Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Innviðaráðuneytið
Málaflokkur
Sveitarstjórnarmál, Grindavík, Almannavarnir
Undirritunardagur
16. nóvember 2023
Útgáfudagur
17. nóvember 2023
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 1217/2023
16. nóvember 2023
AUGLÝSING
um ákvörðun innviðaráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórnar Grindavíkurbæjar og til að auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélagsins.
Á grundvelli þess að ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir almannavarnastigi vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, hefur innviðaráðherra tekið svofellda ákvörðun, með vísan til 1. mgr. 131. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.
Til að tryggja starfhæfi bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar og til að auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélagsins, er bæjarstjórn Grindavíkurbæjar heimilt að taka ákvarðanir sem fela í sér eftirfarandi frávik frá ákvæðum sveitarstjórnarlaga, samþykktar um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins og auglýsingar um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna nr. 1181/2021:
- Að fundir bæjarstjórnar verði haldnir á öðrum stað en mælt er fyrir í samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins og að fundir bæjarstjórnar, bæjarráðs og fastanefnda verði haldnir fyrir utan sveitarfélagið.
- Að fundarboð og dagskrártillaga vegna aukafunda bæjarstjórnar og fastanefnda sveitarfélagsins þurfi ekki að berast nefndarmönnum sólarhring fyrir fund.
- Að íbúum skuli ekki kunngert með auglýsingu um hvar og hvenær bæjarstjórn heldur aukafundi og að ekki skuli birta opinberlega fundarboð og dagskrá aukafundar bæjarstjórnar.
- Að ræða málefni á aukafundi bæjarstjórnar fyrir luktum dyrum án þess að það teljist nauðsynlegt vegna eðlis máls, með samþykki allra fundarmanna. Málefni sem rædd eru fyrir luktum dyrum á grundvelli þessarar heimildar skulu ekki skráð sem trúnaðarmál í sérstakri fundargerðabók nema skýrar lagareglur leiði til þess að upplýsingum ber að halda leyndum.
- Að nefndarmenn taki þátt í fundum sveitarfélagsins með rafrænum hætti þrátt fyrir að vera ekki staddir í sveitarfélaginu eða í erindagjörðum innan lands á vegum þess.
- Að ákveða að valdsvið nefnda verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins.
- Að fela fastanefnd eða einstökum starfsmönnum sveitarfélagsins fullnaðarafgreiðslu tiltekinna mála sem varða ekki verulega fjárhag sveitarfélagsins og lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn, þrátt fyrir að kveðið sé á um annað í samþykktum sveitarfélagsins.
Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar er jafnframt heimilt að taka ákvörðun um að nýta ofangreindar heimildir á fundi:
- Sem haldinn er utan sveitarfélagsins og á öðrum stað en mælt er fyrir um í 8. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins.
- Þar sem fundarboð og dagskrártillaga berst sveitarstjórnarmönnum eigi síðar en sólarhring fyrir fund.
- Sem ekki er kunngert um með auglýsingu hvar og hvenær er haldinn og fundarboð og dagskrá hafa ekki verið birt opinberlega.
- Sem haldinn er fyrir luktum dyrum með samþykki allra sveitarstjórnarmanna.
Um er að ræða frávik frá skilyrðum 1. mgr. 14. gr., 3. málsl. 1. mgr. og 3. mgr. 15. gr., 16. gr., 4. mgr. 17. gr., 5. mgr. 35. gr., 1. mgr. 40. gr., 1. og 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 9. gr. auglýsingar um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna nr. 1181/2021.
Heimild þessi öðlast þegar gildi og gildir til 15. mars 2024.
Heimild þessi fellur þó úr gildi fyrir 15. mars 2024 ef ríkislögreglustjóri aflýsir almannavarnastigi í sveitarfélaginu fyrir þann tíma, sbr. reglugerð um flokkun almannavarnastiga nr. 650/2009 og 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 34. gr. laga nr. 82/2008 um almannavarnir.
Innviðaráðuneytinu, 16. nóvember 2023.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Hermann Sæmundsson.
B deild - Útgáfud.: 17. nóvember 2023