Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
Málaflokkur
Landbúnaður, Skógrækt
Undirritunardagur
14. janúar 2026
Útgáfudagur
28. janúar 2026
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 50/2026
14. janúar 2026
REGLUGERÐ
um hvata- og stuðningsverkefni í landgræðslu og skógrækt.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að hvetja til og styðja verkefni og framkvæmdir á vegum einstaklinga, félagasamtaka, sveitarfélaga, fyrirtækja eða annarra í landgræðslu og skógrækt í samræmi við 8. og 19. gr. laga nr. 155/2018 um landgræðslu og 7. gr. og IV. kafla laga nr. 33/2019 um skóga og skógrækt.
2. gr. Auglýsingar og umsóknir.
Land og skógur skal auglýsa eftir umsóknum um stuðning samkvæmt reglugerð þessari einu sinni á ári eða eftir því sem fjárveitingar leyfa. Auglýsa skal á vef Lands og skógar, í dagblöðum eða með öðrum sannanlegum hætti. Tilgreint skal í auglýsingu heildarfjárhæð sem er til úthlutunar, styrkhlutfall til mismunandi verkefna eða verkefnaflokka og hámarksstyrkfjárhæð. Einnig skal tilgreina í auglýsingu ef Land og skógur hefur sett reglur um framkvæmd þess verkefnis sem auglýst er og fyrirliggjandi samningsform ef við á.
Umsækjendur geta verið einstaklingar og lögaðilar, að undanskildum A-hluta ríkisaðilum. Umsóknum skal skila rafrænt í umsóknarkerfi.
Umsókn skulu m.a. fylgja eftirtalin gögn og upplýsingar:
- Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru.
- Lýsing á verkefninu og markmiðum þess, þar sem m.a. skal koma fram hvernig verkefnið samræmist markmiðum og skilgreindum áherslum styrkveitinga samkvæmt reglugerð þessari.
- Sundurliðuð kostnaðar- og framkvæmdaáætlun með tímasettri verkáætlun á formi sem Land og skógur útvegar.
Umsóknum sem ekki berast innan tilskilins tímafrests í gegnum umsóknarkerfi er hafnað. Heimilt er að hafna umsóknum sem skilað er með ófullnægjandi hætti.
3. gr. Styrkhæf verkefni.
Verkefni sem njóta styrks samkvæmt reglugerð þessari skulu uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:
- Vinna að markmiðum 1.–3. gr. laga um landgræðslu og/eða 1. gr. laga um skóga og skógrækt.
- Vera í samræmi við landsáætlun um landgræðslu og skógrækt, svæðisáætlanir, gildandi skipulag og viðeigandi staðla og gæðaviðmið.
- Uppfylla skilyrði varðandi leyfisveitingar, s.s. framkvæmdaleyfi.
- Umsækjendur skulu vera umráðahafar viðkomandi landsvæðis.
Eftirfarandi eru dæmi um styrkhæf verkefni samkvæmt reglugerð þessari:
- Endurheimt votlendis og birkivistkerfa.
- Fræðsla, vöktun og samfélagsverkefni.
- Gerð heildstæðra landnýtingaráætlana, fyrir jarðir, vatnasvið og/eða landslagsheildir.
- Hagaskógar/skjóllundir/útivistarskógar/landgræðsluskógar.
- Landgræðsla.
- Nýræktun skóga og skógarumhirða, þ.m.t. umhirðuáætlun.
- Skjólbelti til að bæta skilyrði til landbúnaðar.
- Varnir gegn landbroti.
- Verndun kolefnisríkra vistkerfa og vistkerfa sem eru mikilvæg fyrir líffræðilega fjölbreytni.
Verkefni sem falla ekki undir a–i-lið 2. mgr. geta einnig notið stuðnings séu þau í samræmi við a–d-lið 1. mgr. Skal það auglýst á hverjum tíma, sbr. 2. gr.
Verkefni geta notið stuðnings til fleiri en eins árs enda sé gerður um þau samningur, sbr. 7. gr., með fyrirvara um fjárveitingar í fjárlögum hverju sinni.
