Fara beint í efnið
Stafrænt Ísland Forsíða

Stafrænt Ísland

Nú er hægt að þinglýsa kaupsamningum rafrænt

21. desember 2023

Í þessari viku var gefin út ný viðbót í verkefninu um rafrænar þinglýsingar, þar sem fasteignasölum stendur núna til boða að þinglýsa kaupsamningum í fasteignaviðskiptum með rafrænum hætti. Þetta er ein algengasta skjalategund sem send er til þinglýsingar hjá Sýslumönnum.

samningur

Með þessari nýju viðbót verður hægt að kaupa fasteign án þess að þurfa að skrifa undir bunka af söluskjölum á pappír, heldur nota þess í stað rafræn skilríki til þess að skrifa undir með rafrænni undirritun og þinglýsa svo skjalinu sömuleiðis rafrænt. Eftir því sem fleiri fasteignasölur nýta sér þessa lausn fara bíltúrar með undirritaða blaðabunka á skrifstofu sýslumanna að heyra sögunni til.

Eftirvæntingin hefur verið mikil og áhuginn lét ekki á sér standa þar sem fyrsta fasteignasalan hefur þegar hafið prófanir og stefnir á að verða fyrst til þess að þinglýsa kaupsamningi með rafrænum hætti fyrir sína viðskiptavini snemma á næsta ári. Fyrr á árinu var gefin út þjónusta fyrir afsöl, sem er almennt síðasta skrefið í fasteignaviðskiptum að undangengnum kaupsamningi. Frá því sú þjónusta var gerð aðgengileg hafa 30 fasteignasölur tengst lausninni og eru farnar að þinglýsa afsölum rafrænt.

Í upphafi verkefnisins var lagt mat á þjóðhagslegan ávinning af rafrænum þinglýsingum. Þegar handvirkt vinnuframlag fasteignasala, lánveitenda og sýslumanna sem verður óþarft með tilkomu lausnarinnar er tekið saman er áætlaður ávinningur af notkun hennar metinn á bilinu 1,2–1,7 milljarðar króna á ári. Ofan á það bætist svo óbeinn ávinningur af færri ferðalögum á milli aðila og aukinn hraði viðskipta fyrir lánveitendur og fasteignasala.

Nánar um rafrænar þinglýsingar á Ísland.is