Hvernig virka umboð fyrir fyrirtæki, rekstur og/eða stofnanir?
Rekstraraðilar, hvort heldur fyrirtæki, félagasamtök eða opinberir aðilar geta nýtt sér umboð til þess að veita aðgengi að upplýsingum og heimila öðrum að framkvæma ýmsar aðgerðir fyrir þeirra hönd.
Aðeins prókúruhafar rekstrar geta þó veitt umboð og aðgangsstýringarréttindi.
Dæmi um hvernig umboð nýtist rekstraraðilum:
Sækja um veðbókavottorð eða skuldleysisvottorð
Tilkynna um meðeiganda ökutækis, eða afskrá ökutæki.
Tilkynna um vinnuslys.
Vakta stafrænt pósthólfi fyrirtækis á Mínum síðum Ísland.is og nálgast fjárhagsupplýsingar sem tengjast hinu opinbera.
Veita starfsfólki umboð til þess að sækja um styrki eða skila inn umsóknum fyrir hönd fyrirtækisins.
Innskráning sem fyrirtæki /félag
Einstaklingar sem eru prókúruhafar fyrirtækja, félagasamtaka og/eða opinberra aðila geta skráð sig inn á Mínar síður viðkomandi rekstrar á Ísland.is og veitt umboð og aðgangsstýringarréttindi þaðan.
Þú skráir þig inn með þínum persónulegu rafrænu skilríkjum á Mínar síður.
Þú skiptir um notanda með því að smella á nafnið þitt í efra hægra horni og velur að Skipta um notanda.
Þá birtast þeir aðilar sem þú hefur aðgang að.
Ef þú sérð ekki þína prókúruhafa-skráningu á Mínum síðum þarftu að hafa samband við Fyrirtækjaskrá Skattsins. Prókúruhafar geta síðan veitt öðrum aðgang og aðgangsstýringarréttindi.
Auðvelt er að breyta eða afturkalla aðgang og/eða aðgangsstýringaréttindi, til dæmis ef starfsmaður hættir störfum.
Innskráning sem stofnun/opinber aðili
Opinberir aðilar þurfa að skrá prókúruhafa hjá Skattinum til þess að fá aðgang að Mínum síðum og Umboðskerfi Ísland.is. Þegar sú skráning er virk geta prókúruhafar séð gögn á Mínum síðum og veitt umboð og aðgangsstýringarréttindi þaðan.
Þú skráir þig inn með þínum persónulegu rafrænu skilríkjum á Mínar síður.
Þú skiptir um notanda með því að smella á nafnið þitt í efra hægra horni og velur að Skipta um notanda.
Þá birtast þeir aðilar og fyrirtæki sem þú hefur aðgang að.
Prókúruhafar geta síðan veitt öðrum aðgang og aðgangsstýringarréttindi í gegnum Umboðskerfi Ísland.is.
Auðvelt er að breyta eða afturkalla aðgang og/eða aðgangsstýringaréttindi, til dæmis ef starfsmaður hættir störfum.
Veita umboð / aðgangsstýringarréttindi
Prókúruhafar fyrirtækja, félagasamtaka og stofnana geta veitt öðrum umboð með Umboðskerfi Ísland.is. Það er gert í nokkrum einföldum skrefum:
Þú skráir þig inn á Mínar síður sem fyrirtæki (eða skiptir yfir á fyrirtækið í hægra efra horni).
Velur Aðgangsstýring.
Þar getur þú valið hverjum þú vilt veita aðgang, að hvaða virkni eða gögnum og hversu lengi aðgangurinn á að vera virkur.
Veita öðrum aðgangsstýringarréttindi fyrir hönd prókúruhafa
Prókúruhafar geta einnig gefið einstaklingum aðgangsstýringarréttindi, með þeim getur viðkomandi veitt öðrum aðgang að Mínum síðum fyrir hönd prókúruhafans. Það er gert í nokkrum einföldum skrefum:
Þú skráir þig inn á Mínar síður sem fyrirtæki (eða skiptir yfir á fyrirtækið í hægra efra horni).
Velur Aðgangsstýring.
Velur þann aðila sem veita á aðgangsstýringarréttindi, hakar í Aðgangsstýring og merkir hvaða gögn sá aðili á að geta séð og gefið öðrum aðgang að.
