REGLUR
um úthlutun styrkja fyrir vinnustaðanámssjóð.
1. gr.
Stjórn vinnustaðanámssjóðs úthlutar styrkjum til fyrirtækja og stofnana er bjóða vinnustaðanám sem er hluti af starfsnámi á framhaldsskólastigi. Markmiðið með styrkjunum er að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að taka við nemendum sem stunda vinnustaðanám sem hluta af námi á framhaldsskólastigi, samkvæmt 28. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, og reglugerðar, nr. 180/2021um vinnustaðanám, og gera þeim kleift að hefja og/eða ljúka tilskildu vinnustaðanámi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla.
2. gr.
Styrkir til vinnustaðanáms eru auglýstir til umsóknar tvisvar sinnum á ári, en úthlutað er einu sinni á ári. Auglýsingar eru birtar í fjölmiðlum, á vef mennta- og barnamálaráðuneytis og vef umsýsluaðila sjóðsins. Umsóknum ásamt fylgigögnum skal skila til umsýsluaðila sjóðsins á rafrænu formi.
3. gr.
Rétt til að sækja styrk eiga fyrirtæki eða stofnanir sem uppfylla skilyrði reglugerðar um vinnustaðanám, nr. 180/2021. Forsenda styrkveitingar er að fyrir liggi staðfestur vinnustaðanámssamningur sem stofnaður hefur verið í rafrænni ferilbók nemandans. Umsækjendur skulu uppfylla almenn skilyrði gildandi reglugerðar um vinnustaðanám um hæfi til þess að annast nemendur í starfsnámi og hafa hlotið viðurkenningu til þess að bjóða vinnustaðanám.
4. gr.
Stjórn vinnustaðanámssjóðs úthlutar umsækjendum, sem uppfylla sett skilyrði, grunngjald fyrir hverja viku sem nemandi er í vinnustaðanámi. Stjórn vinnustaðanámssjóðs ákveður fjárhæð styrkja að teknu tilliti til fjölda umsókna og þess fjármagns sem til ráðstöfunar er hverju sinni. Mest er styrkur veittur til 48 vikna í senn.
5. gr.
Umsýsluaðili, sem starfar á grundvelli þjónustusamnings við mennta- og barnamálaráðuneyti, sér um afgreiðslu styrkja og gengur úr skugga um að umsækjendur uppfylli sett skilyrði skv. 3. gr. Verði misbrestur á framkvæmd vinnustaðanáms getur stjórn vinnustaðanámssjóðs fellt styrkinn niður án frekari fyrirvara og krafist endurgreiðslu. Ef námssamningi er slitið fellur styrkur sjálfkrafa niður.
6. gr.
Styrkir eru greiddir eftir á fyrir þann hluta vinnustaðanáms sem er lokið. Með umsókn skal fyrirtæki eða stofnun senda umsýsluaðila afrit af staðfestum náms- eða starfsþjálfunarsamningi og launaseðlum þar sem það á við og er þá greiðsla innt af hendi.
7. gr.
Um eftirlit með fjárreiðum vinnustaðanámssjóðs fer samkvæmt ákvæðum laga um vinnustaðanámssjóð, nr. 72/2012.
8. gr.
Reglur þessar eru settar á grundvelli 4. gr. laga um vinnustaðanámssjóð, nr. 71/2012, og öðlast þegar gildi.