Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Utanríkisráðuneytið
Málaflokkur
Evrópska efnahagssvæðið, Utanríkismál, Alþjóðlegar þvingunaraðgerðir
Undirritunardagur
8. júlí 2025
Útgáfudagur
28. júlí 2025
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 842/2025
8. júlí 2025
REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð um þvingunaraðgerðir varðandi Rússland, nr. 893/2024.
1. gr. Þvingunaraðgerðir.
Eftirfarandi töluliðir skulu bætast við 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar, í réttri númeraröð:
3.1 Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2025/963 frá 20. maí 2025 um þvingunaraðgerðir í ljósi aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika, sbr. fylgiskjal 3.1.
4.1 Reglugerð ráðsins (ESB) 2025/964 frá 20. maí 2025 um þvingunaraðgerðir í ljósi aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika, sbr. fylgiskjal 4.1.
2. gr. Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 6. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna nr. 68/2023, öðlast þegar gildi.
Utanríkisráðuneytinu, 8. júlí 2025.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Martin Eyjólfsson.
B deild — Útgáfudagur: 28. júlí 2025
REGLUGERÐ RÁÐSINS (ESB) 2025/964
frá 20. maí 2025
um breytingu á reglugerð (ESB) 2024/2642 um þvingunaraðgerðir í ljósi
aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika
RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 215. gr.,
með hliðsjón af ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2025/963 frá 20. maí 2025 um breytingu á ákvörðun (SSUÖ) 2024/2643 um þvingunaraðgerðir í ljósi aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika(1),
með hliðsjón af sameiginlegri tillögu frá æðsta fulltrúa Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Hinn 8. október 2024 samþykkti ráðið reglugerð (ESB) 2024/2642(2), sem kemur til framkvæmda aðgerðum sem kveðið er á um í ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2024/2643(3) um þvingunaraðgerðir í ljósi aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika.
2) Hinn 20. maí 2025 samþykkti ráðið ákvörðun (SSUÖ) 2025/963 sem breytir ákvörðun (SSUÖ) 2024/2643.
3) Með ákvörðun (SSUÖ) 2025/963 eru innleiddar viðbótarráðstafanir sem m.a. breyta viðmiðunum sem stýra stökum tilgreiningum á skrá yfir frystingu eigna og banni við því að gera fjármuni og efnahagslegan auð aðgengilegan aðilum, rekstrareiningum og stofnunum á skrá.
4) Með þessum viðbótarráðstöfunum er lagt bann við viðskiptum með efnislegar eignir, s.s. skip, loftför, fasteignir, hafnir, flugvelli og efnislega þætti stafrænna neta og samskiptaneta, sem styðja aðgerðir Rússlands sem grafa undan stöðugleika. Slíkar efnislegar eignir geta bæði tekið til lausafés og fasteigna. Efnislegu eignirnar ætti að vera hægt að auðgreina með fullnægjandi hætti til að styðja skilvirka framkvæmd bannsins.
5) Þessar viðbótarráðstafanir ættu einnig að banna útsendingar sérstaklega tilgreindra fjölmiðla í Sambandinu. Það bann er sett með hliðsjón af þátttöku Rússlands í kerfisbundinni, alþjóðlegri herferð sem felur í sér misnotkun fjölmiðla og afbökun staðreynda í því skyni að efla stefnuáætlun sína um að grafa undan stöðugleika gagnvart Sambandinu og aðildarríkjum þess.
6) Í ljósi þess hversu alvarleg staðan er og til að bregðast við aðgerðum Rússlands sem grafa undan stöðugleika er nauðsynlegt, í samræmi við grundvallarréttindi og frelsi sem viðurkennt er í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, einkum réttinn til tjáningar- og upplýsingafrelsis eins og hann er viðurkenndur í 11. gr. sáttmálans, að svipta sérstaklega tilgreinda fjölmiðla útsendingarleyfum tímabundið í Sambandinu og leggja bann við útsendingu á efni þeirra í Sambandinu eða sem beint er að Sambandinu. Rekstraraðilar sem sæta banni við útsendingu ætti í víðum skilningi að fela í sér einstaklinga og rekstrareiningar sem starfa í viðskiptalegum eða faglegum tilgangi og þeir sem starfa í hagnaðarskyni, s.s. höfundar efnis á netinu (e. online content creators), bloggarar og áhrifavaldar á netinu (e. web influencers), sem fá tekjur sínar af auglýsingum, framlögum, eða í því skyni að fjölga í fylgjendahópi sínum.
