Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið
Málaflokkur
Félagsmál, Húnavatnssýslur, Skagafjörður
Undirritunardagur
20. nóvember 2025
Útgáfudagur
4. desember 2025
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 1306/2025
20. nóvember 2025
AUGLÝSING
um staðfestingu á samningi milli Húnabyggðar, Húnaþings vestra, Skagafjarðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar um sameiginlegt þjónustusvæði á Norðurlandi vestra um þjónustu við fatlað fólk.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, hefur félags- og húsnæðismálaráðuneytið staðfest samning milli Húnabyggðar, Húnaþings vestra, Skagafjarðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar um sameiginlegt þjónustusvæði á Norðurlandi vestra um þjónustu við fatlað fólk. Samningurinn hefur verið samþykktur af hlutaðeigandi sveitarstjórnum og undirritaður af framkvæmdastjórum sveitarfélaganna. Staðfesting á samningi hefur verið kynnt innviðaráðuneytinu og mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Samningurinn er gerður á grundvelli 96. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 92. og 93. gr. sömu laga, og tekur til þeirrar sértæku félagslegu þjónustu við fatlað fólk sem tilgreind er í lögum nr. 38/2018. Frá gildistöku samningsins er sveitarfélagið Skagafjörður leiðandi sveitarfélag á sameiginlegu þjónustusvæði og veitir íbúum, sem eiga lögheimili í aðildarsveitarfélögunum fjórum, þjónustu eins og nánar er kveðið á um í samningnum.
Samningurinn er birtur sem fylgiskjal með auglýsingu þessari.
Félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, 20. nóvember 2025.
F. h. r.
Jóna Guðný Eyjólfsdóttir.
Tryggvi Þórhallsson.
B deild — Útgáfudagur: 4. desember 2025
Sveitarstjórnir Húnabyggðar, Húnaþings vestra, Skagafjarðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar gera með sér samning um:
Sameiginlegt þjónustusvæði á Norðurlandi vestra
um þjónustu við fatlað fólk.
1. Forsendur og markmið.
1.1 Þann 1. janúar 2011 tóku sveitarfélög við þeirri þjónustu sem ríkið hefur veitt fötluðu fólki, enda var lögum þá breytt og samkomulag gert um tilfærslu þjónustunnar milli ríkis og sveitarfélaga.
1.2 Til að tilfærslan verði árangursrík þurfa sveitarfélög að hafa faglegan og fjárhagslegan styrk á sviði félagsþjónustu.
1.3 Framangreind sveitarfélög hafa ákveðið að gera með sér samning um þjónustu við fatlað fólk, sbr. 6. mgr. 3. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir (hér eftir lög um þjónustu við fatlað fólk) með vísan til 92., 93. og 96. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 (hér eftir svstjl.).
1.4 Samningurinn byggir á lögum um þjónustu við fatlað fólk og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, s.s. samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þegar fötluð börn og fjölskyldur þeirra eiga í hlut. Samningurinn byggir jafnframt á stjórnsýslulögum nr. 37/1993 (hér eftir ssl.) sem og áætlunum íslenska ríkisins er varða málefni fatlaðs fólks, lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála nr. 88/2021 og gildandi reglugerðum sem af þeim leiða.
1.5 Markmið samningsins eru einkum að:
- tryggja fötluðu fólki samþætta og heildstæða þjónustu,
- laga þjónustu að þörfum og óskum fatlaðs fólks með hliðsjón af ólíkum aðstæðum og stuðla þannig að auknu sjálfstæði þeirra,
- stuðla að hagræðingu í rekstri með samþættingu þjónustu- og rekstrarþátta.
2. Þjónustusvæði á Norðurlandi vestra.
2.1 Framangreind sveitarfélög mynda sameiginlegt þjónustusvæði á Norðurlandi vestra um þjónustu við fatlað fólk. Þjónustusvæðið er ekki sjálfstæður lögaðili.
2.2 Nýr samningur vegna samstarfsins tekur gildi þann 1. janúar 2023, að fenginni staðfestingu sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga, og er sveitarfélagið Skagafjörður leiðandi sveitarfélag á þjónustusvæðinu. Hið leiðandi sveitarfélag veitir fötluðu fólki sem á lögheimili í aðildarsveitarfélögum þjónustu, eins og nánar er kveðið á um í samningi þessum, í samræmi við lög um þjónustu við fatlað fólk, reglugerðir sem settar hafa verið á grundvelli þeirra laga, leiðbeinandi reglna og handbóka sem ráðherra gefur út og önnur lög og reglur sem geta átt við, þ. á m. stjórnsýslulög, alþjóðlegar skuldbindingar sem íslenska ríkið hefur tekist á hendur, sbr. lið 1.4. hér að framan. Sveitarstjórnir Húnabyggðar, Húnaþings vestra og Sveitarfélagsins Skagastrandar hafa ákveðið að framselja til sveitarfélagsins Skagafjarðar vald til stefnumótunar og framkvæmdar þjónustu við fatlað fólk, sem á lögheimili í aðildarsveitarfélögunum, í samræmi við ákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og 92., 93. og 96. gr. svstjl.
