Leiðbeiningar um almennar vísindarannsóknir á heilbrigðissviði
Á þessari síðu eru leiðbeiningar um gerð umsóknar og ítarefni varðandi vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.
Leiðbeiningar um gerð umsóknar
Staf- og töluliðir í eftirfarandi hér á eftir vísa í umsóknareyðublað. Þegar sótt er um viðbót við áður heimilaða rannsókn skal nota venjulegan tölvupóst: vsn@vsn.is
Athugið að ekki skal senda sérstaka umsókn til Persónuverndar. Um vinnslu persónuupplýsinga er fjallað í B-kafla umsóknar.
Almennt miðast við að umsóknin sé á íslensku. Umsókn má þó skila á ensku ef leiðbeinandi, meðrannsakendur eða þýðið sem rannsóknin beinist að er enskumælandi. Sé það gert þarf liður 3 einnig að vera á íslensku. Athugið að öll gögn til þátttakenda skulu vera á íslensku.
1. Fullt heiti rannsóknar á íslensku. Erlent heiti má fylgja í sviga.
2. Eðli rannsóknar. Er um að ræða virka þátttöku einstaklinga ( þ.e. vísindarannsókn á fólki) eða gagnarannsókn (þ.e. án virkrar þátttöku einstaklinga).
3. Lýsið í hnotskurn markmiði rannsóknar, framkvæmd, þátttakendum/þýði og vísindalegu gildi rannsóknar. Þessi kafli skal vera á íslensku.
4. Rannsakendur tilnefna úr sínum hópi einn ábyrgðarmann sem annast öll samskipti við vísindasiðanefnd og ber faglega ábyrgð á framkvæmd rannsóknarinnar. Hann er jafnframt ábyrgur fyrir öllum gögnum rannsóknar og úrvinnslu þeirra. Nemandi er aldrei ábyrgðarmaður eigin rannsóknar og skal vinna undir leiðsögn ábyrgðarmanns.
5. Meðrannsakendur. Tilgreinið alla sem annast þætti í framkvæmd rannsóknar (nafn, vinnustaður/skóli, starfsheiti, netfang og sími). Auðkennið nemendur.
6. Samstarfsaðilar. Tilgreinið allar stofnanir, skóla og fyrirtæki, innlend eða erlend, sem koma að rannsókninni. Tilgreinið styrktaraðila og hverskonar stuðning eða styrk þeir veita. Leitað er eftir upplýsingum um tegund stuðnings.
7. Verkaskipting rannsakenda. Tilgreinið hver hefur umsjón með einstökum verkþáttum.
8. Upplýsa skal um hagsmunatengsl, fjárhagsleg tengsl, fjölskyldu-og/eða vina tengsl, ráðningartengsl ofl., sem gætu haft áhrif á framkvæmd eða niðurstöðu rannsóknar. Gera skal grein fyrir fjármögnun rannsóknar.
Heilbrigðisgögn eru skilgreind sem heilbrigðisupplýsingar og lífsýni. Þar undir falla upplýsingar úr sjúkraskrám, og gögn úr lífsýnasöfnum og söfnum heilbrigðisupplýsinga og aðrar upplýsingar um sjúkrasögu og heilsuhagi, sem og upplýsingar sem þátttakendur láta af hendi, t.d. við svörun spurningalista eða með því að undirgangast próf. Sjúkraskrárupplýsingar eru skilgreindar í lögum um sjúkraskrár: „Lýsing eða túlkun í rituðu máli, myndir, þ.m.t. röntgenmyndir, línurit og mynd-og hljóðupptökur sem innihalda upplýsingar er varða heilsufar sjúklings og meðferð hans hjá heilbrigðisstarfsmanni eða heilbrigðisstofnun og aðrar nauðsynlegar persónuupplýsingar.“ Aðrar upplýsingar um sjúkrasögu og heilsuhagi geta t.d. verið upplýsingar um erfðaeiginleika og lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun. Einnig getur verið um að ræða upplýsingar frá Embætti landlæknis, Sjúkratryggingum Íslands, Tryggingastofnun, dvalar- og hjúkrunarheimilum, Fangelsismálastofnun ofl. Undir heilbrigðisupplýsingar falla einnig upplýsingar sem fengnar hafa verið með rannsókn á lífsýni. Lífsýni er skilgreint sem lífrænt efni úr fólki, lifandi eða látnu, sem veitt getur um þá líffræðilegar upplýsingar. Séu lífsýni úr lífsýnasöfnum notuð í gagnarannsókn er gert ráð fyrir að lífsýnunum sé skilað aftur í viðkomandi safn.