7) Í samræmi við grundvallarréttindi og frelsi sem viðurkennt er í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, einkum réttinn til tjáningar- og upplýsingafrelsis, frelsis til atvinnurekstrar og eignarréttinn eins og hann er viðurkenndur í 11., 16. og 17. gr. sáttmálans, eftir því sem við á, kemur bann við útsendingu ekki í veg fyrir að þessir fjölmiðlar og starfsfólk þeirra stundi aðra starfsemi í Sambandinu en útsendingar, s.s. rannsóknir og viðtöl. Þessar ráðstafanir breyta ekki þeirri skyldu að virða þau réttindi, frelsi og meginreglur sem um getur í 6. gr. sáttmálans um Evrópusambandið, þ.m.t. í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi og stjórnarskrám aðildarríkjanna, á gildissviðum hvers þeirra um sig.
8) Þessar breytingar falla undir gildissvið sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins og því er reglusetning á vettvangi Sambandsins nauðsynleg til að hrinda þeim í framkvæmd, einkum til að tryggt sé að þeim verði beitt með sama hætti í öllum aðildarríkjunum.
9) Því ætti að breyta reglugerð (ESB) 2024/2642 til samræmis við það.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr.
Reglugerð (ESB) 2024/2642 er breytt sem hér segir:
1) Í stað titils reglugerðar (ESB) 2024/2642 kemur eftirfarandi:
„Reglugerð ráðsins (ESB) 2024/2642 frá 8. október 2024 um þvingunaraðgerðir í ljósi aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika“
2) Eftirfarandi greinum er bætt við:
„1. gr. a
1. Lagt er bann við því að eiga viðskipti, með beinum eða óbeinum hætti, sem varða eða fela í sér efnislega eign af hvaða tagi sem er, s.s. skip, loftför, fasteignir, hafnir, flugvelli og efnislega þætti stafrænna neta og samskiptaneta, sem eru á skrá í III. viðauka.
2. Skráin í III. viðauka skal tilgreina efnislegar eignir sem:
a) notaðar eru í aðgerðum sem grafa undan stöðugleika og sem skemma eða stofna mikilvægum innviðum, þ.m.t. neðansjávargrunnvirkjum, í hættu og sem rekja má til eða koma ríkisstjórn Rússneska sambandsríkisins til góða,
b) notaðar eru í aðgerðum sem grafa undan stöðugleika og sem brjóta gegn landsbundnum, evrópskum eða alþjóðlegum umferðarreglum í lofti, sjó eða á landi og sem rekja má til eða koma ríkisstjórn Rússneska sambandsríkisins til góða,
c) notaðar eru í aðgerðum sem grafa undan stöðugleika, þ.m.t. njósnir og eftirlit, við flutning á vopnum eða herbúnaði og starfsfólki, íhlutun og hagræðing upplýsinga og sem rekja má til eða koma ríkisstjórn Rússneska sambandsríkisins til góða,
d) eru í eigu, á leigu eða í rekstri einstaklinga, lögaðila, rekstrareininga eða stofnana sem eru á skrá í I. viðauka eða eru að öðru leyti notuð í nafni, fyrir hönd, í tengslum við eða í þágu slíkra aðila.
3. Bannið sem mælt er fyrir um í 1. mgr. gildir ekki um viðskipti vegna siglingaöryggis eða flugöryggis eða sem eru nauðsynleg í mannúðarskyni eða til að koma án tafar í veg fyrir eða milda atburð sem líklegt má telja að hafi alvarleg og veruleg áhrif á heilbrigði og öryggi manna eða umhverfið eða til að bregðast við náttúruhamförum.
4. Bannið í 1. mgr. gildir ekki um viðskipti sem eru nauðsynleg til að viðurkenna eða fullnusta dóm eða úrskurð gerðardóms sem kveðinn er upp í aðildarríki eða í þeim tilgangi að rannsaka brot á ákvæðum þessarar reglugerðar eða annað ólöglegt athæfi.
5. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geta lögbær stjórnvöld aðildarríkis heimilað viðskipti sem varða eða fela í sér efnislega eignir sem eru á skrá í III. viðauka samkvæmt þeim skilyrðum sem þau telja viðeigandi, eftir að hafa ákvarðað, í hverju tilviki fyrir sig, að viðskiptin séu bráðnauðsynleg í hvaða tilgangi sem er sem samrýmist markmiðum þessarar reglugerðar.
Viðkomandi aðildarríki skal tilkynna hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni um sérhverja slíka heimild innan tveggja vikna frá því að hún er veitt.
