    2. heimilisfang,
    3. lögsögu skattalegs heimilisfestis,
    4. að því er varðar hvern tilkynningarskyldan aðila, skattkennitölu fyrir hverja tilkynningar­skylda lögsögu,
    5. ef um er að ræða notanda sýndareigna sem er eining, annan en virka einingu eða undan­þeginn aðila, upplýsingarnar sem er lýst í 1. tölul. að því er varðar hvern stjórnandi aðila hjá notanda sýndareigna sem er eining, nema sá stjórnandi aðili hafi veitt sjálfvottun skv. 1. tölul., sem og hlutverkin sem gera hvern tilkynningarskyldan aðila að stjórnandi aðila einingar, ef slíkt hefur ekki þegar verið ákvarðað á grundvelli verklagsreglna vegna aðgerða gegn peningaþvætti og/eða til að kanna deili á viðskiptavini, og
    6. ef við á, upplýsingar um þær viðmiðanir sem hann uppfyllir til að geta talist virk eining eða undanþeginn aðili.
  3. Þrátt fyrir 1. og 2. tölul. er ekki gerð krafa um að skattkennitala sé tilgreind ef heimilisfestar lögsaga tilkynningarskylda aðilans gefur ekki út skattkennitölu til tilkynningarskylds aðila eða landslög viðkomandi tilkynningarskyldrar lögsögu krefjast þess ekki að tilgreind sé skatt­kennitala sem slík tilkynningarskyld lögsaga gefur út.

7. gr. Almennar kröfur um áreiðanleikakönnun.

  1. Þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf og er einnig fjármálastofnun að því er varðar almenna staðla fyrir skýrslugjöf (e. Common Reporting Standard) kann að styðjast við þær aðferðir við áreiðanleikakönnun sem lokið er skv. IV. og VI. kafla almennra staðla fyrir skýrslugjöf að því er varðar aðferðir við áreiðanleikakönnun samkvæmt þessum kafla. Þjón­ustu­veitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf getur einnig stuðst við sjálfvottun sem hefur verið tilgreind í öðru skattalegu tilliti, að því tilskildu að slík sjálfvottun uppfylli kröfurnar í 6. gr.
  2. Þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf getur reitt sig á þriðja aðila til að uppfylla skyldurnar um áreiðanleikakönnun sem eru settar fram í þessum III. kafla en slíkar skyldur verða áfram á ábyrgð þjónustuveitanda sýndareigna sem veitir skýrslugjöf.
  3. Þjónustuveitanda sýndareigna sem veitir skýrslugjöf er skylt að geyma öll skjöl og gögn í a.m.k. fimm ár eftir lok tímabilsins þegar þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslu­gjöf þarf að veita upplýsingarnar sem á að tilkynna skv. II. kafla.

IV. KAFLI Skilgreiningar á hugtökum.

8. gr. Viðkomandi sýndareign.

  1. Hugtakið „sýndareign“ á við um stafræna framsetningu verðmætis sem reiðir sig á dulritunar­varða dreifða færsluskrá (e. cryptographically secured distributed ledger) eða sambærilega tækni til að sannreyna viðskipti og gera þau örugg.
  2. Hugtakið „viðkomandi sýndareign“ á við um sérhverja sýndareign sem er ekki rafeyrir útgef­inn af seðlabanka, tilgreind rafeyrisafurð eða neins konar sýndareign sem þjónustu­veitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf hefur ákvarðað með fullnægjandi hætti að ekki sé hægt að nota til greiðslu eða fjárfestingar.
  3. Hugtakið „rafeyrir útgefinn af seðlabanka“ á við um hvers kyns stafrænan lögeyri sem seðlabanki gefur út.
  4. Hugtakið „tilgreind rafeyrisafurð“ á við um allar sýndareignir sem eru:
    1. stafræn framsetning á stökum lögeyri,
    2. gefnar út við móttöku fjármagns í þeim tilgangi að framkvæma greiðslur,
    3. settar fram með kröfu á útgefanda sem er tilgreind í sama lögeyri,
    4. samþykktar sem greiðsla af einstaklingum eða lögaðila öðrum en útgefanda og
    5. innleysanlegar hvenær sem er og á nafnverði fyrir sama lögeyri að beiðni handhafa afurðarinnar, samkvæmt þeim reglugerðarákvæðum sem útgefandinn lýtur.
    Hugtakið „tilgreind rafeyrisafurð“ nær ekki yfir afurð sem er stofnuð í þeim eina tilgangi að auðvelda millifærslu fjármagns frá viðskiptavini til annars aðila samkvæmt fyrirmælum viðskiptavinarins. Afurð er ekki stofnuð í þeim eina tilgangi að auðvelda millifærslu fjármagns ef, í venjubundnum rekstri yfirfærslueiningar, fjármagn sem tengist slíkri afurð er annaðhvort haldið lengur en í 60 daga eftir að fyrirmæli hafa borist um að framkvæma millifærsluna eða, hafi engin fyrirmæli borist, fjármagn sem tengist slíkri afurð er haldið lengur en í 60 daga eftir að fjármagn hefur borist.

