Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Þingvallanefnd
Málaflokkur
Þjóðgarðar, Þingvellir, Köfun
Undirritunardagur
1. mars 2013
Útgáfudagur
5. mars 2013
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 214/2013
1. mars 2013
REGLUR
um köfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum (yfirborðs- og djúpköfun).
1. gr.
Skilyrði fyrir köfun.
Allir sem hyggjast kafa innan þjóðgarðsins á Þingvöllum verða að tilkynna komu sína til starfsmanns þjóðgarðsins og fá til þess leyfi, áður en kafað er. Leyfi til köfunar er veitt að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
- Viðkomandi hafi kynnt sér fyrirmæli fyrir kafara við köfun og yfirborðsköfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum sem gefin eru út af Siglingastofnun.
- Viðkomandi hafi undirritað yfirlýsingu um að honum sé ljóst að kafað er á eigin ábyrgð.
- Viðkomandi hafi greitt gestagjald fyrir köfun samkvæmt gildandi gjaldskrá þjóðgarðsins á hverjum tíma.
2. gr.
Reglur sem köfurum ber að fylgja.
Þeim sem kafa eða yfirborðskafa í þjóðgarðinum ber að fylgja ákvæðum gildandi laga, reglugerða og reglna um köfun í hvívetna, þ.m.t. ákvæðum laga um köfun nr. 31/1996, ákvæðum reglugerðar um köfun nr. 535/2001 og fyrirmælum Siglingastofnunar nr. 165/2013 vegna köfunar og yfirborðsköfunar í þjóðgarðinum á Þingvöllum, dags. 12. febrúar 2013.
Köfurum ber ennfremur að fylgja ákvæðum annarra laga, reglugerða og reglna sem gilda innan þjóðgarðsins, s.s. laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum nr. 47/2004, reglugerðar um þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndun hans og meðferð nr. 848/2005, laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess nr. 85/2005 og almennum umgengnisreglum.
3. gr.
Viðbrögð við brotum.
Starfsmenn þjóðgarðsins geta vísað þeim frá köfun, er brjóta gegn reglum þessum og getur þjóðgarðsvörður sett viðkomandi í tímabundið bann við köfun innan þjóðgarðsins ef sakir eru miklar eða endurteknar.
Brot á reglum þessum skulu kærð til lögreglu ef þurfa þykir.
4. gr.
Viðurlög.
Brot á reglum þessum varða sektum og fangelsi ef sakir eru miklar, sbr. 9. gr. laga nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum.
5. gr.
Gildistaka o.fl.
Reglur þessar eru samdar og samþykktar af Þingvallanefnd á grundvelli 3. gr. laga nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum, sbr. e. lið 6. gr. reglugerðar nr. 848/2005 um þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndun hans og meðferð. Reglurnar öðlast gildi við birtingu.
F.h. Þingvallanefndar, 1. mars 2013,
Áflaheiður Ingadóttir formaður.
B deild - Útgáfud.: 5. mars 2013