Söfnun. Tilgreinið með hvaða breytur verður unnið, (s.s. aldur, kyn, niðurstöður mælinga og sjúkdómsgreiningar). Jafnan skal unnið með ópersónugreinanleg gögn. Tilgreinið öll gagnasöfn, þ.m.t. sjúkraskrár, lífsýnasöfn, söfn heilbrigðisupplýsinga, sem gögn verða sótt í. Hvaða öðrum gögnum verður safnað – hvaðan og hvernig. Verði upplýsinga aflað beint frá þátttakendum skal gerð grein fyrir því hvernig að slíkri söfnun verður staðið.
Vísindasiðanefnd áréttar að leyfi nefndarinnar til þess að taka upp viðtöl í rannsóknum takmarkast við að notaður sé hljóðupptökubúnaður – ekki farsími rannsakanda – og að heimildin feli ekki í sér leyfi til myndaupptöku, nema þess sé sérstaklega getið.
Dulkóðun. Ef til verður greiningar- eða dulkóðunarlykill skal skýra nánar frá öryggismálum vegna hans og varðveislutíma. Fái rannsakendur gögn á persónugreinanlegu formi skal koma fram hvenær þau verða gerð ópersónugreinanleg.
Ef fram fer vinnsla erfðaupplýsinga, lýsið þeirri vinnslu, hver annast hana og hvernig gögn verða flutt milli vinnsluaðila og rannsakenda.
Vinnsla persónuupplýsinga. Verður gengið til samninga um vinnslu persónuupplýsinga fyrir hönd og á ábyrgð rannsakenda? Ef svo er, skal gera grein fyrir vinnslunni, hver annast hana og hvernig öryggis verður gætt.
Hverjir fá aðgang að rannsóknargögnum? Hvernig verður öryggis þeirra gætt (aðgangsstýring, varðveisla og dulkóðun)? Hvar og hvernig verða gögn varðveitt meðan á rannsókn stendur? Verður persónugreinanlegum gögnum eytt og hvenær, þ.á.m. greiningar- eða dulkóðunarlykli?
Heimilt er að varðveita heilbrigðisgögn sem aflað var til gagnarannsókna, til frambúðar í lífsýnasafni og safni heilbrigðisupplýsinga sem hlotið hafa starfsleyfi ráðherra, enda sé gert ráð fyrir því í rannsóknaráætlun sem hlotið hefur samþykki vísindasiðanefndar eða siðanefndar heilbrigðisrannsókna.
Ef einstaklingur vill ekki að heilbrigðisgögn sem varða hann sjálfan séu notuð í gagnarannsóknum verður hann að koma þeim vilja sínum á framfæri með því að leggja bann við því í sjúkraskrá að gögn sem frá honum stafa séu notuð í vísindarannsóknum.
Nota má heilbrigðisgögn einstaklinga sem ekki hafa bannað notkun þeirra, til gagnarannsókna og varðveita þau síðan í safni heilbrigðisupplýsinga/lífsýnasafni, enda sé persónuverndar gætt og samþykki siðanefndar liggi fyrir.
Séu lífsýni úr lífsýnasöfnum notuð í gagnarannsókn er gert ráð fyrir að lífsýnunum sé skilað aftur í viðkomandi safn.
Um varðveislu heilbrigðisgagna sem aflað er til vísindarannsóknar á mönnum eða verða til við framkvæmd hennar fer samkvæmt samþykki sem veitt var vegna rannsóknar.
Hafi heilbrigðisgögnum verið safnað í afmarkaðri vísindarannsókn á mönnum og þátttakandi ekki veitt samþykki fyrir varðveislu til notkunar í síðari rannsóknum skv. 17. gr. skulu þau ekki geymd lengur en nauðsynlegt er til að framkvæma rannsóknina.
