31. maí 2021
31. maí 2021
Ísland aðili að NIIS
Stórum áfanga í átt að betri umgjörð stafrænnar þjónustu er náð með fullri aðild Íslands NIIS-stofnuninni (Nordic Institute for Interoperability Solutions), sem tekur gildi 1. júní, en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur undirritað samning um aðildina. Stofnuninni var komið á fót árið 2017 af eistneskum og finnskum stjórnvöldum. Hún er óhagnaðardrifin og vinnur að framþróun Straumsins (X-Road) – gagnaflutningskerfis sem gerir stofnunum kleift að veita örugga stafræna þjónustu.
Eistar, sem eru í fararbroddi stafrænnar þjónustu á heimsvísu, þróuðu Strauminn upphaflega en markmið hans er að tryggja að gögn séu dulrituð meðan þau eru flutt milli stofnana og jafnframt að þau fari sannanlega milli réttra aðila. Meginmarkmið er að stofnanir efli gagnatengingar sín á milli og að þjónusta verði sveigjanlegri og sjálfvirkari, jafnframt því sem mikið hagræði næst í rekstri, þjónusta batnar og umtalsverður þjóðhagslegur ávinningur verður með styttri afgreiðslutíma og skilvirkari ferlum. Einnig felast verðmæti í því að nýta opinn hugbúnað á háu öryggisstigi sem er þróaður af mörgum mismunandi aðilum.
Ísland gerði árið 2018 samstarfssamning um nýtingu Straumsins við uppbyggingu stafrænnar opinberrar þjónustu hér á landi. Frá þeim tíma hafa 22 stofnanir tengst Straumnum og 11 vefþjónustur, en gert er ráð fyrir hraðri þróun í innleiðingunni á næstunni og þar með bættu öryggi persónuupplýsinga og gagna einstaklinga.
Ísland var fyrsti formlegi samstarfsaðili NIIS, en síðan hafa Færeyjar bæst í hópinn og í bígerð er að Noregur og Svíþjóð gerist samstafsaðilar á komandi ári. Með fullri aðild að NIIS fær Ísland bein áhrif á framþróun Straumsins og eignast fulltrúa í stjórn stofnunarinnar. Meðal þarfa sem mikilvægt er að taka tillit til í þróun og uppbyggingu Straumsins er aðlögun að rafrænum skilríkjum og tillögum Íslands vegna einföldunar á uppsetningu hjá stofnunum. Þá er það einnig hagsmunamál Íslands út frá öryggissjónarmiðum að vera fullgildur aðili stofnunarinnar þar sem stafrænir innviðir á Íslandi munu að umtalsverðu leyti byggjast á Straumnum.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Ísland stefnir á að vera leiðandi þegar kemur að stafrænni opinberri þjónustu og aðild að NIIS er mikilvægt skref í þá átt. Samstarfið mun tryggja Íslandi aðgengi að mikilvægum grunnkerfum og þekkingu en Finnar og Eistar hafa verið leiðandi á heimsvísu síðustu árin.“