Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið
Málaflokkur
Félagsmál, Akureyri, Þingeyjarsýslur, Eyjafjarðarsýsla
Undirritunardagur
20. nóvember 2025
Útgáfudagur
4. desember 2025
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 1305/2025
20. nóvember 2025
AUGLÝSING
um staðfestingu á samningi milli Akureyrarbæjar, Eyjafjarðarsveitar, Grýtubakkahrepps, Hörgársveitar og Svalbarðsstrandarhrepps um sameiginlegt þjónustusvæði í Eyjafirði um þjónustu við fatlað fólk.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, hefur félags- og húsnæðismálaráðuneytið staðfest samning milli Akureyrarbæjar, Eyjafjarðarsveitar, Grýtubakkahrepps, Hörgársveitar og Svalbarðsstrandarhrepps um sameiginlegt þjónustusvæði í Eyjafirði um þjónustu við fatlað fólk. Samningurinn hefur verið samþykktur af hlutaðeigandi sveitarstjórnum. Staðfesting á samningi hefur verið kynnt innviðaráðuneytinu og mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Samningurinn er gerður á grundvelli 96. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 92. og 93. gr. sömu laga, og tekur til þeirrar sértæku félagslegu þjónustu við fatlað fólk sem tilgreind er í lögum nr. 38/2018. Frá gildistöku samningsins er Akureyrarbær leiðandi sveitarfélag á sameiginlegu þjónustusvæði og veitir íbúum, sem eiga lögheimili í aðildarsveitarfélögunum fimm, þjónustu eins og nánar er kveðið á um í samningnum.
Samningurinn er birtur sem fylgiskjal með auglýsingu þessari.
Félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, 20. nóvember 2025.
F. h. r.
Jóna Guðný Eyjólfsdóttir.
Tryggvi Þórhallsson.
B deild — Útgáfudagur: 4. desember 2025
SAMNINGUR
Akureyrarbæjar, Eyjafjarðarsveitar, Grýtubakkahrepps, Hörgársveitar
og Svalbarðsstrandarhrepps um sameiginlegt þjónustusvæði
í Eyjafirði um þjónustu við fatlað fólk.
1. gr.Forsendur og markmið.
Þann 1. janúar 2011, með breytingu á lögum og samkomulagi um tilfærslu þjónustu, tóku sveitarfélög við þeirri þjónustu sem ríkið hefur veitt fötluðu fólki. Til að tryggja árangur þessarar tilfærslu þurfa sveitarfélög að hafa faglegan og fjárhagslegan styrk á sviði félagsþjónustu.
Akureyrarbær annars vegar og Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit og Svalbarðsstrandarhreppur hins vegar (hér eftir sameiginlega „aðildarsveitarfélögin“ eða „samningsaðilar“) hafa ákveðið að gera með sér samning um þjónustu við fatlað fólk, sbr. 6. mgr. 3. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir (hér eftir „lög um þjónustu við fatlað fólk“) og á grundvelli 92., 93. og 96. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 (hér eftir „svstjl.“).
Samningurinn byggir á lögum um þjónustu við fatlað fólk og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, s.s. samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þegar fötluð börn og fjölskyldur þeirra eiga í hlut. Samningurinn tekur einnig mið af stjórnsýslulögum nr. 37/1993 (hér eftir „ssl.“) sem og áætlunum íslenska ríkisins er varða málefni fatlaðs fólks, s.s. framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.
Markmið samningsins eru einkum að (i) tryggja fötluðu fólki samþætta og heildstæða þjónustu; (ii) laga þjónustu að þörfum og óskum fatlaðs fólks með hliðsjón af ólíkum aðstæðum og stuðla þannig að auknu sjálfstæði þeirra; og (iii) stuðla að hagræðingu í rekstri með samþættingu þjónustu- og rekstrarþátta.
2. gr. Skilgreiningar.
