Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Upplýsingar um auglýsingu

Deild

B deild

Stofnun

Samband sveitarfélaga á Austurlandi

Málaflokkur

Skipulagsmál, Múlasýslur, Fjarðabyggð, Múlaþing

Undirritunardagur

21. apríl 2024

Útgáfudagur

8. maí 2024

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.

Nr. 535/2024

21. apríl 2024

STARFSREGLUR

fyrir svæðisskipulagsnefnd sveitarfélaganna á Austurlandi.

1. gr. Svæðisskipulagsnefnd.

Með vísan í 9. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og í samræmi við samkomulag sveitarfélaganna frá nóvember 2023 hafa sveitarfélögin Fjarðabyggð (samþykkt 2. nóvember), Fljótsdalshreppur (samþykkt 7. nóvember), Múlaþing (samþykkt 15. nóvember) og Vopnafjarðarhreppur (samþykkt 16. nóvember), komið á fót svæðisskipulagsnefnd.

Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fjármagnar starfsemi svæðisskipulagsnefndar í samstarfi við sveitarfélögin sem að nefndinni standa. Austurbrú ses. hýsir og heldur utan um starfsemi svæðisskipulagsnefndar og leggur henni til starfskrafta eftir þörfum og því sem nánar greinir í reglum þessum.

2. gr. Skipan nefndarinnar.

Svæðisskipulagsnefnd er skipuð fulltrúum sveitarfélaganna í stjórn SSA. Formaður og varaformaður stjórnar SSA eru jafnframt formaður og varaformaður svæðisskipulagsnefndar. Ekki er greitt sérstaklega fyrir setu í svæðisskipulagsnefnd, umfram þá þóknun sem fulltrúar fá fyrir setu sína í stjórn SSA.

3. gr. Hlutverk nefndarinnar.

Hlutverk svæðisskipulagsnefndar er að fjalla um og afgreiða breytingar á svæðisskipulagi Austurlands, annast reglubundna heildarendurskoðun og eftir atvikum vinna nýtt svæðisskipulag fyrir Austurland, annast kynningu þess og afgreiðslu. Einnig er það hlutverk svæðisskipulagsnefndar að fylgjast með þróun og framfylgd gildandi svæðisskipulags Austurlands og þeirrar sýnar, leiðarljósa, markmiða og aðgerða sem þar koma fram.

Fer um störf svæðisskipulagsnefndar eftir ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 svo og reglugerða settra með stoð í þeim og eru skipulagsákvarðanir svæðisskipulagsnefndar háðar samþykki allra hlutaðeigandi sveitarstjórna.

4. gr. Fundir nefndarinnar.

Málefni á verksviði svæðisskipulagsnefndar skal taka á dagskrá stjórnar SSA eins og þurfa þykir og að jafnaði eigi sjaldnar en á öðrum hverjum reglubundnum fundi stjórnarinnar.

Á fundum sínum skal svæðisskipulagsnefnd fjalla um erindi sem henni berast frá sveitarfélögum og varða framfylgd svæðisskipulags Austurlands. Svæðisskipulagsnefnd skal einnig fjalla um erindi sem henni berast frá öðrum hagaðilum og varða framfylgd svæðisskipulags.

Óski fulltrúi í stjórn SSA eftir að fá tiltekið mál tekið fyrir á fundi skal hann senda formanni eða framkvæmdastjóra upplýsingar um málið auk nauðsynlegra gagna, a.m.k. fimm virkum dögum fyrir fyrirhugaðan fund. Telji formaður að málið heyri ekki undir hlutverk eða valdsvið svæðisskipulagsnefndar, skal það tilkynnt viðkomandi fulltrúa með skriflegum hætti eigi síðar en tveimur virkum dögum fyrir fyrirhugaðan fund. Heimilt er þá að bera það undir fundinn hvort málið skuli tekið fyrir undir dagskrárlið um önnur mál, en er þá áskilið samþykki allra fulltrúa.

Fundur er lögmætur og ályktunarhæfur um málefni svæðisskipulags ef fulltrúar sem fara með meira en helming atkvæða samkvæmt 5. gr. reglnanna sitja fundinn.

Um stjórn funda og ritun fundargerða fer eftir starfsreglum stjórnar SSA. Málefni sem heyra til verksviðs svæðisskipulagsnefndar skulu vera sérstakir dagskrárliðir á stjórnarfundum SSA og sérgreindir sem slíkir í fundargerðum. Fundargerðir skulu sendar hlutaðeigandi sveitarstjórnum.