Siðanefnd getur þó ákveðið eftir að lokaniðurstöður hafa borist nefndinni, að nauðsynleg heilbrigðisgögn skuli varðveitt í tiltekinn tíma, sem nauðsynlegur er til að meta rannsóknina. Að þeim tíma loknum skal gögnunum eytt eða þau gerð ópersónugreinanleg, nema skylt sé að varðveita þau samkvæmt lögum. Um varðveislu heilbrigðisgagna sem aflað er til lyfjarannsókna á fólki eða sem verða til við framkvæmd hennar fer samkvæmt lyfjalögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
Sé fyrirhugað að flytja gögn sem tilheyra rannsókn, úr landi verður að tilgreina um hvaða gögn er að ræða, í hvaða tilgangi, á hvaða formi, til hvaða stofnunar og hvaða lands gögnin verði flutt, hvernig öryggis gagnanna verði gætt, hvaða vinnsla fer fram hjá viðtakanda, og hvaða starfsmaður viðtökuaðila fái tímabundinn umráðarétt yfir gögnunum og beri ábyrgð á þeim. Enn fremur skal koma fram hvort fyrirhugað sé að flytja ónotuð lífsýni aftur til Íslands eða eyða þeim erlendis og hvernig það verður gert. Óskað er upplýsinga um samning við viðtökuaðila gagna, undirritaðrar samstarfyfirlýsingar eða annars lögmætisgrundvallar fyrir flutningi gagna úr landi.
Samnýting og samkeyrsla. Er fyrirhugað að samnýta upplýsingar eða sýni úr öðrum rannsóknum? Ef já – greinið frá heiti þeirra, VSN-númerum og nöfnum ábyrgðarmanna. Heimild ábyrgðarmanns þarf fyrir samnýtingu gagna úr öðrum rannsóknum og slík notkun gagna verður að rúmast innan þess samþykkis sem þátttakendur veittu. Verða skrár samkeyrðar í þágu rannsóknar? Um gæti verið að ræða skrár sem eru vistaðar hjá opinberum aðilum, sjúkrahúsum, Embætti landlæknis, fæðingaskrá, sjúkraskráning, slysaskráning, atvinnuleysi, o.fl.
Upplýst samþykki. Hér skal koma fram hvort upplýsts samþykkis verður leitað fyrir þátttöku. Sé svo er vísað á kafla D í umsókn. Samþykki þátttakenda á ekki við þegar um gagnarannsókn er að ræða.
Rannsóknaraðferðir. Aðferðafræði og lýsing á framkvæmd rannsóknar, hvaða aðferðir og gögn verða notuð og hvernig. Hvers konar úrvinnsla (t.d. tölfræðileg) var gerð við undirbúning rannsóknar. Til hvers er ætlast af þátttakendum, m.a. hvert þeir eigi að mæta, hvers konar sýni verði tekin, hvort og hve oft þátttakendur þurfi að mæta til eftirlits, mats eða sýnatöku.
Siðfræðileg sjónarmið eiga við um allar rannsóknir. Þau varða m.a. réttmæti þess að framkvæma rannsókn, val úrtaks, áhættu og ávinning þátttakenda, trúnað gagnvart þeim og greiðslur til þeirra, tengsl rannsakenda og styrktaraðila, tengsl rannsakenda og þátttakenda, hvort þátttakendur tilheyri viðkvæmum hópum (m.a. börn, barnshafandi konur, aldraðir, geðfatlaðir, þroskaskertir og fangar). Sérstaklega er mikilvægt að fjalla um ráðstafanir sem gerðar eru til verndar viðkvæmum hópum ef við á. Einnig þarf að hafa í huga að rannsóknir á viðkvæmum hópum geta verið liður í að bæta þjónustu við þá.
Ávinningur af rannsókninni. Gera þarf grein fyrir því hvaða vísindalegs ávinnings er vænst af rannsókninni og hvaða hagnýta árangurs er vænst í kjölfar rannsóknarinnar, t.d. bein áhrif á meðferð og heilsu þátttakenda.
Fræðigrunnur rannsóknarinnar. Lýsið stöðu þekkingar á sviðinu og fræðilegum bakgrunni, m.a. helstu niðurstöðum eldri rannsókna sem rannsóknin byggir á. Mikilvægt er að vanda þennan lið enda er hér um að ræða vísindalega réttlætingu fyrir því að gera rannsókn.
Rannsóknartímabil. Tilgreinið hvenær áætlað er að rannsóknin hefjist og hvenær er gert ráð fyrir að henni ljúki. Vinsamlegast athugið að óheimilt er að hefja rannsókn áður en heimild vísindasiðanefndar liggur fyrir og að heimildin muni falla úr gildi þegar dagsetning rannsóknarloka rennur upp.
Framsetning á niðurstöðum rannsóknarinnar. Almenn regla vísindasiðanefndar er að niðurstöður rannsókna skuli birtar. Sú skylda hvílir á ábyrgðarmanni að birta allar niðurstöður rannsóknar óháð útkomu hennar og því hvort niðurstöður staðfesta vinnukenningu rannsakanda eða ekki. Að hrekja tilgátu getur verið jafn mikilvægt vísindalega og að staðfesta hana. Gerið grein fyrir fyrirhugaðri nýtingu, birtingu og kynningu á niðurstöðum rannsóknar.