2.3 Aðilar skuldbinda sig til þess að hafa gagnvirkt samráð um ákvarðanir innan þessa samstarfs sem hafa áhrif á fjárhagslegar skuldbindingar aðildarsveitarfélaga eða leiða til verulegra breytinga á veittri þjónustu í málaflokknum, sbr. grein 2.6 í samningi þessum. Valdheimildum sveitarfélagsins Skagafjarðar og samráðsvettvangi samstarfsaðila skal lýst nánar hér á eftir.
2.4 Félagsmála- og tómstundanefnd sveitarfélagsins Skagafjarðar fer með framkvæmd verkefnisins á samningstímanum, samkvæmt erindisbréfi frá sveitarstjórn sveitarfélagsins. Nefndin tekur til umfjöllunar fundargerðir fagráðs og framkvæmdaráðs, sbr. gr. 2.8 og 3.1 í samningi þessum.
2.5 Þjónusta innan svæðisins er veitt á jafnræðisgrundvelli og byggja ákvarðanir um veitingu hennar á mati á þjónustuþörf. Sá sem metinn er í mestri þörf fyrir þjónustu skal að öllu jöfnu hafa forgang að þjónustu, óháð búsetu. Þá gilda sömu viðmið um þjónustustig á svæðinu öllu. Þjónusta samkvæmt samningi þessum kemur til viðbótar þeirri þjónustu sem veitt er á grundvelli annarra laga en ekki í stað hennar. Þegar nýr einstaklingur er metinn til þjónustu samkvæmt samningi þessum skal hann nýta sér almenna stuðningsþjónustu sem nemur allt að 15 klukkustundum á viku sem er á ábyrgð hlutaðeigandi sveitarfélags, sbr. 26. og 27. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 (hér eftir félagsþjónustulög). Áður en aðstoð er veitt skal viðkomandi félagsþjónusta sem fer með stuðningsþjónustu meta þörf og óska eftir SIS-þjónustumati. Um aukna þjónustuþörf fer samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk. Sjá nánar verklýsingu í viðauka 1 með samningi þessum.
2.6 Núverandi þjónustueiningar verða starfræktar áfram að óbreyttu, en þjónusta skal þó miðast við metna þjónustuþörf á hverjum tíma. Ef óhjákvæmilegt er talið að gera breytingar á þjónustueiningum eða koma upp nýjum þjónustuþáttum, sem hafa áhrif á heildarfyrirkomulag á rekstri og kostnað við þjónustu, skal breytingin koma til umfjöllunar og ákvörðunar félagsmála- og tómstundanefndar sveitarfélagsins Skagafjarðar annars vegar og til kynningar hjá framkvæmdaráði hins vegar. Við ákvörðun skal taka mið af 2. mgr. 8. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk, hvað varðar aðkomu ráðherra málaflokksins, hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og/eða notendaráðs.
2.7 Sveitarfélaginu Skagafirði er heimilt að gera samninga við aðra aðila um framkvæmd einstakra þátta þjónustunnar, sbr. 100. gr. svstjl., m.a. við einkaaðila, enda samrýmist þeir samningar lögum um þjónustuna, sveitarstjórnarlögum, rekstrarleyfum frá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og rúmist innan samþykktrar fjárhagsáætlunar.
2.8 Til að tryggja samfellu og samráð um veitingu þjónustu skal vera starfandi fagráð skipað félagsmálastjórum Húnaþings vestra og Austur-Húnavatnssýslu, leiðtoga málefna fatlaðs fólks og eldra fólks hjá Skagafirði sem jafnframt er formaður fagráðsins og stýrir fundum þess. Teymið hefur faglegt ráðgjafarhlutverk og er vettvangur til að fjalla um og veita faglega ráðgjöf um einstök mál er varða þjónustu í málefnum fatlaðs fólk á Norðurlandi vestra. Sviðsstjóri fjölskyldsviðs Skagafjarðar hefur seturétt á fundum ráðsins. Fagráðið kallar til fundar þá starfsmenn í málaflokknum sem þurfa þykir hverju sinni.
