Um fullnaðarafgreiðslu umhverfis- og skipulagsnefndar
og skipulagsfulltrúa.
1. gr.
Markmið viðauka þessa er að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð skipulagsmála í Sveitarfélaginu Hornafirði, með því að fela umhverfis- og skipulagsnefnd og skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins tiltekin verkefni bæjarstjórnar og fullnaðarafgreiðslu einstakra mála er varða skipulagslög nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
2. gr.
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar felur umhverfis- og skipulagsnefnd sveitarfélagsins eftirfarandi verkefni bæjarstjórnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011:
- Ákvarðanir samkvæmt 13. gr. skipulagslaga um framkvæmdaleyfi ásamt öðrum þeim verkefnum sem falin eru sveitarstjórn í þessari grein, svo sem móttöku umsókna um framkvæmdaleyfi, umfjöllun um samræmi við skipulagsáætlanir, öflun umsagna, o.s.frv.
Ofangreint á ekki við framkvæmdir sem tilgreindar eru í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana á umhverfisáhrifum, en þær skulu ávallt vera háðar samþykki bæjarstjórnar.
- Ákvarðanir samkvæmt 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga um að vinna skuli deiliskipulag og taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu.
- Ákvarðanir samkvæmt 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga um að falla megi frá gerð og kynningu lýsingar á skipulagsverkefninu þegar allar meginforsendur deiliskipulags liggja fyrir í aðalskipulagi.
- Ákvarðanir samkvæmt 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga um að falla megi frá kynningu tillögu á vinnslustigi, forsendum hennar og umhverfismati til íbúa og annarra hagsmunaaðila á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt, ef allar meginforsendur liggja fyrir í aðalskipulagi.
- Ákvarðanir samkvæmt 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga um að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi og mat á því hvort breytingin teljist óveruleg samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna.
- Ákvarðanir samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga um samþykki óverulegrar breytingar á deiliskipulagi að undangenginni grenndarkynningu ef engar athugasemdir berast á kynningartíma.
- Ákvarðanir samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga um að heimila að vikið sé frá kröfum um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.
- Ákvarðanir samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga um að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir, að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.
- Ákvarðanir samkvæmt 48. gr. skipulagslaga um skiptingu jarða, landa eða lóða eða breyta landamerkjum og lóðamörkum.
3. gr.
Þriðjungur umhverfis- og skipulagsnefndar getur ávallt óskað eftir því að bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar taki ákvörðun í málum sem tilgreind eru í 2. gr.
Bæjarráð skal fara með endurupptöku mála sem tilgreind eru í 2. gr.
4. gr.
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjörður felur skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins eftirfarandi verkefni, sbr. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010:
- Ákvarðanir um að grenndarkynna umsóknir um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, sbr. 2. mgr. 44. gr. laganna.
- Ákvarðanir um að stytta tímabil grenndarkynningar þegar þeir sem hagsmuna eiga að gæta, hafa lýst skriflega yfir að þeir geri ekki athugasemdir við hina leyfisskyldu framkvæmd, sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga.
5. gr.
Skipulagsfulltrúi getur ávallt óskað eftir því að umhverfis- og skipulagsnefnd taki ákvörðun í málum sem tilgreind eru í 4. gr.
Umhverfis- og skipulagsnefnd skal fara með endurupptöku mála sem tilgreind eru í 4. gr.