Fara beint í efnið
Stafrænt Ísland Forsíða

Stafrænt Ísland

Stafrænt pósthólf - verkefnasaga

30. desember 2022

Stafrænt Pósthólf er lokað svæði á Ísland.is. Þar eru birtar og geymdar sértækar, persónulegar upplýsingar og skilaboð frá hinu opinbera til einstaklinga, fyrirtækja og stofnana.

Pósthólf fyrir einstaklinga

Framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar er að Ísland skipi sér í allra fremstu röð í heiminum í stafrænni þjónustu. Stafræn samskipti verði meginsamskiptaleið fólks og fyrirtækja við hið opinbera.

Stafrænt Ísland vinnur að framgangi verkefna þvert á stofnanir ríkisins með það að markmið að efla stafræna þjónustu. Eitt af þeim verkefnum sem stuðla að því er Stafrænt Pósthólf.

Stafrænt pósthólf varð fyrst til í kringum árið 2010. Það var þá hannað, þróað og rekið af Þjóðskrá Íslands. Strax var pósthólfið töluvert notað en af fáum skjalaveitum, en meðal fyrstu gagnanna sem þar birtust var fasteignamat frá Þjóðskrá og skjöl frá Tryggingastofnun. Innleiðing fleiri stofnana gekk hægt enda lagaleg staða þess þá óljós.

Árið 2018 tekur Verkefnastofa um Stafrænt Ísland við ábyrgð á pósthólfinu og árið 2020 er ákveðið að pósthólfið verði einskorðað við opinbera aðila. Það er svo árið 2021 sem lög um Stafrænt pósthólf er samþykkt frá Alþingi og þá er lagalegri óvissu eytt varðandi það hverjir eiga að birta gögn, hvenær og hverjir rekstraraðilar þess eru.

Markmið Stafræns pósthólfs eru að stuðla að skilvirkri opinberri þjónustu, auka gagnsæi við meðferð mála og hagkvæmni í stjórnsýslu og tryggja örugga leið til að miðla gögnum til einstaklinga, lögaðila og stofnana. Opinberum aðilum, þ.e. ríki, sveitarfélögum, stofnunum þeirra og öðrum opinberum aðilum er skylt að birta gögn í Stafrænu pósthólfi. Verkefnastofu um Stafrænt Ísland hefur verið falið að sjá um rekstur pósthólfsins.

Kostir Stafræns pósthólfs eru ótvíræðir fyrir notendur. Allir einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir með íslenska kennitölu eiga sitt eigið pósthólf, ekki þarf að sækja um það sérstaklega. Þar eru öll gögn sem þú átt hjá stofnunum aðgengileg á einum stað, gögn barnanna þinna einnig – allt í öruggri geymslu sem þú þarft ekki að leita að á mörgum stöðum.

Ávinningur fyrir stofnanir eru líka mikill, við eyðum pappír sem hefur jákvæð umhverfisáhrif auk þess sem við losnum við ferðalög með gögn, við lækkum kostnað því það er ódýrara að senda í Pósthólfið í staðinn fyrir að prenta bréf, senda það í pósti eða með ábyrgðarpósti. Aukin skilvirkni og hagræðing felst í notkun Pósthólfsins þar sem öll gögn birtast á einum stað en birtingin ekki útfærð hjá hverri og einni stofnun.

En hvað skal birta í Stafrænu pósthólfi? Birtingaraðilum er heimilt að birta hvers konar gögn, jafnt rituð sem í öðru formi, sem verða til við meðferð máls hjá stjórnvöldum, svo sem tilkynningar, ákvarðanir, úrskurði, ákvaðir og aðrar yfirlýsingar.

Frekari upplýsingar um Stafrænt Pósthólf

Mitt Stafræna Pósthólf