9. gr. Þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf.

Hugtakið „þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf“ á við um einstakling eða einingu sem, sem fyrirtæki, veitir þjónustu sem kemur til leiðar skiptum fyrir, eða fyrir hönd, viðskiptavina, þ.m.t. með því að koma fram sem mótaðili eða milliliður í slíkum skiptum eða með því að bjóða upp á viðskiptavettvang.

10. gr. Viðkomandi viðskipti.

  1. Hugtakið „viðkomandi viðskipti“ á við um öll:
    1. skipti, og
    2. millifærslur á viðkomandi sýndareignum.
  2. Hugtakið „skipti“ á við um öll:
    1. skipti á viðkomandi sýndareignum og lögeyri, og
    2. skipti á einni eða fleiri tegundum viðkomandi sýndareigna.
  3. Hugtakið „tilkynningarskyld smásölugreiðsla“ á við um millifærslu á viðkomandi sýndar­eignum til endurgjalds fyrir vörur eða þjónustu að verðmæti sem er yfir 50.000 bandaríkja­dali.
  4. Hugtakið „millifærsla“ á við um viðskipti sem flytja viðkomandi sýndareign af eða á vistfang sýndareignar eða reikning eins notanda sýndareignar, annars en þess sem þjónustu­veitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf heldur utan um fyrir hönd sama notanda sýndareignar, ef þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf getur ekki ákvarðað að viðskiptin séu skipti, miðað við þá þekkingu sem þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf hefur á þeim tíma sem viðskiptin fara fram.
  5. Hugtakið „lögeyrir“ á við um opinberan gjaldmiðil lögsögu, sem lögsaga eða tilnefndur seðlabanki eða yfirvöld á sviði peningamála gefa út, eins og hann er sýndur með efnislegum peningaseðlum eða mynt eða peningum á ólíku stafrænu formi, þ.m.t. varasjóðum banka og rafeyri útgefnum af seðlabanka. Hugtakið nær einnig yfir peninga viðskiptabanka og rafeyris­afurðir (þ.m.t. tilgreindar rafeyrisafurðir).

11. gr. Tilkynningarskyldur notandi.

