Upplýsingar um auglýsingu
Deild
B deild
Stofnun
Múlaþing
Málaflokkur
Sorphreinsun, Múlaþing
Undirritunardagur
16. desember 2025
Útgáfudagur
2. janúar 2026
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
Nr. 1576/2025
16. desember 2025
GJALDSKRÁ
fyrir meðhöndlun og förgun úrgangs í Múlaþingi.
1. gr. Samþykktir, lög og reglur.
Gjaldskrá þessi er sett með vísun til samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Múlaþingi nr. 1202/2021, sbr. 59. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.
2. gr. Sorphirðugjald.
Múlaþing felur verktaka framkvæmd sérstakrar söfnunar úrgangs frá öllu íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Við hvert heimili/íbúðarhús skal flokkað í fjóra flokka í fjögur ílát innan lóðar: pappír/pappa, plast, matarleifar og blandaðan úrgang.
Sorphirðugjöld taka mið af stærð íláta undir hvern úrgangsflokk og fjarlægð þeirra frá söfnunarleið sorphirðubíls og geta því verið breytileg. Fasteignaeigendur og húsfélög geta óskað eftir breytingum á ílátum skv. gjaldskrá. Um ákvarðanir húsfélaga gilda lög um fjöleignarhús nr. 26/1994. Ílát skulu rúma þann úrgang sem myndast milli hirðuumferða þannig að auðveldlega megi loka þeim, flytja og tæma.
Íbúðir í fjölbýli greiða hlutfall af kostnaði sorpíláta miðað við eignarhlut í sameign, sbr. lög um fjöleignarhús, nr. 26/1994, og reglugerð nr. 910/2000. Stærðir og fjöldi íláta mega ekki vera minni en sem nemur 140 lítrum fyrir pappír og pappa, plast og blandaðan úrgang pr. íbúð. Við hvert fjölbýli skal að lágmarki vera 140 lítra ílát undir matarleifar.
Múlaþingi er heimilt að verða við óskum fasteignaeigenda um sameiginleg ílát innan lóðar háð því að öll ílát séu geymd á sama stað.
Söfnun úrgangs í Múlaþingi fer fram í samræmi við útgefið sorphirðudagatal sem er aðgengilegt á heimasíðu sveitarfélagsins.
| Breytileg gjöld fyrir sorpílát sem eru allt að 15 m frá hirðubíl eftir úrgangstegund (kr. á ári) |
||||
| Stærð íláts (lítrar) | Pappír og pappi | Plast | Matarleifar | Blandaður úrgangur |
| 140 | 13.500* | 19.300 | ||
| 240 | 9.600 | 9.600 | 33.100 | |
| 360 | 14.400 | 14.400 | 49.700 | |
| 660 | 26.400** | 26.400*** | 91.100** | |
| 1.100 | 44.000** | 44.000*** | 151.800** | |
* Notast við 120 eða 140 lítra tunnu.
** Aðeins í boði fyrir fjölbýli og íbúðarhús í dreifbýli.
*** Aðeins í boði fyrir fjölbýli.
Önnur gjöld sem er heimilt að innheimta vegna auka þjónustu:
Skrefa- og tröppugjald er innheimt af ílátum sem eru fjær hirðubíl en 15 m eða þarf að draga upp eða niður fleiri en 5 tröppur.
Umsýslugjald er greitt í hvert skipti sem óskað er eftir breytingum á skráningu íláta.
Árgjald heimajarðgerðar er innheimt af þeim sem hafa fengið umsókn um heimajarðgerð samþykkta.
Tunnugjald er innheimt ef ílát týnist eða skemmist af völdum íbúa s.s. vegna vanhirðu.
Útkeyrslugjald er greitt við afhendingu nýrra íláta á staðfang, ef skipt er á milli stærða eða ílátum fækkað.
| Önnur gjöld |
||
| Þjónusta | Gjald | Eining |
| Tunnugjald (140–360 l ílát) | 12.000 | kr./ílát |
| Tunnugjald (660–1.100 l ílát) | 50.000 | kr./ílát |
| Umsýslugjald | 4.000 | kr./breyting |
| Árgjald heimajarðgerðar | 4.000 | kr./ári |
| Skrefa- og tröppugjald | 5.000 | kr./ílát |
| Útkeyrslugjald íláta á staðfang | 5.000 | kr./ílát |
3. gr. Fast gjald.