1. gr. b
1. Lagt er bann við því að eiga viðskipti, á beinan eða óbeinan hátt, við:
a) lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun með staðfestu utan Sambandsins sem er lána- eða fjármálastofnun eða rekstrareining sem veitir þjónustu með sýndareignir (e. crypto asset services) og tekur þátt í viðskiptum sem auðvelda, beint eða óbeint aðgerðir, eða styðja á annan hátt við aðila, rekstrareiningar eða stofnanir sem taka þátt í aðgerðum sem um getur í 3. mgr. 2. gr. og sem eru á skrá í IV. viðauka við þessa reglugerð eða
b) lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun sem veitir einstaklingum, lögaðilum, rekstrareiningum eða stofnunum sem taka þátt í aðgerðum sem um getur í 3. mgr. 2. gr. og sem eru á skrá í IV. viðauka við þessa reglugerð, aðstoð í tæknimálum og við framkvæmd aðgerða.
2. Bannið sem mælt er fyrir um í 1. mgr. gildir ekki um viðskipti sem eru:
a) nauðsynleg vegna útflutnings, sölu, afhendingar, tilflutnings eða flutnings á lyfjum, lækningavörum, landbúnaðarafurðum og matvælum, þ.m.t. hveiti og áburði,
b) bráðnauðsynleg til að tryggja aðgang að dóms-, stjórnsýslu- eða gerðardómsmeðferðum í aðildarríki og vegna viðurkenningar eða fullnustu dóms eða úrskurðar gerðardóms sem fellur í aðildarríki, að því tilskildu að þau viðskipti séu í samræmi við markmið þessarar reglugerðar og ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2024/2643(4), eða
c) nauðsynleg í mannúðarskyni, s.s. til að veita, eða greiða fyrir því að veitt sé aðstoð, þ.m.t. sjúkragögn, matvæli, eða flutningur starfsmanna hjálparstofnana og tengd aðstoð eða brottflutningur."
1. gr. c
1. Lagt er bann við því að rekstraraðilar útvarpi eða geri kleift, greiði fyrir eða stuðli á annan hátt að útsendingu á hvers kyns efni frá lögaðilum, rekstrareiningum eða stofnunum sem eru á skrá í V. viðauka, þ.m.t. með útsendingu eða annars konar dreifingu eins og um kapal, gervihnött, sjónvarp um netið, netþjónustuveitendur, mynddeilivettvanga eða -forrit á netinu, hvort sem það er nýtt eða sett upp fyrir fram.
2. Fella skal tímabundið úr gildi öll útsendingarleyfi eða -heimildir, útsendingar- eða dreifingarsamninga við lögaðila, rekstrareiningar eða stofnanir sem eru á skrá í V. viðauka.
3. Lagt er bann við því að auglýsa vörur eða þjónustu í hvers kyns efni sem lögaðilar, rekstrareiningar eða stofnanir, sem eru á skrá í V. viðauka, framleiða eða senda út, þ.m.t. í gegnum útsendingu eða dreifingu með einhverjum þeim aðferðum sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar.
3) Í stað 3. mgr. 2. gr. kemur eftirfarandi:
„3. Í I. viðauka skal tilgreina einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnanir sem:
a) bera ábyrgð á framkvæmd, styðja við eða njóta ábata af, taka þátt í eða greiða fyrir aðgerðum eða stefnum, sem rekja má til stjórnvalda Rússneska ríkjasambandsins, sem grafa undan eða ógna lýðræði, réttarríkinu, stöðugleika eða öryggi í Sambandinu eða í einu eða nokkrum aðildarríkja þess, í alþjóðastofnun eða í þriðja landi, eða sem grafa undan eða ógna fullveldi eða sjálfstæði eins eða fleiri aðildarríkja þess eða þriðja lands með einhverri af eftirfarandi aðgerðum:
i. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir því að hindra eða grafa undan pólitísku lýðræðisferli eða allsherjarreglu og öryggi, þ.m.t. með því að hindra eða grafa undan því að hægt verði að halda kosningar eða reyna að grafa undan stöðugleika eða kollvarpa stjórnskipulegri reglu,
ii. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir ofbeldisfullum mótmælum,
iii. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir líkamlegum eða andlegum ofbeldisverkum, þ.m.t. starfsemi til að þagga niður, kúga, þvinga eða beita nákvæmum refsiaðgerðum gegn aðilum sem gagnrýna aðgerðir eða stefnur Rússneska sambandsríkisins,
iv. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir notkun íhlutunar og hagræðingar upplýsinga,
v. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir aðgerðum sem beint er að virkni lýðræðisstofnana, atvinnustarfsemi eða þjónustu í þágu almannahagsmuna, þ.m.t. með óheimilli komu á yfirráðasvæði aðildarríkis, þ.m.t. loftrými þess, eða sem miðar að því að trufla, skaða eða eyðileggja, þ.m.t. með skemmdarverkum eða netaðgerðum af illum ásetningi sem hluta af fjölþáttaaðgerðum, mikilvæga innviði þ.m.t. neðansjávargrunnvirki,
vi. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir misnotkun farandfólks í pólitískum tilgangi eins og um getur í b-lið 4. mgr. 1. gr. reglugerðar (ESB) 2024/1359,
vii. með því að færa sér í nyt vopnuð átök, óstöðugleika eða óöryggi, m.a. með ólögmætri nýtingu á eða viðskiptum með náttúruauðlindir og villtar lífverur í þriðja landi,
viii. með því að hvetja til, styðja eða greiða á annan hátt fyrir ofbeldisfullum átökum í þriðja landi,
b) tengjast einstaklingum, lögaðilum, rekstrareiningum eða stofnunum sem eru á skrá skv. a-lið,
c) styðja einstaklinga, lögaðila, rekstrareininga eða stofnanir sem taka þátt í athöfnum sem um getur í a-lið.“
4) Í 1. mgr. 11. gr. er eftirfarandi liðum bætt við:
„c) lögaðilum, rekstrareiningum eða stofnunum sem eru á skrá í IV. eða V. viðauka við þessa reglugerð eða lögaðilum, rekstrareiningum eða stofnunum með staðfestu utan Sambandsins, sem þeir eða þær eiga yfir 50% eignarhlut í, með beinum eða óbeinum hætti,
d) aðila, rekstrareiningu eða stofnun sem starfar gegnum eða fyrir hönd einhvers þeirra aðila, rekstrareininga eða stofnana er um getur í c-lið þessarar málsgreinar.“
5) Ákvæðum III., IV. og V. viðauka er bætt við í samræmi við viðaukann við þessa reglugerð.
2. gr.
Reglugerð þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 20. maí 2025.
Fyrir hönd ráðsins,
forseti.
K. KALLAS
(1) Stjtíð. ESB L, 2025/963, 20.5.2025, ELI: https://data.europa.eu/eli/dec/2025/963/oj.
(2) Reglugerð ráðsins (ESB) 2024/2642 frá of 8. október 2024 um þvingunaraðgerðir í ljósi aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika (Stjtíð. ESB L, 2024/2642, 9.10.2024, ELI: https://data.europa.eu/eli/reg/2024/2642/oj).
(3) Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2024/2643 frá 8. október 2024 um þvingunaraðgerðir í ljósi aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika (Stjtíð. ESB L, 2024/2643, 9.10.2024, ELI: https://data.europa.eu/eli/dec/2024/2643/oj).
(4) Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2024/2643 frá 8. október 2024 um þvingunaraðgerðir í ljósi aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika (Stjtíð. ESB L, 2024/2643, 9.10.2024, ELI: https://data.europa.eu/eli/dec/2024/2643/oj).
VIÐAUKI
[Viðaukar eru birtir á vef Stjórnartíðinda ELI: https://data.europa.eu/eli/reg/2025/964/oj.
Listar yfir aðila, hluti, tækni eða annað viðfang þvingunaraðgerða, eru birtir á vef Stjórnartíðinda Evrópusambandsins. Síðari breytingar og uppfærslur viðaukanna öðlast sjálfkrafa gildi við birtingu á þeim vef, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna nr. 68/2023.
Vefur Stjórnartíðinda Evrópusambandsins er hér: https://eurlex.europa.eu.
Heildarlisti yfir aðila sem eru háðir frystingu fjármuna er hér: https://ec.europa.eu/info/business-economy-euro/banking-and-finance/international-relations/restrictive-measures-sanctions_en#list.]
ÁKVÖRÐUN RÁÐSINS (SSUÖ) 2025/963
frá 20. maí 2025
um breytingu á ákvörðun (ESB) 2024/2643 um þvingunaraðgerðir í ljósi aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika
RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um Evrópusambandið, einkum 29. gr.,
með hliðsjón af tillögu frá æðsta fulltrúa Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Hinn 8. október 2024 samþykkti ráðið ákvörðun (SSUÖ) 2024/2643(1).
2) Í niðurstöðum sínum frá 19. desember 2024 fordæmdi leiðtogaráðið fjölþáttaherferð Rússlands, þ.m.t. skemmdarverk, röskun á mikilvægum innviðum, netárásir, íhlutanir og hagræðingu upplýsinga, og tilraunir til að grafa undan lýðræði, þ.m.t. í kosningaferlinu, gagnvart Evrópusambandinu og aðildarríkjum þess. Ráðið lýsti því yfir að það myndi halda áfram að styrkja viðnámsþrótt sinn og nýta að fullu öll tiltæk ráð sem því standa til boða til að koma í veg fyrir, hindra og bregðast við fjölþáttaaðgerðum Rússlands.
