Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið
Málaflokkur
Byggingarmál, Mannvirki
Undirritunardagur
9. janúar 2026
Útgáfudagur
12. janúar 2026
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 11/2026
9. janúar 2026
REGLUGERÐ
um breytingu á byggingarreglugerð nr. 112/2012.
1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 1.2.1. gr. reglugerðarinnar:
- Nýr töluliður bætist við í viðeigandi stafrófsröð: Ljósvist: Samansafn ýmissa þátta sem snúa að lýsingu, s.s. dagsljósi og raflýsingu, sem saman lýsa sjónskilyrðum og þeirri upplifun sem rýmið veitir. Þættirnir eru meðal annars litarhitastig, litarendurgjöf, flökt, styrkur, jafnleiki, geislun, ljómi, glýja, ljósmengun og orka.
- Nýr töluliður bætist við í viðeigandi stafrófsröð: Vistarverur: Með vistarverum er átt við íbúðarhúsnæði og annað rými þar sem fólk dvelur í lengri tíma (> 30 mín), s.s. vinnurými, kennslustofur, matsalir, stofur og eldhús.
2. gr.
Við 2.5.1. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein, sem verður 2. mgr., svohljóðandi:
Við gerð og uppsetningu skilta sem eru upplýst eða sem ljós stafar frá skal jafnframt gæta að kröfum varðandi ljósmengun, sbr. 10.4.5. gr.
3. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 3.9.2. gr. reglugerðarinnar:
- Í stað orðanna „á byggingarstað.“ í 1. málslið 1. mgr. kemur: aðgengilegir.
- Nýr töluliður bætist við 1. mgr., sem verður að f-lið og breytast aðrir töluliðir til samræmis, svohljóðandi: Staðfestingu rafvirkjameistara um að lýsingarkerfi hafi verið virkniprófað.
4. gr.
Í stað orðsins „lýsingar“ í h-lið 1. mgr. 4.5.3. gr. reglugerðarinnar kemur: ljósvistar.
5. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 6.7.2. gr. reglugerðarinnar:
- 1., 3. og. 5. mgr. falla brott.
- Fyrirsögn verður svohljóðandi: Lofthæð íbúða.
6. gr.
Kafli 10.4. verður svohljóðandi, ásamt fyrirsögn og kaflaheiti:
10.4 KAFLILjósvist og útsýni.
10.4.1. gr. Framsetning krafna.
Um þau ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar sem skiptast í meginreglur og viðmiðunarreglur gildir að meginreglur eru ávallt ófrávíkjanlegar en viðmiðunarreglur eru frávíkjanlegar ef sýnt er fram á að gæði, heilsa og öryggi séu tryggð með jafngildum hætti og meginregla viðkomandi ákvæðis þar með uppfyllt. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila með hönnunargögnum greinargerð þar sem gerð er grein fyrir því og rökstutt með hvaða hætti meginregla ákvæðisins er uppfyllt og gæði, heilsa og öryggi tryggð. Önnur ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar eru ófrávíkjanleg nema annað sé sérstaklega tekið fram í viðkomandi ákvæði.
10.4.2. gr. Markmið.
Þess skal gætt að byggingar og önnur mannvirki hafi eðlileg tengsl við útivistarsvæði á lóð og staðsetning vistarvera taki mið af dagsbirtu og útsýni þannig að góðrar ljósvistar gæti í vistarverum. Mannvirki skulu þannig hönnuð og byggð að tekið sé tillit til þarfa allra aldurshópa vegna ljósvistar og að hún sé í fullu samræmi við þá starfsemi sem fer fram við eða innan mannvirkisins, án þess að óeðlilegur truflandi hiti eða óeðlileg glýjumyndun verði vegna raflýsingar.
10.4.3. gr. Kröfur til raflýsingar.
Meginregla: Raflýsing skal vera fullnægjandi í atvinnuhúsnæði og í sameiginlegum rýmum fjölbýlishúsa.
Viðmiðunarregla: Raflýsing atvinnuhúsnæðis og sameiginlegra rýma fjölbýlishúsa skal uppfylla að lágmarki kröfur staðalsins ÍST EN 12464-1 innandyra og staðalsins ÍST EN 12464-2 utandyra.
Allur búnaður sem notaður er til raflýsingar skal uppfylla kröfur gildandi staðla um raf- og segulmengun, geislun og flökt sem geta haft skaðleg áhrif á heilsu.