Í samningi þessum hafa eftirtalin hugtök svofellda merkingu:
Framkvæmdaráð: Aðildarsveitarfélög samningsins mynda framkvæmdaráð sem er vettvangur til þess að fjalla um stefnumótun málaflokksins, almennan rekstur þjónustunnar á starfssvæðinu, starfsáætlun og rekstraryfirlit. Framkvæmdaráð veitir jafnframt umsögn um drög að fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar í þeim málaflokkum sem undir samning þennan heyra. Ráðið hefur þó eingöngu ráðgjafarhlutverk og á ekki að fjalla um einstök mál. Í ráðinu sitja sveitarstjórar aðildarsveitarfélaganna, ásamt sviðsstjóra velferðarsviðs Akureyrarbæjar.
Fagráð: Teymið heyrir undir sviðsstjóra velferðarsviðs Akureyrarbæjar. Fagráðið er skipað þremur (3) forstöðumönnum innan velferðarsviðs, auk þjónustustjóra sem er starfsmaður ráðsins. Til ráðsins berast erindi frá matsteymum velferðarsviðs í þeim málum þar sem óskað er eftir þjónustu sem er ekki til eða þar sem kostnaður myndi fara fram úr áætlun. NPA-samningar eru ávallt afgreiddir hjá fagráðinu.
Matsteymi: Matsteymi velferðarsviðs eru fjögur (4); (i) barna- og fjölskylduteymi; (ii) stuðnings- og stoðþjónustuteymi; (iii) búsetuteymi; og (iv) teymi um virkni og vinnu. Öll taka þau við umsóknum um viðeigandi þjónustu og fer þar fram mat á þjónustuþörf.
3. gr. Þjónustusvæði í Eyjafirði.
Aðildarsveitarfélögin mynda sameiginlegt þjónustusvæði í Eyjafirði um þjónustu við fatlað fólk. Þjónustusvæðið er ekki sjálfstæður lögaðili.
Sveitarfélagið Akureyrarbær er leiðandi sveitarfélag á þjónustusvæðinu og skal veita fötluðu fólki sem á lögheimili í einhverju aðildarsveitarfélaganna þjónustu, eins og nánar er kveðið á um í samningi þessum, í samræmi við lög um þjónustu við fatlað fólk, reglugerðir sem settar hafa verið á grundvelli þeirra, leiðbeinandi reglna og handbóka sem ráðherra gefur út; og önnur lög og reglur sem geta átt við, þ. á m. ssl. og alþjóðlegar skuldbindingar sem íslenska ríkið hefur tekist á hendur, sbr. 4. mgr. 1. gr. samnings þessa. Í þessu felst að sveitarstjórnir Eyjafjarðarsveitar, Grýtubakkahrepps, Hörgársveitar og Svalbarðsstrandarhrepps hafa ákveðið að framselja til Akureyrarbæjar vald til stefnumótunar og framkvæmdar þjónustu við fatlað fólk, sem á lögheimili í aðildarsveitarfélögunum, í samræmi við ákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir; og 92., 93. og 96. gr. svstjl.
Það er sameiginlegur vilji aðildarsveitarfélaganna að jafnræðis sé gætt í vinnu með fötluðu fólki með langvarandi stuðningsþarfir og fjölskyldum þeirra óháð búsetu.
4. gr.Valdheimildir leiðandi sveitarfélags, valdframsal og samningar við einkaaðila.
Akureyrarbær er eins og áður segir leiðandi sveitarfélag í skilningi 96. gr. svstjl. Það felur í sér að önnur aðildarsveitarfélög samningsins hafa framselt vald til töku ákvarðana, í málaflokkum sem samningurinn nær yfir, til Akureyrarbæjar. Endanleg ábyrgð á ákvörðunum liggur því hjá bæjarstjórn Akureyrarbæjar eftir því sem við á samkvæmt viðkomandi lögum. Aðildarsveitarfélög skulu einnig tryggja eftir því sem við á að valdframsal til Akureyrarbæjar sé í samþykktum þeirra um stjórn og fundarsköp.
