Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Fjármálaráðuneytið (2001-2012)
Málaflokkur
Áfengismál
Undirritunardagur
5. maí 2008
Útgáfudagur
26. maí 2008
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 481/2008
5. maí 2008
REGLUR
um vöruval og sölu áfengis og skilmálar í viðskiptum við birgja.
Hlutverk.
Hlutverk reglnanna er að ákveða og skýra vöruval ÁTVR út frá vöruvalsstefnu sem er byggð á stefnu ÁTVR, ákvæðum laga um verslun ríkisins með áfengi og tóbak, áfengislögum, reglugerð um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og heilbrigðisáætlun Alþingis.
Á grundvelli vöruvalsstefnu eru skilgreindir söluflokkar, vöruvalsdeildir og vörudeildir sem stýra aðgengi vöru að vínbúðum í samræmi við eftirspurn og tryggja fjölbreytt vöruval sem mætir óskum og þörfum neytenda. Ákvörðun um sölumeðferð byggist á söluárangri sem er mældur með framlegð.
Í reglunum er greint frá kröfum sem gerðar eru til vöru, umbúða hennar, merkinga og annarra atriða. Í skilmálum um viðskipti við birgja er skýrður ferill umsókna um sölu, sem og hvernig standa skuli að samningi um vörukaup og pöntun. Fjallað er um afhendingarskilmála, ábyrgð birgja, verð og greiðslu.
Orðskýringar:
Söluflokkur: Röðun vöru í hóp eftir aðgengi hennar að vínbúðum ÁTVR. Dæmi: Kjarni.
Sölutegund: Vara sem er frábrugðin öðrum vörum og fær sérstakt númer í skrám ÁTVR. Dæmi: 37,5% Finlandia vodka í 750 ml flösku og í 1000 ml flösku eru sitt hvor sölutegundin, 40% Finlandia vodka í 500 ml flösku er sú þriðja.
Áfengistegund: Vara eða vörur með sams konar innihald og framsetningu, þótt einstök afbrigði séu ekki nákvæmlega eins. Finlandia vodka er dæmi um áfengistegund.
Vöruvalsdeild: Flokkur sölutegunda, sem keppa innbyrðis um sæti í vöruvali vínbúða. Dæmi: Rauðvín í flöskum.
Vörudeild: Flokkur sölutegunda með sameiginleg einkenni.
Framlegð: Munur söluverðs og innkaupsverðs að frádregnum virðisaukaskatti.
Framlegðarskrá: Skrá yfir framlegð vöru á 12 mánaða tímabili.
Vöruráð: Vöruráð ÁTVR er skipað sérfræðingum ÁTVR í vöruvalsmálum. Hlutverk ráðsins er að hafa umsjón með auknu vali vínbúða og með vali á vörum í mánaðar- og sérflokk.
| 1. | Vöruvalsstefna ÁTVR. |
| ÁTVR tryggir vöruúrval vínbúða með hliðsjón af eftirspurn og væntingum viðskiptavina á hverjum tíma. | |
| ÁTVR tryggir fjölbreytni og gæði með framsæknu vöruvali sem nær til helstu vöruflokka og framleiðslusvæða heimsins. | |
| ÁTVR gætir jafnræðis gagnvart áfengisbirgjum við val á vöru, ákvörðun um sölu og dreifingu. | |
| ÁTVR reynir með vöruvali að stuðla að ábyrgri áfengisneyslu og umgengni við áfengi. | |
| 1.1 | Stefnumið. |
| Stefnumið um vöruval: | |
| Að bjóða heilsteypt vöruúrval í öllum stærðarflokkum vínbúða, þar sem áhersla er bæði lögð á söluháar tegundir og vörur sem hafa minni en jafna eftirspurn. | |
| Að tryggja heilbrigði, gæði og virði vöru. | |
| Að tryggja fjölbreytt og framsækið vöruúrval í samræmi við væntingar viðskiptavina. | |
| Stefnumið um jafnræði og hlutleysi gagnvart birgjum: | |
| Að aðgangur birgja að reynslusölu ÁTVR sé opinn. | |
| Að hlutlægir mælikvarðar skeri úr um veru tegunda í kjarna og dreifingu í vínbúðir. | |
| Stefnumið um samfélagslega ábyrgð: | |
| Að forðast sölu á vöru sem ætla má að ýti undir neyslu yngri aldurshópa eða brjóti í bága við almennt velsæmi. | |
| Að tryggja að vörur uppfylli ákvæði almennra reglna um merkingar og innihaldsefni. | |
| Að tryggja að umbúðir vöru og áletranir uppfylli ákvæði áfengislaga. |
Reglur um vöruval.