2.9 Ráðgjafar í málefnum fatlaðs fólks verða starfsmenn viðkomandi félagsþjónustu. Sveitarfélagið Skagafjörður greiðir kostnað við 25% stöðu í Austur-Húnavatnssýslu, 25% stöðu í Húnaþingi vestra og 100% stöðu í Skagafirði. Starf ráðgjafa felur í sér verkefni sem tengjast þjónustu við fötluð börn og fullorðna s.s. að greina og meta þjónustuþörf og veita ráðgjöf um viðeigandi þjónustu sem er umfram 15 tíma lögbundna þjónustu fyrir fullorðna og börn í umönnunarflokki 1, 2 og 3 hjá viðkomandi félagsþjónustu. Starfið felur einnig í sér almenna ráðgjöf til starfsmanna stofnana í félagsþjónustu, foreldra og aðstandenda. Starfsmaður situr í teymum eftir því sem þörf er á í félagsþjónustu, heldur utan um þverfaglegt starf með notendum og starfsfólki vegna eftirfylgni mála og við skipulagningu verkefna. Ráðgjafi kemur jafnframt að innleiðingu nýjunga í samstarfi við aðra starfsmenn og stofnanir. Gerð er krafa um að ráðgjafi hafi háskólamenntun á sviði félags-, heilbrigðis- eða menntavísinda eða skyldum greinum og hafi þekkingu á helstu lögum er varða þjónustu við fatlað fólk ásamt þekkingu á stjórnkerfi ríkis og sveitarfélaga. Mikilvægt er að ráðgjafi hafi framúrskarandi hæfni í samskiptum og lausnamiðaða nálgun verkefna, sjálfstæði í störfum, frumkvæði og góða skipulagshæfni. Félagsþjónustur skila inn að lágmarki ársfjórðungslega vinnuskýrslu til sveitarfélagsins Skagafjarðar. Skýrslan á að fela í sér samantekt fyrir öll þau ráðgjafaverkefni sem unnin voru á tímabilinu, fjölda mála í vinnslu, fjölda mála sem er lokið o.s.frv. Ráðgjafar leggja allar umsóknir fyrir teymi fagfólks sem metur stuðnings- og þjónustuþörf, fer yfir umsóknir um þjónustu og afgreiðir þær. Teymið heyrir undir félagsmálastjóra sveitarfélagsins Skagafjarðar.
2.10 Samráðshópur um málefni fatlaðs fólks, skv. 2. mgr. 42. gr. félagsþjónustulaga, er starfræktur á þjónustusvæði samningsins. Um er að ræða formlegan samráðsvettvang þar sem fjallað er um þjónustu við fatlað fólk og framkvæmd og þróun þjónustunnar. Í samráðshópnum skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórnum af þjónustusvæðinu og skal 1 vera úr Skagafirði, 1 úr Austur-Húnavatnssýslu og 1 úr Húnaþingi vestra, auk þriggja fulltrúa sem tilnefndir eru af hagsmunasamtökum fatlaðs fólks.
3. Stjórn þjónustusvæðisins.
3.1 Aðildarsveitarfélög samningsins mynda framkvæmdaráð sem er vettvangur fyrir fulltrúa sveitarfélaganna til þess að fjalla um stefnumótun málaflokksins, almennan rekstur þjónustunnar á starfssvæðinu, starfsáætlun, rekstraryfirlit sem og fjárhagsáætlun áður en hún er send sveitarstjórnum til kynningar. Fundargerðir fagráðs skulu koma til umfjöllunar á fundum framkvæmdaráðs. Framkvæmdaráðið hefur þó eingöngu ráðgjafarhlutverk og á ekki að fjalla um einstök mál er varða þjónustu enda ber að gæta trúnaðar um slík mál. Fundargerðir framkvæmdaráðs skulu sendar sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaga eftir hvern fund ráðsins og ber formaður framkvæmdaráðs ábyrgð á þeim verkþætti.
3.2 Í framkvæmdaráði eiga sæti sveitarstjórar eða oddvitar aðildarsveitarfélaga að samningnum, ásamt sviðsstjóra fjölskyldusviðs og leiðtoga fatlaðs fólks og eldra fólks sveitarfélagsins Skagafjarðar. Sveitarstjóri hins leiðandi sveitarfélags fer með formennsku ráðsins. Formaður skal kalla ráðið saman ársfjórðungslega en hver aðili að framkvæmdaráði getur óskað eftir fundi utan þess tíma þyki þess þörf. Sveitarfélagið Skagafjörður kallar til fundar ráðsins þá starfsmenn sem þurfa þykir hverju sinni.
4. Þjónusta sveitarfélagsins Skagafjarðar.