Akureyrarbær ber fjárhagslega ábyrgð á verkefninu og tekur ákvarðanir um útgjöld. Aðkoma annarra sveitarfélaga að fjárhagslegum þáttum samningsins er tryggð í gegnum framkvæmdaráð í samræmi við 7. gr. samningsins.
Akureyrarbær hefur heimild til að framselja vald til töku stjórnvaldsákvarðana, sé slíkt heimilt í lögum þeim er um þjónustuna gilda, til nefnda eða starfsmanna og skal slíkt valdframsal útfært í samþykkt Akureyrarbæjar um stjórn og fundarsköp í samræmi við svstjl. og lög sem um stjórnvaldsákvörðunina gilda. Akureyrarbær tilkynnir sveitarfélögunum sem og framkvæmdaráði um slíkar ákvarðanir um valdframsal. Akureyrarbæ er jafnframt heimilt að gera samninga við einkaaðila um framkvæmd þjónustu og verkefna sem falla undir samning þennan en viðkomandi aðili skal uppfylla lögskyld skilyrði til þeirrar starfsemi, s.s. rekstrarleyfi frá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Þá verða slíkir samningar að samrýmast lögum um þjónustuna, svstjl. og rúmast innan samþykktrar fjárhagsáætlunar.
5. gr.Framkvæmd þjónustunnar. Velferðarráð og áheyrnarfulltrúar.
Velferðarráð Akureyrarbæjar fer með framkvæmd verkefnisins á samningstímanum, með vísan til samþykktar velferðarráðs Akureyrarbæjar. Velferðarráð tekur til umfjöllunar fundargerðir framkvæmdaráðs.
Aðildarsveitarfélögin tilnefna sameiginlega einn áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt á fundum velferðarráðs Akureyrarbæjar þegar til umræðu eru málefni samstarfsverkefnisins.
Þegar fyrir liggur að á dagskrá velferðarráðs Akureyrarbæjar er málefni samstarfsverkefnisins um þjónustu við fatlað fólk, þá skal áheyrnarfulltrúi aðildarsveitarfélaganna fá boð um fund á viðeigandi dagskrárlið.
Þjónusta innan svæðisins er veitt á jafnræðisgrundvelli og byggja ákvarðanir um veitingu hennar á mati á þjónustuþörf. Sá sem metinn er í mestri þörf fyrir þjónustu skal að öllu jöfnu hafa forgang að þjónustu, óháð búsetu. Þá gilda sömu viðmið um þjónustustig á svæðinu öllu. Þjónusta samkvæmt samningi þessum kemur til viðbótar þeirri þjónustu sem veitt er á grundvelli annarra laga en ekki í stað hennar. Þegar nýr einstaklingur er metinn til þjónustu samkvæmt samningi þessum skal hann nýta sér almenna stuðningsþjónustu sem nemur allt að 15 klukkustundum á viku sem er á ábyrgð hlutaðeigandi sveitarfélags, sbr. 26. og 27. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 (hér eftir „félagsþjónustulög“). Áður en aðstoð er veitt skal matsteymi stuðningsþjónustu meta þörf og e.a. óska eftir SIS-þjónustumati. Um aukna þjónustuþörf fer samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk. Sjá nánar verklýsingu í viðauka 1 með samningi þessum.
Núverandi þjónustueiningar verða starfræktar áfram að óbreyttu, en þjónusta skal þó miðast við metna þjónustuþörf á hverjum tíma. Ef óhjákvæmilegt er talið að gera breytingar á þjónustueiningum eða koma upp nýjum þjónustuþáttum, sem hafa áhrif á heildarfyrirkomulag á rekstri og kostnað við þjónustu, skal breytingin koma til umfjöllunar og ákvörðunar velferðarsviðs Akureyrarbæjar annars vegar og til kynningar hjá framkvæmdaráði hins vegar. Við ákvörðun skal taka mið af 2. mgr. 8. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk hvað varðar aðkomu ráðherra málaflokksins, hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og/eða notendaráðs.
6. gr.Fagráð. Samráð og samráðshópur.