(Á ekki við nema að höfð séu samskipti við einstaklinga í rannsóknarúrtaki).
Þátttakendur. Hvernig verður þátttakenda aflað og hver setur sig í samband við þá? Tilgreinið aldur, kyn og fjölda þátttakenda ef unnt er, hvernig og á hvaða forsendum úrtakið verður valið.
Tegund samþykkis. Afla skal skriflegs samþykkis þátttakanda í vísindarannsókn á mönnum. Fram skal koma hvort leitað verði eftir afmörkuðu samþykki sem takmarkast við eina rannsókn eða víðtæku samþykki sem heimilar notkun lífsýna og heilbrigðisupplýsinga í öðrum rannsóknum sem heimildar vísindasiðanefndar yrði leitað fyrir. Varðveisla rannsóknargagna skal vera í samræmi við samþykkið sem þátttakandi veitir. Sé afmarkað samþykki notað skal ekki geyma rannsóknargögn lengur en nauðsynlegt er og skal þeim eytt að lokinni rannsókn.
Öflun samþykkis. Hvernig og hver aflar upplýsts samþykkis? Vegna þátttöku ósjálfráða einstaklings þarf samþykki forráðamanns eða foreldris. Svörun spurningalista jafngildir skriflegu samþykki.
Áhætta/ávinningur af þátttöku. Tilgreinið í hverju möguleg áhætta og ávinningur af þátttöku er helst fólgin.
Stuðningsaðili fyrir þátttakendur. Sé hætta á að tilfinningaleg vanlíðan vakni í kjölfar þátttöku, t.d. í viðtölum, er farið fram á að þátttakendum sé gefinn kostur á að ræða einu sinni, sér að kostnaðarlausu við fagaðila sem er óháður rannsókninni. Óskað er eftir skriflegri samstarfsyfirlýsingu. Sé rannsakandi/nemandi reynslulítill fer nefndin jafnan fram á að ábyrgðarmaður eða annar úr hópi rannsakenda sé með nemanda í fyrstu viðtölum.
Eftirlit og tryggingar. Hver annast eftirlit með heilsu og líðan þátttakenda meðan á rannsókn stendur og hvernig verður að því staðið? Eru þátttakendur tryggðir gagnvart hugsanlegum skaða vegna þátttöku sinnar í rannsókninni? Sé um tryggingu að ræða þarf að upplýsa þátttakandann um það í hverju tryggingaverndin felst. Vísindasiðanefnd gerir kröfu um tryggingu „án sakar“ og að þátttakandi geti leitað réttar síns fyrir íslenskum dómstólum.
Greiðslur vegna þátttöku. Er þátttakendum endurgreiddur útlagður ferðakostnaður vegna þátttöku í rannsókninni? Fá þátttakendur umbun fyrir að þátttökuna? Ef svo er tilgreinið hvers eðlis og hve háar greiðslur fyrir þátttöku verða. Leyfilegt er að verðlauna þátttakendur með eðlilegri umbun. Umbunin eða fjárhæðin má þó ekki vera til þess fallin að skekkja mat viðkomandi við ákvörðun um að taka þátt í rannsókninni. Umbun þarf því að stilla í hóf. Siðanefnd þarf að vera þess fullviss að allar greiðslur og umbun til þátttakenda séu í samræmi við álag og óþægindi sem þátttöku fylgir en séu ekki í þeim mæli að þær hvetji þátttakendur til að taka meiri áhættu en þeir hefðu ella tekið. Ekki er litið á endurgreiðslu á útlögðum kostnaði eða umbun vegna vinnutaps sem tilraun til að hafa óeðlileg áhrif á þátttakendur, að því tilskyldu að ekki sé um að ræða fjárhæðir sem eru umtalsverður hluti af tekjum eða einu tekjur þess sem tekur þátt í rannsókn.
