Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Innviðaráðuneytið
Málaflokkur
Fjarskipti
Undirritunardagur
20. ágúst 2025
Útgáfudagur
5. september 2025
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 950/2025
20. ágúst 2025
REGLUGERÐ
um gjaldtöku smásölugjalda fyrir reikiþjónustu íslenskra fjarskiptafyrirtækja í Bretlandi.
1. gr. Markmið.
Markmið þessarar reglugerðar er að auka neytendavernd á fjarskiptamarkaði og færa gjaldtöku smásölugjalda fyrir reikiþjónustu íslenskra fjarskiptafyrirtækja í Bretlandi til samræmis við Evrópureglur.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerðin tekur til allra íslenskra símanúmera og SIM-korta sem íslensk fjarskiptafyrirtæki hafa úthlutað til notenda hvort sem um er að ræða í áskrift eða frelsisþjónustu.
3. gr. Heimaverðskrá.
Fjarskiptafyrirtæki skulu bjóða viðskiptavinum sínum heimaverðskrá (e. Roam Like Home) þegar þeir ferðast til Bretlands, enda sé notkunin í samræmi við eðlilegt notkunarmynstur ferðamanns. Þessi regla gildir ekki um viðvarandi reiki (e. Permanent Roaming).
Sömu skilmálar skulu gilda um reikiþjónustu í Bretlandi gagnvart íslenskum notendum sem almennt gilda samkvæmt evrópsku reikiregluverki, þ.m.t. um eðlilegt notkunarmynstur (e. Fair Use).
4. gr. Reglugerðarheimild og grundvöllur.
Reglugerð þessi er sett á grundvelli 2. mgr. 54. gr. laga um fjarskipti nr. 70/2022 og grundvallast á heildsölugjöldum fyrir reikiþjónustu sem kveðið er á um í XX. viðauka við fríverslunarsamning milli Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins og Konungsríkisins Noregs og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands frá 8. júlí 2021 sem tók gildi 1. júní 2023. Viðaukinn er birtur sem fylgiskjal með reglugerð þessari. Reglugerð þessi tekur gildi 1. október 2025.
Innviðaráðuneytinu, 20. ágúst 2025.
Eyjólfur Ármannsson.
Ingilín Kristmannsdóttir.
B deild — Útgáfudagur: 5. september 2025