Til að tryggja samfellu og samráð um veitingu þjónustu skal vera starfandi fagráð, sem er skipað fulltrúum úr matsteymum velferðarsviðs. Þjónustustjóri velferðarsviðs er formaður fagráðsins og stýrir fundum þess. Teymið hefur faglegt ráðgjafarhlutverk, er vettvangur til að fjalla um og taka á þyngstu málunum, veita faglega ráðgjöf um einstök mál og annað eftir atvikum er varðar þjónustu í málefnum fatlaðs fólks í Eyjafirði. Sviðsstjóri velferðarsviðs Akureyrarbæjar hefur seturétt á fundum ráðsins. Fagráðið kallar til fundar þá starfsmenn í málaflokknum sem þurfa þykir hverju sinni.
Samráðshópur um málefni fatlaðs fólks, skv. 42. gr. félagsþjónustulaga, er starfræktur á þjónustusvæði samningsins. Um er að ræða formlegan samráðsvettvang þar sem fjallað er um þjónustu við fatlað fólk og framkvæmd og þróun þjónustunnar. Í samráðshópnum skulu að lágmarki sitja þrír (3) fulltrúar kosnir af sveitarstjórnum á þjónustusvæðinu auk þriggja (3) fulltrúa sem tilnefndir eru af hagsmunasamtökum fatlaðs fólks. Aðildarsveitarfélögin skulu koma sér saman um einn af þeim þremur fulltrúum sem sveitarstjórnir þjónustusvæðisins kjósa.
7. gr.Stjórn þjónustusvæðis – framkvæmdaráð.
Aðildarsveitarfélög samningsins mynda framkvæmdaráð sem er vettvangur fyrir fulltrúa sveitarfélaganna til þess að fjalla um stefnumótun málaflokksins, almennan rekstur þjónustunnar á starfssvæðinu, starfsáætlun og rekstraryfirlit. Fundargerðir fagráðs skulu koma til upplýsinga á fundum framkvæmdaráðs en þó þannig að engar persónugreinanlegar upplýsingar komi fram. Framkvæmdaráð hefur umsagnar- og tillögurétt er varðar rekstur og fjárhag málaflokka sem undir samning þennan heyra. Að öðru leyti hefur framkvæmdaráð eingöngu ráðgjafarhlutverk og á ekki að fjalla um einstök mál er varða þjónustu. Fundargerðir framkvæmdaráðs skulu sendar sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaga eftir hvern fund ráðsins og ber formaður framkvæmdaráðs ábyrgð á þeim verkþætti.
Í framkvæmdaráði eiga sæti sveitarstjórar aðildarsveitarfélaganna ásamt sviðsstjóra velferðarsviðs Akureyrarbæjar. Bæjarstjóri Akureyrarbæjar fer með formennsku ráðsins. Formaður skal kalla ráðið saman tvisvar (2) á ári en hver fulltrúi í framkvæmdaráði getur óskað eftir fundi utan þess tíma þyki þess þörf. Sviðsstjóri velferðarsviðs kallar til fundar ráðsins þá starfsmenn sem þurfa þykir hverju sinni.
Stefnumarkandi ákvarðanir koma til umræðu í framkvæmdaráði áður en þær fara til staðfestingar í bæjarstjórn Akureyrarbæjar og þurfa staðfestingu tveggja (2) annarra sveitarfélaga, auk Akureyrarbæjar, áður en þær koma til framkvæmda. Um er að ræða ákvarðanir eða ráðstafanir sem vænta má að breyti forsendum rekstrar viðkomandi verkefnis samkvæmt samningi þessum, að svo miklu leyti að breytingar hafi veruleg áhrif á þjónustu Akureyrarbæjar við íbúa eins eða fleiri aðildarsveitarfélaga eða þegar veita skal þjónustu umfram lögbundnar skyldur sveitarfélaga. Eins ef um er að ræða stórar ákvarðanir um eignfært viðhald fasteigna, nýfjárfestingu eða búnaðarkaup sem þarfnast samþykkis í viðauka við fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar og/eða hinna sveitarfélaganna. Ekki er þörf á staðfestingu annarra ákvarðana um framkvæmd verkefnis með vísan til 6. tölul. 4. mgr. 96. gr. svstjl. nema þess sé sérstaklega getið í samningi þessum.