| 2. | Söluflokkar. |
| 2.1 | Áfengi er deilt í 4 söluflokka: Reynsluflokk, kjarna, mánaðarflokk og sérflokk. |
| Reynsluflokkur. | |
| 2.2 | Reynsluflokkur er ætlaður vöru sem birgjar bjóða til tilraunasölu í vínbúðum. Vara sem nær tilskildum árangri í reynslusölu flyst í kjarna. |
| 2.3 | Sala á reynsluflokki er að jafnaði í Heiðrúnu og Kringlunni, sjá þó tl. 5.2. Tímabil reynslusölu er 12 mánuðir. Verði umsóknir um sölu í reynsluflokki fleiri en hægt er að veita viðtöku getur birgir skráð vöru á biðlista, sbr. tl. 6.10. |
| 2.4 | Nái sölutegund í reynsluflokki viðmiðunarframlegð sbr. tl. 4.2, flyst hún í kjarna. |
| 2.5 | Vara sem ekki flyst í kjarna fellur úr reynsluflokki að loknum 12 mánaða reynslutíma. |
| 2.6 | Vara, sem felld hefur verið úr reynsluflokki, á ekki afturkvæmt fyrr en að liðnum 12 mánuðum. |
| Kjarni. | |
| 2.7 | Kjarni er aðalsöluflokkur ÁTVR. Kjarna er ætlað að tryggja framboð á vörum sem njóta mestrar eftirspurnar kaupenda. Vörur í kjarna hafa forgang um dreifingu í vínbúðir. Sjá nánar 5. kafla þessara reglna. |
| 2.8 | Kjarni er endurmetinn á fjögurra mánaða fresti samhliða endurskoðun á vöruvali vínbúða sbr. tl. 5.3. Vara fellur úr kjarna nái hún eigi á 12 mánaða tímabili framlegð sem tilskilin er í tl. 4.2. Vara, sem felld hefur verið úr kjarna, getur hafið reynslusölu, þegar birgðir í eigu ÁTVR eru uppseldar. |
| Mánaðarflokkur. | |
| 2.9 | Mánaðarflokkur er ætlaður árstíðabundinni vöru. Til að vara teljist gjaldgeng í mánaðarflokk þarf framleiðsla vörunnar að vera árstíðabundin og/eða hefð fyrir sölu tengd viðkomandi árstíma. |
| 2.10 | Sölutímabil mánaðarflokks eru: Þorri, langafasta og jólamánuður. Sölutími þorra er frá bóndadegi til konudags. Sölutími lönguföstu er frá öskudegi til loka dymbilviku. Sölutími jólamánaðar hefst þriðja fimmtudag í nóvember og lýkur á þrettándanum. Dreifing fer fram í vínbúðum ÁTVR sem hafa vöru í reynslusölu. Um sölu í öðrum vínbúðum fer eftir ákvörðun ÁTVR hverju sinni. ÁTVR setur reglur um val vöru í mánaðarflokk. |
| Sérflokkur. | |
| 2.11 | Sérflokki er ætlað að uppfylla vöruvalsstefnu með því að auka við fjölbreytni og gæði vöruúrvals kjarna. Sérflokki er einnig ætlað að tryggja framboð vöru sem mætir óskum og þörfum viðskiptavina og að bjóða vörur sem eru í tímabundinni sölu. ÁTVR setur reglur um val vöru í sérflokk, sjá viðauka 1. |
| Sérpantanir. | |
| 2.12 | Áfengi, sem fellur ekki undir ofangreinda flokka, má sérpanta. Sérpantaðri vöru verður ekki skilað nema hún teljist ónothæf vegna galla. |
| 2.13 | ÁTVR getur ákveðið að sá er pantar skuli setja tryggingu fyrir því að kostnaður við kaup og flutning hinnar pöntuðu vöru fáist greiddur. Tryggingarfé endurgreiðist sé vara ófáanleg. |