Fast gjald er lagt á allar fasteignir sveitarfélagsins árlega til að standa straum af veittri þjónustu tengdri málaflokknum og er ekki beintengt úrgangsmagni, s.s. umsýslu, fræðslu, hreinsun rusls á víðavangi, rekstri grenndarstöðva og aðgengi að söfnunarstöðvum með gjaldfrjálsan úrgang.
Álagningin er á fasteignir í a-, b- og c-lið samkvæmt 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.
Fast gjald á fasteignir í a-flokki er 17.250 kr.
Fast gjald á fasteignir í b- og c-flokki er 46.000 kr.
4. gr. Frístundahús og takmörkuð ívera.
Fyriur öll frístundahús (sumarbústaðir o.þ.h.) skal greiða fast gjald skv. 3. gr. Frístundahús utan sumarhúsahverfa með fleiri en 20 sumar- eða frístundahús njóta almennt ekki sorphirðuþjónustu en geta losað sig við gjaldfrjálsan úrgang á móttöku- og grenndarstöðvum. Greiða þarf fyrir gjaldskyldan úrgang. Liggi sumarhús hins vegar við söfnunarleið sorphirðuverktaka getur eigandi fasteignar óskað eftir sömu þjónustu og ef um íbúðarhús væri að ræða og greiðir þá fullt gjald fyrir.
Það sama á við um íbúðarhús með takmarkaða íveru s.s. vegna skriðu- eða snjóflóðahættu. Þá geta eigendur íbúðarhúsa í dreifbýli þar sem enginn er með skráð lögheimili óskað eftir sömu þjónustu og ef um íbúðarhús með takmarkaða íveru sé að ræða.
Á hvert frístundahús sem er innan sumarhúsahverfis með yfir 20 sumarhúsum er að auki lagt á 22.000 kr. sorphirðugjald enda geti eigendur slíkra húsa losað sig við úrgang í ílát í nágrenni við sumarhúsahverfið.
5. gr. Heimajarðgerð.
Íbúar sem jarðgera eigin úrgang við heimili sín geta sótt um að skila tunnu undir matarleifar til sveitarfélagsins. Í stað tunnugjalds fyrir matarleifar greiðir fasteignaeigandi árgjald heimajarðgerðar skv. 2. gr.
Nauðsynlegt er að sýna fram á með óyggjandi hætti að heimajarðgerð fari raunverulega fram. Takist það ekki eftir að umsókn um heimajarðgerð hefur verið samþykkt er heimilt að innheimta fullt gjald fyrir allt að tvær tunnur undir matarleifar fyrir viðkomandi ár auk árgjalds heimajarðgerðar.
6. gr. Þjónustugjald á urðunarstað.
Fyrir farma sem komið er með á urðunarstað sveitarfélagsins skal flutningsaðili greiða 60 kr./kg samkvæmt vigt á söfnunarstöð sveitarfélagsins á Egilsstöðum. Farmar skulu almennt vega meira en 1.000 kg.
Aðeins þeir sem hafa heimild sveitarfélagsins og eru með starfsleyfi til að flytja úrgang er heimilt að koma með úrgang á urðunarstað. Ekki er heimilt að flytja úrgang sem á uppruna sinn utan sveitarfélagsins á urðunarstað án leyfis Múlaþings. Múlaþing getur lagt 50% hærra gjald á slíkan úrgang en segir í 1. mgr.
Öll losun skal fara fram í samráði við rekstraraðila urðunarstaðar.
Flutningsaðili úrgangs ber ábyrgð á þeim farmi sem hann flytur inn á urðunarstaðinn þar til hann hefur verið móttekinn. Flutningsaðili skal fylgja reglum um urðunarstaði í Múlaþingi. Farmar sem innihalda annan úrgang en þann sem heimilt er að losa á urðunarstað skv. reglugerð nr. 738/2003, eða úrgang sem væri hæfur til endurvinnslu, verður hafnað. Komi í ljós að farmur innihaldi slíkan úrgang eftir að losun fer fram er heimilt að innheimta raunkostnað vegna hreinsunaraðgerða af flutningsaðila. Auk þess getur sveitarfélagið dregið til baka heimild til farmlosunar á urðunarstað.
7. gr. Þjónustugjald á söfnunarstöðvum á Egilsstöðum og Seyðisfirði.
Á söfnunarstöðvum Múlaþings á Egilsstöðum og Seyðisfirði er ýmist innheimt gjald eftir þyngd eða rúmmáli. Á þessum söfnunarstöðvum annast rekstraraðili innheimtu gjalda og setur sér gjaldskrá. Gjöld rekstraraðila söfnunarstöðvar fyrir gjaldskyldan úrgang mega að hámarki vera 20% hærri en þjónustugjald á urðunarstað skv. 6. gr. Aðeins er tekið við rafrænum greiðslum eða að aðilar séu í reikningsviðskiptum.