  1. Hugtakið „tilkynningarskyldur notandi“ á við um notanda sýndareigna sem er tilkynningar­skyldur aðili.
  2. Hugtakið „notandi sýndareigna“ á við um einstakling eða einingu sem er viðskiptavinur þjónustuveitanda sýndareigna sem veitir skýrslugjöf í því skyni að framkvæma viðkomandi viðskipti. Einstaklingur eða eining, önnur en fjármálastofnun eða þjónustuveitandi sýndar­eigna sem veitir skýrslugjöf, sem kemur fram sem notandi sýndareigna í þágu eða fyrir reikning annars einstaklings eða aðila sem umboðsaðili, vörsluaðili, tilnefndur aðili, undir­ritunaraðili, fjárfestingaráðgjafi eða milliliður telst ekki vera notandi sýndareigna og slíkur annar einstaklingur eða eining telst vera notandi sýndareigna. Ef þjónustuveitandi sýndar­eigna sem veitir skýrslugjöf veitir þjónustu sem kemur til leiðar tilkynningarskyldum smásölugreiðslum fyrir eða fyrir hönd söluaðila verður þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf einnig að meðhöndla viðskiptavin sem er mótaðili söluaðila í slíkri tilkynningarskyldri smásölugreiðslu sem notanda sýndareignar að því er varðar slíka tilkynningarskylda smásölugreiðslu, að því tilskildu að þjónustuveitanda sýndareigna sem veitir skýrslugjöf sé skylt að staðfesta auðkenni slíks viðskiptavinar vegna tilkynningar­skyldrar smásölugreiðslu samkvæmt innlendum reglum um baráttu gegn peningaþvætti.
  3. Hugtakið „notandi sýndareigna sem er einstaklingur“ á við um notanda sýndareigna sem er einstaklingur.
  4. Hugtakið „fyrirliggjandi notandi sýndareigna sem er einstaklingur“ á við um notanda sýndar­eigna sem er einstaklingur og hefur komið á tengslum við þjónustuveitanda sýndar­eigna sem veitir skýrslugjöf frá og með 31. desember 2025.
  5. Hugtakið „notandi sýndareigna sem er eining“ á við um notanda sýndareigna sem er eining.
  6. Hugtakið „fyrirliggjandi notandi sýndareigna sem er eining“ á við um notanda sýndareignar sem er eining og hefur komið á tengslum við þjónustuveitanda sýndareigna sem veitir skýrslu­gjöf frá og með 31. desember 2025.
  7. Hugtakið „tilkynningarskyldur aðili“ á við um annan tilkynningarskyldan aðila í lögsagnar­umdæmi en undanþeginn aðila.
  8. Hugtakið „tilkynningarskyldur aðili í lögsagnarumdæmi“ á við um einingu eða einstakling sem hefur skattalega heimilisfesti í tilkynningarskyldri lögsögu samkvæmt skattalögum slíkrar lögsögu eða dánarbú látins einstaklings sem var heimilisfastur í tilkynningarskyldri lögsögu. Í þessum tilgangi skal eining eins og sameignarfélag, samlagsfélag eða svipað laga­legt fyrirkomulag sem ekki er með skattalegt heimilisfesti teljast heimilisföst í þeirri lögsögu þar sem raunveruleg framkvæmdastjórn hennar hefur aðsetur.
  9. Hugtakið „tilkynningarskyld lögsaga“ á við um lögsögu a) þar sem samningur eða samkomu­lag er í gildi og samkvæmt því er Íslandi skylt að veita upplýsingarnar sem eru til­greindar í II. kafla að því er varðar tilkynningarskylda aðila sem eru búsettir í slíkri lögsögu og b) sem er auðkennd sem slík á lista sem Ísland birtir.
  10. Hugtakið „stjórnandi aðilar“ á við um einstaklinga sem hafa yfirráð yfir einingu. Þegar um er að ræða fjárvörslusjóð á hugtakið við um stofnendur, fjárvörsluaðila, vörsluaðila (ef við á), rétthafa eða flokka rétthafa og alla aðra einstaklinga sem hafa endanleg yfirráð yfir fjárvörslu­sjóðnum og þegar um er að ræða annað lagalegt fyrirkomulag en fjárvörslusjóð á hugtakið við um einstaklinga í jafngildum eða svipuðum stöðum. Túlka verður hugtakið „stjórnandi aðilar“ í samræmi við tilmæli fjármálaaðgerðahópsins frá 2012, eins og þau voru uppfærð í júní 2019 að því er varðar þjónustuveitendur sýndareigna.
  11. Hugtakið „virk eining“ á við um einingu sem uppfyllir einhverjar eftirfarandi viðmiðanir:
    1. minna en 50% af vergum tekjum einingar á næstliðnu almanaksári eða öðru viðeigandi skýrslutímabili eru óvirkar tekjur og innan við 50% eigna í eigu einingarinnar á næstliðnu almanaksári eða öðru viðeigandi skýrslutímabili eru eignir sem mynda eða eru í eigu einingarinnar til að mynda óvirkar tekjur,
    2. nánast öll starfsemi einingar felst í því að eiga (að hluta til eða öllu leyti) útistandandi hlutabréf í, eða veita fjármögnun og þjónustu til, eins eða fleiri dótturfélaga sem stunda aðra verslun eða starfsemi en starfsemi fjármálastofnunar, en einingin uppfyllir ekki skilyrði fyrir þessari stöðu ef hún starfar (eða kemur fram) sem fjárfestingarsjóður, svo sem sjóður með óskráð hlutabréf, áhættufjármagnssjóður, sjóður um skuldsettar yfirtökur eða hvers kyns önnur fjárfestingarleið sem hefur að markmiði að kaupa eða fjármagna félög og eiga síðan hlutdeild í félögunum sem fjármunaeignir til fjárfestinga,
    3. einingin starfrækir ekki enn fyrirtæki og hefur enga fyrri sögu um rekstur en fjárfestir fjármagni í eignum með það fyrir augum að starfrækja annað fyrirtæki en fjármála­stofnun, að því tilskildu að einingin uppfylli ekki skilyrði fyrir þessari undanþágu eftir þann dag sem er 24 mánuðum eftir upphaflegan stofndag hennar,
    4. einingin hefur ekki verið fjármálastofnun á næstliðnum fimm árum og hefur hafið innlausn á eignum sínum eða endurskipulagningu í þeim tilgangi að halda áfram eða hefja að nýju rekstur á annarri starfsemi en fjármálastofnun,
    5. einingin stundar aðallega fjármögnunar- og áhættuvarnarviðskipti með eða fyrir tengda aðila sem eru ekki fjármálastofnanir og veitir ekki aðilum fjármögnunar- eða áhættu­varnar­þjónustu sem eru ekki tengdir aðilar, að því tilskildu að samstæða slíkra tengdra aðila stundi aðallega aðra starfsemi en starfsemi fjármálastofnunar, eða
    6. einingin uppfyllir allar eftirfarandi kröfur:
      1. hún er stofnuð og starfrækt innan þeirrar lögsögu sem hún er með heimilisfesti (heimilisfestar lögsögu) aðeins í þágu trúmála, góðgerðarmála, vísinda, lista, menningar, íþrótta eða fræðslu, eða hún er stofnuð og starfrækt í þeirri lögsögu þar sem hún hefur heimilisfesti og er fagfélag, félag atvinnurekenda, verslunarráð, sam­tök launþega, landbúnaðar- eða garðyrkjusamtök, borgaraleg samtök eða samtök sem eru eingöngu starfrækt til að efla opinbera félagsþjónustu,
      2. hún er undanþegin tekjuskatti í heimilisfestar lögsögu sinni,
      3. hún hefur enga hluthafa eða félagsaðila sem hafa eignarhald á hlutum né raunveru­lega hagsmuni af tekjum hennar eða eignum,
      4. gildandi lög í heimilisfestar lögsögu einingarinnar eða stofnskjöl hennar heimila ekki að tekjum eða eignum einingarinnar sé úthlutað til eða beitt í þágu einstaklings eða einingar sem er ekki góðgerðarstofnun á annan hátt en á grundvelli góðgerðar­starfsemi einingarinnar, eða sem greiðslu sem sýnir sanngjarnt markaðsvirði fast­eignar sem einingin hefur keypt, og
      5. í gildandi lögum í heimilisfestar lögsögu einingar eða stofnskjölum hennar er gerð krafa um að við skiptameðferð eða félagsslit einingar verði öllum eignum hennar úthlutað til opinberrar einingar eða annarrar stofnunar sem er ekki rekin í hagnaðar­skyni eða þær hverfi til ríkisstjórnar í heimilisfestar lögsögu einingarinnar eða ein­hvers sjálfstæðs umdæmis hennar.