| 2.14 | ÁTVR miðar að því að skrá vörur sem birgjar geta útvegað á lista, sem birtur verður á vef ÁTVR. |
| 3. | Vöruvalsdeildir og vörudeildir. |
| 3.1 | Vörum er skipað í vöruvalsdeildir eftir gerð hráefnis og framleiðsluaðferðum, gerð umbúða og endingartíma. Vöruvalsdeildir stýra meginsamsetningu vöruvals kjarnategunda í vínbúðum skv. eftirfarandi töflu: |
| Vöruvalsdeild | Hlutfall | |
| A | Rauðvín í flösku >500 ml | 28% |
| B | Hvítvín, rósavín í flösku | 17% |
| C | Létt vín: BIB, tetra | 7% |
| D | Létt vín: hálfflöskur | 1% |
| E |
Létt
vín:
smáflöskur
<300
ml Annað gerjað með „best fyrir“ |
2% |
| F | Freyðivín | 2% |
| G | Kampavín | 1% |
| H | Kryddvín og styrkt vín | 4% |
| I | Sterkt áfengi: hvítt | 7% |
| J | Sterkt áfengi: litað | 7% |
| K | Sterkt áfengi: blandað | 7% |
| L | Ljós lagerbjór í flösku | 4% |
| M | Ljós lagerbjór í dós | 7% |
| N | Annar bjór | 3% |
| O | Gosblandaðir drykkir o.fl. | 2% |
| P | Annað | 1% |
| 3.2 | ÁTVR setur sérstakar reglur um vörudeildir en á grundvelli vörudeilda skal ákvarða vöruval sérflokks og aukið val vínbúða. Vörudeildum er ætlað að styðja við vöruvalsstefnu um vöruval. |
| 3.3 | ÁTVR getur skilgreint nýjar vörudeildir og vöruvalsdeildir ef ástæður eru til. Við stofnun þeirra skal taka mið af stefnumiðum vöruvalsstefnu ÁTVR um vöruval. |
| 4. | Framlegðarskrá og viðmiðunarmörk. |
| 4.1 | Mánaðarlega birtir ÁTVR á birgjavef sínum skrár um framlegð sölutegunda í kjarna, reynsluflokki og sérflokki. Framlegðarskrá sýni sölu undanfarinna tólf mánaða eftir vöruvalsdeildum. Raða skal sölutegundum eftir framlegð frá mestu framlegð til þeirrar lægstu. Til grundvallar útreiknings framlegðar er lögð almenn sala ÁTVR. |
| 4.2 | Fyrir vöru í kjarna eru föst framlegðarviðmið. Framlegðarviðmiðin eru skv. eftirfarandi töflu |
| Gildistaka viðmiðs | Vöruvalsdeild | ||
| A, B, D, F, G, H, I, J, K, N, P | C, E, L, O | M | |
| 1. júní 2008 | 300.000 | 600.000 | 1.200.000 |
| Viðmið sölutegunda í reynslusölu skal vera annaðhvort 125 þúsund krónur eða 75% af framlegð sexhundruðustu tegundar á framlegðarskrá. Velja skal lægra viðmiðið. | |
| 4.3 | ÁTVR er heimilt að breyta ofangreindum viðmiðunarmörkum, færa vöruvalsdeildir milli flokka og fjölga eða fækka viðmiðunarflokkum ef sérstakar ástæður gefa tilefni til. |
| 5. | Vöruval vínbúða. |
| 5.1 | Við gildistöku þessara reglna er fjöldi sölutegunda í vínbúðum að jafnaði sem hér segir: |
| Allar tegundir, þ.m.t. reynsluflokkur: Reykjavík (Heiðrún og Kringlan). | |
| 1.000 tegundir: Akureyri, Hafnarfjörður, Kópavogur (Smáralind) og Seltjarnarnes. | |
| 600 tegundir: Kópavogur (Dalvegur) og Reykjavík (Skeifan). | |
| 500 tegundir: Garðabær, Keflavík, Mosfellsbær, Reykjavík (Austurstræti, Spöngin, Stekkjarbakki) og Selfoss. | |