Upplýsingaskylda ábyrgðarmanna, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 44/2014. Með hvaða hætti verða þátttakendur, sem gefa víðtækt samþykki, upplýstir um að hvaða rannsóknum er unnið á vegum ábyrgðarmanns, stofnunar eða fyrirtækis. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði eiga þátttakendur sem gefið hafa víðtækt samþykki rétt á að fá upplýsingar um í hvaða rannsóknum heilbrigðisgögn þeirra eru notuð. Í rannsóknaráætlun vísindarannsóknar verður að gera grein fyrir því hvernig ábyrgðarmaður ætlar að mæta þessari skyldu sinni t.d. með miðlun upplýsinga á vef sínum. Er með þessu ætlað að styrkja rétt þátttakenda sem gefið hafa víðtækt samþykki þannig að þeir geti fylgst með því hvernig gögn sem stafa frá þeim eru hugsanlega notuð og hafa þar með möguleika á að hafna því að gögn um sig séu notuð í fyrirhuguðum rannsóknum.
Skuldbinding ábyrgðarmanns.
Með því að senda þessa umsókn til vísindasiðanefndar staðfestir ábyrgðarmaður að rannsóknaráætlun verði fylgt í hvívetna, öll leyfi tilheyrandi rannsókninni fylgi umsókn og að allir starfsmenn hafi undirgengist þagnarheit. Óheimilt er að hefja framkvæmd rannsóknarinnar fyrr en allra leyfa hefur verið aflað.
Ábyrgðarmaður ber ábyrgð á öllum gögnum rannsóknar og allrar vinnslu með þau. Allar fyrirhugaðar breytingar frá samþykktri rannsóknaráætlun þarf ábyrgðarmaður að senda nefndinni til umfjöllunar.
Ítarefni
Óheimilt er að framkvæma vísindarannsóknir á mönnum nema fyrir liggi upplýst samþykki. Í bráðatilvikum, þegar sjúklingur getur ekki gefið samþykki og ekki er mögulegt að afla samþykkis nánasta aðstandanda, er rannsókn, sem ekki er hluti af meðferð, þó heimiluð að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Smelltu hér til að lesa nánar um upplýst samþykki.
Ef auglýsa á eftir þátttakendum í rannsókn, t.d. í dagblöðum, hjá stofnunum, í lyfjaverslunum eða á netinu þá þarf afrit af auglýsingu að fylgja umsókn til siðanefndar.
Í auglýsingu skulu eftirtalin atriði koma fram:
Bréfhaus/merki stofnunar sem rannsóknin tengist
Titill rannsóknar og inntak hennar í örfáum orðum
Rannsóknarsvið
Hverjum boðin er þátttaka
Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar, titill, aðsetur
Við hvern hafa skal samband til að fá frekari upplýsingar
Hvort greitt sé fyrir þátttökuna
Að þeir sem hafa samband við rannsakendur séu eingöngu að lýsa yfir áhuga á frekari upplýsingum en ekki skuldbinda sig til þátttöku
Í skjalinu hér fyrir neðan eru dæmi og leiðbeiningar varðandi hvað skal koma fram í kynningarefni fyrir þátttakendur í vísindarannsókn á heilbrigðissviði. Rannsakendur geta notað efnið að eigin vild og aðlagað það þeirri rannsókn sem senda á til VSN.
Mikilvægt er að stunda rannsóknir á ólíkum hópum. Þarfir eru breytilegar og sjúkdómar eða önnur mein leggjast á fólk með mismunandi hætti. Í lögum um slíkar rannsóknir og í öllum alþjóðlegum samþykktum um lífsiðfræði í rannsóknum er lögð áhersla á að viðhafa sérstaka aðgát þegar í hlut eiga einstaklingar eða hópar sem eru viðkvæmir.
Dæmi um viðkvæma einstaklinga og hópa eru börn, eldri borgarar, vanfærar konur, syrgjendur, fangar, fórnarlömb ofbeldis, þeir sem lögráðandi hefur verið skipaður fyrir vegna sjúkdóms eða fötlunar og meðvitundarlausir. Mælt er fyrir um sérstaka aðgát þegar þýði rannsóknar er sótt í einhvern ofantalinna hópa.
Smelltu hér til að lesa nánar um viðkvæma hópa.
Nemandi er aldrei ábyrgðarmaður eigin rannsóknar en vinnur að henni undir leiðsögn ábyrgðarmanns.Ábyrgðarmaður rannsóknar sækir um til Vísindasiðanefndar eða siðanefndar stofnunar.