12. gr. Undanþeginn aðili.

  1. Hugtakið „undanþeginn aðili“ á við um a) einingu ef reglulega er verslað með hlutabréf hennar á einum eða fleiri viðurkenndum verðbréfamörkuðum, b) sérhverja einingu sem er tengd eining sem tengist einingu sem lýst er í a-lið, c) opinber eining, d) alþjóðastofnun, e) seðlabanka, eða f) aðra fjármálastofnun en fjárfestingareiningu sem lýst er í b-lið 5. tölul. þessarar greinar.
  2. Hugtakið „fjármálastofnun“ á við um vörslustofnun, innlánsstofnun, fjárfestingareiningu eða tilgreint vátryggingafélag.
  3. Hugtakið „vörslustofnun“ á við um hverja þá einingu þar sem verulegur hluti starfseminnar felst í að halda utan um fjáreignir fyrir hönd annarra. Að halda utan um fjáreignir fyrir hönd annarra er verulegur hluti af starfsemi einingar ef vergar tekjur einingarinnar sem rekja má til eignarhlutdeildar í fjáreignum og tengdri fjármálaþjónustu jafngildir eða fer yfir 20% af vergum tekjum einingarinnar á því tímabili sem er styttra af: i) þriggja ára tímabili sem lýkur 31. desember (eða síðasta dag uppgjörstímabils utan almanaksárs) á undan árinu þegar ákvörðunin er tekin, eða ii) tímabilinu sem einingin hefur verið starfandi.
  4. Hugtakið „innlánsstofnun“ á við um einingu sem:
    1. tekur við innlánum í venjubundnum rekstri bankaþjónustu eða sambærilegri starfsemi, eða
    2. geymir tilgreindar rafeyrisafurðir eða stafræna gjaldmiðla seðlabanka í þágu viðskiptav­ina.
  5. Hugtakið „fjárfestingareining“ á við um allar einingar:
    1. sem aðallega stunda eina eða fleiri eftirfarandi starfsemi eða rekstur fyrir eða fyrir hönd viðskiptavinar:
      1. viðskipti með peningamarkaðsgerninga (ávísanir, víxla, innlánsskírteini, afleiðu­gerninga, o.s.frv.), erlendan gjaldeyri, gjaldeyris-, vaxta- og vísitölugerninga, fram­seljan­leg verðbréf eða framtíðarsamninga um hrávöru,
      2. einstaklingsmiðaða og sameiginlega stýringu eignasafns, eða
      3. að öðru leyti fjárfesta, hafa umsjón með eða stjórna fjáreignum, peningum eða við­komandi sýndareignum fyrir hönd annarra aðila eða
    2. ef vergar tekjur hennar má aðallega rekja til fjárfestinga, endurfjárfestinga eða viðskipta með fjáreignir eða viðkomandi sýndareignir, ef einingunni er stýrt af annarri einingu sem er innlánsstofnun, vörslustofnun, tilgreint vátryggingafélag eða fjárfestingareining sem lýst er í a-lið 5. tölul. þessarar greinar.
    Eining telst aðallega hafa að meginstarfsemi eina eða fleiri tegundir starfsemi sem lýst er í a-lið 5. tölul. þessarar greinar, eða hafa vergar tekjur sem má aðallega rekja til fjárfestinga, endurfjárfestinga eða viðskipta með fjáreignir eða viðkomandi sýndareignir í skilningi b-liðar 5. tölul. þessarar greinar, ef vergar tekjur einingarinnar sem rekja má til viðkomandi starfsemi jafngilda eða fara yfir 50% af vergum tekjum einingarinnar á því tímabili sem er styttra af: i) þriggja ára tímabili sem lýkur 31. desember ársins næst á undan árinu þegar ákvörðunin er tekin, eða ii) tímabilinu sem einingin hefur verið starfandi. Að því er varðar iii-lið a-liðar 5. tölul. þessarar greinar nær hugtakið „að öðru leyti fjárfesta, hafa umsjón með eða stjórna fjáreignum, peningum eða viðkomandi sýndareignum fyrir hönd annarra einstaklinga“ ekki yfir veitingu þjónustu sem kemur til leiðar skiptum fyrir eða fyrir hönd viðskiptavina. Hugtakið „fjárfestingareining“ nær ekki yfir einingu sem er virkur aðili vegna þess að hún uppfyllir einhver viðmiðanna í b- til e-lið 11. tölul. 11. gr.
    Þessa málsgrein skal túlka á þann hátt sem samræmist sambærilegu orðalagi sem sett er fram í skilgreiningunni á „fjármálastofnun“ í tilmælum fjármálaaðgerðahópsins.