Heimilt er í undantekningartilvikum að víkja frá kröfu 2. og 3. mgr. ef aðstæður eru þannig að krafan eigi ekki rétt á sér, t.d. vegna þess að það gæti haft skaðleg áhrif á starfsemi í mannvirki. Rökstyðja skal slík frávik í greinargerð hönnuða.
Virkniprófa skal lýsingarkerfi áður en lokaúttekt er gerð og staðfesta þannig að kröfur til ljósvistar samkvæmt þessum kafla séu uppfylltar og að nemar og stýringar séu í samræmi við hönnunargögn.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.
10.4.4. gr. Kröfur til dagslýsingar í vistarverum.
Meginregla: Í vistarverum skal vera fullnægjandi dagsljós.
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um dagsljós í vistarverum:
- Samanlagt ljósop glugga skal ekki vera minna en sem svarar til 1/10 af gólffleti vistarvera, þó aldrei minna en 1 m². Þessa aðferð má einungis nota ef leiðrétt er fyrir umhverfisáhrifum sem takmarka aðgengi að dagsbirtu. Takmarkandi þættir eru t.d. ljóshleypni glugga, þykkt veggja og ytri afskermun, s.s. svalir, og nærliggjandi mannvirki.
- Dagslýsing nemur að lágmarki 300 lux fyrir helming dagsbirtutíma á að minnsta kosti 40% af viðeigandi gólffleti. Í íbúðarhúsnæði er viðeigandi gólfflötur sá sami og gólfflötur viðkomandi rýmis. Í vinnurýmum er viðeigendi gólfflötur það svæði þar sem vinnustöðvar eru staðsettar.
Hönnuðir skulu ávallt leggja fram greinargerð vegna dagslýsingar með öðrum hönnunargögnum, sbr. 4.5.3. gr.
Ef sýnt er fram á að dagsljós sé fullnægjandi með öðrum hætti en hér er sett fram til viðmiðunar, eða ef aðstæður eru þannig að krafan á ekki rétt á sér, t.d. vegna þess að það gæti haft skaðleg áhrif á starfsemi í mannvirki, er heimilt að víkja frá framangreindum viðmiðum. Rökstyðja skal slík frávik í greinargerð hönnuða.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.
10.4.5. gr. Kröfur varðandi ljósmengun.
Meginregla: Við hönnun og uppsetningu á lýsingu skal koma í veg fyrir ljósmengun og tryggja að lýsing valdi nágrönnum ekki óþægindum eða trufli umferð utan lóðar. Þetta á jafnframt við um upplýst skilti, skjái og merkingar sem notuð eru fyrir auglýsingar.
Viðmiðunarregla: Tryggja skal að útilýsingu sé beint að viðeigandi svæði og að notaðir séu vel skermaðir lampar sem varpa ljósinu niður og valda síður glýju. Eins skal nýta þar til gerðar gardínur í gróðurhúsum til að fyrirbyggja ljósmengun og spara orku.
Gera skal grein fyrir fyrirbyggjandi aðgerðum gegn ljósmengun í greinargerð hönnuðar.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.
10.4.6. gr. Kröfur um útsýni í vistarverum.
Meginregla: Staðsetning glugga í vistarverum mannvirkja, útfærsla þeirra og afskermun skal tryggja útsýni í fullnægjandi hluta rýmis.
Viðmiðunarregla: Við mat á útsýni skal notast við aðferð samkvæmt ÍST EN 17037.
Gera skal grein fyrir útsýni í greinargerð hönnuðar með því að skilgreina hve stór hluti rýmis nýtur þess útsýnis sem upp er gefið. Fjölda útsýnislaga skal gefa upp skv. ÍST EN 17037 fyrir dæmigerðar vistarverur í mannvirkinu.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.
7. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 1. tölul. 60. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, tekur gildi 1. maí 2026 og gildir þá um allar framkvæmdir sem byggja á deiliskipulagi sem samþykkt er eftir þann tíma.
Frá 1. ágúst 2027 skulu ákvæði reglugerðar þessarar gilda um allar framkvæmdir sem sótt er um byggingarleyfi fyrir eftir þann tíma. Fyrir þann tíma skal metið hvort þörf er á breytingum á ákvæðum hennar í ljósi fenginnar reynslu á aðlögunartíma.
Félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, 9. janúar 2026.
Inga Sæland.
Hildur Dungal.
B deild — Útgáfudagur: 12. janúar 2026