Ísland fundar um framtíð gagnasamskipta
18. júní 2025
Ísland ásamt Eistlandi og Finnlandi standa að baki NIIS en skammstöfun stofnunarinnar stendur fyrir Nordic Institute of Interoperability Solutions. Stærsta verkefni NIIS er þróun á gagnasamskiptavörunni X-Road.

Stjórn NIIS fundar reglulega en einn slíkur fundur átti sér stað í Tallinn, Eistlandi, fyrr í mánuðinum. Stafrænt Ísland átti 3 fulltrúa á fundinum og á sömuleiðis 2 fulltrúa í stjórn. Þau Birna Íris Jónsdóttir framkvæmdastjóri, Ólafur Ingþórsson öryggis- og skýjastjóri og Hlynur Bjarki Karlsson gagnastjóri sóttu aðalfund NIIS fyrir hönd Íslands.
Á fundinum voru auk fulltrúa frá Íslandi aðilar frá Finnlandi og Eistlandi en þau lönd koma einnig að þróun X-Road. Til viðbótar voru fulltrúar frá Álandseyjum og Schleswig-Holstein í Þýskalandi. Álandseyjar eru nú þegar notandi að X-Road og Schleswig-Holstein skoðar innleiðingu og aðkomu að NIIS samstarfinu.
Þróun á útgáfu 8 af X-Road er nú í gangi og von er á þeirri útgáfu á næsta ári, 2026. Þar verður áhersla á stuðning við gagnarými (e. Data Spaces) eins og þau eru skilgreind hjá Evrópusambandinu.
NIIS var komið á fót árið 2017 af eistneskum og finnskum stjórnvöldum en Ísland gerðist formlegur samstarfsaðili árið 2021. NIIS er óhagnaðardrifin og vinnur m.a. að framþróun X-Road, gagnaflutningskerfis sem gerir stofnunum kleift að veita örugga stafræna þjónustu. Straumurinn nýtir X-road í gagnaflutningi en eitt af markmiðum stafrænnar stefnu hins opinbera er að flytja gögn en ekki fólk milli staða.
Samstarfið gefur Íslandi tækifæri til áhrifa þegar kemur að gagnaflutningi og stafrænni þróun milli Evrópulanda.