8. gr.Stjórn þjónustusvæðis – fjárstjórn – fjárhagsáætlun.
Akureyrarbær skal gera tillögu að fjárhagsáætlun komandi árs vegna þeirra þjónustuþátta sem undir samning þennan falla. Sú tillaga skal lögð fram í framkvæmdaráði fyrir 15. september ár hvert. Samhliða skal Akureyrarbær leggja fram tillögur að breytingum sem hafa áhrif á þriggja (3) ára rammaáætlun málaflokksins.
Framkvæmdaráð skal hafa lokið umfjöllun fyrir 15. október og skila umsögn til Akureyrarbæjar.
Geri bæjarstjórn Akureyrarbæjar breytingar á tillögu að fjárhagsáætlun að lokinni umfjöllun framkvæmdaráðs, er felur í sér hækkun á heildarkostnaði sem nemur meira en 5% frá fyrri tillögu, skal sú breytingartillaga koma til umsagnar framkvæmdaráðs.
Fjárhagsáætlun, þeirra þjónustuþátta sem undir þennan samning heyra, skal staðfest sem hluti af fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar í samræmi við VII. kafla svstjl.
Óheimilt er að víkja frá fjárhagsáætlun nema bæjarstjórn Akureyrarbæjar hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina í samræmi við VII. kafla svstjl. Viðaukatillögur skulu lagðar fyrir framkvæmdaráð til umsagnar líkt og fjárhagsáætlanir með að lágmarki viku fyrirvara.
Framkvæmdaráði er jafnframt heimilt að kalla eftir upplýsingum frá Akureyrarbæ um þróun rekstrar og þjónustu er heyrir undir samning þennan.
9. gr.Þjónusta Akureyrarbæjar.
Akureyrarbær annast heildstæða þjónustu við fatlað fólk samkvæmt ákvæðum laga um þjónustu við fatlað fólk, aðrar reglur og stjórnvaldsfyrirmæli er varða þann málaflokk; og samþykktir um þjónustu. Þá skal veiting þjónustu að auki taka mið af ákvæðum ssl.
Akureyrarbær tekur að sér að reka eftirfarandi þjónustuþætti til að veita þjónustu á forsendum laga um málefni fatlaðs fólks:
- Ráðgjöf og önnur stuðningsþjónusta við fatlaða og fjölskyldur þeirra.
- Sólarhringsþjónusta við fatlað fólk á heimilum.
- Iðja – hæfing – dagþjónusta, starfsþjálfun og vernduð vinna.
- Skammtímadvöl.
- Stoðþjónusta umfram 15 tíma á viku.
- Búsetuþjónusta íbúða- og þjónustukjarnar og sambýli.
- Frístundaþjónusta fyrir fötluð börn 10 til 20 ára.
- Búseta fyrir börn.
- Lífsleikni – þjálfun fyrir að flytja að heiman.
- SIS mat.
Veitir þjónustu í formi samninga:
- Stuðningsfjölskyldur/helgardvöl.
- Notendastýrð persónuleg aðstoð.
- Notendasamningar.
Greining á börnum, sumardvöl, frístundaþjónusta og akstursþjónusta er á ábyrgð hvers aðildarsveitarfélags og er ekki hluti af samningi þessum.
Þjónusta við fatlað fólk felur m.a. í sér eftirfarandi verkefni samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir:
- Gerð samninga við sjálfseignarstofnanir eða aðra einkaaðila um þjónustu, sbr. 6. gr.
- Stoðþjónusta sem er nauðsynleg þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu, sbr. 8. gr.
- Gerð notendasamninga, sbr. 10. gr.
- Gerð samninga um framkvæmd þjónustu samkvæmt samningi um notendastýrða persónulega aðstoð, sbr. 11. gr.