| 300 tegundir: Akranes, Borgarnes, Egilsstaðir, Ísafjörður, Sauðárkrókur og Vestmannaeyjar. | |
| 200 tegundir: Blönduós, Dalvík, Grindavík, Hella, Húsavík, Hveragerði, Hvolsvöllur, Höfn, Neskaupstaður, Ólafsvík, Patreksfjörður, Reyðarfjörður, Siglufjörður og Stykkishólmur. | |
| 100 tegundir: Búðardalur, Djúpivogur, Fáskrúðsfjörður, Grundarfjörður, Hólmavík, Hvammstangi, Kirkjubæjarklaustur, Seyðisfjörður, Vík, Vopnafjörður, Þorlákshöfn og Þórshöfn. | |
| 5.2 | ÁTVR getur breytt fjölda tegunda í vínbúðum og flokkun vínbúða, þ.m.t. vínbúðum sem selja vöru í reynsluflokki ef ástæða er til. |
| 5.3 | Val vínbúða, sem hafa 600 tegundir og færri, skal endurmetið í janúar, maí og september og skal nýtt vöruval koma til framkvæmda 1. febrúar, 1. júní og 1. október. Til grundvallar endurmats vöruvals skal nota framlegðarskrár janúar, maí og september. Fylla skal í vöruvalsdeildir kjarna samkvæmt töflu vöruvalsdeilda í tl. 3.1 og skal velja framlegðarhæstu tegundir eftir röð á framlegðarskrá. |
| 5.4 | Í vínbúðum sem hafa að jafnaði 300 sölutegundir eða færri skal ekki hafa fleiri en tvær sölutegundir af hverri áfengistegund. Í stað sölutegundar sem fellur vegna þessa úr vöruframboði vínbúðar skal velja næstu nýju áfengistegund úr sömu vöruvalsdeild. |
| 5.5 | Heimila má tímabundna sölu tegunda, þ.m.t. vörur í reynsluflokki, í vínbúðum sem að jafnaði selja ekki reynsluflokk. |
| 5.6 | ÁTVR setur reglur um aukið val vínbúða. Sjá viðauka tvö. |
| 6. | Umsókn um sölu áfengis. Kröfur til vöru. Sýnishorn. | |
| Umsókn um sölu áfengis. | ||
| 6.1 | Birgir, sem óskar að selja vöru og leyfi hefur til að selja áfengi í heildsölu, skráir upplýsingar um vöru sína á eyðublað ÁTVR Umsókn um sölu áfengis. Með umsókn þarf að skila vöruvottun og sýnishorni af vörunni og söluumbúðum, tveimur sölueiningum, en þó ekki minna magni en 500 ml. Sé um dýrar sölueiningar að ræða getur ÁTVR fallið frá kröfu um óendurkræft sýnishorn. |
|
| 6.2 | ÁTVR staðfestir móttöku umsóknar innan 15 daga frá umsókn. Í staðfestingu komi fram áætluð sölubyrjun, sem að jafnaði skal vera innan 90 daga frá móttöku umsóknar. Sé umsókn eða fylgigögnum ábótavant eða ef umsókn er hafnað, skal birgi gerð grein fyrir ágöllum og gefinn kostur á úrbótum og andmælum. | |
| Kröfur til vöru og umbúða. | ||
| 6.3 | Vara verður að vera í samræmi við sýnishorn sem ÁTVR hefur metið fullnægjandi m.a. með hliðsjón af vöruvalsstefnu ÁTVR, sbr. kafla 1. Vöru verður ekki breytt án samþykkis ÁTVR. Það telst breyting á vöru, fái hún nýtt efnainnihald, þ.m.t. vínandastyrkleika, breytta gerilsneyðingu, stærð og útlit umbúða og gerð sölueiningar. Birgjar skulu afhenda ÁTVR sýnishorn til samþykktar vegna vörubreytinga, þ.m.t. vegna árgangaskipta. | |