4.1 Sveitarfélagið Skagafjörður annast heildstæða þjónustu við fatlað fólk samkvæmt ákvæðum laga um þjónustu við fatlað fólk og aðrar reglur og stjórnvaldsfyrirmæli er varða þann málaflokk og samþykktir um þjónustu. Þá skal veiting þjónustu að auki taka mið af ákvæðum stjórnsýslulaga.
4.2 Hið leiðandi sveitarfélag tekur að sér að reka eftirfarandi þjónustustofnanir til að veita þjónustu á forsendum laga um þjónustu við fatlað fólk:
- Sólarhringsþjónusta við fatlað fólk á heimilum, skv. 9. gr. laga nr. 38/2018.
- Iðja – hæfing, skv. 24. gr. laga nr. 38/2018.
- Skammtímadvöl, skv. 17. gr. laga nr. 38/2018.
- Stoðþjónusta umfram 15 tíma á viku, skv. 8. gr. laga nr. 38/2018.
Veitir þjónustu í formi samninga:
- Stuðningsfjölskyldur, skv. 15. gr. laga nr. 38/2018.
- Notendastýrð persónuleg aðstoð, skv. 11. gr. laga nr. 38/2018.
- Notendasamningar, skv. 10. gr. laga nr. 38/2018 og 28. gr. laga nr. 40/1991.
4.3 Snemmtæk íhlutun og greining, sumardvöl, frístundaþjónusta, akstursþjónusta og stuðningur á vinnustað er á ábyrgð hvers sveitarfélags og er ekki hluti af samningi þessum. Skilgreining þessara hugtaka samkvæmt lögum er að finna í viðauka 2 með samningi þessum en fyrirhugað er að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið gefi út leiðbeiningar um samræmda bókun kostnaðar og tekna vegna þjónustu við fatlað fólk. Skilgreiningin kann því að breytast á samningstímanum. Sveitarfélagið Skagafjörður sækir um styrk til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna frístundaþjónustu skv. 16. gr. laga nr. 38/2018, sbr. grein 5.7 í samningi þessum.
4.4 Umsóknir um húsnæði fyrir fatlað fólk skulu berast til félagsþjónustu þar sem umsækjandi velur sér búsetustað.
4.5 Húsnæðisúrræði eru á ábyrgð hvers aðildarsveitarfélags, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk.
5. Fjármögnun.
5.1 Aðilar þjónustusvæðisins bera sameiginlega ábyrgð á fjármögnun þjónustu innan svæðisins eins og nánar er kveðið á um í samningnum.
5.2 0,25% af útsvarsstofni aðildarsveitarfélaga renna til Sveitarfélagsins Skagafjarðar með mánaðarlegum greiðslum sem byggja á áætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga um þróun útsvars einstakra sveitarfélaga. Ef samþykkt fjárhagsáætlun viðkomandi árs er hærri en áætluð fjárframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga greiða sveitarfélögin sinn hlut í áætluðum halla mánaðarlega.
5.3 Fjárframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem byggja á mati á þjónustuþörf tiltekinna einstaklinga renna til sveitarfélagsins Skagafjarðar.
5.4 Uppgjör ofgreiddra eða vangreiddra framlaga sveitarfélaganna til sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna liðins árs fer fram þegar ársuppgjör staðgreiðslu ársins liggur fyrir.
5.5 Tekjur af rekstri einstakra þjónustueininga renna til sveitarfélagsins Skagafjarðar.
5.6 Sveitarfélagið Skagafjörður óskar eftir framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna NPA-samninga.
5.7 Sveitarfélagið Skagafjörður óskar eftir framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni. Jöfnunarsjóður leggur áherslu á að umsókn komi frá þjónustusvæði en ekki einstaka sveitarfélögum. Greiðsla framlags til aðildarsveitarfélaga tekur mið af og er reiknuð út frá umsókn sveitarfélags og afgreiðslu Jöfnunarsjóðs. Reglur um skiptingu fjármuna er að finna í viðauka 3 með samningi þessum.
6. Útgjöld.
6.1 Sveitarfélagið Skagafjörður ber kostnað vegna þjónustu samkvæmt samningi þessum, með undantekningum sem fjallað er um í greinum 2.5 og 5.7.
6.2 Sveitarfélagið Skagafjörður greiðir eftirfarandi kostnað vegna eftirtalinna fasteigna sem nýttar eru vegna þjónustu við fatlað fólk:
- Heimilið Grundartúni 10-12, Hvammstanga, kostnaður vegna húsaleigu í sameiginlegu rými.
- Iðja/dagvist, Hvammstangabraut 11, Hvammstanga, kostnaður vegna leigusamnings.
- Heimilið Skúlabraut 22, Blönduósi, kostnaður vegna húsaleigu í sameiginlegu rými.