- Hafa forystu í þverfaglegu þjónustuteymi um útfærslu þjónustu, sbr. 12. gr.
- Gerð samninga um stuðningsfjölskyldur, sbr. 15. gr.
- Skammtímadvöl, sbr. 17. gr.
- Sumardvöl, sbr. 18. gr.
- Tilnefning málstjóra, sbr. 19. gr., sbr. lög nr. 86/2021, um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
- Vinnustaðir fyrir verndaða vinnu, hæfingu og dagþjónustu fyrir fatlað fólk þar sem því stendur til boða þroska-, iðju- og starfsþjálfun, sbr. 24. gr.
- Veiting styrkja eða fyrirgreiðslna vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar, sbr. 25. gr.
10. gr.Fjármögnun.
Aðilar þjónustusvæðisins bera sameiginlega ábyrgð á fjármögnun þjónustu innan svæðisins eins og nánar er kveðið á um í samningi þessum.
0,25% af áætluðum útsvarsstofni aðildarsveitarfélaganna renna til Akureyrarbæjar með mánaðarlegum eða ársfjórðungslegum greiðslum sem byggja á staðgreiðsluáætlun útsvars. Ef samþykkt fjárhagsáætlun viðkomandi árs er hærri en áætluð fjárframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og 0,25% útsvarshlutur sveitarfélaga greiða sveitarfélögin sinn hlut samkvæmt íbúatölu sem Hagstofan gefur út árlega, í áætluðum halla, mánaðarlega. Þá skulu fjárframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem byggja á mati á þjónustuþörf tiltekinna einstaklinga, ásamt tekjum af rekstri einstakra þjónustueininga renna til Akureyrarbæjar.
Uppgjör ofgreiddra eða vangreiddra framlaga aðildarsveitarfélaganna til Akureyrarbæjar vegna liðins árs fer fram þegar ársuppgjör (álagning) útsvars liggur fyrir ásamt endanlegum kostnaði við þjónustuna fyrir liðið starfsár.
Akureyrarbær sækir um styrk til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna NPA-samninga og vegna frístundaþjónustu fatlaðra skólabarna og ungmenna, sem er þjónusta sem aðildarsveitarfélögin taka ákvörðun um að veita samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga. Jöfnunarsjóður leggur áherslu á að umsókn komi frá þjónustusvæði en ekki einstaka sveitarfélögum. Greiðsla styrks til aðildarsveitarfélaga tekur mið af og er reiknuð út frá umsókn sveitarfélags og afgreiðslu Jöfnunarsjóðs.
11. gr.Útgjöld.
Akureyrarbær ber allan kostnað vegna þjónustu samkvæmt samningi þessum.
Eftirtaldar fasteignir eru nýttar í þjónustu við fatlað fólk. Listinn getur tekið breytingum á samningstímanum:
Þjónustukjarni Geislatúni 1
Sambýli Snægili 1
Þjónustukjarni Þrastarlundi 3-5
Þjónustukjarni Klettatúni 2
Þjónustukjarni Kjalarsíðu 1
Þjónustukjarni Hafnarstræti 28-30 – í þremur íbúðum er öryggisvistun með samningi við ráðuneyti. Sex íbúðir aðrar þar sem veitt er þjónusta
Þjónustukjarni Vallatúni 2
Þjónustukjarni Hamratúni 2
Þjónustukjarni Skútagili 2
Þjónustukjarni Borgargili 1
Búseta fyrir börn – Sporatúni 43
Þjónustukjarni í Klettaborgum 43
Þjónustukjarni Eiðsvallagötu 34
Þjónustukjarni Hafnarstræti 16 (verður tekin í notkun 2024)
Skógarlundur, miðstöð virkni og hæfingar
Plastiðjan Bjarg/Iðjulundur, Furuvöllum 1
Skammtímavistun fyrir börn og ungmenni ásamt skólavistun fyrir 10 til 20 ára.
Þjónusta til stuðnings sjálfstæðri búsetu (stoðþjónusta)
Samþætting við stuðningsþjónustu
Þjónustan er veitt um allt þjónustusvæðið en viðamesta þjónustan tengist Akursíðu,
Hjallalundi og Kjarnagötu 14.