Stærri úrgangsfarma er heimilt að vigta á bílavog við söfnunarstöð á Egilsstöðum eða á hafnarvog sveitarfélagsins á Seyðisfirði á opnunartíma hennar. Önnur gjöld kunna að eiga við skv. gjaldskrá fyrir hafnir Múlaþings. Framvísa þarf vigtarnótu á söfnunarstöð sé farmur vigtaður á hafnarvog.
Gjaldskyldur úrgangur er allajafna óendurvinnanlegur úrgangur til urðunar. Dæmi um gjaldskyldan úrgang eru: blandaður heimilisúrgangur, grófur úrgangur s.s. húsgögn, gluggar, rúmfrekur úrgangur, litað timbur og hart plast. Matarleifar og hreint timbur eru einnig gjaldskyld en fara þó ekki í urðun.
Ekki er tekið gjald fyrir endurvinnanlegan úrgang sem ber úrvinnslugjald. Dæmi um gjaldfrjálsan úrgang eru: plastumbúðir, pappi og pappír, málmar, hjólbarðar, raftæki og ýmis spilliefni.
8. gr. Þjónstugjald á söfnunarstöð á Djúpavogi.
Á söfnunarstöðvum Múlaþings á Djúpavogi og Borgarfirði er almennt innheimt gjald skv. rúmmáli úrgangs. Móttökugjöld fyrir einstaka farma eru 1.000 kr. fyrir hverja 0,25 m³ af gjaldskyldum úrgangi. Starfsmaður metur umfang hvers farms og innheimtir gjald fyrir. Aðeins er tekið við rafrænum greiðslum en fyrirtæki geta verið í reikningsviðskiptum.
Stærri úrgangsfarma er þó heimilt að vigta á hafnarvog sveitarfélagsins á Djúpavogi á opnunartíma hennar og greiðir flutningsaðili 72 kr./kg. Önnur gjöld kunna að eiga við skv. gjaldskrá fyrir hafnir Múlaþings. Framvísa þarf vigtarnótu á söfnunarstöð sé farmur vigtaður.
Dæmi um gjaldskyldan og gjaldfrjálsan úrgang eru nefnd í 7. gr.
Fyrir úrgang sem reynist kostnaðarsamur við förgun, s.s. ber ekki úrvinnslugjald og er óheimilt að urða, er heimilt að innheimta gjöld fyrir útlögðum kostnaði.
Fyrir óflokkaða farma er heimilt að innheimta gjald fyrir útselda vinnu starfsmanna þjónustumiðstöðva og tækja Múlaþings skv. gjaldskrá þar um.
9. gr. Klippikort.
Múlaþing afhendir hvorki né selur klippikort á söfnunarstöðvar sveitarfélagsins. Á söfnunarstöðvum er greitt gjald fyrir móttöku á gjaldskyldum úrgangi skv. 7. og 8. gr.
Klippikort sem Múlaþing hefur áður afhent og eru með ártali gilda aðeins fyrir útgáfuárið.
Klippikort sem Múlaþing hefur selt er hægt að skila inn til sveitarfélagsins og fá endurgreitt í hlutfalli við notkun. Nauðsynlegt er að sýna fram á að kort hafi verið keypt.
10. gr. Aðrar heimildir.
Sveitarstjórn Múlaþings er heimilt að gera sérstaka samninga um móttöku úrgangs og aðra þjónustuþætti, þegar um er að ræða afmarkaðri eða víðtækari þjónustu en gjaldskrá tekur til.
11. gr. Innheimta.
Verði vanskil á greiðslu gjalda samkvæmt gjaldskrá þessari er hægt að innheimta gjöld með aðför, sbr. 4. mgr. 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, sbr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Gjöld eru tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign í tvö ár eftir gjalddaga, sbr. 5. mgr. 59. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
12. gr. Staðfestingar og gildistaka.
Gjaldskrá þessi er samþykkt af umhverfis- og framkvæmdaráði og staðfest af sveitarstjórn Múlaþings 15. desember 2025. Gjaldskrá þessi tekur þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi gjaldskrá fyrir meðhöndlun og förgun úrgangs í Múlaþingi nr. 1472/2024.
Múlaþingi, 16. desember 2025.
Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri
B deild — Útgáfudagur: 2. janúar 2026