Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Utanríkisráðuneytið
Málaflokkur
Evrópska efnahagssvæðið, Utanríkismál, Alþjóðlegar þvingunaraðgerðir
Undirritunardagur
8. júlí 2025
Útgáfudagur
25. ágúst 2025
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 911/2025
8. júlí 2025
REGLUGERÐ
um breyting á reglugerð um þvingunaraðgerðir varðandi Líbíu, nr. 887/2015.
1. gr. Þvingunaraðgerðir.
Eftirfarandi töluliðir bætast við 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar:
1.43 Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2025/814 frá 23. apríl 2025 um breytingu á ákvörðun (SSUÖ) 2015/1333 um þvingunaraðgerðir með tilliti til ástandsins í Líbíu, sbr. fylgiskjal 1.43.
2.41 Reglugerð ráðsins (ESB) 2025/1813 frá 25. apríl 2025 um breytingu á reglugerð (ESB) 2016/44 um þvingunaraðgerðir með tilliti til ástandsins í Líbíu, sbr. fylgiskjal 2.41.
2. gr. Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 6. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna, nr. 68/2023, öðlast þegar gildi.
Utanríkisráðuneytinu, 8. júlí 2025.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Martin Eyjólfsson.
B deild — Útgáfudagur: 25. ágúst 2025
ÁKVÖRÐUN RÁÐSINS (SSUÖ) 2025/814
frá 23. apríl 2025
um breytingu á ákvörðun (SSUÖ) 2015/1333
um þvingunaraðgerðir með tilliti til ástandsins í Líbíu
RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um Evrópusambandið, einkum 29. gr.,
með hliðsjón af tillögu frá æðsta fulltrúa Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Hinn 31. júlí 2015 samþykkti ráðið ákvörðun (SSUÖ) 2015/1333(1).
2) Hinn 16. janúar 2025 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun nr. 2769 (2025) þar sem það áréttaði grundvallarskuldbindingu sína gagnvart fullveldi, sjálfstæði, landamærahelgi og þjóðareiningu Líbíu og staðfesti að ástandið í Líbíu væri áfram ógn við frið og öryggi á alþjóðavettvangi.
3) Í ályktun öryggisráðs SÞ nr. 2769 (2025) voru innleiddar tvær undanþágur frá vopnasölubanninu og ný viðmiðun varðandi skráningu þeirra sem falla undir aðgangstakmarkanir eða frystingu fjármuna og efnahagslegs auðs, eða hvort tveggja.
4) Auk þess var gildissviði þeirra ráðstafana, sem beitt var gagnvart Fjárfestingaryfirvaldi Líbíu (e. Libyan Investment Authority), breytt með ályktun öryggisráðs SÞ nr. 2769 (2025).
5) Frekari aðgerða er þörf af hálfu Sambandsins til þess að hrinda tilteknum aðgerðum í framkvæmd.
6) Því ætti að breyta ákvörðun (SSUÖ) 2015/1333 til samræmis við það.
SAMÞYKKT ÁKVÖRÐUN ÞESSA:
1. gr.
Ákvörðun (SSUÖ) 2015/1333 er breytt sem hér segir:
1) Eftirfarandi málsgreinar bætast við 2. gr.:
„5. Ákvæði 1. gr. gilda ekki um tækniaðstoð eða þjálfun sem aðildarríki veita líbískum öryggissveitum, sem eingöngu er ætluð til að styðja við sameiningarferli líbískra her- og öryggisstofnana, eða um tímabundna komu vopna eða annars herbúnaðar inn í Líbíu, sem einungis eru ætluð til notkunar aðila, sem eru ekki frá Líbíu, sem veita slíka tækniaðstoð og þjálfun, þegar þeir veita slíka aðstoð eða til eigin varnar, og sem nefndinni hefur verið tilkynnt um fyrir fram.