5. gr. Atkvæðavægi.

Við afgreiðslu þeirra mála á fundum stjórnar SSA sem falla undir verksvið svæðisskipulagsnefnda gilda sérstakar reglur um atkvæðavægi fulltrúa. Skal hvert sveitarfélag sem aðili er að svæðisskipulagi Austurlands hafa tvö atkvæði. Fulltrúar viðkomandi sveitarfélags í stjórn SSA, hvort sem um ræðir aðal- eða áheyrnarfulltrúa, fara með atkvæði síns sveitarfélags þannig að ef fulltrúi er einn, fer sá með tvö atkvæði, en ef fulltrúar eru tveir fer hvor þeirra með eitt atkvæði.

Séu fulltrúar sveitarfélags í stjórn SSA að jafnaði tveir, en aðeins annar þeirra situr fund þá fer sá sem situr fundinn með bæði atkvæði sveitarfélagsins, nema varafulltrúi frá sama sveitarfélagi sitji fundinn í stað hins aðalfulltrúans, en þá fer samkvæmt 3. mgr. þessarar greinar.

Ef varafulltrúi í stjórn SSA situr fund stjórnar, hvort sem er fyrir aðal- eða áheyrnarfulltrúa, þar sem kemur til afgreiðslu mála á verksviði svæðisskipulagsnefndar, þá fer hann með atkvæði þess fulltrúa sem viðkomandi leysir af hólmi, komi þeir frá sama sveitarfélagi.

Ef varafulltrúi í stjórn SSA situr fundinn í stað aðalfulltrúa frá öðru sveitarfélagi fer varafulltrúinn ekki með atkvæði viðkomandi aðalfulltrúa við afgreiðslu mála á verksviði svæðisskipulagsnefndar. Í slíku tilfelli fer hinn aðalfulltrúi sama sveitarfélags, sé honum til að dreifa, með atkvæðið, sbr. 1. mgr. þessarar greinar. Ef enginn fulltrúi frá tilteknu sveitarfélagi situr fundinn þá fer enginn með atkvæði þess á fundinum.

6. gr. Starfsfólk.

Austurbrú ses. leggur til starfskrafta til að sinna verkefnum á verksviði svæðisskipulagsnefndar, undirbúningi mála fyrir fundi og öðru sambærilegu, með sama hætti og gildir um önnur verkefni á vegum SSA. Framkvæmdastjóri Austurbrúar ses. er ábyrgur fyrir verkefnum á verksviði svæðisskipulagsnefndar, heldur utan um þau og hefur málfrelsi og tillögurétt þegar þau eru til umræðu og afgreiðslu á fundum stjórnar SSA. Jafnframt getur framkvæmdastjóri Austurbrúar ses. falið öðru starfsfólki stofnunarinnar að vinna að slíkum verkefnum.

Samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar SSA er heimilt að kalla sérfræðinga sveitarfélaganna á sviði skipulagsmála til ráðgjafar inn á fundi þar sem verið er að ræða málefni á verksviði svæðisskipulagsnefndar. Einnig er heimilt að kaupa utanaðkomandi vinnu og ráðgjöf í samræmi við þær fjárheimildir sem SSA veitir til verkefna á verksviði svæðisskipulagsnefndar, í samráði við sveitarfélögin.

7. gr. Gildistaka.

Starfsreglur þessar, sem unnar voru af stjórn SSA og sendar til umsagnar Skipulagsstofnunar í samræmi við 4. mgr. 9. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, voru samþykktar á 16. fundi stjórnar SSA þann 8. desember 2023 og öðlast þegar gildi.

Reglur þessar koma í stað starfsreglna fyrir svæðisskipulagsnefnd sveitarfélaganna á Austurlandi nr. 1221/2021.

Starfsreglurnar voru auk þess samþykktar af bæjarstjórn Fjarðabyggðar 25. janúar 2024, sveitarstjórn Múlaþings 14. febrúar 2024, sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 21. mars 2024 og sveitarstjórn Fljótsdalshrepps 4. apríl 2024.

F.h. svæðisskipulagsnefndar Austurlands, 21. apríl 2024,

Jóna Árný Þórðardóttir. Björn Ingimarsson.
Helgi Gíslason. Aðalbjörg Ósk Sigmundsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 8. maí 2024

Tengd mál