  6. Hugtakið „tilgreint vátryggingafélag“ á við um hverja þá einingu sem er vátryggingafélag (eða eignarhaldsfélag vátryggingafélags) sem gefur út, eða er skuldbundið til að greiða að því er varðar, vátryggingarsamninga að tilteknu peningavirði eða lífeyrissamninga.
  7. Hugtakið „opinber eining“ á við um stjórnvald lögsögu, sjálfstætt umdæmi lögsögu (sem, til að taka af allan vafa, nær einnig yfir ríki, fylki, sýslur og sveitarfélög) eða stofnun eða aðila sem er að öllu leyti í eigu lögsögu eða eins eða fleiri af framangreindu. Þessi flokkur saman­stendur af óaðskiljanlegum hlutum, aðilum undir stjórn og sjálfstæðum umdæmum lögsagnar­umdæma.
    1. „Óaðskiljanlegur hluti“ lögsögu á við um hvern þann aðila, skipulagsheild, fagstofnun, skrifstofu, sjóð, stofnun eða annan aðila, án tillits til heitis, sem myndar stjórnvald lög­sögu. Færa verður hreinar tekjur stjórnvalds á eigin reikning eða á aðra reikninga lög­sögunnar, án þess að nokkur hluti þeirra renni í þágu neins einstaklings. Óaðskiljanlegur hluti felur ekki í sér neinn einstakling sem er þjóðhöfðingi, opinber starfsmaður eða stjórnandi sem starfar á eigin vegum eða í eigin nafni.
    2. Aðili undir stjórn á við um aðila sem er aðskilinn að formi til frá lögsögunni eða sem myndar á annan hátt sérstakan lögaðila, að því tilskildu að:
      1. einingin sé að fullu í eigu og undir stjórn ríkiseininga beint eða í gegnum einn eða fleiri aðila undir stjórn,
      2. hreinar tekjur einingarinnar séu færðar inn á eigin reikning eða reikninga einnar eða fleiri ríkiseininga og engin hluti tekna hennar renni í þágu neins einstaklings, og
      3. eignir einingarinnar renni til einnar eða fleiri ríkiseininga við slit.
    3. Tekjur teljast ekki renna til einstaklinga þó slíkir einstaklingar séu fyrirhugaðir haghafar áætlunar á vegum stjórnvalda og starfsemi innan áætlunarinnar er framkvæmd fyrir almenning að því er varðar almenna velferð eða tengist stjórnsýslu einhvers sviðs stjórn­sýslunnar. Þrátt fyrir framangreint teljast tekjur þó renna til einstaklinga ef tekjurnar koma af því að opinber eining er notuð til að stunda viðskiptastarfsemi, svo sem starfsemi viðskipta­banka, sem veitir einstaklingum fjármálaþjónustu.
  8. Hugtakið „alþjóðastofnun“ á við um hvers kyns alþjóðastofnun eða stofnun eða aðila sem er að öllu leyti í eigu hennar. Þessi flokkur nær yfir allar milliríkjastofnanir (þ.m.t. yfir­þjóðlegar stofnanir); a) sem samanstanda aðallega af stjórnvöldum, b) sem eru með í gildi samning um höfuðstöðvar, eða í meginatriðum sambærilegan samning, við lögsöguna og c) tekjurnar af þeim renna ekki í þágu einstaklinga.
  9. Hugtakið „seðlabanki“ á við um stofnun sem samkvæmt lögum eða með opinberri heimild er aðalyfirvald, annað en ríkisstjórn lögsögunnar sjálfrar, sem gefur út gerninga sem ætlað er að vera í umferð sem gjaldmiðill. Slík stofnun getur verið aðili sem er aðskilinn frá ríkisstjórn lögsögunnar, óháð því hvort lögsagan á hann að hluta til eða í heild sinni.
  10. Hugtakið „fjáreign“ nær yfir verðbréf (t.d. hlutabréf í fyrirtæki, sameignarfélagi eða raun­verulegan eignarhlut í sameignarfélagi eða fjárvörslusjóði sem er með víðtæka eignaraðild eða skráður í kauphöll, skuldaviðurkenningu, skuldabréf, óveðtryggð skuldabréf eða aðrar sannanir um skuldsetningu), hlutdeild í sameignarfélagi, hrávöru, skiptasamninga (t.d. vaxta­skiptasamninga, gjaldeyrisskiptasamninga, skiptasamninga um breytilega vexti, vaxtaþak, vaxtalágmark, hrávöruskiptasamninga, hlutabréfaskiptasamninga, hlutabréfa­vísitölu­skipta­samn­inga og sambærilega samninga), vátryggingarsamninga eða lífeyris­samninga eða hvers konar hlutdeild (þ.m.t. framtíðarsamninga eða framvirka samninga eða valrétti) í verðbréfi, viðkomandi sýndareign, hlutdeild í sameignarfélagi, hrávöru, skipta­samninga, vátryggingar­samninga eða lífeyrissamninga. Hugtakið „fjáreign“ nær ekki yfir beina hlutdeild í fasteign, sem telst ekki vera lán.