6. Ákvæði 1. gr. gilda ekki um herloftför eða herskip sem aðildarríki koma tímabundið með inn á yfirráðasvæði Líbíu, eingöngu til að afhenda hluti eða til að auðvelda starfsemi sem er undanþegin með öðrum hætti eða fellur ekki undir vopnasölubannið, þ.m.t. mannúðaraðstoð, eða um vopn og tengd hergögn í varnarskyni sem eru ávallt um borð í skipinu eða loftfarinu á meðan það er tímabundið í Líbíu, eða í fórum starfsmanna, sem eru ekki frá Líbíu, sem hafa farið tímabundið frá borði slíkra skipa eða loftfara.“
2) Í stað 1. mgr. 8. gr. kemur eftirfarandi:
„1. Aðildarríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að inn á yfirráðasvæði þeirra komi eða um þau fari aðilar sem öryggisráð SÞ eða nefndin hefur tilgreint og látið sæta ferðatakmörkunum í samræmi við 22. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1970 (2011), 23. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1973 (2011), 4. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2174 (2014), 11. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2213 (2015), 11. mgr. ályktunar SÞ nr. 2362 (2017), 11. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2441 (2018) og 18. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2769 (2025), sbr. listann í I. viðauka.“
3) Ákvæðum 9. gr. er breytt sem hér segir:
a) Í stað 1. mgr. kemur eftirfarandi:
„1. Frysta skal alla fjármuni, aðrar fjáreignir og efnahagslegan auð sem er með beinum eða óbeinum hætti í eigu eða undir yfirráðum aðila og rekstrareininga sem öryggisráð SÞ eða nefndin hefur tilgreint og látið sæta frystingu eigna í samræmi við 22. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1970 (2011), 19. og 23. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1973 (2011), 4. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2174 (2014), 11. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2213 (2015), 11. mgr. ályktunar SÞ nr. 2362 (2017), 11. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2441 (2018) og 18. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2769 (2025), sbr. listann í III. viðauka.“
b) Eftirfarandi málsgreinar bætast við:
„15. Eftir að hlutaðeigandi aðildarríki hefur sent nefndinni tilkynningu og að því tilskildu að nefndin hafi samþykkt notkun frysts reiðufjárvarasjóðs, eins og um getur, og í samræmi við, 14. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2769 (2025), sem felur í sér samráð við ríkisstjórn Líbíu, skulu lögbær stjórnvöld þess aðildarríkis heimila notkun á frystum reiðufjárvarasjóði, sem tilheyrir rekstrareiningunni sem skráð er undir færslunúmeri 1 í VI. viðauka, eingöngu til fjárfestinga í:
a) bundnum innlánum með litla áhættu hjá viðeigandi fjármálastofnun, sem valin er af rekstrareiningunni sem skráð er undir færslunúmer 1 í VI. viðauka og staðsett í aðildarríkinu þar sem fjármunirnir eru frystir, ef um er að ræða frystan reiðufjárvarasjóð sem um getur í tilmælum 7.1 sem um getur í ályktun öryggisráðs SÞ nr. 2769 (2025) eða
b) gerningum með fasta ávöxtun, ef um er að ræða frystan reiðufjárvarasjóð sem um getur í tilmælum 7.2 sem um getur í ályktun öryggisráðs SÞ nr. 2769 (2025),
í samræmi við samþykki nefndarinnar.
16. Bundin innlán með litla áhættu sem um getur í a-lið 15. mgr. og vextirnir sem safnast hafa á þau skulu fryst áfram. Gerningar með fasta ávöxtun, sem um getur í b-lið 15. mgr., og áfallnar tekjur af þeim skulu fryst áfram.
Hver endurfjárfesting skal háð málsmeðferðinni sem um getur í 15. mgr.
17. Viðkomandi aðildarríki skal tilkynna hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni um sérhverja heimild sem veitt er skv. 15. mgr. innan tveggja vikna frá því að hún er veitt.“
2. gr.
Ákvörðun þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Gjört í Brussel 25. apríl 2025.
Fyrir hönd ráðsins,
forseti.
A. SZŁAPKA
(1) Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2015/1333 frá 31. júlí 2015 um þvingunaraðgerðir með tilliti til ástandsins í Líbíu og niðurfellingu ákvörðunar 2011/137/SSUÖ (Stjtíð. ESB L 206, 1.8.2015, bls. 34, ELI: https://data.europa.eu/eli/dec/2015/1333/oj).
