Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið
Málaflokkur
Félagsmál, Almannatryggingar
Undirritunardagur
28. ágúst 2025
Útgáfudagur
29. ágúst 2025
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 934/2025
28. ágúst 2025
REGLUGERÐ
um framkvæmd samþætts sérfræðimats.
1. gr. Gildissvið og framkvæmd.
Reglugerð þessi gildir um framkvæmd samþætts sérfræðimats skv. 26. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.
Tryggingastofnun sér um framkvæmd samþætts sérfræðimats á grundvelli viðauka með reglugerð þessari og skal viðaukinn endurskoðaður svo oft sem þörf þykir en þó eigi sjaldnar en á árs fresti.
2. gr. Mat á getu til virkni á vinnumarkaði.
Við framkvæmd samþætts sérfræðimats skal Tryggingastofnun leggja einstaklingsbundið og heildrænt mat á áhrif heilsu, fötlunar, færni og aðstæðna umsækjanda, svo sem persónulegra, félagslegra og umhverfislegra aðstæðna, á getu hans til virkni á vinnumarkaði á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Til framangreindra aðstæðna telst m.a. notkun hjálpartækja, aðstoð eða stuðningur sem eykur eða getur aukið getu umsækjanda til virkni á vinnumarkaði, sem og möguleikar hans á vinnumarkaði.
Við framkvæmd samþætts sérfræðimats er umsækjanda um örorku- eða hlutaörorkulífeyri rétt og skylt að taka þátt í meðferð máls hjá Tryggingastofnun og er stofnuninni heimilt að boða hlutaðeigandi umsækjanda í viðtal til sérfræðings á vegum stofnunarinnar, sbr. 47. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.
3. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 31. og 63. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, öðlast gildi 1. september 2025. Frá gildistöku reglugerðar þessarar fellur brott reglugerð um örorkumat, nr. 379/1999.
Félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, 28. ágúst 2025.
Inga Sæland.
Bjarnheiður Gautadóttir.
B deild — Útgáfudagur: 29. ágúst 2025