- Þjónustuíbúð Skúlabraut 8, Blönduósi, kostnaður vegna leigusamnings.
- Þjónustuíbúðir Kleifatúni 17-25, Sauðárkróki, kostnaður vegna leigusamnings.
- Heimilið Fellstúni 19, Sauðárkróki, kostnaður vegna húsaleigu í sameiginlegu rými.
- Þjónustuíbúð Fellstúni 19b, Sauðárkróki, kostnaður vegna húsaleigu í sameiginlegu rými.
- Þjónustuíbúðir Freyjugötu 18, Sauðárkróki, kostnaður vegna húsaleigu í sameiginlegu rými.
- Iðja/dagvist við Sæmundarhlíð, Sauðárkróki, kostnaður vegna leigusamnings.
- Skammtímadvöl, Grundarstíg 22, Sauðárkróki, kostnaður vegna húsaleigu.
6.3 Forræði yfir fasteignum sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk er hjá húseigendum, þar með talið forræði yfir gerð leigusamninga við íbúa.
6.4 Framlögum vegna búnaðarkaupa stofnana samkvæmt lögum og reglugerðum þar um verður úthlutað af sveitarfélaginu Skagafirði samkvæmt fjárhagsáætlun.
6.5 Styrkir eða fyrirgreiðsla vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar, skv. 25. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk er á ábyrgð hvers aðildarsveitarfélags.
6.6 Kostnaður Skagafjarðar vegna umsýslu við verkefnið s.s. bókhald, starfsmannahald, umsjón og samskipti vegna samningsins verður metinn inn í fjárhagsáætlun.
7. Eftirlit, uppgjör, reglur og skýrslugerð.
7.1 Sveitarfélagið Skagafjörður kemur á innra eftirliti með framkvæmd þjónustu við fatlað fólk þar sem stuðst er við þau þjónustu- og gæðaviðmið sem sett eru og skilgreind í reglugerð um eftirlit og eftirfylgni vegna þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sbr. 4. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk og reglugerð 1036/2018 um eftirlit og eftirfylgni vegna þjónustu við fatlað fólk.
7.2 Sveitarfélagið Skagafjörður skal leggja tillögu að fjárhagsáætlun fyrir aðildarsveitarfélög þessa samnings eigi síðar en 10. október ár hvert.
7.3 Gera skal kostnaðaruppgjör ársins fyrir þjónustusvæðið, miðað skal við að innbyrðis skiptist ábyrgðin í samræmi við fjölda íbúa sem Hagstofa Íslands birtir 1. desember ár hvert.
7.4 Komi í ljós að rekstrargjöld stefni í hærri upphæð en fjárhagsáætlun viðkomandi árs segir til um, skal lögð fram ósk um viðauka frá aðildarsveitarfélögum þessa samnings, sbr. 63. gr. svstjl.
7.5 Sveitarfélagið Skagafjörður setur reglur um þjónustu sem veitt er á forsendum samnings þessa. Reglurnar taka mið af reglugerðum nr. 1250/2018 um notendastýrða persónulega aðstoð, nr. 1038/2018 um búsetu fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir, nr. 1037/2018 um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum, nr. 1036/2018 um eftirlit og eftirfylgni vegna þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 1035/2018 um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma eftir þjónustu, nr. 1039/2018 um breytingu á reglugerð um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk, nr. 370/2016, nr. 369/2016 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu og leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um stuðningsþjónustu þ.e. um þjónustu stuðningsfjölskyldna og um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks. Sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaga þessa samnings skulu fjalla um og staðfesta reglurnar áður en þær taka gildi.
7.6 Sveitarfélagið Skagafjörður skal gefa út ársskýrslu um starfsemi þjónustusvæðisins, þar sem meðal annars skal gerð grein fyrir tölulegum upplýsingum sem lýsa eðli, umfangi og kostnaði þjónustunnar. Þá ber Skagafjörður ábyrgð á upplýsingagjöf, í samstarfi við félagsþjónustur aðildarsveitarfélaga, vegna skila á gögnum til Hagstofu Íslands.
8. Starfsmenn.
8.1 Sveitarfélagið Skagafjörður verður vinnuveitandi starfsmanna sem starfa að verkefnum sem samningurinn tekur til. Það þýðir að sveitarfélagið Skagafjörður fer með ráðningarsamband og allar stjórnunarheimildir gagnvart starfsmönnunum, sér um afgreiðslu launa til starfsmanna og stendur skil á lögbundnum greiðslum, lífeyrissjóðsgreiðslum og iðgjöldum til stéttarfélaga.
