Upplýsingar um auglýsingu
Deild
A deild
Stofnun
Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Málaflokkur
Fjármálastarfsemi, Ríkiseignir
Undirritunardagur
8. maí 2025
Útgáfudagur
9. maí 2025
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 22/2025
8. maí 2025
LÖG
um breytingu á lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka hf., nr. 80/2024 (framkvæmd markaðssetts útboðs).
Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:
1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
- 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Markaðssett útboð skal auglýst samhliða birtingu útboðslýsingar og standa yfir í þrjá daga hið minnsta.
- 1.–3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Markaðssettu útboði skal skipt í tilboðsbók A, tilboðsbók B og tilboðsbók C. Sala samkvæmt tilboðsbók A skal hafa forgang við úthlutun, síðan sala samkvæmt tilboðsbók B og loks sala samkvæmt tilboðsbók C. Lágmarkstilboð skal vera 100.000 kr. í tilboðsbók A, 2.000.000 kr. í tilboðsbók B og 300.000.000 kr. í tilboðsbók C.
- Í stað orðsins „heildarmagni“ í 2. málsl. b-liðar 3. mgr. kemur: grunnmagni.
- Við 3. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Í tilboðsbók C skal vera heimilt að gera tilboð m.a. á grundvelli markaðsþreifinga í aðdraganda útboðsins. Söluverð skal vera hið sama og í tilboðsbók B og tilboðsgjöfum í tilboðsbók C skal gefinn kostur á að hækka tilboðsverð sín til jafns við verðið í tilboðsbók B hafi tilboð þeirra verið lægri. Einungis eftirlitsskyldum fagfjárfestum sem gera tilboð fyrir eigin reikning og uppfylla það skilyrði að samanlögð fjárhæð eigna þeirra sé jafnvirði 70 milljarða kr. eða hærri skal vera heimilt að gera tilboð. Úthlutun í tilboðsbók C skal byggjast á fyrirframákveðnum og birtum viðmiðum sem hafa hagkvæmni útboðsins að leiðarljósi. Í viðmiðunum skal horft til þátttöku í útboðsferlinu, fjárhæðar tilboðs, tímasetningar tilboðs og gæða fjárfestis með vísan til fyrirsjáanlegrar getu og vilja tilboðsgjafa til þess að samþætta til lengri tíma hagsmuni sína við hagsmuni Íslandsbanka hf.
2. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
- Tilvísunin „skv. 2. mgr. 4. gr.“ í 2. málsl. 3. mgr. fellur brott.
- Í stað orðanna „ráðherra fela óháðum aðila að“ í 4. mgr. kemur: Ríkisendurskoðun.
3. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Gjört á Bessastöðum, 8. maí 2025.
Halla Tómasdóttir.
(L. S.)
Daði Már Kristófersson.
A deild - Útgáfud.: 9. maí 2025