REGLUGERÐ RÁÐSINS (ESB) 2025/813
frá 25. apríl 2025
um breytingu á reglugerð (ESB) 2016/44
um þvingunaraðgerðir með tilliti til ástandsins í Líbíu
RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 215. gr.,
með hliðsjón af ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2025/814 frá 25. apríl 2025 um þvingunaraðgerðir í ljósi ástandsins í Líbíu(1),
með hliðsjón af sameiginlegri tillögu frá æðsta fulltrúa Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Með reglugerð ráðsins (ESB) 2016/44(2) koma til framkvæmda aðgerðir sem kveðið er á um í ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2015/1333(3).
2) Hinn 16. janúar 2025 samþykkti nefnd öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem komið var á fót samkvæmt ályktun nr. 1970 (2011) um Líbíu, ályktun nr. 2769 (2025) þar sem innleiddar eru tvær undanþágur frá vopnasölubanninu sem komið var á með ályktun nr. 1970 (2011).
3) Auk þess er með ályktun 2769 (2025) innleidd ný viðmiðun fyrir skráningu vegna frystingar eigna og bann við því að gera fjármuni eða efnahagslegan auð aðgengilegan. Í henni er einnig breytt gildissviði ráðstafana gagnvart Fjárfestingaryfirvaldi Líbíu (e. Libyan Investment Authority).
4) Þessar breytingar falla undir gildissvið sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins og því er reglusetning á vettvangi Sambandsins nauðsynleg til að hrinda þeim í framkvæmd, einkum til að tryggt sé að þeim verði beitt með sama hætti í öllum aðildarríkjunum.
5) Því ætti að breyta reglugerð (ESB) 2016/44 til samræmis við það.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr.
Reglugerð (ESB) 2016/44 er breytt sem hér segir:
1) Eftirfarandi liðir bætast við í 1. gr.:
„j) „miðlunarþjónusta“:
i. að semja um eða skipuleggja viðskipti vegna kaupa, sölu eða afhendingar vara og tækni eða fjármála- og tækniþjónustu, frá þriðja landi til annars þriðja lands eða
ii. að selja eða kaupa vörur og tækni eða fjármála- eða tækniþjónustu sem eru/er staðsett í þriðja landi og færa á til annars þriðja lands,
k) „fjármögnun eða fjárhagsaðstoð“: sérhver aðgerð einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar, óháð þeirri aðferð sem valin er, með eða án skilyrða, sem miðar að því að greiða eða skuldbinda sig til að greiða af eigin fjármunum eða efnahagslegum auði, þ.m.t., en þó ekki takmarkað við, styrki, lán, ábyrgðir, ábyrgðarskuldbindingar, skuldabréf, bankaábyrgðir, lán frá seljanda, lán til kaupanda, fyrirframgreiðslur vegna inn- eða útflutnings og allar tegundir vátrygginga og endurtrygginga, þ.m.t. greiðsluvátryggingar vegna útflutnings. Greiðsla, ásamt skilmálum og skilyrðum fyrir greiðslu umsamins verðs fyrir vöru eða þjónustu, í samræmi við eðlilega viðskiptahætti telst ekki vera fjármögnun eða fjárhagsaðstoð,
l) „lögbær stjórnvöld“: lögbær stjórnvöld aðildarríkjanna eins og þau eru tilgreind á vefsetrunum sem eru á skrá í IV. viðauka.“
2) Í stað 2. gr. kemur eftirfarandi:
„2. gr.
1. Lagt skal bann við því:
a) að selja, afhenda, tilfæra eða flytja út, með beinum eða óbeinum hætti, búnað, sem nota má til bælingar innanlands og er á skrá í I. viðauka, hvort sem hann er upprunninn í Sambandinu eða ekki, til einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar í Líbíu eða til notkunar þar,
b) að veita, með beinum eða óbeinum hætti, tækniaðstoð eða miðlunarþjónustu vegna tækjabúnaðar, sem nota má til bælingar innanlands og er á skrá í I. viðauka, til einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar í Líbíu eða til notkunar þar,
c) að útvega, með beinum eða óbeinum hætti, fjármagn eða fjárhagsaðstoð í tengslum við búnað sem nota má til bælingar innanlands og er á skrá í I. viðauka, vegna sölu, afhendingar, tilfærslu eða útflutnings slíkra hluta eða í tengslum við að veita tengda tækniaðstoð til einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar í Líbíu eða til notkunar þar,
d) að taka þátt, vitandi vits og af ásetningi, í starfsemi sem miðar að því að sniðganga þau bönn er um getur í a- til c-lið eða leiðir til þess að þau séu sniðgengin.