Verkaskipting siðanefnda
Umsóknir skal meta af Siðanefnd LSH eða Siðanefnd FSA ef leiðbeinandi er starfsmaður stofnunar og rannsóknin er alfarið unnin innan eða á vegum FSA eða LSH með gögnum sem þar eru varðveitt.VSN metur umsókn ef:
rannsóknin er samstarfsverkefni tveggja eða fleiri stofnana, óháð því hvort þær hafa eigin siðanefndir
leitað er til þátttakenda utan þeirrar stofnunar sem leiðbeinandi starfar hjá (LSH, FSA)
rannsóknin er fjölþjóðleg með þáttöku eins eða fleiri aðila hér á landi
verkefnið er klínísk lyfjarannsókn
Afgreiðsla námsverkefna
A. Ný verkefni: Leggja skal umsókn fyrir viðkomandi siðanefnd. Líta ber á nemendur sem meðrannsakendur.
B. Viðbætur við eldri verkefni sem hafa hlotið samþykki VSN eða siðanefndar stofnunar: Leggja skal fram umsókn um viðbót og vísa í númer og leyfi fyrir upphaflegu rannsókninni.
Viðkomandi siðanefnd fjallar um allar breytingar á samþykktum verkefnum þmt um nýja starfsmen/meðrannsakendur (t.d. nemendur) og hlutverk þeirra í verkefninuTil að tryggja að umsóknir fái umfjöllun og leyfi í tæka tíð er mikilvægt að þær berist siðanefnd sem fyrst. Umsóknir eru afgreiddar í þeirri röð sem þær berast. Fullgerðri og undirritaðri umsókn skulu fylgja tilskilin leyfi og heimildir/tilkynningar.Rannsóknarverkefni nemenda fá sambærilega umfjöllun og aðrar vísindarannsóknir á mönnum og sömu skilyrði eru lögð til grundvallar leyfisveitingu. Ástæða er til að árétta að vel sé vandað til umsókna sem sendar eru til umfjöllunar.Að gefnu tilefni skal áréttað að leyfi VSN til þess að taka upp viðtöl í rannsóknum takmarkast við að notaður sé hljóðupptökubúnaður – ekki farsími rannsakanda – og að heimildin felur ekki í sér leyfi til myndaupptöku, nema að þess sé sérstaklega getið.
Við svörun spurningalista, hvort sem er lista sem þátttakendur svara og póstleggja eða svara á netinu, skal að jafnaði ekki óska eftir undirrituðu samþykkiseyðublaði, enda er litið svo á að það að svara spurningakönnun sé ígildi samþykkis.
Sé um að ræða ágengar spurningar um viðkvæm mál, viðkvæmt þýði eða ef vafi er í huga umsækjanda, vinsamlega hafið samband við skrifstofu siðanefndar, t.d. Vísindasiðanefndar.
Í spurningakönnunum skal varast að nota opnar spurningar eða svarmöguleika. Fallist er á að notaður sé valkosturinn „Annað“ án þess að tilgreina það nánar.
Þegar svarendur eru ólögráða þarf að tryggja að foreldri/forsvarsmaður geti skoðað spurningalista til þess að geta tekið afstöðu um hvort unglingi skuli heimilt að svara.
Í kynningarefni þarf að koma fram hve langan tíma það tekur að svara spurningakönnuninni.
Sé þess þörf að aldur þátttakenda komi fram er það meginregla að hann sé tilgreindur í aldursbilum en ekki í aldursárum.
Póstkannanir
Almennt er eftirfarandi aðferðafræði viðurkennd í slíkum könnunum:
Kynningarbréf/tölvupóstur sendur út í upphafi rannsóknar til þeirra sem lenda í úrtaki
Spurningalisti eða aðgangsorð að heimasíðu spurningakönnunar sent út með bréfi eða í tölvupósti
Ítrekun send út til þeirra sem ekki svara viku síðar
Nýr spurningalisti sendur út ásamt ítrekun til þeirra sem ekki svara a.m.k. tveimur vikum síðar
Þakkarbréf sent út eftir að rannsókn/gagnaöflun lýkur, ef það er talið viðeigandi – á aðeins við um póstsendingakönnun.
Netkannanir
Könnun er kynnt t.d. með auglýsingum eða tölvupósti til skilgreindra hópa. Þeir sem hafa áhuga á þátttöku setja sig í samband við rannsakendur og fá þá sent aðgangsorð að síðu þar sem spurningarnar er að finna. Ekki skal óska eftir eða gefa persónugreinanlegar upplýsingar í svona könnunum.
Eigi að afla frekari upplýsinga um þátttakanda t.d. úr sjúkraskrá þarf hann að undirrita upplýst samþykki fyrir því.
Rannsóknir og gögn
Sjúkraskrárupplýsingar: Lýsing eða túlkun í rituðu máli, myndir, þ.m.t. röntgenmyndir, línurit og mynd- og hljóðupptökur sem innihalda upplýsingar um heilsufar sjúklings og meðferð hjá heilbrigðisstarfsmanni/heilbrigðisstofnun og aðrar nauðsynlegar persónuupplýsingar.