Sá sem fær aðgangsstýringarréttindi getur í kjölfarið skráð sig inn fyrir hönd fyrirtækisins og veitt öðrum aðgang að ákveðnum gögnum þess.
Afturkalla umboð
Einstaklingur sem hefur veitt öðrum umboð getur alltaf afturkallað umboðið í nokkrum einföldum skrefum.
Þú skráir þig inn með þínum persónulegu rafrænu skilríkjum á Mínar síður.
Þú skiptir yfir á fyrirtækið sem þú vilt loka aðgangi að. Það er gert með því að ýta á nafnið þitt í hægra horni og velja að skipta um notanda.
Þegar þú hefur skráð þig inn sem viðkomandi fyrirtæki velur þú Aðgangsstýring.
Þar velur þú þann einstakling sem á að afturkalla umboðið hjá og eyðir umboði.
Einstaklingurinn sem áður hafði umboð mun ekki lengur getað skráð sig inn fyrir hönd fyrirtækisins, og fær sjálfvirka tilkynningu þess efnis.
Veita öðrum umboð á pappír
Erlendir prókúruhafar, sem eiga ekki íslensk rafræn skilríki, geta skráð einstakling á Íslandi til þess að sinna málum fyrir hönd síns rekstrar. Með umboðinu getur sá einstaklingur til að mynda haft aðgengi að upplýsingum og framkvæmt ýmsar aðgerðir fyrir hönd erlenda prókúruhafans.
Þetta getur verið gagnlegt fyrir erlenda prókúruhafa fyrirtækja sem þurfa að annast ýmis málefni á Íslandi en geta ekki nýtt sér rafræn skilríki. Með þessu umboði er veittur aðgangur að öllum gögnum lögaðilans hjá stofnunum sem nýta umboðskerfi Ísland.is, meðal annars gögnum í Stafrænu pósthólfi á Mínum síðum og ýmsum upplýsingum sem snúa að eignum og fjármálum. Umboðið felur jafnframt í sér heimild til að senda inn umsóknir í nafni lögaðilans hjá þeim stofnunum sem nýta sér Umboðskerfið.
Aðeins erlendir prókúruhafar geta veitt umboð til annara einstaklinga á pappír, ekki er tekið á móti umsóknum íslenskra prókúruhafa með lögheimili á Íslandi.
Erlendir prókúruhafar þurfa að skila inn afriti af vegabréfi með umsókninni.
Þetta umboð veitir aðeins aðgang að stafrænum þjónustum opinberra aðila sem hafa tengst Umboðskerfi Ísland.is, en ekki öðrum þjónustum eða kerfum. Yfirlit yfir aðila sem tengst hafa kerfinu er að finna undir hnappnum Aðgangsstýring á Mínum síðum.
Þú sækir um í nokkrum einföldum skrefum:
Prentar út eyðublaðið: Pappírseyðublað fyrir umboð - erlendir prókúruhafar
Fyllir út alla reiti í eyðublaðsins.
Lætur tvo votta skrifa undir (ef vottar eru erlendir þarf að skila afriti af skilríkjum þeirra með eyðublaðinu)
Skannar eða tekur mynd af útfylltu eyðublaði
Sá einstaklingur sem tekur að sér að verða umboðsmaður fyrir hönd prókúruhafans sendir eyðublaðið auk afrits af skilríkjum prókúruhafans í gegnum umsókn hér að neðan.
Erlendi prókúruhafinn getur afturkallað umboðið hjá Sýslumanni. Þá þarf viðkomandi að mæta á skrifstofu sýslumannsembættis, í eigin persónu, með gild persónuskilríki.
Sýslumenn veita nánari upplýsingar um þessa þjónustu.
Spurt og svarað um umboð fyrirtækja og stofnana
Þú sérð hvaða umboð þú hefur undir hnappnum Aðgangsstýring á Mínum síðum á Ísland.is.
Ef þú hefur veitt rafrænt umboð getur þú nálgast upplýsingar um innskráningar þeirra sem hafa umboðið inn í kerfi Ísland.is undir hnappnum Aðgangsstýring á Mínum síðum á Ísland.is, undir flipanum Notkun.
Ef þú hefur veitt umboð á pappír veitir umboðsmaður þinn þér upplýsingar um hvað er gert í þínu nafni.
Já, það er hægt.