Land og skógur gerir ár hvert tillögu til ráðherra um skiptingu stuðnings á milli verkefnaflokka og um stuðningshlutfall til einstakra verkefna til næstu þriggja ára.
4. gr. Forgangsröðun umsókna.
Ef sótt er um hærri fjárhæð en er til úthlutunar hverju sinni skal umsóknum m.a. forgangsraðað með vísan til eftirfarandi þátta:
- Markmið laga um landgræðslu og laga um skóga og skógrækt.
- Áherslur í landsáætlun um landgræðslu og skógrækt.
- Aðgerðir miða að stöðvun jarðvegsrofs og hnignunar vistkerfa, sjálfbærri landnýtingu, endurheimt vistkerfa eða uppbyggingu skógarauðlindar.
- Aðgerðir byggja á heildstæðri áætlun fyrir heilar jarðir, stór landsvæði og/eða landslagsheildir.
- Reglna verkefnis, s.s. hvað varðar úthlutun, framkvæmd o.fl.
Hafi umsækjandi hlotið stuðning eða styrk til sama verkefnis skal tilgreina það í umsókn. Heimilt er að draga þá fjárhæð frá heildarupphæð styrks. Þá er jafnframt heimilt að hafna umsókn um frekari styrk ef óútskýrðar eða óhóflegar tafir hafa orðið á verkefni sem þegar nýtur styrks.
5. gr. Mat á umsóknum.
Land og skógur tekur ákvarðanir um styrkveitingar á grundvelli faglegs mats á framkomnum umsóknum. Til þess getur stofnunin aflað upplýsinga frá opinberum aðilum.
Við mat á umsóknum og ákvörðun um úthlutun er jafnframt heimilt að taka tillit til eftirtalinna sjónarmiða, eftir því sem við á:
- hvort og hversu vel verkefni falli að skilgreindum áherslum styrkveitinga eins og þær eru auglýstar hverju sinni,
- forsendna og mikilvægis verkefnis og hvort verkefnið sé líklegt til að hafa í för með sér umhverfislegan ávinning,
- hvort markmið verkefnis séu skýr og raunhæf, hvernig markmiðum sem að er stefnt verði náð og hvernig árangur verkefnis verði metinn,
- hvort verkefnið sé byggt á faglegum grunni,
- eigins framlags umsækjanda eða annarra til verkefnis,
- hagnýtis verkefnis og hvort verkefni sé atvinnuskapandi,
- fjárhagsgrundvallar verkefnis,
- upplýsinga um samstarfsaðila.
Ákvarðanir um veitingu styrkja eru teknar af Landi og skógi í samræmi við gildandi lög og reglur. Um málsmeðferð við ákvarðanir um veitingu styrkja gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
6. gr. Afgreiðsla styrkja.
Styrkþegi skal skila framkvæmdaskráningu til Lands og skógar að loknum framkvæmdum hvers árs innan tilgreindra tímamarka. Verkefnið skal vera unnið í samræmi við skilyrði styrkveitingar og unnið skal í samræmi við áætlun og úthlutun. Framkvæmdaskráning er forsenda greiðslu framlaga vegna allra verkefna sem njóta stuðnings samkvæmt þessari reglugerð.
Við upphaf framkvæmdar sem telst styrkhæf er heimilt að greiða allt að 50% af samþykktri styrkupphæð og eftirstöðvar við skil á gögnum, upplýsingum, lokaskýrslu eða úttekt.
7. gr. Samningar.
Land og skógur gerir samninga við styrkþega um framlög til samstarfsverkefna áður en til framkvæmda kemur samkvæmt ákvæðum laga um landgræðslu og laga um skóga og skógrækt. Lengd samninga um stuðning við verkefni skal almennt taka mið af framkvæmdatíma en með eftirfarandi undantekningum:
Samningar um endurheimt votlendis skulu vera að lágmarki til 20 ára.