Undanþegnir þessu ákvæði eru ráðgjafar í málefnum fatlaðs fólks sem staðsettir eru í Húnaþingi vestra og Austur-Húnavatnssýslu, sbr. grein 2.9. í samningnum.
8.2 Sveitarfélagið Skagafjörður skal hafa þroskaþjálfa til að starfa að verkefnum skv. 26. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk. Þar sem þörf krefur skal ráða félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, sálfræðinga og aðra sérfræðinga til starfa ásamt starfsfólki sem talar íslenskt táknmál. Starfsfólki skal gefast kostur á að viðhalda og bæta við þekkingu sína. Starfsmönnum ber að gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd samningsins og leynt skulu fara samkvæmt lögum. Sveitarfélagið Skagafjörður skuldbindur sig til að tryggja undirritun starfsmanna sinna um þagnarskyldu. Liður 8.2 á einnig við um starf ráðgjafa í Húnaþingi vestra og Austur-Húnavatnssýslu.
8.3 Óheimilt er að ráða í störf sem unnin eru í þágu þjónustu við fatlað fólk, þau sem hafa hlotið refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. kafla, 211. gr. eða 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Líta ber jafnframt til 18. gr. laga nr. 40/1991 og 26. gr. laga nr. 38/2018, þar sem segir:
„Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir brot á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga skal meta áhrif þess á hæfi viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Sama gildir um verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum samkvæmt lögum þessum hjá sveitarfélögum, byggðasamlögum, ríki eða einkaaðilum sem veita fötluðu fólki þjónustu.“
9. Meðferð ágreinings.
9.1 Rísi ágreiningur um túlkun og framkvæmd á samningi þessum, sem ekki tekst að leysa skv. gr. 10.3, skal skipa þriggja manna sáttanefnd til að fjalla um ágreininginn og leita lausna á honum. Skal a.m.k. einn nefndarmanna í sáttanefnd vera óháður sveitarfélögunum.
9.2 Sáttanefnd leggur fram tillögu til sveitarstjórna um lausn ágreiningsins.
9.3 Samþykki sveitarstjórnir ekki sáttatillöguna og fullreynt þykir að sættir náist er unnt að skjóta málinu til úrlausnar Héraðsdóms Norðurlands vestra.
10. Gildistími og endurskoðun.
10.1 Samningur þessi tekur gildi 1. janúar 2023 að undangenginni umfjöllun og staðfestingu sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga sbr. 2. mgr. 92. gr. svstjl. og er ótímabundinn með eins árs uppsagnarfresti sem miðast við áramót.
10.2 Aðildarsveitarfélög skuldbinda sig til þess að funda í upphafi nýs kjörtímabils og eigi síðar en 1. september eftir kosningar til þess að ræða áframhaldandi samstarf eða sammælast um að koma málefnum í breyttan farveg standi vilji til þess með hagsmuni þjónustuþega og samfellu í þjónustu að leiðarljósi. Sé vilji til þess að segja samningi upp í upphafi kjörtímabils skal uppsögn samnings berast fyrir áramót og tekur gildi einu ári frá þeim tíma.
10.3 Telji aðili að samningnum að hann hafi verið brotinn eða að þjónustunni megi með einhverju móti koma betur fyrir skal kalla saman fund fulltrúa sveitarfélaganna á vettvangi framkvæmdaráðs. Að fengnu samþykki allra sveitarstjórna er hægt að endurgera samninginn innan samningstímans þar sem m.a. einhverjum hluta þjónustunnar verði komið fyrir með öðrum hætti sem stenst þær kröfur sem gerðar eru til viðkomandi þjónustuþáttar. Séu gerðar breytingar á samningnum ber að fá staðfestingu á samningnum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og birta samninginn að staðfestingu fenginni í Stjórnartíðindum.
10.4 Breytist forsendur samningsins geta samningsaðilar farið fram á endurskoðun hans. Breyttar forsendur teljast m.a.:
- Verulegar breytingar á ákvæðum laga um málefni fatlaðs fólks um umfang og gæði þjónustu við fatlað fólk.
- Sameining sveitarfélaga eða breytingar á mörkum þjónustusvæðis.
- Umtalsverð röskun á högum aðildarsveitarfélags sem gerir því ókleift að efna ákvæði samningsins.
Samningur þessi er gerður í fjórum jafngildum eintökum og telst hvert um sig fullgilt frumrit samnings.
VIÐAUKI 1
Verklýsing um veitingu þjónustu.
Sótt er um þjónustu hjá félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem viðkomandi á lögheimili eða þeirri félagsþjónustu sem ber ábyrgð á þjónustunni.
