Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Seðlabanki Íslands
Málaflokkur
Fjármálastarfsemi
Undirritunardagur
3. desember 2025
Útgáfudagur
17. desember 2025
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 1390/2025
3. desember 2025
REGLUR
um atvikamiðstöð fjármálainnviða.
1. gr. Gildissvið.
Reglur þessar gilda um atvikamiðstöð fjármálainnviða, sem er vettvangur á vegum Seðlabanka Íslands þar sem þátttakendur í samhæfingaráætlun fjármálakerfisins geta átt samskipti um rekstraratvik, grun um atvik eða hættu á atviki og eftir atvikum samhæft viðbrögð sín við þeim.
2. gr. Orðskýringar.
Atvik: Atburður eða röð atburða sem veldur, kann að valda eða hefði getað valdið tjóni vegna ófullnægjandi eða brotinna innri ferla, mannlegra mistaka, kerfa eða ytri atburða. Í samhengi við þessar reglur er horft til atburða sem hafa áhrif á eða kunna að hafa áhrif á fjármálastöðugleika.
Fjármálainnviðir: Innviðir sem gegna hlutverki við miðlun fjármagns milli einstaklinga, lögaðila og stjórnvalda og fela í sér hvers kyns kerfi eða þjónustu vegna greiðslumiðlunar, uppgjörs eða skráningar greiðslna eða verðbréfa, eða aðra fjármálaþjónustu.
Fjármálakerfi: Með fjármálakerfi er í reglum þessum átt við fjármálakerfi eins og það er skilgreint í lögum um fjármálastöðugleikaráð, nr. 66/2014.
Fjármálastöðugleiki: Með fjármálastöðugleika er í reglum þessum átt við fjármálastöðugleika eins og hann er skilgreindur í lögum um fjármálastöðugleikaráð, nr. 66/2014.
Kerfislega mikilvægur eftirlitsskyldur aðili: Eftirlitsskyldur aðili sem er þess eðlis að starfsemi hans geti haft áhrif á fjármálastöðugleika og sem fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að teljist kerfislega mikilvægur samkvæmt d-lið 13. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019.
Kerfislega mikilvægir innviðir: Fjármálainnviðir sem eru þess eðlis að starfsemi þeirra geti haft áhrif á fjármálastöðugleika og sem fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að teljist kerfislega mikilvægir samkvæmt d-lið 13. gr. laga um Seðlabanka Íslands.
Ógn: Möguleg orsök eða uppspretta atviks, þ.e. aðili, atburður, aðstæður eða aðferð sem gerir það að verkum að hægt er að nýta veikleika í innri ferlum, fólki, kerfum eða ytri aðstæðum og þannig leitt til atviks.
Rekstraraðili: Aðili sem ber ábyrgð á rekstri fjármálainnviða sem falla undir gildissvið reglna þessara.
Samhæfingaráætlun fjármálakerfisins: Samhæfingaráætlun um viðbrögð við rekstraráföllum fjármálainnviða, sem gefin er út af Seðlabanka Íslands, og lýsir samhæfingu innan fjármálakerfisins komi til röskunar á starfsemi eða ef ógn steðjar að rekstri upplýsingakerfa kerfislega mikilvægra fjármálainnviða og tengdra innviða.
3. gr. Hlutverk atvikamiðstöðvar fjármálainnviða.
Atvikamiðstöð fjármálainnviða er samskiptavettvangur þátttakenda samhæfingaráætlunar fjármálakerfisins sem hefur það hlutverk að lágmarka áhrif rekstrar- eða netöryggisatvika fjármálainnviða á fjármálastöðugleika með því að tryggja tímabær, samhæfð og skilvirk viðbrögð þátttakenda.
4. gr. Þátttakendur.
Auk Seðlabanka Íslands eru eftirtaldir aðilar þátttakendur í atvikamiðstöð fjármálainnviða:
- Rekstraraðilar kerfislega mikilvægra innviða.
- Kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðilar.