| 6.4 | Birgir ábyrgist að innihald vöru og lýsing hennar samræmist reglum upprunalands og íslenskum lögum. | |
| 6.5 | Á umbúðum sölueiningar komi fram eftirtalin atriði: Heiti vöru, magn (lítramál), styrkleiki vínanda (m.v. rúmmál), lotunúmer, „best fyrir“ dagsetning þar sem við á auk upplýsinga um notkun ofnæmis- og óþolsvaldandi efna skv. reglugerð 503/2005. | |
| 6.6 | Áletranir og umbúðir verða að vera í samræmi við íslensk lög. Áletrun eða einkenni, sem gefa til kynna að vara sé heimil til neyslu fólki yngra en tvítugu, er óheimil. Sölueiningu má ekki auðkenna með merki fríhafnarsölu. | |
| 6.7 | Vara sem hefur merki lífrænnar ræktunar þarf að hafa viðurkennda vottun. | |
| 6.8 | Strikamerki - EAN eða UPC - verða að vera á hverri sölueiningu. | |
| 6.9 | Sérstök skilyrði: | |
| ÁTVR getur hafnað vöru, taki umbúðir hennar meira hillurými miðað við magn en almennt gerist eða ef beita þarf sérstökum aðferðum við framsetningu vöru í hillu. | ||
| Dósir séu með föstum flipa. | ||
| Heimilt er að hengja miða á flöskur með uppskriftum og/eða kynningu á vörunni eða framleiðanda. Áhengi mega ekki hylja almennar vörumerkingar, vera söluhvetjandi, valda óhagræði við vörumeðferð né hamla afgreiðslu. | ||
| Umbúðir eða áletranir mega einungis innhalda skilaboð er tengjast vörunni, gerð hennar eða eiginleikum. Þær mega ekki fela í sér happdrætti eða tilboð eða vera söluhvetjandi að öðru leyti. | ||
| Heimilt er að bjóða fram í mánaðar- eða sérflokki vöru í fjölpakka eða pakkningar með fylgihlutum sem tengjast neyslu vöru, s.s. glös eða upptakara. | ||
| Heimilt er að hafna vöru sem er í viðkvæmum eða óhefðbundnum umbúðum. | ||
| ÁTVR tekur afstöðu til ofangreindra skilyrða, með hliðsjón af gerð pakkningar, umfangi, plássi í vínbúðum og verði. | ||
| Biðlisti. | ||
| 6.10 | Þegar ekki er unnt að koma vöru sem um er sótt í reynslusölu, skal færa umsóknina á biðlista. Umsóknina skal skrá í röð sams konar erinda. Skráin sýni nafn tilboðsgjafa, vöruheiti, umbúðastærð og vöruvalsdeild. Sé bið eftir að vara komist í reynslusölu, skal við færslu vöru af biðlista líta til, hvort bæta þurfi vöruval til samræmis við tl. 3.1. Beiðni um skráningu verður ekki afturkölluð án samþykkis ÁTVR. Skráin sé til sýnis á birgjavef ÁTVR. | |
| 7. | Reglur um skilmála í viðskiptum við birgja. |
| Samningur um vörukaup og pöntun. | |
| 7.1 | Í samningi skal tilgreina hvenær fyrsta afhending vöru til ÁTVR fari fram og hvenær sala skuli hefjast. Verði vara ekki afhent innan 60 daga frá pöntun, hefur ÁTVR heimild til að fella úr gildi samning um vöruna, svo og allar óafgreiddar pantanir á vörunni. |
| 7.2 | Samningur um reynslusölu skal gerður a.m.k. mánuði áður en sala í reynsluflokki hefst. Takist samningar eigi fyrir þau tímamörk vegna tómlætis birgis, fellur tilboð hans af tilboðsskrá. Verði vara ekki afhent a.m.k. 4 dögum fyrir upphafsdag sölu skv. samningi, fellur samningurinn úr gildi. |