Forræði yfir fasteignum sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk er hjá húseigendum, þar með talið forræði yfir gerð leigusamninga við íbúa.
Framlögum vegna búnaðarkaupa stofnana samkvæmt lögum og reglugerðum þar um verður úthlutað af Akureyrarbæ samkvæmt fjárhagsáætlun.
Styrkir eða fyrirgreiðsla vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar, skv. 25. gr. laga um málefni fatlaðs fólks er á ábyrgð Akureyrarbæjar.
Kostnaður Akureyrarbæjar vegna umsýslu við verkefnið, s.s. bókhald, starfsmannahald, umsjón og samskipti vegna samningsins verður metinn inn í fjárhagsáætlun. Einnig kostnaður sem til fellur vegna innra eftirlits, uppgjörs, reglna og skýrslugerðar, sbr. 12. gr. samningsins.
Húsnæðisúrræði eru á ábyrgð Akureyrarbæjar, sbr. 9. gr. laga um málefni fatlaðs fólks.
12. gr.Eftirlit, uppgjör, reglur og skýrslugerð.
Akureyrarbær kemur á innra eftirliti með framkvæmd þjónustu við fatlað fólk með gerð kröfulýsingar fyrir starfsstöðvar í málaflokki fatlaðs fólks. Um er að ræða lýsingu á kröfum sem Akureyrarbær gerir til tilgreindra starfsstöðva sem veita fötluðu fólki þjónustu til að tryggja sem best gæði þjónustu og að þjónustan sé í samræmi við lög, reglugerðir, alþjóðaskuldbindingar; og gæðaviðmið Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála í félagslegri þjónustu við fatlað fólk.
Sé kostnaður hærri samkvæmt fjárhagsáætlun en tekjur; 0,25% útsvar og framlög úr Jöfnunarsjóði vegna málefna fatlaðs fólks, skal skipta hallanum í samræmi við íbúafjölda aðildarsveitarfélaganna. Akureyrarbær innheimtir viðbótarframlagið mánaðarlega eða ársfjórðungslega í samræmi við fjárhagsáætlun. Séu tekjur hins vegar hærri en raunútgjöld skal Akureyrarbær endurgreiða öðrum aðildarsveitarfélögum í samræmi við íbúafjölda sveitarfélaganna.
Gera skal kostnaðaruppgjör ársins fyrir þjónustusvæðið, miðað skal við að innbyrðis skiptist ábyrgðin í samræmi við fjölda íbúa sem Hagstofa Íslands birtir vegna janúar ár hvert.
Akureyrarbær setur reglur um þjónustu sem veitt er á forsendum samnings þessa. Reglurnar taka mið af reglugerðum og leiðbeinandi reglum ráðherra. Sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaga þessa samnings skulu fá reglurnar til umsagnar áður en þær taka gildi.
Akureyrarbær skal gefa út ársskýrslu um starfsemi þjónustusvæðisins, þar sem meðal annars skal gerð grein fyrir tölulegum upplýsingum sem lýsa eðli, umfangi og kostnaði þjónustunnar. Þá ber Akureyrarbær ábyrgð á upplýsingagjöf vegna skila á gögnum til Hagstofu Íslands. Skal ársskýrslan fela í sér ársuppgjör sem tekur mið af lögum og reglum um bókhald og fjármál sveitarfélaga og vera m.a. sundurliðuð eftir bókhaldslyklum. Einnig skal ársskýrslan innihalda tölulegar upplýsingar brotið niður á aðildarsveitarfélag svo auðvelt sé að sjá kostnaðarþátttöku hvers sveitarfélags og hvernig þjónusta er veitt til íbúa þess.
13. gr.Upplýsingagjöf.
Fulltrúar í sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaga eiga sama rétt á aðgangi að gögnum og upplýsingum um verkefni sem falla undir samning þennan hjá Akureyrarbæ og bæjarfulltrúar Akureyrarbæjar, skv. 28. og 96. gr. svstjl.