2. Bannað er að kaupa, flytja inn eða flytja frá Líbíu tækjabúnað sem nota má til bælingar innanlands, sbr. skrá í I. viðauka, hvort sem viðkomandi hlutur er upprunninn í Líbíu eða ekki.
3. Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um hlífðarfatnað, þ.m.t. skotheld vesti og herhjálmar, sem starfsfólk SÞ, starfsfólk Sambandsins eða aðildarríkja þess, fulltrúar fjölmiðla og starfsmenn hjálpar- og þróunarstofnana og tengt starfsfólk hefur flutt tímabundið út til Líbíu, eingöngu til eigin nota.
4. Lögbær stjórnvöld, geta, þrátt fyrir 1. mgr. og samkvæmt þeim skilyrðum sem þau telja við eiga, heimilað sölu, afhendingu, tilfærslu eða útflutning tækjabúnaðar, sem nota má til bælingar innanlands, ákveði þau að slíkur tækjabúnaður sé einvörðungu ætlaður til notkunar í mannúðar- eða verndarskyni.
5. Lögbær stjórnvöld geta, þrátt fyrir 1. mgr. og samkvæmt þeim skilyrðum sem þau telja við eiga, heimilað tækniaðstoð, fjármögnun og fjárhagsaðstoð sem tengist tækjabúnaði sem nota mætti til bælingar innanlands ákveði þau að slíkur tækjabúnaður sé einvörðungu ætlaður til notkunar í mannúðar- eða verndarskyni.“
3) Í stað 3. gr. kemur eftirfarandi:
„3. gr.
1. Lagt er bann við sölu, afhendingu, tilflutningi eða útflutningi, með beinum eða óbeinum hætti, vara og tækni á sameiginlegum hergagnalista Evrópusambandsins(4) („sameiginlegi hergagnalistinn“), auk skotvopna, hluta þeirra og nauðsynlegra íhluta, og skotfæra eins og skilgreint er í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 258/2012(5), hvort sem framangreint á uppruna í Sambandinu eða ekki, til einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar í Líbíu eða til notkunar þar.
2. Lagt er bann við því:
a) að veita tækniaðstoð eða miðlunarþjónustu, beint eða óbeint, sem tengist þeim vörum og þeirri tækni sem eru á sameiginlegum hergagnalista Evrópusambandsins eða skotvopnum, hlutum þeirra og nauðsynlegum íhlutum, og skotfærum, eins og þau eru skilgreind í reglugerð (ESB) nr. 258/2012, eða því að útvega, framleiða, viðhalda og nota slíka hluti, til einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar í Líbíu eða til notkunar þar,
b) að útvega, með beinum eða óbeinum hætti, fjármagn eða fjárhagsaðstoð, sem tengist þeim vörum og þeirri tækni sem eru á sameiginlegum hergagnalista Evrópusambandsins eða skotvopnum, hlutum þeirra og nauðsynlegum íhlutum, og skotfærum eins og þau eru skilgreind í reglugerð (ESB) nr. 258/2012, vegna sölu, afhendingar, tilfærslu eða útflutnings slíkra hluta eða í tengslum við að veita tengda tækniaðstoð eða miðlunarþjónustu til einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar í Líbíu eða til notkunar þar,
c) að veita, með beinum eða óbeinum hætti, tækniaðstoð, fjármagn eða fjárhagsaðstoð sem tengist því að útvega vopnaða málaliða í Líbíu eða til notkunar þar,
d) að taka þátt, vitandi vits og af ásetningi, í starfsemi sem miðar að því að sniðganga þau bönn er um getur í a- til c-lið eða leiðir til þess að þau séu sniðgengin.
3. Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki um:
a) sölu, afhendingu, tilflutning eða útflutning óbanvæns herbúnaðar eða veitingu tengdrar tækniaðstoðar, miðlunarþjónustu, fjármögnunar eða fjárhagsaðstoðar sem er einungis ætluð í mannúðar- eða verndarskyni,
b) hlífðarfatnað, þ.m.t. skotheld vesti og herhjálmar sem starfsfólk SÞ, starfsfólk Sambandsins eða aðildarríkja þess, fulltrúar fjölmiðla og starfsmenn hjálpar- og þróunarstofnana og tengt starfsfólk hefur flutt tímabundið út til Líbíu, eingöngu til eigin nota,
c) sölu, afhendingu, tilflutning eða útflutning á óbanvænum herbúnaði eða veitingu tengdrar tækniaðstoðar, miðlunarþjónustu, fjármögnunar eða fjárhagsaðstoðar sem er einungis er ætluð til aðstoðar við stjórnvöld Líbíu á sviði öryggis og afvopnunar,
4. Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. geta lögbær stjórnvöld heimilað sölu, afhendingu, tilflutning eða útflutning á vörum og tækni sem um getur í 1. mgr. eða veitingu tækniaðstoðar, miðlunarþjónustu, fjármögnunar eða fjárhagsaðstoðar sem um getur í 2. mgr., að því tilskildu að framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir hafi samþykkt fyrir fram slíka sölu, afhendingu, tilflutning eða útflutning eða veitingu tengdrar tækniaðstoðar, miðlunarþjónustu, fjármögnunar eða fjárhagsaðstoðar.
5. Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. geta lögbær stjórnvöld heimilað sölu, afhendingu, tilflutning eða útflutning á vörum og tækni sem um getur í 1. mgr. eða veitingu tækniaðstoðar, miðlunarþjónustu, fjármögnunar eða fjárhagsaðstoðar sem um getur í 2. mgr. sem er einungis er ætluð til aðstoðar við stjórnvöld Líbíu á sviði öryggis og afvopnunar, að því tilskildu að framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir hafi samþykkt fyrir fram slíka sölu, afhendingu, tilflutning eða útflutning eða veitingu tengdrar tækniaðstoðar, miðlunarþjónustu, fjármögnunar eða fjárhagsaðstoðar.
6. Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. geta lögbær stjórnvöld heimilað sölu, afhendingu, tilflutning eða útflutning á vopnum, léttvopnum og tengdum hergögnum, sem eru flutt út til Líbíu tímabundið, eingöngu til nota fyrir starfsfólk Sameinuðu þjóðanna, fulltrúa fjölmiðla og þá sem vinna að mannúðar- og þróunarmálum og starfsfólk þeim tengt, að því tilskildu að hlutaðeigandi aðildarríki hafi tilkynnt framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir það fyrir fram og að framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir hafi ekki andmælt þeirri tilhögun innan fimm virkra daga frá tilkynningu þar um.
7. Ákvæði 1. og 2. gr. gilda ekki um veitingu tækniaðstoðar sem um getur í 2. mgr. sem aðildarríki veita líbískum öryggissveitum, sem eingöngu er ætluð til að styðja við sameiningarferli líbískra her- og öryggisstofnana, eða um tímabundna komu vara eða tækni sem um getur í 1. mgr. inn í Líbíu, sem einungis eru ætluð til notkunar aðila, sem eru ekki frá Líbíu, sem veita slíka tækniaðstoð, þegar þeir veita slíka aðstoð eða til eigin varnar, að því tilskildu að hlutaðeigandi aðildarríki hafi tilkynnt framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir um það fyrir fram.