  11. Hugtakið „eignaréttindi“ á við um, þegar um er að ræða sameignarfélag sem er fjármála­stofnun, annaðhvort hlutdeild í hlutafé eða hagnaði sameignarfélagsins. Ef um er að ræða fjárvörslusjóð sem er fjármálastofnun teljast eignaréttindin vera í eigu hvers þess einstak­lings sem er stofnandi eða rétthafi alls eða hluta fjárvörslusjóðsins eða hvers annars einstak­lings sem hefur endanleg yfirráð yfir fjárvörslusjóðnum. Farið verður með tilkynningar­skyldan aðila sem rétthafa fjárvörslusjóðs ef slíkur tilkynningarskyldur aðili hefur rétt til að taka við beinni eða óbeinni (t.d. í gegnum tilnefndan aðila) skyldubundinni úthlutun eða kann að taka við, beint eða óbeint, valkvæðri úthlutun úr fjárvörslusjóðnum.
  12. Hugtakið „vátryggingarsamningur“ á við um samning (annan en lífeyrissamning) þar sem útgefandinn samþykkir að greiða fjárhæð ef tiltekinn atburður á sér stað sem felur í sér dauða, veikindi, slys, bótaábyrgð eða fasteignaáhættu.
  13. Hugtakið „lífeyrissamningur“ á við um samning þar sem útgefandinn samþykkir að greiða út í ákveðinn tíma sem ákvarðast í heild eða að hluta með hliðsjón af lífslíkum eins eða fleiri einstaklinga. Hugtakið nær einnig yfir samning sem telst vera lífeyrissamningur í samræmi við lög, reglugerðir eða venjur í lögsögunni þar sem samningurinn var gefinn út og þar sem útgefandinn samþykkir að framkvæma útgreiðslur í tiltekinn fjölda ára.
  14. Hugtakið „vátryggingarsamningur að tilteknu peningavirði“ á við um vátryggingarsamning (annan en endurtryggingarsamning um skaðabætur á milli tveggja vátryggingafélaga) sem skilar peningavirði.
  15. Hugtakið „peningavirði“ á við um hærri fjárhæðina af; i) fjárhæðinni sem vátryggingartaki á rétt á að fá við uppsögn eða slit samningsins (ákvörðuð án lækkunar vegna gjalda sem eru innheimt við uppsögn eða vátryggingaláns) og ii) fjárhæðinni sem vátryggingartaki getur fengið að láni samkvæmt eða með tilliti til samningsins. Þrátt fyrir framangreint nær hugtakið „peningavirði“ ekki yfir fjárhæð sem greiða skal samkvæmt vátryggingarsamningi:
    1. eingöngu vegna dauða einstaklings sem er tryggður samkvæmt líftryggingarsamningi,
    2. sem slysa- eða sjúkrabætur eða aðrar bætur sem veita skaðabætur vegna fjárhagstjóns sem hlýst af atburði sem tryggt hefur verið gegn,
    3. sem endurgreiðslu á áður greiddu iðgjaldi (að frádregnum vátryggingagjöldum, hvort sem þau eru í raun lögð á eða ekki) samkvæmt vátryggingarsamningi (öðrum en fjárfest­ingartengdri líftryggingu eða lífeyrissamningi) vegna uppsagnar eða slita samningsins, áhættulækkun á gildistíma samningsins eða vegna leiðréttingar á bókun eða sambæri­legrar villu að því er varðar samningsiðgjald,
    4. sem arðgreiðslu til vátryggingartaka (annarri en arðgreiðslu vegna uppsagnar), að því tilskildu að arðgreiðslan tengist vátryggingarsamningi þar sem einu bótunum til greiðslu er lýst í b-lið, eða
    5. sem ávöxtun á fyrirframgreiddu iðgjaldi eða iðgjaldatryggingu fyrir vátryggingarsamning þar sem iðgjaldið kemur til greiðslu a.m.k. árlega, ef fjárhæð fyrirframgreidds iðgjalds eða iðgjaldatryggingar er ekki hærri en næsta árlega iðgjald sem verður til greiðslu samkvæmt samningnum.