Sjúkraskrá er safn sjúkraskrárupplýsinga sem unnar eru í tengslum við meðferð eða fengnar annars staðar frá vegna meðferðar sjúklings á heilbrigðisstofnun eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns.
Í sjúkraskrá skal færa atriði sem nauðsynleg eru vegna meðferðar en að lágmarki eftirfarandi upplýsingar svo sem við á:
Nafn sjúklings, heimilisfang, kennitölu, starfsheiti, hjúskaparstöðu og nánasta aðstandanda.
Komu- eða innlagnardag og útskriftardag. Ástæðu komu eða innlagnar.
Þau atriði heilsufars- og sjúkrasögu sem máli skipta fyrir meðferðina.
Aðvaranir, svo sem um ofnæmi.
Skoðun. Meðferðar- og aðgerðarlýsingu, þ.m.t. upplýsingar um lyfjameðferð og umsagnir ráðgefandi sérfræðinga.
Niðurstöður rannsókna.
Greiningu. Afdrif og áætlun um framhaldsmeðferð.
Ábyrgðaraðili sjúkraskráa: Yfirstjórn heilbrigðisstofnunar eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanna þar sem sjúkraskrár eru færðar.
Umsjónaraðili sjúkraskráa: Læknir, eða annar heilbrigðisstarfsmaður, sé lækni ekki til að dreifa, sem ábyrgðaraðili hefur falið að hafa eftirlit með og sjá um að skráning og meðferð sjúkraskrárupplýsinga sé í samræmi við ákvæði laga.
Við sérhverja færslu sjúkraskrárupplýsinga í sjúkraskrá skal koma fram nafn þess sem skráir, starfsheiti hans og tímasetning færslu. Viðbót, leiðrétting, breyting eða eyðing sem gerð er á færslu sjúkraskrárupplýsinga skal ætíð vera rekjanleg.
Lög um sjúkraskrár nr. 55/2009 skilgreina slíkar skrár, ábyrgð á færslu þeirra og notkun.
Lífsýni sem safnað er frá þátttakendum í vísindarannsókn:
Söfnun lífsýna frá þátttakendum í vísindarannsókn er á ábyrgð innlends aðila, vísindamanns eða læknis viðkomandi þátttakanda (t.d. vegna fyrstu kynningar fyrir væntanlegum þátttakanda) sem ber ábyrgð á framkvæmd verkefnisins. Samkvæmt lögum (nr. 110/2000) má varðveita lífsýni, sem aflað er vegna tiltekinna rannsókna (og ekki ætluð til varðveislu í lífsýnasafni) í allt að 5 ár. VSN getur veitt undanþágu frá þessari reglu, þ.e. gefið leyfi fyrir tímabundinni varðveislu lengur en 5 ár.
Ábyrgð á öllum þáttum í framkvæmd rannsóknar, þmt meðferð lífsýna og annarra gagna hvílir á herðum ábyrgðarmanns. Sé um að ræða alþjóðlegt samstarfsverkefni skal innlendur ábyrgðarmaður fyrir þeim hluta rannsóknar sem fer fram á Íslandi bera ábyrgð á öllum þáttum hennar hér, m.a. að leyfa sé aflað frá þeim aðilum sem þarf.
Upplýsa þarf þátttakendur um hvernig lífsýni verða tekin og til hvers notuð, hvernig með þau verður farið og hvort eða hvernig þau verða varðveitt. Hið sama gildir um upplýsingar hvers konar sem sýnunum tengjast.
Sé fyrirhugað sé að senda lífsýni til annarra landa og þarf samþykki þátttakenda fyrir því. Veita þarf þátttakendum upplýsingar um hvers kyns rannsóknir á að framkvæma á sýnunum ytra, hvar og hvers lengi sýnin verða varðveitt erlendis. Þetta á ekki við þegar óþarft er að afla upplýsts samþykkis frá þátttakendum (ópersónugreinaleg sýni).
Lífsýni má eingöngu senda utan vegna tiltekinna rannsóknarþátta, sem hafa verið skilgreindir í rannsóknaráætlun og hlotið samþykki VSN. Jafnframt skulu lífsýnagjafar upplýstir um þennan rannsóknarþátt og hafa veitt samþykki sitt fyrir sending sýna og meðfylgjandi upplýsinga úr landi. Tiltaka skal ábyrgðarmann fyrir vörslu og eyðingu sýna erlendis eða endursendingu til Íslands.