8. Ákvæði 1. og 2. gr. gilda ekki um herloftför eða herskip sem aðildarríki kemur tímabundið með inn á yfirráðasvæði Líbíu, eingöngu til að afhenda hluti eða til að auðvelda starfsemi sem er undanþegin með öðrum hætti eða fellur ekki undir ákvæði 1. og 2. mgr., þ.m.t. mannúðaraðstoð, eða vörur og tækni sem um getur í 1. mgr. í varnarskyni sem eru ávallt um borð í skipinu eða loftfarinu á meðan það er tímabundið í Líbíu, eða í fórum einstaklinga sem eru ekki frá Líbíu og hafa tímabundið farið frá borði slíkra skipa eða loftfara.“
4) Eftirfarandi grein er bætt við:
„3. gr. a
Lagt er bann við því að flytja inn, kaupa eða tilfæra, með beinum eða óbeinum hætti, vörur og tækni á sameiginlegum hergagnalista Evrópusambandsins, auk skotvopn, hluta þeirra og nauðsynlega íhluti og skotfæri eins og skilgreint er í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 258/2012, hvort sem þau eru upprunnin á yfirráðasvæði Líbíu eða ekki.“
5) Í stað 1. mgr. 6. gr. kemur eftirfarandi:
„1. Ákvæði II. viðauka skulu taka til þeirra einstaklinga, lögaðila, rekstrareininga og stofnana sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna eða framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir tilgreinir í samræmi við 22. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1970 (2011), 19., 22. eða 23. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1973 (2011), 4. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2174 (2014), 11. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2213 (2015), 11. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2362 (2017,11. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2441 (2018) eða 18. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2769 (2025).“
6) Eftirfarandi grein er bætt við:
„11. gr. a
1. Eftir að hlutaðeigandi aðildarríki hefur sent framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir tilkynningu þar sem fram kemur að nefndin hafi samþykkt notkun frysts reiðufjárvarasjóðs, eins og um getur í 14. mgr. ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 2769 (2025) og í samræmi við ákvæði hennar, sem felur í sér samráð við ríkisstjórn Líbíu, skulu lögbær stjórnvöld þess aðildarríkis heimila notkun á frystum reiðufjárvarasjóði, sem tilheyrir rekstrareiningunni sem skráð er undir færslunúmeri 1 í VI. viðauka, eingöngu til fjárfestinga í:
a) bundnum innlánum með litla áhættu hjá viðeigandi fjármálastofnun, sem valin er af einingunni sem skráð er undir færslunúmer 1 í VI. viðauka og staðsett í aðildarríkinu þar sem fjármunirnir eru frystir, ef um er að ræða frystan reiðufjárvarasjóð sem um getur í tilmælum 7.1 sem um getur í ályktun öryggisráðs SÞ nr. 2769 (2025) eða
b) gerningum með fasta ávöxtun, ef um er að ræða frystan reiðufjárvarasjóð sem um getur í tilmælum 7.2 sem um getur í ályktun öryggisráðs SÞ nr. 2769 (2025),
í samræmi við samþykki framkvæmdanefndarinnar um þvingunaraðgerðir.
2. Bundin innlán með litla áhættu sem um getur í a-lið 1. mgr. og vextirnir sem safnast hafa á þau skulu fryst áfram. Gerningar með fasta ávöxtun, sem um getur í b-lið 1. mgr., og áfallnar tekjur af þeim skulu fryst áfram. Hver endurfjárfesting skal háð málsmeðferðinni sem um getur í 1. mgr.
3. Viðkomandi aðildarríki skal tilkynna hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni um sérhverja heimild sem veitt er skv. 1. mgr. innan tveggja vikna frá því að hún er veitt.“
2. gr.
Reglugerð þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 25. apríl 2025.
Fyrir hönd ráðsins,
forseti.
A. SZŁAPKA
(1) Stjtíð. ESB L, 2025/814, 28.4.2025, ELI: https://data.europa.eu/eli/dec/2025/814/oj.
(2) Reglugerð ráðsins (ESB) 2016/44 frá 18. janúar 2016 um þvingunaraðgerðir með tilliti til ástandsins í Líbíu og um niðurfellingu reglugerðar (ESB) nr. 204/2011 (Stjtíð. ESB L 12, 19.1.2016, bls. 1, ELI: https://data.europa.eu/eli/reg/2016/44/oj).
(3) Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2015/1333 frá 31. júlí 2015 um þvingunaraðgerðir með tilliti til ástandsins í Líbíu og niðurfellingu ákvörðunar 2011/137/SSUÖ (Stjtíð. ESB L 206, 1.8.2015, bls. 34, ELI: https://data.europa.eu/eli/dec/2015/1333/oj).
(4) Síðasta útgáfa er birt í Stjtíð. ESB C, C/2024/1945, 1.3.2024, ELI: https://data.europa.eu/eli/C/2024/1945/oj.
(5) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 258/2012 frá 14. mars 2012 um framkvæmd 10. gr. bókunar Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri framleiðslu á og verslun með skotvopn, hluta þeirra, íhluti og skotfæri, sem er viðbót við samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi (bókun SÞ um skotvopn), og um að koma á útflutningsleyfum og innflutnings- og útflutningsráðstöfunum vegna skotvopna, hluta þeirra, íhluta og skotfæra (Stjtíð. ESB L 94, 30.3.2012, bls. 1, ELI: https://data.europa.eu/eli/reg/2012/258/oj).