13. gr. Ýmislegt.

Hugtakið „lögsaga samstarfsaðila“ á við um hverja þá lögsögu sem hefur komið á jafngildum lagakröfum og er á lista sem yfirvöld hafa gefið út.

Hugtakið „verklagsreglur vegna aðgerða gegn peningaþvætti og/eða til að kanna deili á viðskiptavini (e. AML/KYC Procedures)“ á við um áreiðanleikakönnun viðskiptavina hjá þjónustuveitanda sýndareigna sem veitir skýrslugjöf samkvæmt kröfum um baráttu gegn peningaþvætti eða sambærilegum kröfum sem slíkur þjónustuveitandi sýndareigna sem veitir skýrslugjöf lýtur.

Hugtakið „eining“ á við um lögaðila eða lagalegt fyrirkomulag, svo sem fyrirtæki, sameignarfélag, fjárvörslusjóð eða stofnun.

Eining er „tengdur eining“ annarrar einingar ef hin einingin er undir yfirráðum hennar eða báðar einingarnar lúta sameiginlegum yfirráðum. Í þessu skyni fela yfirráð í sér beint eða óbeint eignarhald á yfir 50% atkvæða og virðis einingar.

Hugtakið „skattkennitala“ á við um kenninúmer skattgreiðenda (eða virkt ígildi ef kenninúmer skattgreiðenda er ekki til staðar).

Hugtakið „útibú“ á við um deild, fyrirtæki eða skrifstofu þjónustuveitanda sýndareigna sem veitir skýrslugjöf sem farið er með sem útibú samkvæmt reglukerfi lögsögu eða sem er á annan hátt háð reglum, samkvæmt lögum lögsögu, aðskilið frá öðrum skrifstofum, deildum eða útibúum þjónustuveitanda sýndareigna sem veitir skýrslugjöf. Allar deildir, fyrirtæki eða skrifstofur þjónustuveitanda sýndareigna sem veitir skýrslugjöf í einni lögsögu skulu meðhöndluð sem stakt útibú.