Lífsýni má eingöngu senda úr landi á ópersónugreinanlegu formi. Innlendur ábyrgðarmaður rannsóknarinnar getur geymt dulkóðaðan lista yfir þátttakendur og er ábyrgur fyrir tryggri vörslu hans. Slíkan lykil má undir engum kringumstæðum senda úr landi.
Ekki er leyfilegt að senda magn sýna úr landi umfram það sem þörf er á vegna rannsóknarþátta sem tilgreindir eru í rannsóknaráætlun. Leifum sýna skal skilað eftir að rannsókn er lokið. Ef þetta er ekki mögulegt er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar á Íslandi ábyrgur fyrir eyðingu sýnanna eða leifa þeirra í lok rannsóknar. Þetta ferli skal skilgreina í rannsóknaráætlun.
Flutningur lífsýna til ótímabundinnar vörslu erlendis er háður leyfi VSN. Almennt verður ekki veitt leyfi til þessa nema að ljóst sé að réttinda og hagsmuna íslenskra lífsýnagjafa sé gætt í hvívetna, og á sama hátt sem sýni þeirra væru vistuð í íslenskum lífsýnasafna.
Sýni sem fengin eru úr íslenskum lífsýnasöfnum:
Notkun lífsýna sem fengin eru úr íslenskum lífsýnasöfnum skal vera í samræmi við lög nr. 110/2000 um lífsýnabanka og reglugerð nr. 134/2001 um vörslu og nýtingu lífsýna í lífsýnasöfnumum.
Flutningur sýna úr íslenskum lífsýnasöfnum er háður leyfi VSN og þær reglur/viðmið sem lýst er hér að framan eiga einnig við í slíkum tilfellum.
Athygli er vakin á því að meðal látinna lífsýnagjafa kunna að vera einstaklingar sem hafa afturkallað ætlað samþykki sitt fyrir því að sýni þeirra, tekin vegna þjónustu eða meðferðar, verði vistuð í lífsýnasafni til notkunar vegna vísindarannsókna. Sé sú raunin, er að sjálfsögðu ekki heimilt að lífsýni frá umræddum einstaklingum séu notuð.
Sækja þarf um heimild til faraldsfræðilegra rannsókna (gagnarannsókna) til VSN eða siðanefndar heilbrigðisrannsókna skv 11. gr. laga nr. 44/2014. Nota skal eyðublað fyrir almenna rannsókn.
„Með faraldsfræði er átt við rannsóknir á dreifingu og áhrifaþáttum ástands eða fyrirbæra er varða heilbrigði í tilteknum þýðum. Jafnframt fæst hún við hagnýtingu rannsóknanna til að hafa stjórn á heilbrigðisvandamálum.
Faraldsfræðingar fást við rannsóknir á útbreiðslu og orsökum sjúkdóma hjá hópum manna. Meginviðfangsefni rannsóknanna er samband áreitis (exposure) og endapunkts (outcome).
Áreitin geta verið margvísleg. Oftast tengjast þau aukinni hættu á að veikjast af tilteknum sjúkdómi og kallast áhættuþættir. Sem dæmi má nefna reykingar, krabbameinsvaldandi efni í fæðu, mengun sem tengist atvinnu, háan blóðþrýsting, vírussýkingar og meðfæddar stökkbreytingar í sjúkdómsgenum. Áhrif annarra áreita eru til þess fallin að draga úr líkum á tilteknum sjúkdómum. Í þeim flokki eru meðal annars afoxandi efni í fæðu, brjóstagjöf, bólusetningar og fræðsla um skaðsemi reykinga. Endapunktar rannsóknanna eru oftast sjúkdómar en geta einnig verið slys, dauðsföll, mótefni í sermi, tiltekin áhættuhegðun og fleira.
Þar sem efniviður rannsókna faraldsfræðinnar er fólk, er grundvallarmunur á henni og öllum öðrum aðferðum til að rannsaka orsakir sjúkdóma. Það er bæði styrkleiki og veikleiki faraldsfræðinnar að maðurinn skuli vera viðfang rannsóknanna. Styrkurinn felst í því að ekki leikur vafi á að niðurstöðurnar megi yfirfæra á lifandi fólk, á meðan sá vafi er oftast til staðar varðandi niðurstöður sem byggjast á dýratilraunum eða rannsóknum á vefjum, frumum eða smærri einingum.“
(Heimild: Vísindavefur Háskóla Íslands.)