3) Hinn 27. janúar 2025 vakti æðsti fulltrúi Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum athygli á því að fjölþáttaaðgerðir Rússlands fari vaxandi að tíðni og umfangi.
4) Hinn 12. mars 2025 lagði Evrópuþingið, í ályktun sinni um hvítbók um framtíð varna Evrópu, áherslu á að varnir landamæra Sambandsins á landi, í lofti og á hafi stuðli að öryggi alls Sambandsins og kallaði eftir tafarlausum ráðstöfunum til að auka öryggi og varnir á norðausturlandamærum Sambandsins að Rússlandi og Belarús með því að koma á heildstæðri og viðnámsþolinni varnarlínu yfir land, í lofti og á hafi til að bregðast við hernaðarógnum og fjölþáttaógnum, þ.m.t. vopnvæðingu orku, skemmdarverkum á innviðum og misnotkun farandfólks í pólitískum tilgangi.
5) Því þykir rétt að leggja bann á viðskipti sem varða efnislegar eignir, þ.m.t. skip, loftför, fasteignir og efnislega þætti stafrænna neta og samskiptaneta, sem tengjast aðgerðum Rússlands sem grafa undan stöðugleika. Slíkar efnislegar eignir taka bæði til lausafés og fasteigna. Efnislegu eignirnar ætti að vera hægt að auðgreina með fullnægjandi hætti til að styðja skilvirka framkvæmd bannsins.
6) Einnig þykir rétt að leggja bann á viðskipti lánastofnana, fjármálastofnana og aðila sem veita þjónusta á sviði sýndareigna (e. crypto-assets services) sem taka þátt í viðskiptum sem auðvelda, beint eða óbeint aðgerðir, eða koma aðilum, rekstrareiningum eða stofnunum, sem taka þátt í aðgerðum Rússlands sem grafa undan stöðugleika, að öðru leyti til góða.
7) Rússland hefur stundað kerfisbundna, alþjóðlega herferð sem felur í sér misnotkun fjölmiðla og afbökun staðreynda í því skyni að efla stefnuáætlun sína um að grafa undan stöðugleika í aðliggjandi löndum og í Sambandinu og aðildarríkjum þess. Einkum hefur áróðurinn og rangar upplýsingar endurtekið og með samræmdum hætti beinst að evrópskum stjórnmálaflokkum, sérstaklega í aðdraganda kosninga, ásamt borgaralegu samfélagi, minnihlutasamfélögum, flóttamönnum og virkni lýðræðisstofnana í Sambandinu og aðildarríkjum þess.
8) Þessum fjölþáttaaðgerðum Rússlands hefur verið beint í gegnum fjölda fjölmiðla undir varanlegri beinni eða óbeinni stjórn forystu Rússneska sambandsríkisins. Slíkar aðgerðir fela í sér umtalsverða og beina ógn við allsherjarreglu og öryggi Sambandsins. Þessir fjölmiðlar eru m.a. nauðsynlegir og virkir í því að stuðla að íhlutun og hagræðingu upplýsinga af hálfu Rússlands gagnvart Sambandinu, aðildarríkjum þess, alþjóðastofnunum eða þriðju löndum.
9) Í ljósi þess hversu alvarleg staðan er og til að bregðast við aðgerðum Rússlands sem grafa undan stöðugleika er nauðsynlegt að innleiða þvingunaraðgerðir til að svipta rússneska fjölmiðla sem eru undir varanlegri stjórn forystu Rússneska sambandsríkisins, tímabundið útsendingaleyfi í Sambandinu og banna þeim að senda út efni sitt í Sambandinu eða sem beint er að Sambandinu. Þessum ráðstöfunum ætti að viðhalda þar til Rússland og viðkomandi fjölmiðlar hætta að stunda áróðursherferðir gegn Sambandinu, einu eða fleiri aðildarríkjum þess, alþjóðastofnunum eða þriðju löndum.
10) Þessar aðgerðir eru í samræmi við grundvallarréttindi og frelsi sem viðurkennd eru í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, einkum réttinn til tjáningar- og upplýsingafrelsis, frelsis til atvinnurekstrar og eignarréttinn eins og hann er viðurkenndur í 11., 16. og 17. gr. sáttmálans, eftir því sem við á. Innleiðing þessara þvingunaraðgerða kemur ekki í veg fyrir að þessir fjölmiðlar eða starfsfólk þeirra stundi aðra starfsemi í Sambandinu en útvarpsrekstur, eins og rannsóknir og viðtöl. Einkum breyta þessar þvingunaraðgerðir ekki þeirri skyldu að virða þau réttindi, frelsi og meginreglur sem um getur í 6. gr. sáttmálans um Evrópusambandið, þ.m.t. þau í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi og stjórnarskrám aðildarríkjanna, á gildissviðum hvers þeirra um sig.