V. KAFLI Framkvæmd.

14. gr. Upplýsingaskipti.

Upplýsingaskipti við erlend ríki á grundvelli þessarar reglugerðar fara eftir gildandi marghliða samkomulagi bærra stjórnvalda í skattamálum um tilkynningarskyldu vegna sýndareigna (e. Crypto-Asset Reporting Framework Multilateral Competent Authority Agreement - CARF MCAA).

15. gr. Stjórnsýslu- og eftirlitsráðstafanir.

Tilkynningarskyldur þjónustuveitandi sýndareignar samkvæmt reglugerð þessari er skylt að framkvæma áreiðanleikakannanir á viðskiptamönnum í samræmi við III. kafla, skrásetja starfsemi og skila ríkisskattstjóra tilskildum upplýsingum í samræmi við I. kafla.

Ríkisskattstjóri fer með eftirlit með framkvæmd tilkynningarskyldra þjónustuveitenda sýndareignar samkvæmt reglugerð þessari, þar á meðal framkvæmd áreiðanleikakannana, skráningu og skil á upplýsingum innan tilskilinna tímamarka. Um framkvæmd eftirlits og málsmeðferð fer samkvæmt reglugerð þessari og ákvæðum laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eftir því sem við á.

Tilkynningarskyldur þjónustuveitandi sýndareignar skal skráður hjá skattyfirvöldum eigi síðar en 30 dögum frá stofnun hans eða upphafi starfsemi sem veldur tilkynningarskyldu. Skráning skal vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Tilkynningarskyldur þjónustuveitandi sýndareignar sem ekki telur sig falla undir skráningarskyldu skal tilkynna skattyfirvöldum um afstöðu sína með skriflegri greinargerð eigi síðar en 30 dögum frá stofnun hans eða frá því að hann telur tilkynningarskyldu niður fallna. Ríkisskattstjóri úrskurðar um tilkynningarskyldu innan 30 daga. Vanræki tilkynningarskyldur þjónustuveitandi sýndareignar skyldu sína getur það varðað viðurlögum. Við skráningu skal veita upplýsingar um nafn, heimilisfang og sveitarfélag og tegund tilkynningarskylds þjónustuveitanda sýndareignar eða ástæður þess að tilkynningarskylda telst ekki til staðar. Ef breyting verður á uppgefnum upplýsingum eftir skráninguna, þ.m.t. ef tilkynningarskyldur þjónustuveitandi sýndareignar lætur af starfsemi sem var grundvöllur tilkynningarskyldu skal tilkynna skattyfirvöldum um það. Ef villur eru í skráðum upplýsingum skal tilkynningarskyldur þjónustuveitandi sýndareignar tilkynna skattyfirvöldum um það skriflega innan 30 daga frá því að breytingin á sér stað eða villan uppgötvast.

Tilkynningarskyldur þjónustuveitandi sýndareignar skal stöðva viðskipti tilkynningarskylds aðila innan 30 daga ef áreiðanleikakönnun skv. III. kafla telst ekki lengur í gildi.

16. gr. Viðurlög.

Ef tilkynningarskyldur þjónustuveitandi sýndareignar vanrækir að uppfylla skyldur samkvæmt reglugerð þessari er ríkisskattstjóra heimilt að setja fram kröfu um að úrbætur séu gerðar innan tiltekins frests og leggja á dagsektir samkvæmt 92. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

17. gr. Refsiákvæði.

Tilkynningarskyldur þjónustuveitandi sýndareignar sem af ásetningi eða af stórfelldu gáleysi framkvæmir ekki áreiðanleikakannanir samkvæmt III. kafla, vanrækir skráningu eða skilar ekki upplýsingum samkvæmt I. kafla innan tilskilinna tímamarka eða veitir rangar, villandi eða ófullkomnar upplýsingar, skal refsað með sekt nema strangari refsing liggi við brotinu samkvæmt 92. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

18. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 4. og 9. mgr. 92. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Reglugerðin byggist á fyrirmynd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um skýrslugjafarramma um sýndareignir (e. Crypto-Asset Reporting Framework – CARF).

Reglugerðin tekur gildi 1. janúar 2026 og gildir um skýrslugjöf fyrir almanaksárið 2026 og síðari almanaksár.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 23. desember 2025.

F. h. r.

Helga Jónsdóttir.

Vilmar Freyr Sævarsson.

B deild — Útgáfudagur: 30. desember 2025

Tengd mál