| 7.3 | Birgðir vöru í reynslusölu séu að jafnaði eigi umfram 10 daga sölu. |
| 7.4 | Þegar vara í reynslusölu hefur náð tilskildum árangri til að flytjast í kjarna, fer samkvæmt samningi birgis og ÁTVR hversu mikið af hinni óseldu vöru ÁTVR kaupir. |
| Afhending vöru. | |
| 7.5 | Við afhendingu vöru skal gæta eftirtalinna atriða: |
| Hver pöntun sé afhent sérstaklega ásamt afhendingarseðli í vöruhús ÁTVR að Stuðlahálsi í Reykjavík. | |
| Reikningur berist ÁTVR einum virkum degi fyrir afhendingu vöru. | |
| Vara sem hefur „best fyrir“ merkingu, verður að eiga a.m.k. 3 mánuði eftir af geymsluþoli þegar hún berst í vöruhús ÁTVR. Í sérstökum tilvikum er ÁTVR heimilt að leyfa skemmri endingartíma. | |
| Strikamerki, frábrugðið strikamerki sölueiningar, sé á hverjum kassa. Vöru sem ekki er afhent í upprunalegum umbúðum má afhenda í ómerktum kassa. ÁTVR getur sett reglur um stærð og útlit strikamerkis. | |
| Sé magn vöru í afhendingu meira en sem svarar einu lagi á bretti skal varan afhent á EUR vörubretti. Andvirði vörubretta sé innifalið í vöruverði. Mesta hæð vöru og brettis sé 150 sm. Sé hleðsla á bretti umfram 70 sm að hæð, skal vefja vöru plastskæni. | |
| Hver pöntun sé merkt með pöntunarnúmeri ÁTVR á plastskæni, kassa eða vörubretti. | |
| Afhendingarseðill verður að vera sundurliðaður eftir vörunúmerum ÁTVR. Á afhendingarseðli komi fram vöruheiti, stærð umbúða og magn. Ekki má afhenda sömu vöru í ólíkum umbúðum á sama pöntunarnúmeri. | |
| Sé reglum þessum ekki fylgt, getur ÁTVR hafnað móttöku vöru. | |
| Ábyrgð. | |
| 7.6 | Um ábyrgð á vöru gagnvart þriðja aðila gilda almennar reglur. |
| 7.7 | Birgir taki til sín og endurgreiði við móttöku vöru sem er ósöluhæf vegna gallaðra umbúða eða innihalds. |
| 7.8 | Taki birgir eigi til sín gallaða vöru áskilur ÁTVR sér rétt til að krefjast geymslugjalds fyrir vöruna. ÁTVR er heimilt að láta eyða vörunni á kostnað birgis þegar tvær vikur eru liðnar frá því birgi var tilkynnt að hann ætti að taka vöruna til sín. Heimilt er að skuldajafna kostnaði við andvirði sölu. |
| Verð og greiðsla. | |
| 7.9 | Verð birgis til ÁTVR skal innihalda áfengisgjald og skilagjald, en ekki virðisaukaskatt. Álagning ÁTVR er ákvörðuð af fjármálaráðuneyti. Við gildistöku þessara reglna er álagning ÁTVR eftirfarandi: |
| Söluflokkur ÁTVR | Vínandi ≤ 22% | Vínandi > 22% |
| Kjarni, mánaðarflokkur | 13% | 6,85% |
| Reynsluflokkur, sérflokkur | 19% | 9,85% |
| Virðisaukaskattur, 24,5%, leggst á verð birgja og álag ÁTVR. Verði úr vínbúð er jafnað á næstu krónu. | |