- Aðrir eftirlitsskyldir aðilar og rekstraraðilar annarra innviða sem falla undir samhæfingaráætlun fjármálakerfisins, enda sé þátttaka viðkomandi nauðsynleg til þess að atvikamiðstöð fjármálainnviða geti sinnt hlutverki sínu að mati Seðlabankans.
- Netöryggissveit íslenskra stjórnvalda (CERT-IS).
Þátttakendur skulu undirrita samning um þátttöku að atvikamiðstöð fjármálainnviða, sbr. 9. gr.
Þátttakendur skulu tryggja að á hverjum tíma sé unnt að ná sambandi við þá vegna samhæfingaráætlunar fjármálakerfisins.
5. gr. Hlutverk og verkefni þátttakenda.
Hlutverk þátttakenda í atvikamiðstöð fjármálainnviða felst m.a. í þátttöku í samhæfingu og samskiptum í samræmi við samhæfingaráætlun fjármálakerfisins, þ.m.t. með því að vakta eigin innviði og samskiptarásir atvikamiðstöðvar fjármálainnviða, tilkynna öðrum þátttakendum um atvik eða ógn, eða líkur á eða grun um atvik, viðhafa fullnægjandi innri, og eftir atvikum ytri, upplýsingamiðlun, vera í viðbragðsstöðu meðan á atviki stendur, og taka þátt í samhæfðum aðgerðum meðan á atviki stendur og í kjölfar atviks.
Þátttakendur taka þátt í æfingum á samhæfingaráætlun fjármálakerfisins.
6. gr. Samskipti í atvikamiðstöð fjármálainnviða.
Samskipti þátttakenda atvikamiðstöðvar fjármálainnviða vegna atvika í fjármálakerfinu skulu fara fram á samskiptarásum atvikamiðstöðvarinnar eftir því sem kveðið er á um í samhæfingaráætlun fjármálakerfisins. Samskipti á samskiptarásum skulu einskorðast við samskipti í þágu samhæfingaráætlunar fjármálakerfisins. Nánar er mælt fyrir um samskipti þátttakenda í þátttökusamningi skv. 9. gr.
7. gr. Gjaldskrá og gjaldtaka.
Seðlabanki Íslands ákveður gjaldskrá vegna reksturs atvikamiðstöðvar fjármálainnviða í samræmi við 43. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019. Gjaldskráin er endurskoðuð árlega og birt á vefsíðu Seðlabankans.
8. gr. Ábyrgð og eftirlit.
Seðlabankinn ber ábyrgð á rekstri atvikmiðstöðvar fjármálainnviða og hefur með höndum eftirlit með rekstri hennar.
9. gr. Samningur um þátttöku og skilmálar.
Þátttakandi gerir skriflegan samning við Seðlabankann um þátttöku í atvikamiðstöð fjármálainnviða.
Seðlabankinn getur sett nánari skilmála um atvikamiðstöð fjármálainnviða.
10. gr. Þagnarskylda.
Þátttakendur atvikamiðstöðvar fjármálainnviða eru bundnir þagnarskyldu um samhæfingaráætlun fjármálakerfisins, samskipti og hvaðeina annað er snýr að atvikamiðstöð fjármálainnviða og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls, sbr. 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, að því marki sem þátttakendum er ekki skylt að miðla upplýsingum, þ.m.t. til annarra þátttakenda eða viðskiptavina sinna, í samræmi við lög, samhæfingaráætlun fjármálakerfisins, þátttökusamning eða skilmála um atvikamiðstöð fjármálainnviða, sbr. 9. gr.
11. gr. Gildistaka.
Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 17. gr. a. og 2. mgr. 46. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, og hafa verið samþykktar af fjármálastöðugleikanefnd, taka gildi þegar í stað.
Seðlabanka Íslands, 3. desember 2025.
Ásgeir Jónsson
seðlabankastjóri.
Flóki Halldórsson
framkvæmdastjóri.
B deild — Útgáfudagur: 17. desember 2025