11) Því ætti að breyta ákvörðun (SSUÖ) 2024/2643 til samræmis við það.
SAMÞYKKT ÁKVÖRÐUN ÞESSA:
1. gr.
Ákvörðun (SSUÖ) 2024/2643 er breytt sem hér segir:
1) Í stað 1. mgr. 1. gr. kemur eftirfarandi:
„1. Aðildarríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að hindra að inn á yfirráðasvæði þeirra komi eða um þau fari þeir einstaklingar sem skráðir eru í I. viðauka sem:
a) bera ábyrgð á framkvæmd, styðja við, njóta ábata af, taka þátt í eða greiða fyrir aðgerðum eða stefnum, sem rekja má til stjórnvalda Rússneska ríkjasambandsins, sem grafa undan eða ógna lýðræði, réttarríkinu, stöðugleika eða öryggi í Sambandinu eða í einu eða nokkrum aðildarríkja þess, í alþjóðastofnun eða í þriðja landi, eða sem grafa undan eða ógna fullveldi eða sjálfstæði eins eða fleiri aðildarríkja þess eða þriðja lands með eftirfarandi aðgerðum:
i. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir því að hindra eða grafa undan pólitísku lýðræðisferli eða allsherjarreglu og öryggi, þ.m.t. með því að hindra eða grafa undan því að hægt verði að halda kosningar eða reyna að grafa undan stöðugleika eða kollvarpa stjórnskipulegri reglu,
ii. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir ofbeldisfullum mótmælum,
iii. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir líkamlegum eða andlegum ofbeldisverkum, þ.m.t. starfsemi til að þagga niður, kúga, þvinga eða beita nákvæmum refsiaðgerðum gegn aðilum sem gagnrýna aðgerðir eða stefnur Rússneska sambandsríkisins,
iv. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir notkun íhlutunar og hagræðingar upplýsinga,
v. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir aðgerðum sem beint er að virkni lýðræðisstofnana, atvinnustarfsemi eða þjónustu í þágu almannahagsmuna, þ.m.t. með óheimilli komu á yfirráðasvæði aðildarríkis, þ.m.t. loftrými þess, eða sem miðar að því að trufla, skaða eða eyðileggja, þ.m.t. með skemmdarverkum eða netaðgerðum af illum ásetningi sem hluta af fjölþáttaaðgerðum, mikilvæga innviði þ.m.t. neðansjávargrunnvirki,
vi. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir misnotkun farandfólks í pólitískum tilgangi eins og um getur í b-lið 4. mgr. 1. gr. reglugerðar (ESB) 2024/1359,
vii. með því að færa sér í nyt vopnuð átök, óstöðugleika eða óöryggi, m.a. með ólögmætri nýtingu á eða viðskiptum með náttúruauðlindir og villtar lífverur í þriðja landi,
viii. með því að hvetja til, styðja eða greiða á annan hátt fyrir ofbeldisfullum átökum í þriðja landi,
b) tengjast einstaklingum sem eru á skrá skv. a-lið,
c) styðja einstaklinga sem taka þátt í aðgerðum sem um getur í a-lið.“
2) Í stað 1. mgr. 2. gr. kemur eftirfarandi:
„1. Frysta skal alla fjármuni og efnahagslegan auð sem tilheyra, eru í eigu, í vörslu eða undir stjórn einstaklinga, lögaðila, rekstraraðila eða stofnana sem:
a) bera ábyrgð á framkvæmd, styðja við eða njóta ábata af, koma að eða greiða fyrir aðgerðum eða stefnum, sem rekja má til stjórnvalda Rússneska ríkjasambandsins, sem grafa undan eða ógna lýðræði, réttarríkinu, stöðugleika eða öryggi í Sambandinu eða í einu eða nokkrum aðildarríkja þess, í alþjóðastofnun eða í þriðja landi, eða sem grafa undan eða ógna fullveldi eða sjálfstæði eins eða fleiri aðildarríkja þess eða þriðja lands með eftirfarandi aðgerðum:
i. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir því að hindra eða grafa undan pólitísku lýðræðisferli eða allsherjarreglu og öryggi, þ.m.t. með því að hindra eða grafa undan því að hægt verði að halda kosningar eða reyna að grafa undan stöðugleika eða kollvarpa stjórnskipulegri reglu,
ii. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir ofbeldisfullum mótmælum,
iii. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir líkamlegum eða andlegum ofbeldisverkum, þ.m.t. starfsemi til að þagga niður, kúga, þvinga eða beita nákvæmum refsiaðgerðum gegn aðilum sem gagnrýna aðgerðir eða stefnur Rússneska sambandsríkisins,
