A. Skýringar með 2. og 3. gr.
Upphæð skrásetningargjalds er ákveðin á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Fyrir árið 2014 er skrásetningargjaldið kr. 75.000 og er innheimt fyrir hvert háskólaár.
Samkvæmt 3. mgr. 24. gr. laganna er heimilt að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skráningartímabila. Áætlaður meðaltalskostnaður við það er um kr. 10.500 á nemanda miðað við að 2.000 nemendur fái heimild til að greiða í einn mánuð eftir eindaga skráningartímabils. Í þessum reglum er miðað við kr. 10.000, sem samsvarar rúmlega 13,3% álagi á kr. 75.000. Þessi kostnaður, auk óhagræðis við skipulag skólastarfsins, fellur einkum til vegna þjónustu á sumarleyfistíma sem ella væri ekki veitt nema í algjöru lágmarki hjá nemendaskrá, þjónustuborði og Reiknistofnun háskólans, auk aðgangs sem nemendur hafa að tölvuverum, bókasafni, lesaðstöðu o.fl. yfir sumartímann.
Háskóla er heimilt að skipta innheimtu skrásetningargjalds skv. a-lið 2. mgr. 24. gr. laganna hlutfallslega yfir skólaárið og jafnframt er heimilt að mæla fyrir um lækkun skrásetningargjalds til tekjulítilla stúdenta er búa við örorku eða fötlun, sbr. 1. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Heimilt er að miða slíkar reglur við tekjumörk og hvort lækkun sé í formi fastrar krónutölu eða hlutfalls af skrásetningargjaldi, sbr. 4. mgr. 24. gr. laga nr. 85/2008. Í þessum reglum er lækkað skrásetningargjald nemenda sem búa við örorku eða fötlun og hafa örorkuskírteini/endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins kr. 55.000 og er sú upphæð miðuð við fasta krónutölu og er óháð því hvort nemendur eru skráðir í heilt eða hálft háskólaár. Skrásetningargjald vegna gestanemenda er föst krónutala sem miðast við þá vinnu sem felst í skráningu þeirra og þjónustu sem þeim er veitt. Hið sama á við um nemendur sem fá leyfi frá námi sínu heilt kennslumisseri eða lengur og skulu þeir þá leita heimildar viðkomandi háskóladeildar og skrá sig árlegri skráningu, meðan á leyfistíma stendur, enda sé gætt ákvæða um tímamörk náms. Leyfistími getur að hámarki verið eitt ár í senn og lengir ekki hámarksnámstíma samkvæmt reglum viðkomandi deildar. Stúdent greiðir hluta skrásetningargjalds á meðan á leyfistíma stendur, þ.e. kr. 10.000, sem síðan dregst frá skrásetningargjaldinu er hann kemur úr leyfi, ef um sama háskólaár er að ræða.
Hluta skrásetningargjalds er varið til Félagsstofnunar stúdenta og til félagssamtaka stúdenta skv. sérstökum samningum, sbr. heimild í 4. mgr. 24. gr. laga nr. 85/2008.
Ef umsókn stúdents um skólavist er samþykkt gefur nemendaskrá út rafræna kröfu fyrir skrásetningargjaldi ásamt rafrænu skjali sem birtist í netbanka nemanda. Sama gildir við árlega skráningu stúdenta sem þegar eru í námi. Greiðsla skrásetningargjalds staðfestir skráningu stúdents í háskólann.
B. Kostnaðarliðir skrásetningargjaldsins, sbr. 8. gr.
Skrásetningargjaldið er bókfært hjá yfirstjórn háskólans í samræmi við fjárlög. Háskólaráð ráðstafar innheimtu skrásetningargjaldi á þá kostnaðarliði, sem falla undir gjaldið lögum samkvæmt, þ.e. bókfærður kostnaður vegna skrásetningar og þjónustu, annarrar en kennslu, að frádregnum kostnaði sem háskólanum er heimilt að innheimta sérstaklega, sbr. b–e-lið 2. mgr. 24. gr. laga nr. 85/2008:
- Skrásetning stúdenta í námskeið og próf og önnur miðlæg umsýsla.
Bókfærð gjöld nemendaskrár og þjónustuborðs.
- Umsýsla stúdenta á fræðasviðum.
Önnur gjöld (reiknuð) 25% af rekstri stjórnsýslueininga.
- Nemendakerfi.
Bókfærð gjöld hugbúnaðargerðar 85%.
- Upplýsingamiðlun og námsráðgjöf.
Bókfærð gjöld nemendaráðgjafar og námskynningar.
- Skipulag kennslu og prófa.
Bókfærð gjöld, prófgæsla.
- Framlög til samtaka og stofnana stúdenta, FS og SHÍ.
Bókfærð gjöld, framlag til SHÍ o.fl.
Bókfærð gjöld, framlag til FS, hlutur FS í 13. þús. gjöldum.
- Kennslusvið.
Reiknuð gjöld af rekstri skrifstofu kennslusviðs 50%.
Reiknuð gjöld af rekstri kennslumiðstöðvar 20%.
Reiknuð gjöld stafrænnar kennslu og miðlunar 50%.
- Þjónusta alþjóðaskrifstofu.
Bókfærð gjöld alþjóðaskrifstofu.
- Aðgangur að bókasafni og annarri aðstöðu.
Landsaðgangur, 50% áætlað vegna nemenda auka hluta bókasafns.
Önnur gjöld reiknuð, húsnæði nemendafélaga og önnur félagsaðstaða stúdenta.
- Aðgangur að tölvum, prenturum o.fl.
Bókfærð gjöld, rekstur tölvuvera.
Önnur gjöld reiknuð (50%) af almennum rekstri UTS.
- Aðstaða og stjórnun.
Reiknuð gjöld 12% af liðum 1.–10.