| 7.10 | Þeir, sem bjóða vöru í reynslusölu eða mánaðarflokki, skuldbinda sig til að lána ÁTVR vöruna sölutímann. ÁTVR greiðir lánardrottni selda vöru eigi síðar en á 10. degi eftir lok sölumánaðar. Birgjar skuldbinda sig til að taka til baka innan 4 daga þá vöru sem óseld kann að vera við lok sölutímans. |
| 7.11 | Um greiðslu fyrir vöru í kjarna og sérflokki fer eftir því sem um semst milli birgis og ÁTVR. Greiðslufrestur skal þó aldrei vera skemmri en til næsta greiðsludags aðfanga, en greiðsludagar ÁTVR eru 16. hvers mánaðar og síðasti dagur mánaðar. Beri greiðsludag upp á frídag er næsti vinnudagur greiðsludagur. |
| 7.12 | ÁTVR birtir verðskrá á heimasíðu sinni - www.vinbud.is. Birgjar geta breytt verði sínu fyrsta dag hvers mánaðar, þó ekki í janúar. Tilkynna skal verðbreytingar skriflega eigi síðar en tíunda dag næsta mánaðar á undan verðbreytingardegi. |
| 7.13 | Breyti birgir verði vöru í reynslusölu, skal ljúka uppgjöri á þegar seldri vöru, færa birgðir óseldrar vöru af lager og skrá hana aftur skv. reikningi birgis á nýju verði. Sala getur fyrst hafist að nýju að færslum loknum. |
| 7.14 | Berist ÁTVR boð um betra verð í vöru sem er til sölu en samningsaðili býður, skal ÁTVR tilkynna þeim birgi, sem varan er keypt frá, að annar birgir hafi boðið sömu vöru. Jafnframt skal óska verðboðs í vöruna frá birgi og þeim, er nýtt verð bauð, enda geti sá leitt líkur að því að hann geti tryggt samfellt framboð vörunnar í a.m.k. eitt ár. Í verðboði er birgir, sem verðboðs óskaði, skuldbundinn til þess að bjóða a.m.k. jafnlágt verð og hann upphaflega bauð. Þegar verðboð hafa borist ÁTVR innan þess frests sem ÁTVR áskilur er afstaða tekin til þeirra og gerður vörukaupasamningur við þann birgi er lægra verð býður. Jafnframt er gildandi vörukaupasamningi sagt upp með 90 daga uppsagnarfresti. Að þeim tíma liðnum er vara tekin til sölu á grundvelli nýs vörukaupasamnings. Birgir getur ekki hækkað samningsverð, sbr, grein 7.12, fyrr en að liðnum 90 dögum frá gildistöku nýs vörukaupasamnings. |
| Birgjar geta ekki óskað verðboðs vegna vöru sem hefur verið skemur en 6 mánuði í kjarna. Tímamörk þessi eiga ekki við, reynist vara ófáanleg frá þeim birgi, sem ÁTVR hafði skipt við. Verðboðs verður eigi óskað oftar en einu sinni á hverju ári vegna sömu vöru. |
| 8. | Gildistaka. |
| 8.1 | Reglur þessar koma í stað reglna nr. 500/2006, um innkaup og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja, og öðlast gildi 1. júní 2008. |
Reykjavík, 29. apríl 2008.
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins,
Ívar J. Arndal forstjóri.
Með vísan til 8. gr. reglugerðar nr. 883/2005, um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, eru reglur þessar hér með staðfestar.
Fjármálaráðuneytinu, 5. maí 2008.
F. h. r.
Maríanna Jónasdóttir.
Þórður Reynisson.
VIÐAUKAR
(sjá
PDF-skjal)
B deild - Útgáfud.: 26. maí 2008