iv. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir notkun íhlutunar og hagræðingar upplýsinga,
v. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir aðgerðum sem beint er að virkni lýðræðisstofnana, atvinnustarfsemi eða þjónustu í þágu almannahagsmuna, þ.m.t. með óheimilli komu á yfirráðasvæði aðildarríkis, þ.m.t. loftrými þess, eða sem miðar að því að trufla, skaða eða eyðileggja, þ.m.t. með skemmdarverkum eða netaðgerðum af illum ásetningi sem hluta af fjölþáttaaðgerðum, mikilvæga innviði þ.m.t. neðansjávargrunnvirki,
vi. með því að skipuleggja, stjórna, taka beinan eða óbeinan þátt í, styðja eða greiða á annan hátt fyrir misnotkun farandfólks í pólitískum tilgangi eins og um getur í b-lið 4. mgr. 1. gr. reglugerðar (ESB) 2024/1359,
vii. með því að færa sér í nyt vopnuð átök, óstöðugleika eða óöryggi, m.a. með ólögmætri nýtingu á eða viðskiptum með náttúruauðlindir og villtar lífverur í þriðja landi,
viii. með því að hvetja til, styðja eða greiða á annan hátt fyrir ofbeldisfullum átökum í þriðja landi,
b) tengjast einstaklingum, lögaðilum, rekstrareiningum eða stofnunum sem eru á skrá skv. a-lið,
c) styðja einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnanir sem taka þátt í athöfnum sem um getur í a-lið, sbr. skrána í I. viðauka.“
3) Eftirfarandi greinum er bætt við:
„2. gr. a
1. Lagt er bann við því að eiga, með beinum eða óbeinum hætti, viðskipti sem varða eða fela í sér einhverja efnisleg eign, s.s. skip, loftför, fasteignir, hafnir, flugvelli og efnislega þætti stafrænna neta og samskiptaneta, sem eru á skrá í II. viðauka.
2. Skráin í II. viðauka skal tilgreina efnislegar eignir sem:
a) notaðar eru í aðgerðum sem eru þess eðlis að grafa undan stöðugleika og sem skemma eða stofna mikilvægum innviðum, þ.m.t. neðansjávargrunnvirkjum, í hættu og sem rekja má til eða koma ríkisstjórn Rússneska sambandsríkisins til góða,
b) notaðar eru í tengslum við aðgerðir sem eru þess eðlis grafa undan stöðugleika og sem brjóta gegn umferðarreglum í lofti, sjó eða á landi í Sambandinu, landsbundið eða alþjóðlega og sem rekja má til eða koma ríkisstjórn Rússneska sambandsríkisins til góða,
c) notaðar eru í aðgerðum sem eru þess eðlis að grafa undan stöðugleika, þ.m.t. njósnir og eftirlit, flutningur á vopnum eða herbúnaði og starfsfólki, íhlutun og hagræðing upplýsinga og sem rekja má til eða koma ríkisstjórn Rússneska sambandsríkisins til góða,
d) eru í eigu, á leigu eða í rekstri einstaklinga, lögaðila, rekstrareininga eða stofnana sem eru á skrá í I. viðauka eða eru að öðru leyti notuð í nafni, fyrir hönd, í tengslum við eða í þágu slíkra aðila.
3. Bannið sem mælt er fyrir um í 1. mgr. gildir ekki um viðskipti vegna siglingaöryggis eða flugöryggis eða sem eru nauðsynleg í mannúðarskyni eða til að koma án tafar í veg fyrir eða milda atburð sem líklegt má telja að hafi alvarleg og veruleg áhrif á heilbrigði og öryggi manna eða umhverfið eða til að bregðast við náttúruhamförum.
4. Bannið í 1. mgr. gildir ekki um viðskipti sem koma til vegna viðurkenningar á eða fullnustu dóms eða úrskurðar gerðardóms sem kveðinn er upp í aðildarríki eða um viðskipti sem framkvæmd eru í þeim tilgangi að rannsaka brot á þessari ákvörðun eða rannsaka annað ólöglegt athæfi.
5. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geta lögbær stjórnvöld aðildarríkis heimilað viðskipti sem varða eða fela í sér efnislega eignir sem eru á skrá í II. viðauka samkvæmt þeim skilyrðum sem þau telja viðeigandi, eftir að hafa ákvarðað, í hverju tilviki fyrir sig, að viðskiptin séu nauðsynleg í hvaða tilgangi sem er sem samrýmist markmiðum þessarar ákvörðunar.
Viðkomandi aðildarríki skal tilkynna hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni um slíka heimild sem veitt er innan tveggja vikna frá því að hún er veitt.