Áður en þjónusta er veitt skal félagsþjónusta meta þörf í hverju einstöku tilviki. Læknisvottorð skal liggja fyrir þegar um heilsufarsástæður er að ræða.
Félagsþjónusta leiðandi sveitarfélags óskar eftir SIS-þjónustumati.
Félagsþjónusta veitir almenna stuðningsþjónustu sem nemur allt að 15 klukkustundum á viku og er sú þjónusta alfarið á ábyrgð hlutaðeigandi sveitarfélags/félagsþjónustu. Sveitarfélög setja sér reglur um stuðningsþjónustu samkvæmt lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga á grundvelli leiðbeininga ráðherra sem tóku gildi 15. júní 2020.
Félagsþjónusta ber ábyrgð á snemmtækri íhlutun og frumgreiningu í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra (14. gr. laga nr. 38/2018).
Sé stuðningsþörf vegna fötlunar meiri en svo að henni verði mætt á grundvelli laga um félagsþjónustu nr. 40/1991 skal stuðningur samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 koma til viðbótar þjónustu sem veitt er á grundvelli annarra laga en ekki í stað hennar og þjónustan samþætt í þágu notenda.
Allir fullorðnir einstaklingar sem falla í 4. flokk SIS-þjónustumats eða ofar falla undir þjónustu skv. lögum nr. 38/2018. Greiðslur frá Jöfnunarsjóði miðast við SIS-matsflokka 5 og ofar en eiga að standa undir kostnaði við notendur í SIS-matsflokki 4 og ofar. Þau sem falla undir 1.-3. flokk SIS-mats fá þjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu nr. 40/1991.
Öll fötluð börn og langveik sem falla undir 1., 2. og 3. flokk umönnunarmats TR falla undir þjónustu skv. lögum nr. 38/2018.
Þjónusta við börn og fjölskyldur þeirra sem veitt er skv. samningi þessum, þ.e.: Stuðningsfjölskyldur, sbr. 15. gr. laga nr. 38/2018, og skammtímadvöl, sbr. 17. gr. laga nr. 38/2018.
VIÐAUKI 2
Skilgreining hugtaka þjónustu sem fellur ekki undir samning
um sameiginlegt þjónustusvæði á Norðurlandi vestra
um þjónustu við fatlað fólk.
Snemmtækur stuðningur, íhlutun og greining (14. gr. laga nr. 38/2018).
Þjónustuveitendum og þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barna ber skylda til að bregðast við vísbendingum um að þörfum barns sé ekki mætt í samræmi við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Ef þjónustuveitandi telur að barn kunni að hafa stuðningsþarfir vegna fötlunar, sem ekki er mætt, og foreldrar viðkomandi barns kjósa að óska ekki eftir samþættingu þjónustu, sbr. 1. mgr., skal þjónustuveitandi taka saman upplýsingar um aðstæður barns sem varpa ljósi á vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt og stuðningsþarfir og miðla þeim til þeirra aðila innan sveitarfélags sem bera ábyrgð á skipulagi og þjónustu við fatlað fólk, sbr. 1. mgr. 5. gr.
Viðbrögð þjónustuveitenda samkvæmt þessari grein skulu miða að því að barn fái snemmtækan stuðning og íhlutun. Frumgreining og/eða annars konar mat á þörfum barns skal fara fram svo fljótt sem verða má. Mæta skal stuðningsþörfum barns þótt greining liggi ekki fyrir.
Sumardvöl (18. gr. laga nr. 38/2018).
Fötluð börn skulu eiga kost á að komast í sumardvöl að heiman eins og önnur börn. Sumardvöl er ætlað að gefa fötluðum börnum kost á að skipta um umhverfi og dveljast utan heimilis síns sér til ánægju og tilbreytingar.
Frístundaþjónusta (16. gr. laga nr. 38/2018).
Sveitarfélög skulu bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónustu eftir að reglubundnum skóladegi þeirra lýkur, og eftir atvikum áður en dagleg kennsla hefst, svo og á þeim dögum, öðrum en lögbundnum frídögum, þegar skólar starfa ekki. Þessi þjónusta tekur við af almennri frístundaþjónustu grunnskóla og henni lýkur þegar viðkomandi lýkur framhaldsskóla. Þjónustan skal vera einstaklingsmiðuð og á því formi sem best hentar viðkomandi. Veita skal þjónustu vegna fötlunar samhliða almennum frístundatilboðum, eins og mögulegt er. Þessi þjónusta skal að jafnaði taka mið af metnum stuðningsþörfum og vera hluti af einstaklingsbundinni þjónustuáætlun viðkomandi barns eða ungmennis.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd þjónustu samkvæmt þessari grein að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Sveitarstjórn skal setja nánari reglur um þjónustuna.