Samningar um skógrækt á lögbýlum skulu að lágmarki vera til 40 ára, sbr. 11. gr. laga um skóga og skógrækt, og vera í samræmi við form í viðauka 1. Á grundvelli slíks samnings er heimilt að greiða allt að 97% af samþykktum kostnaði við skógrækt. Til samþykkts kostnaðar við verkefnið, sbr. f-lið í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar þessarar og 4. mgr. 11. gr. og 15. gr. laga um skóga og skógrækt, getur talist eftirfarandi:
- varsla skógræktarlands á meðan þess er þörf að mati Lands og skógar,
- slóðagerð sem er nauðsynleg vegna gróðursetninga, eftirlits og umhirðu,
- jarðvinnsla,
- plöntukaup,
- gróðursetning,
- áburður og áburðargjöf,
- umhirða ungskógar skv. umhirðuáætlun og umhirðureglum,
- ræktun skjólbelta sem leiða til bættra ræktunarskilyrða í landbúnaði og/eða skógrækt. Land og skógur setur lágmark á umfang skjólbelta eða skjólbeltakerfa,
- aðrar sambærilegar framkvæmdir sem einnig eru tilgreindar í ræktunaráætlun.
8. gr. Upplýsingagjöf styrkþega.
Skilyrði greiðslu stuðnings er að verkefni hafi verið unnið í samræmi við úthlutun og/eða samning.
Styrkþega er skylt að tilkynna Landi og skógi tafarlaust ef upp koma aðstæður sem seinka styrktu verkefni eða koma í veg fyrir að markmiðum eða skilyrðum fyrir styrkveitingu sé fullnægt.
Styrkþega ber ávallt að verða við beiðni Lands og skógar um upplýsingar um stöðu verkefnisins og láta stofnuninni í té allar upplýsingar og gögn um verkefnið, þar á meðal bókhaldsgögn.
Styrkþegi ábyrgist að styrk verði einungis varið til þess verkefnis sem getið er um í umsókn. Jafnframt skuldbindur hann sig til að skila viðeigandi gögnum og upplýsingum til að njóta fulls stuðnings. Styrkþegi skal auk þess hlíta öðrum þeim skilmálum sem fram koma í reglugerð þessari eða eru sérstaklega tilgreindir í úthlutunarbréfi eða samningi.
9. gr. Árangursmat.
Land og skógur skal meta árangur verkefna sem njóta styrks samkvæmt reglugerð þessari. Mat á árangri skal m.a. vera í samræmi við 10. gr. laga um landgræðslu nr. 155/2018 og 8. gr. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019.
10. gr. Eftirlit og endurkröfuréttur.
Land og skógur fer með eftirlit með framkvæmd verkefna sem njóta styrks samkvæmt reglugerð þessari og skal stofnunin setja sér reglur um framkvæmd eftirlits. Við eftirlit skal m.a. lagt mat á hvort staðið hafi verið með fullnægjandi hætti að framkvæmdum með hliðsjón af úthlutun.
Styrkþegi skal endurgreiða greiddan stuðning komi í ljós að stuðningur sem greiddur hefur verið hafi ekki verið nýttur í samræmi við úthlutun. Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði greiðslu vegna seinni hluta stuðnings vegna ófullnægjandi framkvæmdar eða skila á gögnum eða annars þess sem leiðir til að verkefnið er ekki unnið í samræmi við forsendur úthlutunar, sbr. 5. gr., skal hann endurgreiða fyrri hluta stuðningsins sem hann hafði áður fengið greiddan.
Ef styrk eða hluta hans er varið í annað en það verkefni sem tilgreint er í úthlutun, ef ekki er unnið í samræmi við úthlutun, ef verkefnið ekki unnið á viðunandi hátt, ef framkvæmdaskráningu er ekki skilað innan tilgreindra tímamarka eða ef skilmálar í reglugerð þessari eru ekki uppfylltir teljast forsendur styrkveitingar brostnar. Áskilur Land og skógur sér þá rétt til að ógilda styrkveitinguna og krefja styrkþega um endurgreiðslu á greiddum styrk, að hluta til eða í heild sinni, ásamt kostnaði.
11. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi og á sama tíma fellur á brott reglugerð nr. 285/2015.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þegar gerðir samningar, sbr. IV. kafla laga um skóga og skógrækt, halda gildi sínu í samræmi við ákvæði þeirra.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 14. janúar 2026.
Jóhann Páll Jóhannsson.
Stefán Guðmundsson.
B deild — Útgáfudagur: 28. janúar 2026