2. gr. b
1. Lagt er bann við því að eiga viðskipti, á beinan eða óbeinan hátt, við:
a) lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun með staðfestu utan Sambandsins sem er lána- eða fjármálastofnun eða rekstrareining sem veitir þjónustu með sýndareignir (e. crypto asset services) og tekur þátt í viðskiptum sem auðvelda, beint eða óbeint athafnir sem um getur í 1. mgr. 1. gr. eða 1. mgr. 2. gr., eða styðja á annan hátt við aðila, rekstrareiningar eða stofnanir sem taka þátt í aðgerðum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. eða 1. mgr. 2. gr. eða
b) lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun sem veitir einstaklingum, lögaðilum, rekstrareiningum eða stofnunum sem taka þátt í aðgerðum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. eða 1. mgr. 2. gr. og sem eru á skrá í III. viðauka við þessa ákvörðun, aðstoð í tæknimálum eða við framkvæmd aðgerða.
2. Bannið í 1. mgr. gildir ekki um viðskipti sem eru:
a) nauðsynleg vegna útflutnings, sölu, afhendingar, tilflutnings eða flutnings á lyfjum, lækningavörum, landbúnaðarafurðum og matvælum, þ.m.t. hveiti og áburði,
b) bráðnauðsynleg til að tryggja aðgang að dóms-, stjórnsýslu- eða gerðardómsmeðferðum í aðildarríki og vegna viðurkenningar eða fullnustu dóms eða úrskurðar gerðardóms sem fellur í aðildarríki, að því tilskildu að þau viðskipti séu í samræmi við markmið þessarar ákvörðunar og ákvörðunar ráðsins (ESB) 2024/2642(2), eða
c) nauðsynleg í mannúðarskyni, s.s. til að veita, eða greiða fyrir því að veitt sé aðstoð, þ.m.t. sjúkragögn, matvæli, eða flutningur starfsmanna hjálparstofnana og tengd aðstoð eða brottflutningur.“
2. gr. c
1. Lagt er bann við því að rekstraraðilar útvarpi eða geri kleift, greiði fyrir eða stuðli á annan hátt að útsendingu á hvers kyns efni frá lögaðilum, rekstrareiningum eða stofnunum sem eru á skrá í IV. viðauka, þ.m.t. með útsendingu eða annars konar dreifingu eins og um kapal, gervihnött, sjónvarp um netið, netþjónustuveitendur, mynddeilivettvanga eða -forrit á netinu, hvort sem það er nýtt eða sett upp fyrir fram.
2. Fella skal tímabundið úr gildi öll útsendingarleyfi eða -heimildir, útsendingar- eða dreifingarsamninga við lögaðila, rekstrareiningar eða stofnanir sem eru á skrá í IV. viðauka.
3. Lagt er bann við því að auglýsa vörur eða þjónustu í hvers kyns efni sem lögaðilar, rekstrareiningar eða stofnanir, sem eru á skrá í IV. viðauka, framleiða eða senda út, þ.m.t. í gegnum útsendingu eða dreifingu með einhverjum þeim aðferðum sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar.“
4) Viðaukanum við ákvörðun (SSUÖ) 2024/2643 er breytt í samræmi við viðaukann við þessa ákvörðun.
2. gr.
Ákvörðun þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Gjört í Brussel 20. maí 2025.
Fyrir hönd ráðsins,
forseti.
K. KALLAS
(1) Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2024/2643 frá 8. október 2024 um þvingunaraðgerðir í ljósi aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika (Stjtíð. ESB L, 2024/2643, 9.10.2024, ELI: http://data.europa.eu/eli/dec/2024/2643/oj).
(2) Reglugerð ráðsins (ESB) 2024/2642 frá 8. október 2024 um þvingunaraðgerðir í ljósi aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika (Stjtíð. ESB L, 2024/2642, 9.10.2024, ELI: http://data.europa.eu/eli/reg/2024/2642/oj).
VIÐAUKI
[Viðaukar eru birtir á vef Stjórnartíðinda ELI: https://data.europa.eu/eli/reg/2025/963/oj.
Listar yfir aðila, hluti, tækni eða annað viðfang þvingunaraðgerða, eru birtir á vef Stjórnartíðinda Evrópusambandsins. Síðari breytingar og uppfærslur viðaukanna öðlast sjálfkrafa gildi við birtingu á þeim vef, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna nr. 68/2023.
Vefur Stjórnartíðinda Evrópusambandsins er hér: http://eurlex.europa.eu.
Heildarlisti yfir aðila sem eru háðir frystingu fjármuna er hér: https://ec.europa.eu/info/business-economy-euro/banking-and-finance/international-relations/restrictive-measures-sanctions_en#list.]