Akstursþjónusta (29. gr. laga nr. 40/1991).
Fatlað fólk skal eiga kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.
Jafnframt skal fatlað fólk eiga rétt á akstursþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar þjónustu sem það nýtur samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
Ráðherra setur nánari leiðbeiningar um akstursþjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks þar sem m.a. skal kveðið á um tilhögun á akstri utan sveitarfélags og kostnaðarskiptingu vegna akstursþjónustu í dreifbýli. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Þá er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir akstursþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir skulu setja og skal gjaldið vera sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.
Atvinna – stuðningur á vinnustað (22. gr. laga nr. 38/2018).
Hvers konar atvinnu- og hæfingartengd þjónusta sem ætluð er fötluðu fólki telst til vinnumarkaðsaðgerða. Vinnumálastofnun annast skipulag og vinnumarkaðsaðgerðir fyrir fatlað fólk, þar á meðal vinnumiðlun, mat á vinnufærni og mat á þörf fyrir vinnumarkaðsúrræði, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir. Skipulag, framkvæmd og rekstur vinnustaða fyrir verndaða vinnu, hæfingu og virkniþjálfun er á ábyrgð sveitarfélaga, nema annað sé sérstaklega ákveðið með samkomulagi ríkis og Vinnumálastofnunar.
Kostnaður vegna þjónustu Vinnumálastofnunar og vinnumarkaðsúrræða á vegum hennar greiðist úr ríkissjóði, þar á meðal sérstakur stuðningur við atvinnuleitendur og eftirfylgni, svo sem kostnaður vegna vinnusamninga öryrkja, en kostnaður vegna vinnustaða fyrir verndaða vinnu, hæfingu og virkniþjálfun greiðist af sveitarfélögum, þar á meðal stoðþjónusta skv. 8. gr.
Fatlað fólk skal eiga forgang að störfum hjá ríki og sveitarfélögum ef hæfni þess til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja.
Frístundaþjónusta (16. gr. laga nr. 38/2018).
Sveitarfélög skulu bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónustu eftir að reglubundnum skóladegi þeirra lýkur, og eftir atvikum áður en dagleg kennsla hefst, svo og á þeim dögum, öðrum en lögbundnum frídögum, þegar skólar starfa ekki. Þessi þjónusta tekur við af almennri frístundaþjónustu grunnskóla og henni lýkur þegar viðkomandi lýkur framhaldsskóla. Þjónustan skal vera einstaklingsmiðuð og á því formi sem best hentar viðkomandi. Veita skal þjónustu vegna fötlunar samhliða almennum frístundatilboðum, eins og mögulegt er. Þessi þjónusta skal að jafnaði taka mið af metnum stuðningsþörfum og vera hluti af einstaklingsbundinni þjónustuáætlun viðkomandi barns eða ungmennis.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd þjónustu samkvæmt þessari grein að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Sveitarstjórn skal setja nánari reglur um þjónustuna.
VIÐAUKI 3
Reglur um skiptingu fjármuna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
vegna lengdrar viðveru fyrir börn og unglinga með fötlun,
frá og með 5. bekk grunnskóla til loka framhaldsskóla
1. gr.
Hvert sveitarfélag tekur ákvörðun um hvort boðið sé upp á lengda viðveru og með hvaða hætti henni skuli skipað innan sveitarfélagsins.
2. gr.
Þjónustusvæðið getur samkvæmt reglum Jöfnunarsjóðs sótt um 50% endurgreiðslu á útlögðum launakostnaði vegna barna sem lögheimili eiga á þjónustusvæðinu. Endurgreiðsla ræðst af því fjármagni sem er til ráðstöfunar frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga ár hvert.
3. gr.
Sveitarfélagið Skagafjörður sækir um styrk fyrir þjónustusvæðið samkvæmt reglum Jöfnunarsjóðs, umsóknarferlið fer að öllu jöfnu fram í október og nóvember ár hvert. Eftirfarandi þarf að koma fram í umsókn:
a) fjöldi nemenda
b) fjöldi tíma
c) skólastig skipt niður á vorönn og haustönn.
d) sundurliðun kostnaðar vegna hvers nemanda.
5. gr.
Sveitarfélagið Skagafjörður safnar saman upplýsingum frá fjölskyldusviði Húnaþings vestra og Félags- og skólaþjónustu Austur-Húnvetninga skv. 3. gr. við vinnslu umsóknar og ber ábyrgð á því að senda heildarumsóknir til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
6. gr.
Endurgreiðslur til sveitarfélaga miðast við úthlutað fjármagn hverju sinni frá Jöfnunarsjóði.