Akureyrarbær ber ábyrgð á miðlun upplýsinga og gagna til annarra samstarfsaðila skv. 8. tölul. 4. mgr. 96. gr. svstjl. og á grundvelli annarra sérlaga.
Sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaga geta óskað eftir ítarlegri upplýsingum og skýrslum ef tilefni er til þess, en gæta skal þó þess að slíkar beiðnir íþyngi ekki stjórnsýslu Akureyrarbæjar um of.
Að öðru leyti gilda ákvæði svstjl. um upplýsingarétt sveitarstjórnarfólks, lög nr. 90/2018, um persónuvernd og miðlun persónuupplýsinga sem og önnur lög sem gilda um viðkomandi málaflokk.
14. gr. Starfsfólk.
Akureyrarbær er vinnuveitandi alls starfsfólks sem starfar að verkefnum sem samningurinn tekur til. Það þýðir að Akureyrarbær fer með ráðningarsamband og allar stjórnunarheimildir gagnvart starfsmönnunum, sér um afgreiðslu launa til starfsmanna og stendur skil á lögbundnum greiðslum, lífeyrissjóðsgreiðslum og iðgjöldum til stéttarfélaga.
Óheimilt er að ráða í störf sem unnin eru í þágu þjónustu við fatlað fólk, þá sem hafa hlotið refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. kafla, 211. gr. eða 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
15. gr. Meðferð ágreinings.
Rísi ágreiningur um túlkun og framkvæmd á samningi þessum skal honum vísað til héraðsdóms Norðurlands eystra, náist ekki samkomulag milli aðila.
16. gr. Gildistími og endurskoðun.
Samningur þessi tekur gildi við birtingu hans í Stjórnartíðindum eða eigi síðar en 1. júlí 2024 að undangenginni umfjöllun og staðfestingu sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga, sbr. 2. mgr. 92. gr. svstjl. og er ótímabundinn með eins árs uppsagnarfresti sem miðast við áramót.
Aðildarsveitarfélög skuldbinda sig til þess að funda í upphafi nýs kjörtímabils og eigi síðar en 1. september eftir kosningar til þess að ræða áframhaldandi samstarf eða sammælast um að koma málefnum í breyttan farveg standi vilji til þess með hagmuni þjónustuþega og samfellu í þjónustu að leiðarljósi. Sé vilji til þess að segja samningi upp í upphafi kjörtímabils skal uppsögn samnings berast fyrir áramót og tekur gildi einu ári frá þeim tíma.
Telji aðili að samningnum að hann hafi verið vanefndur eða að þjónustunni megi með einhverju móti koma betur fyrir skal kalla saman fund fulltrúa aðildarsveitarfélaganna á vettvangi framkvæmdaráðs. Að fengnu samþykki allra sveitarstjórna er hægt að endurgera samninginn innan samningstímans þar sem m.a. einhverjum hluta þjónustunnar verði komið fyrir með öðrum hætti, sem stenst þær kröfur sem gerðar eru til viðkomandi þjónustuþáttar.
Breytist forsendur samningsins geta samningsaðilar farið fram á endurskoðun hans. Breyttar forsendur teljast m.a. (i) verulegar breytingar á ákvæðum laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, og umfang og gæði þjónustu við fatlað fólk; og (ii) sameining sveitarfélaga eða breytingar á mörkum þjónustusvæðis.
Samningur þessi er gerður í sex (6) jafngildum eintökum, eitt handa hverjum samningsaðila og eitt til ráðuneytisins í samræmi við 93. gr. svstjl.
Þannig samþykkt:
í bæjarstjórn Akureyrarbæjar dags. 11. júlí 2024
í sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar dags. 11. júlí 2024
í sveitarstjórn Grýtubakkahrepps dags. 10. júlí 2024
í sveitarstjórn Hörgársveitar dags. 24. júlí 2024
í sveitarstjórn Svalbarðsstrandahrepps dags. 25. júní 2024.